Bloggfærslur mánaðarins, maí 2019

Útsendarar, útrýmingar og helvítsholur

Rökræðan um þriðja orkupakkann hitnar enn og hótanir ganga á víxl. Andstæðingar spila á milli sín staðreyndum málsins eins og fljúgandi borðtennisbolta. Annar hópurinn sér himnaríki, þegar hinn sér helvíti. Og eftir því sem málið virðist vera að skýrast með dýpri umræðu og upplýsingum, mætir menn og konur kallaðir til að vitna að varpa ljósi á málið, þá verður orðræðan ljótari. 

Þannig eru virtir erlendir sérfræðingar kallaðir útsendarar frá útlöndum, andstæðingum hótað útrýmingu og að Íslandi verði tortímd af vondum útlendingum. Annars staðar er skrifað um að gera Ísland að helvítisholu og að forystu Sjálfstæðisflokksins sé að gera okkur að holu með því að samþykkja þriðja orkupakkann. Svo eru ráðherrar og þingmenn kallaðir vesalingar og vanvitar, ef menn eru ósammála þeirra pólitísku skoðunum. Erum við ekki komin á mjög hættulegar brautir í lýðræðislegri umræðu? 

  

 


mbl.is Skaðabótaskylda eintóm fantasía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðji orkupakkinn - eitthvað að óttast?

download (1)Umræðan um þriðja orkupakkann hefur verið hatrömm. Skotgrafir grafnar og skothríð látin dynja á andstæðingnum hömlulaust á stundum. Skotið er fast frá báðum vígstöðvum.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist skiptast í þrjár fylkingar. Fyrsta fylkingin berst fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans, önnur berst hatrammlega gegn ,,pakkanum" og svo stendur sú þriðja á miðjum vígvellinum og veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Og andstæðingar flokksins fagna í hljóði, bæði innan og utan stjórnarliðsins.

Og um hvað er barist? Það er stórt spurt.

Vissulega fer kaldur hrollur um marga þegar verið er að innleiða ,,pakka" frá útlöndum, og sérstaklega Evrópusambandinu! Sérstaklega eftir aðildarbröltið hjá Samfylkingunni, vegleysu um Brusselstræti í boði Össurar, og svo auðvitað Icesave skrímslið sem ætlaði allt lifandi hér á landi að drepa. Það er því eðlilegt að hafa varan á sér þegar varasöm sending kemur frá Brussel. 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð staðið í lappirnar um hvort hagsmunum Íslands sé betur borgið innan Evrópusambandsins, eða utan þess. Sú afstaða flokksins hefur byggst á hagsmunamati í þágu íslensku þjóðarinnar. Ekki á andúð á Evrópusambandinu, alþjóðlegu samstarfi eða útlendingum.

Þvert á móti hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í forystu þegar kemur að alþjóðlegu samstarfi, markaðsbúskap og gagnkvæmum viðskiptum við útlönd. Þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og aðra alþjóðlega viðskiptasamninga, sem er í þágu þjóðarhagsmuna í bráð og lengd. 


Afstaða forystu Sjálfstæðisflokksins
til þriðja orkupakkans sýnist mér helgast af þessu. Þriðji orkupakkinn snýst um að treysta markaðsfyrirkomulag um raforku á forsendum neytenda- og umhverfisverndar. Þar er virk samkeppni lykilforsenda og með þriðja orkupakkanum er verið að gefa opinberum eftirlitsaðilum skilvirkari tæki til að treysta markaðsfyrirkomulag um raforku í sessi á innri markaði Evrópu, þvert yfir landamæri. Þá er eitt af markmiðum pakkans að hvetja til nýtingar á hreinni orku í auknum mæli.

Frjáls markaður og virk samkeppni þarf að lúta traustu regluverki, þar sem jafnræði og reglufesta er tryggð með skilvirku opinberu eftirliti. Færa má sterk rök fyrir því að á trygginga- og eldsneytismarkaði hér á landi vanti t.d. virkara samkeppniseftirlit.

Það er eðlilegt að margir óttist að framundan sé einkavæðing á raforku. Landsfundir Sjálfstæðisflokksins hafa oftar en einu sinni fellt tillögur um einkavæðingu Landsvirkjunar. Innleiðing á þriðja orkupakka ESB kemur þeirri umræðu ekki við. Það er pólitísk rökræða sem allir stjórnmálaflokkar verða að taka eftir sem áður. Sama er að segja um auðlindir á Íslandi og eignarhald á þeim. Þessu hefur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, svarað með skýrum hætti:

Því hefur verið haldið fram að þriðji orkupakkinn feli í sér afsal á forræði yfir auðlindinni. Hið rétta er að hann varðar ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum né hvort þær séu nýttar og í hvaða tilgangi. (Facebook síða ráðherrans).

Björn Bjarnason, fyrrv. ráðherra, hefur með sannfærandi hætti skrifað og talað fyrir samþykki þriðja orkupakkans hér á landi. Í pistli á heimasíðu Björns stendur skrifað m.a.:

Að mála skrattann á vegginn vegna þriðja orkupakkans er óþarfi. Að nota O3 til að grafa undan EES-aðildinni er skemmdarverk.

Er hægt að saka Björn um þjónkun við hagsmuni Evrópusambandsins eða erlenda aðila? Sömuleiðis styður allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðinguna með þeim fyrirvörum sem þar eru settir. Getur hann allur verið heillum horfinn?

Getur allt þetta ágæta fólk haft rangt fyrir sér? Bera þau ekki öll fyrir brjósti íslenska hagsmuna, sem og Sjálfstæðisflokksins? Hver ætlar að halda öðru fram? 


mbl.is Þriðji orkupakkinn eðlilegt framhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband