Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016

Guðni Th. sjötti forseti Íslendinga

Kosningar eru aldrei hættulegar í lýðfrjálsu landi, það væri áfellisdómur um lýðræðið sjálft. Þær eiga að líkjast sverðinu Sköfnungi, sem græddi hvert sár, sem veitt var með því. Baráttan er óhjákvæmileg og átök nauðsynleg.

Nú þegar úrslit forsetakosninganna liggur fyrir er hollt að hafa þessi orð Ásgeirs Ásgeirssonar, 2. forseta Íslands, í huga og ég vitnaði í um daginn.

Eftir frekar stutta  og fremur innihaldslausa kosningabaráttu ákvað þjóðin að kjósa Guðna Th. Jóhannesson sem næsta forseta Íslands, þann sjötta í röðinni. Ég spáði honum 39% fylgis og var sannspár um það. Síðuhöfundur óskar Guðna Th. Jóhannessyni velfarnaðar í þessu vandasama starfi.

H2-160629065Ótvíræður ,,sigurvegari" hlýtur að teljast Halla Tómasdóttir sem náði sögulegum árangri á endasprettinum. Kannski er ekki rétt að nota orðið sigurvegari í þessu þar sem aðeins er kosinn einn forseti, en sannlega sigraði hún allar skoðanakannanir. Það er örugglega rétt hjá Davíð Oddssyni, sem hann benti á í gær, að skýra megi þetta með því að margir sem vildu sjá annan forseta en þann sem mældist með mest fylgi í skoðanakönnunum, ákváðu að kjósa Höllu sem var í öðru sæti í skoðanakönnunum á lokametrunum. Andri Snær og Davíð hafa misst atkvæði út af þessu. Fyrir stuðningsmenn þeirra beggja er niðurstaða kosninganna vonbrigði. Það er spurning hver niðurstaðan hefði orðið ef kosningabaráttan hefði verið viku lengri þegar haft er í huga fall Guðna og ris Höllu á síðustu lokametrunum að Bessastaðahlaðinu.  

Eftir stendur að þjóðin, sem kaus sér forseta í gær, veit lítið fyrir hvað hinn nýkjörni forseti stendur. Kosningabaráttan var yfirborðskennd og fjölmiðlum mistókst að leiða helstu frambjóðendur saman með þeim hætti að efnisrík umræða gæti farið fram milli þeirra sbr. orð Ásgeirs forseta hér að ofan: ,,Baráttan er óhjákvæmileg og átök nauðsynlegt". Vonandi gera fjölmiðlar, sérstaklega ljósvakafjölmiðlar, bara betur næst, eins og sagt er í boltanum.

Það á eftir að koma í ljós hvað Guðni Th. stendur fyrir í raun. Við skulum þó trúa því og treysta að Guðni Th. Jóhannesson eigi eftir að reynast þjóðin vel og að honum takist með orðum og gjörðum sínum að sameina þorra þjóðarinnar að baki sér. Þjóðin þarf á því að halda.

 


mbl.is Guðni kjörinn forseti Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag kýs þjóðin nýjan forseta

893373Í dag kýs þjóðin nýjan forseta, þann sjötta í röðinni. Alveg frá því að Ólafur Ragnar Grímsson, fráfarandi forseti, ákvað að stíga til hliðar eftir að hafa mætt þó nokkrum mótbyr vegna Panamaskjala, og Guðni Th. Jóhannesson steig fram á sviðið, hefur legið í loftinu að Guðni hefði sterkan meðbyr sem koma mun honum á Bessastaði. 

Davíð Oddsson er sá forsetaframbjóðandi sem undir öllum venjulegum kringumstæðum hefði átt að verða næsti forseti þjóðarinnar. Hann hefur alla burði til þess að gegna forsetaembættinu og reynslubanki hans er gullsígildi.

En kringumstæðurnar eru langt frá því að vera venjulegar. Davíð Oddsson hefur átt og á enn hatramma andstæðinga í stjórnmálum og viðskiptalífinu sem hafa á undanförnum áratug eða svo tryggt svo neikvæða fjölmiðlaumfjöllun um þennan fyrrum leiðtoga sjálfstæðismanna og þjóðarinnar að því verður varla saman jafnað. Fjölmiðlar þylja sama óðinn um neikvæða þætti úr ferli hans sem stjórnmálamanns þar sem sumir hafa verið búnir til og aðrir ýktir. Það er látið vera að rekja þá þætti sem gerðu Davíð Oddsson af einum vinsælasta og ástsælasta stjórnmálamanni Íslands í áratugi.

Ástæðan er ólýsanlegt hatur áhrifamanna í íslensku viðskiptalífi á stjórnmálamanninum Davíð Oddssyni. Jú, er þetta ekki maðurinn sem ofbauð græðgi bankamanna, þáði ekki mútur viðskiptajöfra og sagði að þjóðin ætti ekki að greiða skuldir óreiðumanna? Hér skal ekki frekar farið út í söguna í kringum hrunið, það hef ég gert áður hér á síðunni, og vissulega voru allt of fáir sem tóku upp hanskann fyrir Davíð í kjölfar hrunsins. Þar þótti mér verst hvernig fyrrum samherjar hans snéru við honum baki, þegar virkilega reyndi á stuðning þeirra. Fyrstu tveir landsfundir Sjálfstæðisflokksins eftir hrun eru vitnisburður um það.

En allt er þetta vatn sem hefur runnið til sjávar. Andstæðingum Davíðs hefur tekist ætlunarverk sitt og geta fagnað í kvöld. Rógsherferðin gegn honum tókst eins og til var ætlast. Fullyrt er að stuðningur margra áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum hafi legið annars staðar en hjá Davíð í þessum forsetakosningum. Það bendir margt til þess að svo hafi verið í raun. 

Það er hart að sjá hve illa persóna Davíðs Oddssonar er leikin í samtímanum. Sagan mun þó fara mýkri höndum um Davíð Oddson en samtíðin. Það er ég fullviss um. 

 


mbl.is Davíð kaus í Hagaskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar þjóðin að taka undir með Guðna á laugardaginn að Ólafur Ragnar hafi blekkt erlenda fjölmiðla í Icesave?

Guðni Jóhannesson vegur harkalega að Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta, í riti sínu The History of Iceland. Hann segir forseta Íslands hafa afvegaleitt erlenda blaðamenn  í Icesave deilunni. Guðni heldur því fram við erlenda blaðamenn að málsvörn forsetans hafi verið misvísandi og afvegaleiðandi. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu. Þarna vegur Guðni að forsetanum með lúalegum hætti, og minnir þetta óneitanlega á árásir Icesave sinna og vinstri stjórnarinnar á forsetann á síðasta kjörtímabili. 

Allir viðurkenna í dag að Ólafur Ragnar Grímsson hafi stigið fram á ögurstundu af glæsibrag og haldið uppi þeirri málsvörn sem Ísland þurfti svo sárlega á að halda, þegar ríkisstjórn Íslands skilaði auðu. Sú málsvörn skilaði Íslandi farsælli niðurstöðu.

Eigum við svo eitthvað að ræða það frekar í hvaða lið Guðni skipaði sér í tíð vinstri stjórnarinnar? Staðreyndirnar tala sínu máli. En auðvitað munu almannatenglar Guðna halda því fram að þetta sé eitt allsherjarsamsæri gegn Guðna eða þá að Guðni hafi þarna verið að skrifa fyrir útlendinga, en ekki fyrir heimamarkað.

Ef Guðni Jóhannesson verður kjörinn forseti Íslands á laugardaginn þá eru það skýr skilaboð til umheimsins og erlendra fjölmiðla um hvaða skoðun þjóðin hefur á málsvörn Ólafs Ragnar Grímssonar fyrrum forseta í Icesave deilunni. Erlendir fjölmiðlar og Gordon Brown munu einfaldlega vísa í rit nýkjörins forseta og skoðun nýs forseta um það mál. Það yrði ömurleg landkynning og niðurstaða fyrir Ísland.

 
 

mbl.is „Ólafur fór stundum á ystu nöf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni, ef trúin á sigur er ekki til staðar, þá halda engar varnir

892848Allir sem hafa fylgst með leikjum íslenska landsliðsins á EM í fótbolta geta ekki annað en dáðst af viljastyrk og seiglu liðsins. Í síðustu leikjum hefur virst eins og íslenska landsliðið hafi verið að leika sér að eldinum með því að bakka í vörn og leyfa andstæðingunum að ráðast á vörnina hvað eftir annað. Þetta hefur lýst sér í ólýsanlegri taugaspennu fyrir íslensku þjóðina og angistarópum. Og það var á stundum eins og fyrir kraftaverk að horfa á hvernig vörnin og Hannes markmaður héldu einbeitingunni út í gegn og stóðust skyndiárásir alveg að marki Íslands. Það er ekki laust við að maður fyllist þjóðrembingi á stundum sem þessum - og skammist sín ekki fyrir það.  

Heimsbyggðin spyr hvernig þetta sé eiginlega hægt að smáþjóð með um 330 þúsund íbúa geti unnið afrek eins og þessi á fótboltavellinum. Öll tölfræði og sagnfræði myndu segja okkur að þessi árangur væri óhugsandi. Alveg eins og allir fræðingarnir komu fram á sviðið í Icesave deilunni og sögðu okkur að sigur í Icesave gegn stórþjóðum og Evrópusambandinu væri óhugsandi. Að halda slíku fram væri þjóðrembingur af verstu sort. Samt höfðum við lögin með okkur í málinu og samningar hefðu stefnt efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í hættu.

Fræg er grein Guðna Jóhannessonar (sem verður næsti forseti Íslands skv. skoðanakönnunum) um Icesave og söguna, sem hann skrifaði í ágúst 2009 til að draga úr þjóðinni kjark að láta á Icesave kröfuna reyna fyrir dómsstólum. Guðni eins og fleiri friðþægingarsinnar vildu semja og láta þjóðina borga Icesave reikning Björgólfsfeðga í Landsbankanum, þrátt fyrir þá áhættu og kostnað sem það hefði í för með sér. Reyndar skrifaði hann greinina til að gera lítið úr Þorskastríðum Íslendinga gegn Bretum. Var innistæða fyrir þessu úrtölutali Guðna? Nei, Ísland hafði sigur fyrir EFTA dómsstólnum gegn stórþjóðunum Bretum og Hollendingum, og Evrópusambandinu eins og það lagði sig! Við sigruðum vegna þess að við vorum í lagalegum rétti að hafna því að íslenskir skattgreiðendur greiddu skuldir einkaaðila, og við þorðum sem betur fer að láta á það reyna fyrir dómsstólum. Meirihluti íslensku þjóðarinnar með forseta Íslands Ólaf Ragnar Grímsson í fararbroddi fylltist þjóðrembingi af bestu gerð í Icesave og lét ekki stórþjóðir kúga sig til hlýðni!  

Og það er eins og hjá íslenska landsliðinu í fótbolta að ef trúin á sigur er ekki til staðar, þá halda engar varnir. Við getum staðið í hárinu á stærstu þjóðum heims ef við höfum trúna, getuna og viljan til að sigra. Þjóðremba á víst heima á íþróttavöllum, í Eurovision, og líka í söguskoðun og stjórnmálum, hvað sem Guðni Jóhannesson segir, svo fremi sem innistæða er fyrir henni.  


mbl.is „Víkingafagn“ vekur eftirtekt (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásgeir Ásgeirsson: Sjálfstæði jafnt og lýðræði er aldrei tryggt nema Íslendingar standi sameinaðir um að varðveita það

ca1f6379e29120fTrúin á þjóðina, traust á almenningi, er grundvöllur stjórnskipulags vors, fólkið sem áður safnaðist í Almannagjá, en nú í kosningum um land allt, að undangengnum frjálsum umræðum. Þetta er eina stjórnskipulagið, sem leysir þjóðirnar undan oki ofbeldisins. Kosningar eru aldrei hættulegar í lýðfrjálsu landi, það væri áfellisdómur um lýðræðið sjálft. Þær eiga að líkjast sverðinu Sköfnungi, sem græddi hvert sár, sem veitt var með því. Baráttan er óhjákvæmileg og átök nauðsynleg. Það eru leikreglurnar, sem einkenna lýðræðið, og friðsamleg úrslit. Lýðræðið er jafnan í hættu, og ein hættan er nútíma áróðurstækni, sem er mótuð í einræðisanda. Frjálsar umræður, vakandi áhugi almennings og þjóðarþroski er sterkasta vörnin. Þá láta staðreyndirnar ekki að sér hæða, – og sannleikurinn mun gera yður frjálsa. Lýðræði er ekki öllum hent. Það verður að byggja á langri sögu, menningu og þroska. Sú höll sem reist er á einni nóttu hverfur í jafnskjótri svipan.

Þannig mælti Ásgeir Ásgeirsson, 2. forseti Íslands, í fyrstu innsetningarræðu sinni árið 1952 þar sem honum er lýðræðið og sjálfstæðið hugleikið. Í tilefni komandi forsetakosninga er ekki úr vegi að grípa niður í ræður fyrri forseta þjóðarinnar. Ásgeir hélt áfram og sagði: 

Vér höfum stjórnmálaheiður að varðveita. Það væri oss til vanvirðu á alþjóðamælikvarða, ef þingstjórn og lýðveldi gæfist hér illa. Braut íslenskrar sjálfstæðisbaráttu er bein eins og ferill Jóns Sigurðssonar, endurreist Alþingis, verslunarfrelsi, fjárráð landsins, málfrelsi,félagsfrelsi, almennur kosningaréttur, heimastjórn og endurreisn lýðveldisins á Íslandi. Það er hættulegt, ef vér gleymum baráttunni, sem á undan var gengin, og vanmetum þann rétt einstaklinga og alþjóðar, sem unninn er, og teljum það jafn sjálfsagt og loftið, sem vér öndum að okkur. Sjálfstæði jafnt og lýðræði er aldrei tryggt nema Íslendingar standi sameinaðir um að varðveita það. Þúsund ára þingsaga ætti að ljá oss lífsreynslu og spekt og átta ára lýðveldi þróttinn til að meta að verðleikum og varðveita dýrmætan arf. Fámenn þjóð og afskekkt má ekki við því að afrækja arf feðranna. ... Rótlaus lýður verður ekki langlífur í neinu landi. Ef vér finnum samhengi liðinna kynslóða og eining allra þeirra, sem nú byggja landið, í sál okkar á hátíðlegum stundum, þá höfum vér í spenntum greipum það krossmark, sem fjandsamleg öfl flýja fyrir.

 

 


Hvað kostar framboð til forseta Íslands og hverjir fjármagna það?

Það er vissulega sögulegt að þjóðin ætli að kjósa sér næsta forseta sem kom sér undan að svara spurningu um hvað framboð hans kostaði og hverjir fjármögnuðu framboðið. Í kvöld stóðu Stundin og RVKMEDIA fyrir þörfu framtaki, Kosningastundinni, í beinni útsendingu á netinu. Fyrirkomulagið var til fyrirmyndar og heppnaðist vel. Að vísu mætti Davíð Oddsson ekki sem var miður. 

Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur, sendi inn fyrrgreinda spurningu og voru allir frambjóðendur spurðir. Allir svöruðu spurningunni með fullnægjandi hætti nema einn frambjóðandi. Það var sá frambjóðandi sem þurfti nauðsynlega að svara henni, enda bendir allt til þess, að hann verði næsti forseti þjóðarinnar. Jú, það var Guðni Jóhannesson, sem kom sér fimlega undan að svara.

Hann var spurður aftur síðar í þættinum um hvað kosningabarátta hans kostaði. Það vafðist fyrir honum aftur að svara, en þó kom loks fram að kostnaður væri meiri en 10 milljónir en minna en 20 milljónir. Þar með er ljóst að kosningabarátta hans er margfalt dýrari en annarra frambjóðenda. Meðan aðrir frambjóðendur svöruðu í smáatriðum hverjir hefðu lagt fram hæstu upphæðir þá svaraði Guðni engu um það í kvöld. Vel má vera að Guðni einfaldlega viti þetta ekki, en það segir sína sögu einnig. Ég veit ekki hvort er alvarlegra. Viðbót 22.6: Sjá frétt á mbl.is

Nú kann sumum að þykja þetta smámunir. En þá skulum við hafa hugfast að hér varð efnahags- og siðferðislegt hrun, sem kostaði marga samlanda okkar aleiguna og margir urðu fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni. Orsakavaldarnir voru útrásarvíkingar sem fengu að leika þjóðfélagið ansi grátt með því að spila með stjórnmálamennina okkar eins og leikjabrúður í krafti auðs og áhrifavalds. Þegar upp er staðið var nokkrum fjármálamönnum stungið inn en virðast eftir sem áður vera enn áhrifamiklir í íslensku viðskiptalífi sem aldrei fyrr.

Það skiptir því máli fyrir Nýja Ísland að allir frambjóðendur til forseta Íslands svari því undanbragðalaust aðspurðir hvernig þeir fjármagna kosningabaráttu sína. Sérstaklega Guðni Jóhannesson, sem tekur líklega við forsetaembættinu í ágúst nk. 

Til upplýsingar fylgir sögulegt myndband þar sem Guðni er spurður út í Landsdómsmálið árið 2012. Það varpar ljósi á ýmislegt. 

 

Andri Snær: ,,Að finna tækifæri þar sem aðrir sjá þau ekki"

Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að tíminn muni vinna með landsbyggðinni til lengri tíma litið. Margt af því sem hefur verið talið til vankosta eða óhagkvæmni er að verða sjaldgæft, eftirsótt og sérstakt, ekki aðeins innanlands heldur alþjóðlega. Ég hef verið á þeirri skoðun all lengi, að í þeim 6.000 lögbýlum sem við eigum hérlendis séu miklu fleiri tækifæri heldur en almennt er haldið á lofti.
 
Í Draumalandinu skrifaði ég heilan kafla um landbúnað. Þá hafði stjórnmálamaður lýst því yfir að engin tækifæri væru til staðar í sauðfjárrækt. En sem ungur maður sem ákvað að helga sig ljóðagerð og barnabókaskrifum í landi með aðeins 4.000 börnum í árgangi þá hef ég einlægan áhuga á því að finna tækifæri þar sem aðrir sjá þau ekki. Ég er ekki sveitabarn sjálfur, ég er bara strákur úr Árbænum, en við erum ekki alvitlausir, Sindri, formaður Bændasamtakanna, ólst upp í næstu götu.
 
Tilvitnunin hér að ofan er úr grein sem birtist í Bændablaðinu eftir Andra Snæ Magnason, forsetaframbjóðanda, undir fyrirsögninni Búnaðarbálkur hinn nýi. Og Andri Snær heldur áfram:
 
Ólíkt því sem var fyrir tíu árum er nú hægðarleikur að elda veislumáltíð úr íslensku hráefni, einungis með vörum sem við vitum nákvæmlega hvaðan koma. Bygg, repjuolía og fjölbreytt úrval af kryddvörum og sælkeravarningi hefur bæst í innkaupakörfur landsmanna og við vitum hver sáði korninu og uppskar það, hver pressaði olíuna, hver markaði lambið að vori, fylgdi því á afrétt snemmsumars og sótti aftur að hausti.
 
Nýbreytni í landbúnaði einskorðast ekki við hráefnisframleiðslu. Margir kúabændur framleiða heimagerðan ís, hver með sínum sérkennum – ísinn frá Holtsseli er ekki eins og ísinn frá Erpsstöðum. Drykki og krydd með bragði úr ýmsum byggðarlögum má nú nálgast víða, sumt er kunnuglegt eins og saft úr rabarbara og berjum, annað nýstárlegra eins og birki- og fíflasíróp.
 
Bændur og sveitafólk þekkja landið, hafa búið á því og með því. Langflestir bændur eru sér meðvitaðir um hvernig eigi að umgangast það, hvað þurfi að gera til þess að sambúðin við það verði sjálfbær.
 
Andri Snær yrði farsæll forseti og hann á erindi við þjóðina. Hann þarf nú að taka stökkið af alvöru inn í kosningabaráttuna og sýna fólkinu fram á af hverju það ætti að kjósa hann sem forseta; fyrir landið, þjóðina og tunguna.
 
 

Sumir frambjóðendur eru betri en sumir í Ríkisútvarpinu

Allir sanngjarnir menn hljóta að sjá og viðurkenna að eitthvað er einkennilegt í gangi í Ríkisútvarpinu í aðdraganda þessara forsetakosninga. Þannig fékk Guðni Th. Jóhannesson að baða sig í sviðsljósinu mánuðina áður en hann tilkynnti formlega um framboð sitt. Guðni kom þá fram sem sérfræðingur Ríkisútvarpsins í málefnum forsetaembættisins og á stjórnmálasviðinu, enda sagnfræðingur góður. Fyrst var kallaður til stjórnmálafræðingur honum við hlið, en fljótlega hvarf hann af sviðinu, enda jú verið að fjalla um stjórnmál, ekki sagnfræði. Eða þannig.

Segja má að ríkisfjölmiðilinn hafi búið framboðið til eins og haldið hefur verið fram, og færa má rök fyrir. Þá er rétt að færa það til bókar að komið hefur fram að Guðni Th. Jóhannesson hafi verið að íhuga framboð til forseta alveg frá því um síðustu áramót, og það vissu stjórnendur og fréttastofa Ríkisútvarpsins mæta vel.

Á sama tíma fá aðrir frambjóðendur lítið rými í þessum fjölmiðli allra landsmanna, eins og kom m.a. fram hjá Andra Snæ Magnasyni, sem tilkynnti um framboð sitt 11. apríl en var fyrst fenginn í viðtal í sjónvarpssal Ríkisútvarpsins tæplega mánuði síðar! Er þetta jafnræði og hlutlaus umfjöllun þegar haft er í huga að einn frambjóðandi hefur haft margra mánaða forskot á alla aðra frambjóðendur? Hildur Þórðardóttir, forsetaframbjóðandi, lýsti því í Speglinum fyrr í dag hvernig hún hefði mætt hroka og yfirlæti fréttamanns í sinn garð og hefði hún verið niðurlægð af fréttamanni Ríkisútvarpsins. Þá er áhugavert að velta fyrir sér þeirri ákvörðun Ríkisútvarpsins að endursýna Áramótaskaup síðustu ára þar sem einn frambjóðandinn er í aðalhlutverki. 

Þá vekur athygli hvaða silkihönskum fréttamenn Ríkisfjölmiðilsins taka á Guðna Th. Jóhannessyni þegar erfið mál koma til umræðu. Þá taka stjórnendur þáttanna upp hanskann fyrir frambjóðandann af þvílíkum bravúr að eftir er tekið. Og þó að aðrir frambjóðendur beri hann þungum sökum er það þaggað niður við það sama. Það hefði verið saga til næsta bæjar ef ásakanir um að áhrifafólk úr Sjálfstæðisflokknum stæðu að baki framboði Davíðs Oddssonar, og hann þyrfti ekki að svara fyrir það - og það oftar en einu sinni! 

Jæja, Davíð hefði örugglega sloppið með það að segja bara að þetta væru allt gamlir götufélagar, vinir eða þá vinir eiginkonunnar. Alla vega fékk Guðni að sleppa með þá útskýringu í dag í Speglinum - og Davíð hefði örugglega gert það líka. Eða þannig. 

Fortíðin hefur nokkuð verið til umræðu í þessum forsetakosningum. Og þá aðallega fortíð Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og Andra Snæ Magnasonar í umhverfismálum. Um fortíð Guðna Th. Jóhannessonar má þó ekki ræða í Ríkisútvarpinu hvað varðar afstöðu Guðna til Iceave samninganna, til aðildar að Íslands að Evrópusambandinu eða söguskoðun hans á Þorskastríðunum. Skilaboð framboðs Guðna, sem Ríkisútvarpið kemur vel til skila, eru skýr: Fortíðin heyrir Davíð til og framtíðin Guðna.

Og svo er það hvað eitt forsetaframboð kostar og hverjir fjármagna framboðið. Hefur Ríkisútvarpið spurt frambjóðendur um það? Sérstaklega þá sem virðast hafa ótakmarkað fjármagn? Getur verið að það sé óþægileg spurning fyrir þá frambjóðendur sem hefur mest fjármagn að baki sér og öflugustu kosningavélina? Af hverju vill Ríkisútvarpið þagga þessa umræðu niður?

 

mbl.is „Þú ert ekki að stýra hér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave draugurinn vakinn upp

Stuðningsmenn Guðna Th. Jóhannessonar hafa tekið til varna fyrir hönd forsetaframbjóðanda síns. Þeir vita sem er að stuðningur Guðna Th. við Icesave I, II og III kemur illa út fyrir frambjóðanda sem gefur sig út fyrir að vera sameiningartákn og ópólitískur frambjóðandi. Þess vegna er hart gengið fram í því sýna fram á að betra hefði verið ,,að semja um Icesave skuldina" eins og Guðni Th. taldi rétt að gera á sínum tíma. Icesave drauginn hefur verið vakinn upp.

Rétt er að hafa í þessu sambandi í huga að með því ,,að semja" fyrir hönd ríkisins þá var verið að samþykkja ríkisábyrgð á skuld einkabanka við innistæðueigendur m.a. í Bretland og Hollandi. Með Icesave I samningi, sem kenndur var við Svavar Gestsson, þáverandi sendiherra, þá hefði íslenska ríkið samþykkt að taka á sig fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda himinháa Icesave skuld; skuld sem þeir höfðu aldrei stofnað til í upphafi og var skuld einkabanka - án nokkurra fyrirvara um efnahagslega stöðu Íslands. Í samningnum voru meira að segja ákvæði um að lánadrottnar, Breta og Hollendingar, gætu gengið að ríkiseignum ef skuldin yrði ekki greidd að fullu. Ef illa hefði farið í innheimtum á þrotabúi Landsbankans, þá hefði verið um svo himinháa upphæð að ræða að það hefði stofnað efnahagslegu sjálfstæði Íslands í hættu. Einu ári eftir eitt mesta efnahagslegt hrun landsins þá var vinstri stjórnin tilbúin að taka þessa áhættu. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, skrifaði undir þessi lög sem voru samþykkt á Alþingi af Samfylkingunni og Vinstri grænum, en með mikilvægum fyrirvörum. 

En ríkisstjórnin lét ekki þar við setja eftir að Bretar og Hollendingar höfnuðu þessum fyrirvörum. Icesave II og III urðu að veruleika og þá með víðtækum stuðningi valdhafa, án aðkomu þjóðarinnar. Var ekki sjálfsagt mál að almenningur í landinu, sem átti að taka á sig þessa íþyngjandi ábyrgð, fengi að kjósa um það sjálft í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það taldi vinstri stjórnin, meirihluti Alþingis, viðskipta- og menntaelítan enga þörf á. Það var ákveðið að semja um skuldina við Breta og Hollendinga og samþykkja í kjölfarið lög frá Alþingi um að ríkið myndi ábyrgjast skuld einkabanka.

Þessum gjörningi mótmælti þjóðin hátöfum og hrinti af stað undirskriftasöfnun sem var skipulögð af InDefence hópnum. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, ákvað svo eins og frægt er orðið að synja lögunum staðfestingar og vísa þeim til þjóðarinnar. Ekki einu sinni, heldur tvisvar. Nú heyrist sá áróður úr ranni stuðningsmanna Guðna Th. og andstæðinga Davíðs Oddssonar að með því að vísa málinu til þjóðarinnar, þá hafi Ólafur Ragnar tekið mikla áhættu. Þetta heitir að snúa hlutunum á haus! 

Rétt er að hafa í huga að hér var ekki tekist á um hvort greiða ætti Icesave skuldina til baka. Um það var ekki deilt. Þeir sem stofnað höfðu til hennar, Landsbankinn, þrotabú hans, og Tryggingarsjóður innstæðna, sem ríkið hafði sett á laggirnar í samræmi við EES samninginn, áttu að sjálfsögðu að greiða þessa skuld. Það sem tekist var á um var hvort ríkið átti að ganga lengra og samþykkja að gera þessa skuld einkabanka að skuld skattgreiðenda með vöxtum og kostnaði. Það bar okkur ekki lagaleg skylda að gera, og EFTA dómsstóllinn hvað upp þann úrskurð árið 2013. Það að Gordon Brown þáverandi forsætisráðherra og ríkisstjórn hans hafi sett upp pólitísk leikrit með hótunum til að bjarga eigin skinni, átti ekki rugla dómgreind stjórnvalda hér á landi, sbr. viðtal við Michael Hudson, hagfræðing, hér að neðan. Hvorki forseti Íslands né meirihluti þjóðarinnar fóru á taugum og stóðu vörð um efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar þegar á reyndi. Mun næsti forseti gjöra rétt, þola ei órétt? 

Til upprifjunar er rétt að hlusta hér á viðtal Egils Helgasonar við hinn þekkta hagfræðing Michael Hudson. 

 

  


Þjóðin hafði rétt fyrir sér þá, en hvað er hún að núna að hugsa?

Það verður eftirsjá í hr. Ólafi Ragnari Grímssyni úr forsetastóli. Allir viðurkenna nú að hann er sá forseti sem hefur mótað forsetaembættið mest af öllum forsetum lýðveldisins. Ólafur Ragnar er sá forseti sem færði þjóðinni lýðræðislegt vald á ögurstundu í sögu þjóðarinnar með því að synja lögum staðfestingar um að ríkið ábyrgðist einkaskuldir óreiðumanna. Hann og þjóðin hafa fengið að upplifa að hafa haft rétt fyrir sér gegn valdastofnunum þjóðfélagsins og valdamiklum erlendum aðilum, segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti réttilega. Þjóðin og forseti Íslandi höfðu rétt fyrir, en fræðimenn eins og Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi, höfðu rangt fyrir sér. Ef slíkir menn hefðu gegnt forsetaembættinu þá, þá væri þjóðin ennþá að greiða milljarða kostnað af Icesave skuldinni. Samkvæmt nýjustu útreikningum hefðu skattgreiðendur þurft að bera um 140 milljarða kostnað af Icesave I og II, og um 46 milljarða kostnað af Icesave III. Í stað þess að leggja þessa fjármuni í uppbyggingu á velferðarkerfinu eða uppgreiðslu erlendra skulda, hefði þurft að afhenda þessa tugi milljarða úr landi án þess að nokkur verðmæti kæmu í staðinn. Það er lygasögu líkast að nokkrum manni detti enn í hug að réttlæta slíkt! 

Af þeim forsetaframbjóðendur sem njóta mest fylgis í skoðanakönnunum í dag eru að mínu áliti aðeins tveir sem myndu hafa vit og hugrekki til að gera slíkt hið sama, ef svipaðar aðstæður kæmu upp í forsetatíð þeirra; forsetar sem hefðu staðið með fólkinu og réttlætinu gegn fjármálaöflunum. Það eru Davíð Oddsson og Andri Snær Magnason.

Það er þess vegna ömurlegt hlutskipti þjóðar, sem hafði vit og þor, að halda kyndli sjálfstæðis á lofti í Icesave deilunni og hvika hvergi, að þjóðin kjósi sér að þessu sinni forseta sem hefði lagst í duftið fyrir því ægivaldi sem núverandi forseti Ólafur Ragnar Grímsson bauð birginn og hafði undir.    


mbl.is Kýs ekki í forsetakosningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband