Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016
Forseti sem þorir að standa með þjóð sinni
Laugardagur, 23. apríl 2016
Ólafur Ragnar Grímsson hefur alla tíð verið umdeildur. Það var hann á stjórnmálaferli sínum og síðar sem forseti Íslands.
Ólafur Ragnar lætur ekki segja sér fyrir verkum. Hann menntaði sig í stjórnmálum, og var fremstur fræðimanna á því sviði. Hann tók þátt í stjórnmálum, og var einn fremsti stjórnmálamaður þjóðarinnar. Og hann var kosinn forseti þjóðarinnar, og verður að teljast sá forseti sem hefur mótað embættið mest allra forseta frá upphafi. Sumir, og ég leyfi mér að fullyrða, meirihluti þjóðarinnar, telur að Ólafur Ragnar Grímsson hafi sömuleiðis verið sá forseti sem færði þjóðinni bein völd á ögurstundu. Ákvarðanir breyttu gangi Íslandssögunnar þegar hann tók völdin af meirihluta Alþingis og ríkisstjórn og færði þjóðinni völdin í þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er ekki huglaus forseti sem þorir að gera það - og það oftar en einu sinni.
Þegar allur heimurinn stóð á öndinni í kjölfar fjármálahruns, þegar fjármálabarónar skyldu eftir sig sviðna jörð, eftir að hafa hrifsað til sín öll völd af lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum í krafti auðs og gallaðs alþjóðlegs regluverks, þá gerði samtakamáttur íslensku þjóðarinnar og forseti Íslands, nokkuð sem átti eftir að vekja eftirtekt um allan heim. Þjóðin neitaði að gera himinháar skuldir einkabanka í eigu fjármálabarónanna að sínum skuldum. Þrátt fyrir að nær öll stjórnmálaelítan (fyrir utan Framsóknarflokkinn) hefði samþykkt á Alþingi Íslendinga ríkisábyrgð á stjarnfræðilega háum erlendum skuldum einkabanka, og þrátt fyrir hræðsluáróður fjölmiðla, viðskiptaforkólfa og prófessora í háskólunum, þá færði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands í krafti embættis síns, þjóðinni ákvörðunarvaldið á ögurstundu. Og þjóðin kunni að fara með það vald sem henni var falið.
Það hljómar þess vegna hallærislega þegar að álitsgjafar fjölmiðla koma nú fram að segja að Ólafur Ragnar Grímsson sé fulltrúi stjórnmálaelítunnar. Hvar hafa þessir ágætu álitsgjafar verið á undanförnum árum?
Það skal engan undra miðað við það sem á undan er rakið að Ólafur Ragnar Grímsson hafi eignast hatramma óvini á ferli sínum sem forseti, og þar áður sem stjórnmálaleiðtogi. Hans mun þó minnst sem forsetans sem stóð vörð um lýðræðislegan rétt þjóðarinnar að ákvarða sín örlög sjálf. Við þurfum á þannig forseta að halda áfram. Látum ekki draga úr okkur kjark til að standa með sjálfum okkur í næstu forsetakosningum!
![]() |
Sameinar ekki, heldur sundrar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.4.2016 kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Vilhjálmur sparkar í samherja
Laugardagur, 23. apríl 2016
Það er margt sem fer í taugarnar á þeim ágæta þingmanni Vilhjálmi Bjarnasyni. Að þessu sinni er það ,,smáflokkur með mikilmennskubrjálæði", Framsóknarflokkurinn, sem fagnar aldarafmæli sínu á árinu.
Jú, þetta er sami ,,smáflokkur" og kom Sjálfstæðisflokknum til valda að nýju eftir hrun. Sami stjórnmálaflokkur og afhenti Sjálfstæðisflokknum lyklana að efnahags- og fjármálaráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Sannanlega einstakt afrek hjá smáflokki. Sami stjórnmálaflokkur og fékk um fjórðung atkvæða í síðustu alþingiskosningum, sama þingmannafjölda og Sjálfstæðisflokkurinn. Og sami stjórnmálaflokkur sem tók höndum saman með Sjálfstæðisflokknum að reisa landið við að nýju í efnahags- og velferðarmálum. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa.
Vilhjálmi Bjarnasyni kann að vera í nöp við framsóknarmenn. Það réttlætir þó ekki að ganga fram með þessum hatramma hætti gegn samstarfsflokki í ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem á í vök að verjast. Það veikir ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, og bætir ekki samstarfsvilja þingmanna í stjórnarliðinu. Á svona tímum eiga samherjar í stjórnmálum að standa saman, snúa bökum saman, og ráðast í verkin af einhug, elju og samstöðu.
![]() |
Smáflokkur með mikilmennskubrjálæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kaupmáttur launa vaxið um 18%
Þriðjudagur, 12. apríl 2016
Þegar rykið fellur eftir Panama storminn þá er rétt að hafa í huga þann árangur sem hefur þó náðst á síðustu árum. Árangur sem skiptir okkur öll máli. Þannig hefur kaupmáttur launa vaxið um 18% frá maí 2013, sem skýrist m.a. af því að verðbólga hefur mælst undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans í 2 ár. Og þá er spáð 10% kaupmáttaraukningu á þessu ári. Ég held að þessi árangur hljóti að vera einsdæmi í heiminum.
![]() |
Kallar formenn til fundar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúnaðarbrestur veldur pólitískum jarðskjálfta
Sunnudagur, 10. apríl 2016
Ástandið í þjóðfélaginu í kjölfar uppljóstrana úr Panama skjölunum er allt annað en gott. Fjölmenn mótmæli hafa staðið yfir á Austurvelli og á Ráðhústorginu á Akureyri dag eftir dag þar sem krafist er afsagna ráðherra og alþingiskosninga. Stjórnarandstaðan á hverjum tíma nýtir sér ástandið og kyndir undir ólguna með öllum ráðum. Mótmælin í gær, laugardag, sýndu fram á að reiðialdan er ennþá há og kraftmikil. Krafist er meiri heiðarleika í stjórnmálum og meira gegnsæis í kjölfar þess alvarlega trúnaðarbrests milli stjórnmálamanna og almennings sem varð með uppljóstrunum í Panama skjölunum.
Afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr forsætisráðherrastólnum ásamt uppstokkun í ráðherraliði Framsóknarflokksins dugar ekki til að sefa þessa reiði. Staða Sigmundar Davíðs var enda orðin óverjandi eftir það sem á undan hafði gengið.
Það vekur athygli að forysta Sjálfstæðisflokksins sá ekki ástæðu til bregðast við mótmælunum með neinum hætti. Vissulega var ákveðið að stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing, þó með skilyrðum, en allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sitja sem fastast í sínum ráðuneytum.
Fræg eru viðbrögð hreinu vinstri stjórnarinnar við niðurstöðu þjóðarinnar um ríkisábyrgð á Icesave skuldum bankabandítanna. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gaf þá ,,almenningi fingurinn", sat sem fastast og taldi enga ástæðu til að bregðast við rauða spjaldinu sem þjóðin hafði gefið þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu. Erum við að horfa upp á sömu viðbrögð forystu Sjálfstæðisflokksins?
Er það virkilega skoðun forystu Sjálfstæðisflokksins að ekkert sérstakt hafi gerst í Kastljósþætti Ríkisútvarpsins fyrir viku síðan, á sama tíma og þorri þjóðarinnar þurfti á áfallahjálp að halda? Eigum við sjálfstæðismenn og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að líta svo á að þetta sé allt samsæri Ríkisútvarpsins, runnið undan rifjum stjórnarandstöðunnar? En auðvitað kann að vera að forysta Sjálfstæðisflokksins taki þessa umræðu ekki til sín, og telji að trúnaðarbresturinn liggi að öllu leyti hjá fráfarandi forsætisráðherra.
Viðbrögð framsóknarmanna voru sannfærandi. Framsóknarflokkurinn varð við kröfu mótmælenda um afsögn forsætisráðherra, sem er sögulegur atburður og stórtíðindi í stjórnmálasögu landsins. Flokkurinn styrkti ráðherrateymi sitt með innkomu nýs öflugs utanþingsráðherra, Lilju Dögg Alfreðsdóttur, sem á örugglega eftir að bæta ímynd og stöðu ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins; djörf ákvörðun sem vakti verðskulduga athygli. Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr forsætisráðherra, á eftir að sanna sig í þessu valdamikla embætti, en fyrstu dagar hans í embætti lofa góðu.
Nú kann það að vera hafið yfir allan vafa að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ólöf Nordal, varaformaður flokksins, hafi hreint borð eins og þau hafa haldið fram. Að nöfn þeirra hafi þannig fyrir misskilning ratað í slæman félagsskap glæpamanna og skattsvikara í Panama. Það get ég ekki dæmt um frekar en þorri almennings. Hins vegar hafa þau fullan rétt á því að taka til varna og munu vonandi leggja öll spilin á borðið til að mæta alvarlegum ásökunum. En á meðan þarf ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks á starfsfriði að halda til að ljúka þeim þjóðhagslega brýnu verkefnum sem þarf að ljúka á kjörtímabilinu.
Mín skoðun er þó sú að farsælla hefði verið fyrir Sjálfstæðisflokkinn að gera breytingar á ráðherraliði sínu. Þannig hefði flokkurinn sýnt auðmýkt gagnvart þjóðinni en á sama tíma fengið tækifæri til að ná vopnum sínum að nýju. Skoðanakannanir hafa sýnt stöðugt fylgistap og nú er svo komið að Vinstri hreyfingin grænt framboð er orðin jafn stór og Sjálfstæðisflokkurinn. Það eru stórtíðindi sem sjálfstæðismenn hljóta að þurfa að bregðast við ef ekki á illa að fara í næstu alþingiskosningum.
![]() |
Kominn tími á Píratana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Ég skora á Ólaf Ragnar að bjóða sig fram að nýju
Laugardagur, 9. apríl 2016
Á næstsíðasta degi ársins 2015 hvatti ég Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, til að bjóða sig fram að nýju og standa vaktina eitt kjörtímabil í viðbót. Ástæðan var einföld.
Ólafur Ragnar hefur áunnið sér traust þorra þjóðarinnar í orði og athöfn. Það hefur hann gert að nýju með eftirminnilegum hætti í Panama storminum sem hefur gengið yfir landið og allan heiminn á undanförnum dögum og vikum. Í síðasta pistli mínum 30. desember sl. taldi ég upp síðari ástæðuna fyrir því að Ólafur Ragnar ætti að halda áfram sem forseti þjóðarinnar:
Í annan stað erum við að horfa upp á óvissutíma í stjórnmálum hér innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Þá þarf þjóðin á Ólafi Ragnari Grímssyni að halda, aldrei sem fyrr.
Panama stormurinn geisar enn og fórnarlömb hans eru skráð á spjöld stjórnmálasögunnar. Næstu alþingiskosningar verða sögulegar og nýir þingmenn taka sæti þeirra gömlu. Gera má ráð fyrir að meiri en helmingur þingmanna verði nýliðar.
Þá mun reyna á forsetaembættið og þá skiptir máli að í því embætti sitji traustur, skynsamur og sterkur forseti. Ég skora hér með á Ólaf Ragnar Grímsson að endurskoða ákvörðun sína um að bjóða sig ekki fram að nýju.
![]() |
Vildi ekki vera stimpill |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)