Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

,,Silicor vill svína landið okkar út og kaupa hér ódýra orku"

Það er nú gott að þeir hafi eitthvað við að sýsla á Alþingi alþingismennirnir okkar og séu vakandi um umhverfismál. Auðvitað er það hárrétt hjá Ragnheiði Ríkharðsdóttur háttvirtum þingmanni að það sé ömurlegt að setja náttúrulegan ávaxtalit í hverina okkar, sem skolast burt með einum gosstrók, og auðvitað hlýtur hið háa Alþingi að skipa þingnefnd til að fara yfir málið. Annað væri þingheimi ekki sæmandi, sérstaklega núna þegar þjóðfélagið er að stöðvast vegna verkfalla. 

Vitandi þetta þá verður áhugavert að heyra lýsingar þingmanna, og þessa ágæta þingmanns sérstaklega, um áform fjölþjóðafyrirtækisins Silicor að reisa kísilmálmverksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði, við anddyri Höfuðborgarsvæðisins. Um þessi áform skrifar einn virtasti eldfjallafræðingur okkar, Haraldur Sigurðsson:

Fyrirtækið Silicor hefur frekar ófagran feril í Norður Ameríku og má segja að þeir hafi eiginlega flæmst úr landi. Hvorki Ameríkanar né Kanadamenn vilja lýða mengandi iðnað af þessu tagi og láta því Kínverja um slík skítverk. Ég rakti í blogginu hvernig Silicor, sem hét áður Calisolar, flæmdist frá Kaliforníu, komst ekki inn í Ohio eða Mississippi með verksmiðjur, fór frá Kanada, en virðist nú geta komið sér fyrir á Íslandi. Hér fá þeir ódýra orku og virðast geta mengað eins og þeim sýnist. ... Ég tel að Íslendingar eigi að vara sig á erlendum fyrirtækjum, eins og Silicor og alls ekki hleypa þeim inn. Ferill þess er ekki glæsilegur, og ferillinn er slíkur að það ætti að vera sjálfkrafa að þeim væri neituð aðstaða til að hefja verksmiðjurekstur hér.

Þann 18. júlí 2014 ritaði Haraldur um þessi áform Silicor og að það þýði meiri mengun á Grundartanga. Er nema von að manni bregði við að lesa lýsingar eins og þessar sem koma fram í pistli Haraldar á bloggsíðu hans:

Framleiðsla á polysílikon er talin svo mengandi að Bandaríkin vilja helst ekki leyfa slíkan iðnað þar í landi og hafa hingað til látið Kínverja um sóðaskapinn heima hjá sér.  Nú er röðin komin að Íslandi.  Silicor vill svína landið okkar út og kaupa hér ódýra orku.   Hvar ætla þeir að loasa sig við allt þetta magn af eiturefninu sílikon tetraklóríð?  Hvað um klór gasið sem berst út í andrúmsloftið?  Er ef til vill búið að afskrifa Hvalfjörð og Akranes, og dæma þetta svæði sem iðnaðarhverfi, þar sem mengun er leyfileg?  Silicor hét áður Calisolar og breytti um nafn til að fela sinn fyrri feril í viðskiptaheiminum vestra.  Calisolar rak um tíma verksmiðju í Toronto, Kanada.  Það fóru ljótar sögur af þeim rekstri, eins og sagt er frá í dagblaðinu Columbus Dispatch. 

Þetta finnst mér ömurlegt að lesa, ef eitthvað er ömurlegt á annað borð þegar kemur að umhverfismálum. Og miðað við að háttvirtur þingmaður Ragnheiður Ríkharðsdóttir finnst það ömurlegt að hella ávaxtalit í hverina okkar til að framkvæma litrænan gjörning þá er ég viss um hvað henni finnst um þessi áform Silicor um að ,,fá að geta mengað eins og þeim sýnist" íslenska náttúru.


mbl.is „Mér finnst þetta ömurlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhamingju ríkisstjórnarinnar verður allt að vopni

Ástandið hjá okkur er að verða hálf-skuggalegt hvert sem litið er. Heilbrigðiskerfið er að nýju komið í uppnám og alvarlega veikir sjúklingar fá ekki meðferð eins og þeim ber þar með taldir krabbameinssjúklingar. Landbúnaður í landinu er í uppnámi þar sem dýralæknar eru m.a. í verkfalli, og Fjársýsla ríkisins er hálf-lömuð sem fer m.a. að valda sveitarfélögum miklum vandræðum þá og þegar. Stórir hópar bíða þess að fara í verkfall og þá lamast aðrir þættir þjóðfélagsins með afleiðingum sem enginn þorir að hugsa til enda. Ríkistjórnin virðist hafa sofið á verðinum í aðdragandi kjarasamninga og því fór sem fór, því við erum fyrir löngu komin framhjá þeim krossgátum þar sem hægt var að koma í veg fyrir þá alvarlegu stöðu sem upp er komin. 

Og eins og þetta sé ekki nóg þá eru ráðherra og fyrrverandi ráðherra annars stjórnarflokksins að lenda í sjálfsskaparvíti sem dregur úr trausti og trú almennings á að ríkisstjórnin ráði við verkefnið.  Sama gera ummæli einstakra stjórnarliða sem ala á úlfúð og ósætti. Já, hvernig dettur Hönnu Birnu Krisjánsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, að koma á þessum tímapunkti inn stjórnmálasviðið þegar stjórnarliðar eiga fullt í fangi með að ná tökum á stöðunni? Mál ráðherra daga uppi á Alþingi og ráðaleysið er okkur stuðningsmönnum ráðgáta. Óhamingju ríkisstjórnarinnar verður allt að vopni.

Satt best að segja hefði ég aldrei trúað því fyrir nokkrum vikum síðan sem gallharður stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar að svo hratt gæti fjarað undan henni sem raun ber vitni. Ég er eiginlega kjaftstopp. 


mbl.is „Tek ekki þátt í þeim skrípaleik“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar tveir plús tveir verða þrír

Stefan%20Fule_og_stefan%20haukur_timo%20summaMaður hefði haldið að þegar tveir stjórnmálaflokkar sem eru með sömu stefnu í ákveðnu máli, ESB í þessu tilviki, og mynda ríkisstjórn nái saman um þá sömu stefnu í stjórnarsáttmála. Er það ekki sjálfgefin niðurstaða, já, svona eins og tveir plús tveir eru fjórir?

Hvernig má það þá vera að þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur mynda ríkisstjórn saman þá sé stefnan í afstöðunni til Evrópusambandsins og aðildarumsóknar að sambandinu ekki hrein og bein? Báðir flokkar eru andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu og báðir flokkar státa af samþykktum stefnum um að aðildarviðræðum verði slitið án tafar. Í stjórnarmyndarviðræðum hefði maður haldið að hér þyrfti ekki að eyða tíma í samninga enda ekki um neitt að semja. Stjórnmálaflokkarnir voru algjörlega sammála í málinu.

Samt virðast þeir sem komu að gerð stjórnarsáttmálans hafi tekist harkaleg á um stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Og það þurfti að komast að málamiðlun í málinu, því stefnuyfirlýsingin er ósamhljóða stefnu beggja stjórnarflokkanna! Já, það er eðlilegt að spyrja: Hver deildi við hvern og um hvað? Eða getur það virkilega verið svo að hvorugur þessara flokka hafi þorað að standa við yfirlýsta stefnu beggja stjórnmálaflokkanna, eins og þær voru samþykktar á landsfundum þeirra? Hvern er verið að blekkja eða voru menn bara ekki klókari í reikningi en að fá út þrjár þegar tveir plús tveir voru lagðir saman? 

johanna_sigurdardottir_og_herman_van_rumpoy%202Alla vega þá stöndum við í þeim sporum nú, tveimur árum eftir alþingiskosningar, að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu hefur ekki verið dregin til baka, þrátt fyrir að báðir flokkarnir lofuðu að gera það á landsfundum sínum. Vissulega hefur viðræðunefnd og vinnuhópar stjórnvalda verið leystir upp og stjórnvöld hafa afþakkað frekari aðlögunarstyrki frá Evrópusambandinu. Nei, reyndar er það skonda við þetta að ríkistjórnin afþakkaði ekki styrkina heldur neitaði Evrópusambandið að borga, og það kom utanríkisráðherra Íslands á óvart! Ef hann bara sendi ekki kvörtun til Brussel vegna þessa!

En eftir stendur að þrátt fyrir dularfullt bréf sem var samið í katakombum utanríkisráðuneytisins sem gekk út á að grátbiðja embættismenn Evrópusambandsins um að gleyma bara aðildarumsókn Íslands, þá lifir aðildarumsóknin góðu lífi í Brusselborg. Sem þýðir að þegar þessi ríkisstjórn fer frá þá getur sú næsta haldið áfram aðlögunarferlinu eins og ekkert hefði í skorist, án þess að spyrja ,,kóng né prest." Að vísi segja aðildarsinnar að auðvitað muni þeir spyrja þjóðina að þessu sinni hvort halda eigi áfram aðlöguninni að ESB, en hver trúir því þegar íslenskur stjórnmálaflokkur lofar slíku sem sér ESB aðild í hillingum? 


Sjálfstæðisflokkurinn vill veita sambærileg lán og hjá nágrannaþjóðum okkar með sanngjörnum vöxtum til langs tíma, án verðtryggingar

Á verðtrygging neytendalána, og þar með húsnæðislána, að vera eða ekki að vera? Látum vera að fara hér yfir mismunandi skoðanir manna og allra stjórnmálaflokka, já og manna innan stjórnmálaflokka. En hvað vilja stjórnarflokkarnir og hvað vill samsteypustjórn þeirra sem nú er við völd? Hver er samþykkt stefna þeirra í þessu máli? Það hlýtur að vera það sem mestu skiptir í þessu sambandi. Það er þeir sem völdin hafa.

Það liggur fyrir að Framsóknarflokkurinn vill afnema verðtryggingu. Um það er ekki deilt. En hver er stefna hins stjórnarflokksins, Sjálfstæðisflokksins? Skoðum það. Í ályktun efnahags- og viðskiptanefndar síðasta landsfundar flokksins, sem hefur æðsta vald í málefnum hans, stendur:

Endurskipuleggja þarf íbúðalánakerfið með það fyrir augum að tryggja fólki val. Markmiðið er að veita sambærileg lán og hjá nágrannaþjóðum okkar með sanngjörnum vöxtum til langs tíma, án verðtryggingar. (undirskrift pistlahöfundar).

Þannig að þá vitum við það. Sjálfstæðisflokkurinn vill bjóða fólki upp á val og veita húsnæðislán með sambærilegum kjörum og eru í boði t.d. í Danmörku og Noregi, og vel að merkja, án verðtryggingar. Þá vita ráðherrar Sjálfstæðisflokksins að hvaða marki þeir eiga að sækja í ríkisstjórn. Um það þarf ekki deila.

En hver er stefna ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins í þessu máli? Vitandi það að báðir stjórnarflokkar hafa á stefnuskrá að bjóða fólki húsnæðislán til langs tíma án verðtryggingar hlýtur hún að vera skýr í þessu efni. Skoðum það. Í stefnuyfirlýsingu sem var kynnt á Laugarvatni af formönnum stjórnarflokkanna segir svo:

Æskilegt er að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð. ... Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót.

Það er ekki í fyrsta skipti sem maður veltir fyrir sér hver það var sem náði að komast í texta þegar stefnumál Sjálfstæðisflokksins eru sett á blað, því stundum virðist þar lítið samhengi vera á milli samþykktrar stefnu flokksins á landsfundi og svo aftur þess sem skrifað er í opinberum yfirlýsingum. Best dæmið um það er stefnan í ESB málum. Í þessu þarf flokkurinn að bæta sig ef ekki á illa að fara. En látum það liggja á milli hluta og skoðum textann í stefnuyfirlýsingunni. Segir þar að ríkisstjórnin ætli að vinna að því að afnema verðtryggingu af neytendalánum? Með góðum vilja stendur það. Þar stendur að ,,æskilegt sé að nýta tækifærið ... að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð" og að ,,sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðismarkaðarins verði skipuð...". Ef skipa á nefnd um afnám verðtryggingar á hún þá ekki að vinna að því að afnema verðtryggingu? Það hefði ég haldið.

Kallast það að afnema verðtryggingu að stytta lánstíma verðtryggðra lána úr 40 í 25 ár? Er það allt og sumt sem ríkisstjórnin ætlar að gera í þessu? Því trúi ég ekki nema mér verði sagt það þrisvar.


Hitnar undir Sigmundi Davíð

Það þarf enginn að fara í grafgötur um það lengur að stjórnarandstaðan gerir út á það að gera Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra þjóðarinnar, tortryggilegan. Lófaklapp fulltrúa vogunarsjóða, hrægammasjóðanna svokölluðu, og slitastjórna heyrist langar leiðir vegna þessa. Fjölmiðlar sem eru fjármagnaðir af þessum aðilum með einum eða öðrum hætti leika sitt hlutverk samviskusamlega.   

Frá því að Sigmundur Davíð sagði þessum aðilum á flokksþingi Framsóknarflokksins stríð á hendur fyrir hönd þjóðarhagsmuna þá hefur hann verið skotmark þeirra. Ætlun forsætisráðherra og flokks hans að afnema verðtrygginguna hugnast sömuleiðis ekki fjármagnseigendum á Íslandi. 

Það verður allt gert til að koma Framsóknarflokknum frá völdum. Óneitanlega hafa óvarkárar yfirlýsingar og misráðnar gjörðir einstakra ráðherra framsóknarmanna gert þeim erfitt fyrir og veikt stöðu Framsóknarflokksins meðal kjósenda. Áhrifamiklir aðilar hafa sömuleiðis þrýst á forystu Sjálfstæðisflokksins ,,að koma böndum á samstarfsflokkinn" eða ella slíta stjórnarsamstarfinu. Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson myndu leggjast ansi lágt til að komast í ríkisstjórn í stað Framsóknarflokksins. 

Framsóknarflokkurinn verður þess vegna að vera var um sig og láta ekki mála sig út í horn ef hann kýs að leiða ríkistjórn áfram. 


mbl.is Afturendi ráðherra kunnuglegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra á heimshornaflakki í miðri krísu

Á sama tíma og vonlausa frumvarpið um náttúrupassann dagar uppi á Alþingi, eins og ég hafði sagt til um (sjá pistil frá 10. desember 2014 - Náttúrupassi dagar uppi sem nátttröll), þá eru sagðar fréttir af því að sá ráðherra sem ber ábyrgð á þessum makalausa málatilbúnaði sé staddur hinum megin á hnettinum í opinberum erindagjörðum. Já, í Ástralíu þegar þjóðfélagið logar í vinnudeilum í ofanálag! Og aðspurð um afdrif frumvarpsins sem hefur verið í á annað ár í undirbúningi í ráðuneyti ferðamála, segir ráðherrann að vandamálið hverfi ekki þó náttúrupassinn hennar heyri sögunni til!

Vandamálið, sem henni var falið að leysa, er sem sagt ennþá óleyst eftir að ráðherrann og embættismenn hennar hafa legið yfir málinu mánuðum ef ekki árum saman. Árangurinn er sem sagt enginn, zero. Og ráðherrann er þá bara lagstur í ferðalög umhverfis hnöttinn með passann sinn, þó ekki náttúrupassann, sem samflokksmaður hennar henti þangað sem hann átti heima, náttúrulega í ruslið. 

Það skal engan undra að efasemdir vakni í röðum sjálfstæðisfólks, sem horfir upp á átök á vinnumarkaði magnast með hverjum deginum sem líður, hvort ráðherra ferðamála sé starfi sínu vaxinn. Er það eðlileg forgangsröðun að skella sér í heimsreisu einmitt núna? Þurfa ekki allir áhafnameðlimir ríkisstjórnarinnar að koma sér upp á dekk þegar þjóðarskútann er í háska stödd og ferðamálin í uppnámi? Það hefði ég haldið.


Af gandreið og galdrabrennum

the-simpsons-movie-mob-with-torchesÞað er óhætt að segja að einmitt þegar menn ættu að stunda slökkvistarf þá ríði menn um sveitir með eld í hönd og bera að húsum. Þannig fer Kristján Loftsson mikinn í fjölmiðlum, æsir upp mótstöðumenn sem mest hann má og hefur gaman að. Verkalýðsforingjar berja bumbur og heimta galdrabrennur. Gott er þá að benda á gandreið Stjána þar sem hann skvettir sinni eigin olíu á eldinn og glottir við tönn. Alþingismenn kynda undir á Alþingi og gapa um ástandið til að baða sig í sviðsljósinu. Ástandið var eldfimt fyrir, en nú loga eldar um allt þjóðfélagið með verkföllum og skærum.  

Aðilar vinnumarkaðarins, ríkisstjórn og þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, verða að sína ábyrgð og finna leiðir til að stöðva þann spíral sem er kominn í gang áður en það verður of seint. Og við hin, þurfum kannski að fara að sjá til sólar.  


mbl.is Segir oft glymja hæst í tómri tunnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján á leikinn!

Mynd_1431121Verkalýðsforystan nýtir sér að sjálfsögðu öll tiltæk vopn í komandi kjarabaráttu. HB Grandamálið féll upp í hendurnar á henni eins og happ af himnum ofan. Já, þetta var sannkallaður hvalreki fyrir andstæðinga ríkisstjórnarinnar. Auðvitað hitnar í mönnum þegar fréttir berast af þriðjungs hækkun stjórnarlauna og milljarðaarðgreiðslum til fólks sem þarf ekki að kvarta undan auraleysi eins og sauðsvartur almúginn.

Kristján Loftsson athafnamaður er kaldur karl og lætur ekki segja sér fyrir verkum. Hann er ekki að skafa utan af hlutunum og segir bara það sem býr honum í brjósti hvort sem það er réttur okkar til hvalveiða, barátta fyrir sjálfstæði Íslands eða stjórnun eigin fyrirtækja. Auðvitað er HB Grandi ekki sér á báti hvað snertir rífleg stjórnarlaun eða háar arðgreiðslur. Það mætti örugglega færa góð og gild rök fyrir því að þessi sjávarútvegsrisi, sem hefur fært þjóðfélaginu björg í bú á undanförnum árum, þurfi að greiða stjórnendum góð laun fyrir velunnin störf. Verðugur er verkamaður launa sinna, hvort sem hann starfar á gólfinu eða á efstu hæðinni. 

Kristján hlýtur þó að átta sig á að orð hans og gjörðir stefna kjaraviðræðunum í voða, og þar með efnahagslegum stöðugleika. Auðvitað er ósanngjarnt að kenna honum einum um, en fjölmiðlar og bloggarar sem eru óvinveittir núverandi stjórnvöldum, kunna að nýta sér tækifærið til hins ýtrasta. Það væri þess vegna snjall leikur hjá Kristjáni að boða til blaðamannafundar og slá vopnin úr höndum andstæðinganna í þessu máli. 


mbl.is Staðan er „grafalvarleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórarinn Eldjárn yrði góður forseti

karlsdrapa

Ódýrast væri fyrir okkur að Ólafur Ragnar Grímsson yrði áfram á Bessastöðum. Þá þyrfti ekki að greiða þreföld forsetalaun eftir næstu forsetakosningar. En það er sennilega ekki kostur í stöðunni, enda Ólafur Ragnar búinn að standa sína vakt nógu lengi. 

Önnur nöfn sem eru ekki á þeim lista sem birtur er með könnuninni gætu verið Þórarinn Eldjárn, rithöfundur, sem held ég að sé óumdeildur, og hefur ætt og getu til að verða góður forseti. Þá myndi Davíð Oddsson sóma sér vel í þessu embætti þó að við vitum að hann yrði mjög umdeildur og hataður af sumum. Báðir þessir einstaklingar eru sterkir einstaklingar með bein í nefinu en það hefur sýnt sig í embættistíð Ólafs Ragnars að þjóðin þarf á því að halda á ögurstundu.

Annars liggur í loftinu að PR fólk hefur undirbúið framboð Kristínar, háskólarektors, í nokkurn tíma og bíður nú aðeins eftir réttu stundinni að tilkynna framboðið.  


mbl.is Flestir treysta Ólafi Ragnari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Ríki er ekki byggt, það vex og lýtur lögmálum náttúrunnar og það tekur allt langan tíma"

tree-growing-in-protecting-hands-richard-newsteadAllar hagtölur eru jákvæðar á mælaborði BHM sem birtar eru á heimasíðu bandalagsins. Þegar litið er til kaupmáttar þá er hann orðinn svipaður og hann var í janúar 2008. Verðbólga er í sögulegu lágmarki, atvinnuleysi á niðurleið og þannig mætti áfram telja. Þetta er góður grunnur til að byggja nýja kjarasamninga á. 

Forystufólk í atvinnulífinu er þó ekki að gera þetta auðvelt. Þar hækka menn stjórnarlaun og laun stjórnenda eins og enginn væri morgundagurinn. Lítið er þó að segja um arðgreiðslur fyrirtækja því væntanlega rennar þær inn í aðrar fyrirtækjasamsteypur, eða lífeyrissjóði, sem vilja og þurfa að fá arð af fjárfestingum sínum eða til að búa sig undir launahækkanir á almennum vinnumarkaði. En vissulega eru fréttir um þessar háu upphæðir og hækkanir ekki til að liðka fyrir gerð kjarasamninga þegar útspil atvinnurekenda er að hækka laun um 3,5%. 

Allir sjá að laun þurfa að hækka, bæði hjá þeim lægst launuðu en einnig háskólamenntuðu starfsfólki, sem lagt hefur á sig langa skólagöngu og glímir við há námslán. Allir sjá líka að Róm verður ekki byggt á einum degi, og vonandi geta samningsaðilar komist að samkomulagi sem tekur mið að þessu tvennu. 

Forsætisráðherra nefndi að ástandið minnti hann á skáldsögu eftir Halldór Laxness. Úr því menn eru farnir að vitna í þessu sambandi í skáldverk vill pistlahöfundur birta eftirfarandi hugleiðingu úr ritverki Boris Akúnin, Tyrknesk refskák, sem hollt er að hugleiða:

Titilráðið hneppti að sér jakkanum og svaraði af fullri alvöru:

- Ef maður býr í einhverju ríki, verður maður annaðhvort að verja það eða flytja úr landi - annars tekur við sníkjulíf eða undirlægjuhjal. 

- Til er þriðji möguleikinn, sagði Varja sem skildi ekki vel hvað hann átti við með ,,undirlægjuhjali". - Það er hægt að leggja ranglátt ríki í rúst og byggja nýtt þess í stað.

- Því miður, Varvara Andrejevna, er ríki ekki hús, miklu heldur er hægt að líkja því við tré. Ríki er ekki byggt, það vex og lýtur lögmálum náttúrunnar og það tekur allt langan tíma. Það þarf ekki á múrara að halda heldur garðyrkjumanni.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband