Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Á óvissutímum þurfum við traustan forseta

713cb622679fcdbEf Ólafur Ragnar Grímsson vill sjálfur halda áfram sem forseti Íslands, þá verður hann endurkjörinn á næsta kjörtímabili.  Staða hans er það firnasterk að enginn getur ógnað stöðu hans. Hann hefur blómstrað í forsetaembætti þar sem yfirburðarhæfileikar hans á sviði innlendra stjórnmála og alþjóðlegra samskipta hafa komið í ljós. Og eftir framgöngu hans í Icesave ber okkur skylda til að kjósa hann áfram. Hann á það inni hjá þjóðinni. Annað væri vanþakklæti. 

Í annan stað erum við að horfa upp á óvissutíma í stjórnmálum hér innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Þá þarf þjóðin á Ólafi Ragnari Grímssyni að halda, aldrei sem fyrr. 

Það þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Svo einfalt er það.

En auðvitað er freistandi fyrir Ólaf Ragnar að stimpla sig út eftir 20 ára þjónustu og taka sér frí frá þjóðinni, og þjóna sjálfum sér og sínum nánustu.

Hitt er svo, hvað Ólafur Ragnar kýs sjálfur að gera; að þjóna sjálfum sér eða þjóð sinni? 

 

mbl.is 47,8% ánægð með störf forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heima er best

Umfjöllun Guðrúnar Hálfdánardóttur í Morgunblaðinu um flóttamennina í Evrópu er öllum holl lesning. Margar spurningar vakna eftir lesturinn.

Þannig má spyrja hvernig það geti gerst að milljón flóttamenn komist inn um ytri landamæri Evrópusambandsins, þrátt fyrir Schengen samstarfið, næstum því hindrunarlaust og án afleiðinga fyrir þau lönd sem í hlut eiga. Og í framhaldinu getum við velt fyrir okkur af hverju Evrópusambandið hafi ekki brugðist ennþá við með árangursríkari hætti. Og loks er eðlilegt að spyrja: Hvers vegna að taka þátt í svo mikilvægu samstarfi eins og samevrópskri landamæravörslu, ef það virkar ekki þegar á reynir?

Þetta er önnur hliðin. Hin hliðin snýr að flóttamönnunum sjálfum. Milljón flóttamenn bara á þessu ári streyma til Evrópu í örvæntingarfullri tilraun sinni til að bjarga lífi sínu og koma sér í öruggt skjól vegna stríðsátaka eða annarra hörmunga. Já, 1.000.000 manns á vergangi í Evrópu.

Ber okkur ekki siðferðisleg skylda að koma þessu fólki til hjálpar í neyð? Og þá hvernig? Á ekki við hér að heima sé best? Að alþjóðakerfið taki sig saman í andlitinu og uppræti stríðsherra og stríðsátök, og búi stríðsþjáðum flóttamönnum frið og velferð í heimabyggð? Og þá geta þeir sungið glaðir í hjarta þjóðsöngva sína eins og við: Ég er kominn heim!

Nú kann það að vera rétt hjá sumum sem segja að fyrst eigum við að hjálpa þeim sem standa okkur nær, löndum okkar, sem búa við sára fátækt, og öldruðum og öryrkjum sem líða skort. En útilokar annað hitt? Það held ég ekki.

  

mbl.is „Hvað er heima?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér

Loforð vinstri hreyfingarinnar hafa verið stór, en efndirnar litlar. Saga vinstri hreyfingarinnar gæti heitið Sundur og saman í blíðu og stríðu. Liðið sundrast þegar það er sameinað, og sameinast þegar það er sundrað. Það breytir engu þó sameiningin heiti Sameiningarflokkur alþýðu, Sameinaðir vinstri menn eða Samfylking. Alltaf verður óeiningin þeim að falli. 

Og nú kann að vera að renna upp tími sameiningar vinstri manna enda sundrungin algjör hvert sem litið er. En auðvitað yrði það aðeins til eins - til sundrast að nýju.  


mbl.is Skylda að reyna ríkisstjórnarmyndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttu- og hugsjónamaðurinn Frosti

caeacba97e-380x230_oEinn er sá þingmaður á Alþingi sem á þar fullt erindi. Það er Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Hann vakti athygli á síðasta kjörtímabili fyrir skelegga og málefnalega baráttu gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og gegn Icesave lögunum, sem vinstri stjórnin barðist hatrammlega fyrir að koma í gegn. Framganga hans bæði í viðskiptalífinu og stjórnmálum hefur sýnt að hér er á ferð traustur, heiðarlegur og hugmyndaríkur einstaklingur, en ekki síst hugsjónamaður.  

Stundum látum við bölsýnina næstum því ganga að okkur dauðum. Meðal annars þegar við ræðum um þingmennina okkar á Alþingi. Sem betur fer eru í dag á Alþingi einstaklingar eins og Frosti Sigurjónsson sem hafa vilja, þor og getu til að berjast fyrir framfaramálum þjóðarinnar.  

Frosti talaði með rökum fyrir almennu skuldaleiðréttingunni til almennings. Hvorki hann, né Framsóknarflokkurinn, létu háværar úrtöluraddir úr vinstri flokkunum, Háskóla Íslands, Ríkisútvarpinu og fleiri ,,rétttrúnaðarstofnunum" tala úr sér kjark og þor, heldur hélt baráttunni áfram allt til enda. Sama má segja um baráttuna gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og Icesave ólögunum. Í þeim málum var ég það lánsamur að fá að vera peð á því taflborði.

Í dag eru tvö baráttumál sem Frosti berst fyrir af sama krafti. Annars vegar nýtt peningakerfi í þágu almannahagsmuna og hins vegar baráttan gegn verðtryggingu neytenda- og húsnæðismála. Bæði þessi mál skipta almenning í þessu landi miklu í nútíð og framtíð því án heilbrigðs fjármálakerfis verður ekki byggt upp heilbrigt samfélag.

Óhætt er að segja að Frosti hafi undirbúið þessi tvö mál með mjög faglegum og vísindalegum hætti. Baráttan fyrir nýju peningakerfi hefur vakið verðskulduga athygli langt út fyrir landsteinana (sbr. þessa frétt mbl.is), og hefur hann verið fenginn til að kynna þær hjá virtum aðilum erlendis.  

Í anda Star Wars segi ég: Megi ,,krafturinn" vera með Frosta í þessum málum, sem öllum öðrum góðum málum! Stundin er alltaf rétt til að gera hið rétta! 

 
Og það er farið að snjóa í höfuðborginni ...
 
 
 
 

mbl.is Bönkum bannað að búa til peninga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komi þeir sem þora!

821726Össur er ólíkindatól. Hann talar sig inn og út úr stjórnmálum. Þannig talaði hann sig út úr Alþýðubandalaginu og inn í Alþýðuflokkinn. Hann var ekki fyrr þangað kominn þegar hann lagði Alþýðuflokkinn niður og stofnaði Samfylkinguna, og gerðist svo formaður hennar. Þegar að honum var sótt á þeim vettvangi, þá setti hann upp pólitíska leiksýningu til að narra keppinaut sinn út í vegleysu. Það var þegar Ingibjörg Sólrún var gerð að forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í stað formanns. Þannig keypti Össur sér lengri tíma í valdastóli, og þar er hann enn. Situr á bakbekknum og bíður færis.

Nú finnst sumum að hans tími sé kominn - að víkja þaðan. En Össur situr sem fastast og víkur eigi, nema honum ,,sé hent öfugum út", eins og hann orðaði það sjálfur. Flokkurinn er hans, flokkurinn er um hann og flokkurinn er frá honum kominn. Þeir sem reyni að koma kjaftasögum á kreik að hann sé á förum þaðan, verði gerðir kjaftstopp og hraktir á braut hið snarasta. 

Yfirlýsing Össurar í þessu efni er kristaltær: Komi þeir sem þora!


mbl.is Þyrfti að henda Össuri öfugum út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamótalög um opinber fjármál samþykkt á Alþingi

bjarni707.width-900Þorri þingmanna samþykkti frumvarp efnahags- og fjármálaráðherra um opinber fjármál sem lög frá Alþingi fyrir nokkrum mínútum síðan. Þetta er mikill sigur fyrir Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, sem hefur sannanlega sett mark sitt á fjármál ríkisins frá því hann tók við ráðherraembætti. Fjárlög eru afgreitt með afgangi tvö ár í röð og nú hefur hann komið í gegn á Alþingi lögum sem munu ,,stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála", eins og segir í markmiðum laganna. Við lestur laganna þá er eðlilegt að menn spyrji sig af hverju slík lög hafi ekki verið samþykkt löngu fyrr, eins og reyndar kom fram í máli nokkurra þingmanna sem tjáðu sig um frumvarpið. Almenn ánægja er með þessi nýju lög meðal allra stjórnamálaflokka að undanskyldum nokkrum þingmönnum Vinstri grænna. 

Hinum nýju lögum er ætlað að tryggja:

1. heildstæða stefnumörkun í opinberum fjármálum til lengri og skemmri tíma,

2. vandaðan undirbúning áætlana og lagasetningar sem varða efnahag opinberra aðila og öflun og meðferð opinbers fjár, 

3. skilvirka og hagkvæma opinbera fjárstjórn og starfsemi, 

4. að opinber reikningsskil séu í samræmi við viðurkenndar bókhalds- og reikningsskilareglur, 

5. virkt eftirlit með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár, eigna og réttinda.   

Með lögunum er agi í ríkisfjármálum aukinn til muna og lögin munu auka álag á ráðuneytin á næstu árum eins og kom fram í máli efnahags- og fjármálaráðherra í morgun. 


Vont mál fyrir ríkisstjórnina

happy-old-people-4Þessa stundina er verið að greiða atkvæði á Alþingi um fjáraukalög. Þar leggur stjórnarandstaðan fram breytingartillögu til að knýja á um það að lífeyristryggingar hækki afturvirkt til samræmis við launafólk. Það hefur verið umdeilt hvort sú 9,7% hækkun sem aldraðir og öryrkjar fá í janúar bæti upp hækkanir sem launafólk fékk fyrr á árinu. Samkvæmt því sem kemur fram hjá stjórnarandstöðunni þá dugar þessi hækkun ekki til. Stjórnarmeirihlutinn heldur öðru fram. Enn á ný er almenningur settur í þá stöðu að hafa ekki hlutlausar upplýsingar um hvað er rétt og hvað er rangt í þessum málflutningi. 

Fyrir lífeyrisþega er þetta eðlilega hitamál. Það brennur á þeim. Það liggur fyrir að stjórnarandstaðan hefur haft sigur í þessu máli í hugum ellilífeyrisþega, þó að það liggi fyrir að þessi breytingartillaga um 6 milljarða hækkun til lífeyrisþega hafi verið felld rétt í þessu. Þetta er vont mál fyrir stjórnarflokkana - og það vissi stjórnarandstaðan þegar hún tók slaginn.   


Hver blikkar fyrst

AR-151029541Það verður ekki annað sagt en að alþingismenn standi vörð um virðingu Alþingis þessa dagana, eins og jafnan þegar styttist í að alþingismönnum sé sleppt út í jólagleðina. Það mætti jafnvel halda að þeim lægi ekkert á að ljúka þingstörfum til að stimpla sig út.

En auðvitað er málið ekki svo einfalt. Þessa dagana sýnir stjórnarandstaðan vald sitt með málþófi og uppákomum. Í stað þess að ræða um fjárlög, þá ræða þingmenn um poppstjörnur, sessunauta á þingi, náttröll og hvað eina sem kann að vekja athygli fjölmiðla, sem aðeins taka við sér ef fjör kemst í mannskapinn við Austurvöll. 

Lýðræðið er tímafrekt og vandmeðfarið. Hvort sú breyting sem gerð var hér um árið og opnaði fyrir þaulsetur og málþóf er af hinu góða skal ósagt látið, en óneitanlega eykur það ekki virðingu Alþingis. Nú er sagt að málþófinu sé beint gegn ákvörðun utanríkisráðherra og embættismanna hans í utanríkisráðuneytinu að gleypa Þróunarsamvinnustofnun í einum munnbita og fjölga diplómötum. Þess vegna sé 63 þingmönnum og öllu starfsfólki Alþingis haldið í gíslingu málþófs, sem stjórnarandstaðan segir vera sinn neyðarrétt. Eitthvað kann að vera til í því, þegar við förum yfir sviðið á síðasta kjörtímabili, þegar skotgrafirnar voru öfugt skipaðar.

Þegar öllu er á botninn hvolft, gengur störukeppnin í málþófinu aðeins út á eitt. Hver blikkar fyrst! 

 

mbl.is „Gunnar Bragi frussaði í vandlætingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband