Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2017
Angela Merkel Íslands
Miðvikudagur, 15. nóvember 2017
Katrín Jakobsdóttir nýtur virðingar og trausts langt út fyrir flokksraðir Vinstri grænna. Það er einmitt það sem einkennir góða og farsæla leiðtoga í stjórnmálum. Þess vegna hefur hún nú yfirburðarstöðu í íslenskum stjórnmálum og er lykilinn að því að hér verði hægt að byggja upp traust að nýju á lýðræðinu og stjórnmálum.
Katrín getur orðið Angela Merkel Íslands ef fram fer sem horfir. Það ætlunarverk hennar að ná saman höfuðandstæðingum íslenskra stjórnmála í ríkistjórn undir hennar forsæti verður að teljast hálf sturlað.
Enda eru pólitískir rétttrúnaðarpostular hálf sturlaðir af æsingi. Þeir vaða uppi í fjölmiðlum, og víðar, eins og hauslausar hænur, sem vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. Þeir eru brjálaðir og spara ekki stóru orðin í garð Katrínar Jakobsdóttur.
Það sýnir styrkleika Katrínar að hún stendur af sér storminn með bros á vör. Hér er kona sem þorir. Hún þarf að berjast á tveimur vígstöðvum í senn.
Annars vegar teflir hún upp á líf og dauða við Bjarna og Sigurðar Inga við að koma saman heilsteyptum og skotheldum stjórnarsáttmála sem verður þola íslenskt stjórnmálaveður.
Hins vegar þarf hún að sannfæra vantrúaða félaga um vegferðina framundan með Bjarna og Sigurði Inga. Hvorugt verður að teljast auðvelt.
Aftur á móti ef Katrínu tekst að mynda ríkisstjórn um velferð milli pólanna um miðjuna verður það að teljast pólitískt afrek. Þetta eru sögulegir tímar.
Ef ég ætti hatt, myndi ég taka ofan hattinn fyrir Katrínu Jakobsdóttur.
![]() |
Ræddu við aðila vinnumarkaðarins í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Álögur hækka á Kópavogsbúa undir forystu Sjálfstæðisflokksins
Þriðjudagur, 14. nóvember 2017
Fjárhagsáætlun Kópavogs fyrir árið 2018 var lögð fram til fyrri umræðu bæjarstjórn Kópavogs í vikunni. Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð eru hér í meirihluta.
Í mörg ár hef ég beðið eftir að álögur á Kópavogsbúa yrðu lækkaðar, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í meirihluta hér í þó nokkur ár. Draumurinn er auðvitað að sjálfstæðismenn í Kópavogi færi að dæmi félaga okkar í Garðabæ, sem er fyrirmyndarbæjarfélag með hófsamar álögur á íbúa.
En því miður ætlar einhver bið að vera á þessu.
Rýnum í nokkrar lykiltölur úr fjárhagsáætlun, sem þriðja árið í röð er unnin af öllum flokkum í bæjarstjórn Kópavogs. Spyrja mál: Til hvers að kjósa einn flokk í sveitarstjórnarkosningum, en fá svo alla upp úr kjörkassanum í Kópavogi? En látum það liggja á milli hluta í bili.
Útsvar í Kópavogi lækkar ekki á milli ára, en útsvarshlutfallið er 14,48%. Það er hærra en meðalútsvar sveitarfélaga á landinu en útsvarshlutfallið í Garðabæ og Seltjarnarnesi 13,70%. Útsvarshlutfallið í Kópavogi er hærra en meðalútsvar allra sveitarfélaga, sem er 14,36%.
Útsvarstekjur bæjarins af íbúum hækka um 8,5% á milli áranna 2017 og 2018 eða um 1,7 milljarð króna. Þetta er raunhækkun milli ára þar sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun að laun hækki um 6,5% á sama tíma.
Fasteignaskattar á íbúa í Kópavogi hækka sömuleiðis eða eins og segir í greinargerð með fjárhagsáætlun:
,,Áætlað er þó að tekjur af fasteignaskatti aukist um 5,1% sem má að hluta rekja til hækkunar á fasteignamati en einnig magnaukningar, þ.e.a.s. áætlaðri fjölgun fasteigna í bæjarfélaginu."
Eins og áður leikur bæjarstjórnin sér hér að tölum. Fólki er talin trú um að verið sé að lækka skatta, þó að raunin sé að verið er að hækka þá!
Þó að fasteignaskattshlutfallið lækki úr 0,255% í 0,23% þá er það gert til að mæta mikilli hækkun á fasteignamati íbúða á Höfuðborgarsvæðinu, eins og kunnugt er. Lækkun hlutfallsins mætir þó ekki að öllu hækkun fasteignamatsins (skattstofnsins), og því þurfa íbúðaeigendur í Kópavogi að bera hærri fasteignaskatta á árinu 2018 en á þessu ári.
Þess vegna er það einfaldlega ekki rétt hjá bæjarstjóra Kópavogs að halda því fram að verið sé að lækka skatta í Kópavogi. Tölurnar segja allt annað.
Þá hallar á ógæfuhliðina í rekstri bæjarins. Hlutfall launatekna starfsmanna Kópavogsbæjar hækkar í 57,3% úr um 50% í ár. Þróunin hringir viðvörunarbjöllum þegar litið er til þess að þetta hlutfall var 46,3% árið 2013.
Ef ekki verður gripið hér inn í með aðhaldi í rekstri bæjarins strax á næsta ári að hætti aðhaldssamra íhaldsmanna þá þýðir það ekkert annað en skattahækkanir á íbúa á næstu árum.
Aðhaldið mætti koma að ofan. Byrja mætti á því að bæjarstjóri sýndi gott fordæmi með því að lækka eigin laun.
Í greinargerð með fjárhagsáætlun kemur fram að ,,skatttekjur á hvern íbúa hafa farið vaxandi á milli ára og skv. framlagðri áætlun má gera ráð fyrir að þær verði 700 þús.kr. á íbúa á næsta ári".
Ef við lítum til ársins 2014 þá voru skatttekjur á hvern íbúa 542 þús.kr. Á aðeins 4 árum hafa þær þannig hækkað um næstum 30%, sem er meira en meðallaun hafa hækkað að teknu tilliti til fjölgunar íbúa.
Sjálfstæðisflokkurinn á að standa undir nafni fyrir aðhaldssemi í rekstri bæjarins og lægri álögur á íbúa.
Hrunið er ekki lengur afsökun fyrir því að ekki sé hægt að lækka álögur með aðhaldssemi og með því að auka sparnaðaranda rekstri bæjarins.
Fjárhagsáætlun ársins 2018 lögð fram undir forystu Sjálfstæðisflokksins gengur því ekki upp að mínu mati og þarfnast endurskoðunar við.
Í þessu sambandi er kannski rétt að minna bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á að það eru víst sveitarstjórnarkosningar á næsta ári.
![]() |
Gera ráð fyrir 824 m.kr. rekstrarafgangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.11.2017 kl. 07:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)