Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Að drepa lýðræðið með leiðindum

Stjórnmálaumræður í sjónvarpi eru ekki að ná í gegn. Vegna fjölda framboða þá næst ekki að kryfja neitt mál til mergjar og hver frambjóðandi neyðist til að hlaupa á hundavaði yfir stefnumálin. Þegar loksins næst að komast undir yfirborðið í umræðunni þá þurfa stjórnendur að vaða úr einu í annað, og áhorfendur eru litlu nær um afstöðu framboðanna. Allir vilja gera allt fyrir alla, og helst betur og meira en allir aðrir. Þáttastjórnendur eru í nær vonlausri aðstöðu til að búa til gott sjónvarpsefni, því um leið og það fer að vera skemmtilegt þarf að kasta umræðunni á dreif með nýju umræðuefni. Frambjóðandi sem talar fyrir framboð, sem nær ekki einu sinni 0,2% stuðningi miðað við skoðanakannanir, fær að tala jafnlengi og sá fulltrúi framboðs sem nýtur um þriðjungs eða meiri stuðnings kjósenda. Er það lýðræðislegt? Væri það and-lýðræðislegt að miða lengd umræðutíma við vinsældir samkvæmt skoðanakönnunum? Eða er þetta eitt af þeim mörgum umræðuefnum sem má ekki ræða? 
 
Alla vega er ljóst að ef áfram verður haldið á þessari braut þá munu kjósendur gefast upp á að horfa á stjórnmálaumræður daginn fyrir kjördag. Er það ekki tilræði við lýðræðið? Ríkissjónvarpinu er að takast að drepa lýðræðislega umræðu með núverandi fyrirkomulagi á umræðuþáttum fyrir kjördag. Jafnræði meðal frambjóðenda er falleg hugsun en arfa vitlaus daginn fyrir kjördag, þegar liggur fyrir styrkur hvers framboðs með skekkjumörkum. Mætti ekki stokka fyrirkomulagið upp, þannig að þau framboð sem væru með afgerandi stuðning væru sett skörinni ofar en þau framboð sem væru að berjast um að komast á blað? Skipta þessu upp í deildir eins og í fótboltanum. Í lið sem væru í toppbaráttunni og lið sem væru í fallbaráttunni? Væri það ekki viðeigandi virðing við kjósendur?

Skoðanafrelsi og ,,skítasöfnuðir"

Umræðan um mosku, guðþjónustuhús múslima eða íslamska helgibyggingu, í Sogamýrinni er pólitískt jarðsprengisvæði. Oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík hætti sér út í þessa umræðu og búmm!
 
Þegar blandað er saman pólitískum rétttrúnaði, umræðu um trúmál, umræðu um íslam, ókeypis lóðaúthlutun, arkitektúr og pólitík þá þarf ekki stjórnmálafræðing til að spá pólitískum jarðskjálfta. Og þegar þetta er kryddað með alþekktum viðhorfum ákveðinni afla á fréttastofu RÚV og hjá vinstri öflunum útí Framsóknarflokkinn þá skellur á gjörningsveður í íslenskri pólitík.
 
Já, það er með ólíkindum hvað menn hafa lagst lágt í þessari umræðu, segir formaður Framsóknarflokksins. Frambjóðandi Samfylkingarinnar sagði fyrir tveimur árum á Facebook að Rússneska rétttrúnaðarkirkjan væri ,,skítasöfnuður" og söfnuðurinn mætti ,,fokka sér". Það vakti lítil viðbrögð og þó var hér ansi vel hlaðin orðhaturshaglabyssan hjá (rétt)trúnaðarmanni Samfylkingarinnar þegar skotið reið af. Og þetta var ekki ,,sagt í beinni", heldur skrifað og sent. 
 
En hvað sagði oddviti Framsóknarflokksins sem vakið hefur þessi hörðu viðbrögð og vandlætingu RÚV, sem hefur elt uppi formann Framsóknarflokksins allar götur síðan til að krefjast viðbragða? Jú, að hún væri á móti því að íslömsk helgibygging risi á þeim stað sem Reykjavíkurborg hefur ákveðið, og að hún teldi að allir borgarbúar ættu að fá að kjósa um hvort gefa ætti trúsöfnuðum lóðir á besta stað í borginni. Fólkið í borginni ætti að ráða hvort gefa ætti lóðir undir helgibyggingar. Oddvitin hefur einnig sagt að sama ætti að gilda um aðrar lóðir sem nýlega hefðu verið gefnar trúsöfnuðum í Reykjavík, þar með talin lóð á besta stað í Öskjuhlíðinni fyrir Ásatrúarsöfnuðinn.
 
Er þetta hatursáróður gegn íslam? Nei, auðvitað ekki. Þetta er skoðun oddvita stjórnmálaflokks sem bíður sig fram til borgarstjórnar, og auðvitað eiga kjósendur heimtingu á að vita skoðanir frambjóðenda fyrir kosningar á þessu sem og öðrum málefnum sem snerta borgarbúa. Oddviti og borgarstjóraefni núverandi meirihluta sagði aðeins ,,að hann væri hugsi" um málið. Var það nú svar?
 
Hitt er svo annað mál að margir Íslendingar eru mjög tortryggnir og áhyggjufullir þegar kemur að íslam og múslimum, og endurspeglar það viðhorf Evrópubúa um þessar mundir. Það verður að segjast eins og er að alvarleg þjóðfélagsvandamál hafa komið upp í mörgum löndum þar sem gjörólíkir menningarheimar rekast á. Það hefur skapað óróa og hatursfulla umræðu á báða bóga sem finna þarf lausn á áður en það verður orðið of seint. Það gerist ekki með því að þegja vandamálið í hel, stinga höfðinu í sandinn. 
 
Að sama skapi er það hárrétt að ekki má ala á úlfúð og hatri út í minnihlutahópa. Það getur haft alvarlegar afleiðingar eins og dæmin sýna. Það þýðir hins vegar ekki það, að ekki megi ræða þetta viðfangsefni opinskátt í þeim tilgangi að finna leiðir til að skapa sátt milli ólíkra menningarheima. Í þessu skiptir hreinskiptin umræða máli og að nálgast umræðuna af virðingu við ólík sjónarmið og ólíka menningarheima.
 
Í upphafi skal endinn skoða.  

mbl.is Með ólíkindum hvað menn leggjast lágt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komum Kópavogi í sama sæti og Garðabæ og Seltjarnarnesi

 

Listi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi er skipaður sterkum frambjóðendum og er jafnræði milli kynja og aldurshópa. Töluverð endurnýjun átti sér stað í opnu og mjög fjölmennu prófkjöri sjálfstæðisfólks í upphafi ársins. Átök fyrri ára eru að baki og við getum horft björtum augum til næsta kjörtímabils.
 
Vonandi láta Kópavogsbúar ekki nýjabrum nýrra framboða með óljósar stefnur og gylliboð hafa áhrif á sig. Kópavogsbúar vita hvar þeir hafa Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að því að lágmarka álögur á bæjarbúa en að sama skapi að byggja upp innviði, svo bæjarfélagið bjóði íbúum úrvals þjónustu á öllum sviðum. Kópavogur er þekktur fyrir stuðning við íþróttir og listir. Bæjarfélagið státar af úrvals íþróttaaðstöðu í Kópavogsdal og í Kórnum. Sama má segja um menntamál í Kópavogi og ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn lofar átaki í menntamálum á næsta kjörtímabili. Annað sæti framboðslistans er skipað nýjum frambjóðanda, rektor Menntaskólans í Kópavogi, sem ætti að tryggja uppbyggingu í menntamálum. Þá er í baráttusæti listans sjómaðurinn Guðmundur Geirdal sem sýnir betur en allt annað breiddina sem Sjálfstæðisflokkurinn býður upp á að þessu sinni. Ármann Kr. Ólafsson leiðir listann og eru öflugur bæjarstjóri fyrir Kópavog.
 
Það skiptir máli hverjir stjórna. Sjálfstæðisflokkurinn í nágrannasveitarfélögunum í Garðabæ og Seltjarnarnesi er besti vitnisburðurinn um það, svo ekki sé talað um Reykjavík undir farsælli stjórn Davíðs Oddssonar á sínum tíma. Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er einn við stjórn, eru álögur á bæjarbúa í lágmarki og rekstur bæjarfélaganna til fyrirmyndar í alla staði. Þetta eru eftirsótt bæjarfélög með samkeppnisforskot á flestum sviðum. Það segir allt sem segja þarf.
 
Kópavogur hefur alla burði til að komast í þennan hóp úrvalsbæjarfélaga. Aðeins með góðum stuðningi Kópavogsbúa er það mögulegt.  
 

 


mbl.is Fjölskyldu- og skólamál í öndvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samband í tilvistarkreppu

Úrslit kosninga til Evrópuþingsins ætti ekki að koma neinum á óvart. ,,Báknið í Brussel" er að verða æ fjarlægara íbúum Evrópu eftir því sem það þenur meira úr sér til aðildarlanda sambandsins. Margir töldu að Evrópusambandið snérist fyrst og fremst um að auka viðskipti á milli ríkja Evrópu með fjórfrelsinu. Viðskiptahindrunum yrði rutt úr vegi, þar með myndi viðskiptakostnaður lækka og hagsæld í Evrópu myndi aukast. Það var alla vega hugsjónin.

En Evrópusamruninn dýpkaði með hverri reglugerðinni og tilskipuninni og á endanum snýst krafan um aðlögun á regluverki ríkja upp í andstæðu þess sem lagt var upp með. Algjör krafa um að innleiða fjórfrelsið og innri markað Evrópu kallar á afsal á fullveldi ríkja, sem eru tilneydd að láta markaðsöflin deila og drottna á kostnað samfélagslegra þátta, sem hægt og bítandi gefa eftir. Þannig myndast þrýstingur á velferðarkerfi ríkja í Norður- og Mið-Evrópu að aðlaga sig að vanþróuðum velferðarkerfum í Suður- og Austur-Evrópu. Það hefur myndast ójafnvægi innan ríkja Evrópu sem hefur leitt til félagslegrar kreppu og atvinnuleysis í stórum hluta álfunnar. Frelsi eins er helsi annars.

Ef ríki Evrópu finna ekki lausn á þessu tilvistarvanda þá liðast Evrópusambandið í sundur. Það kann að hafa óútreiknanlegar afleiðingar fyrir stöðugleika í heims- og efnahagsmálum.


Baráttujaxlar leggja boxhönskunum

Það verður eftirsjá í því að Evrópuvaktin hætti fréttaskrifum. Þeir félagar Björn og Styrmir hafa staðið vaktina, Evrópuvaktina, með miklum ágætum enda þar tveir reynsluboltar á ferð, eins og sagt er í íþróttum. Þeirra framlag til Evrópuumræðunnar hefur verið mikilsvert og á stundum eina mótvægið við þungan áróður Evrópusinna. Morgunblaðið undir ritstjórn Davíðs og Haraldar stendur ennþá eftir sem vin í eyðumörkinni sem málgagn sjálfstæðissinna. 
 
Vonandi hafa ráðherrar í núverandi ríkisstjórn vit á því að leita í smiðju þessara reynslumiklu baráttujaxla um ráð, þeir eru hafsjór af þekkingu um Evrópumál. Öðru verður satt best að segja ekki trúað en ráðherrar hafi og muni gera það. 

mbl.is Evrópuvaktin hættir fréttaskrifum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveggja tóna tal I & II

Sonur minn Jón Gabríel hefur nú lokið fyrsta ári í námi sínu við Listaháskóla Íslands og leggur stund á tónsmíði. Þann 17. maí sl. voru frumflutt verk eftir nemendur í Hörpu. Hér er frumflutningur á verki Jóns Gabríel, Tveggja tóna tal I & II, í flutningi Ísafoldarbrass. Ég er stoltur af stráknum, ágæt frumraun. Mjög gott framtak hjá Listaháskóla Íslands og vel að öllu staðið. 

 


Forsætisráðherra fer yfir árangur ríkisstjórnarinnar

Það er full ástæða til að hvetja alla til að lesa grein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, í Morgunblaðinu í dag. Þar fer hann yfir stöðuna, nú þegar eitt ár er liðið í dag frá því ríkisstjórn hans hóf framfarasókn í þjóðfélaginu. Það er ágætt að halda þessu til haga á sama tíma og stjórnarmeirihlutinn er hvattur til dáða. Vissulega er það afrek hve miklu ríkisstjórnin hefur komið til leiðar á aðeins einu ári, en eftir því var kallað af þjóðinni í síðustu alþingiskosningum. Og betur má ef duga skal og á það benti ég m.a. í pistli mínum í gær. Það er þrjú ár eftir og verkefnin ærin.
 

 


Ríkisstjórnin misstígur sig illa

 

Ríkisstjórnir geta verið sjálfum sér verstar. Síðasta ríkisstjórn er besta dæmið um það. Samt má segja henni til varnar að hún lifði af kjörtímabilið sem er Íslandsmet í sögu vinstri stjórna. Já, þrátt fyrir óstýrilátu VG villikettina, ,,í og úr" stjórnarstefnu í ESB aðild og Icesave fárviðrið, þá tókst forystufólki stjórnarflokkanna að standa saman í kattasmöluninni alveg fram á síðasta dag. Það var pólitískt afrek. Við vissum alltaf hvar við höfðum vinstri stjórnina þegar kom að því að taka rangar ákvarðanir. Hún var samkvæm sjálfri sér í sinni eigin tortímingu. 
 
Vinstri stjórnin fékk falleinkunn hjá kjósendum í alþingiskosningunum sem hefði átt að koma fáum á óvart. Ný ríkisstjórn tók við völdum. Nú yrði brett upp ermar og vorverkin hafin. Nýju stjórnarflokkarnir boðuðu endurreisn á Laugarvatni.
 
Nú þegar ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur ríkt í eitt ár er rétt að leggja mat á störf stjórnarinnar. Margt hefur hún gert rétt sem bætir axlarsköft síðustu tveggja ríkisstjórna. Það er þó ástæða til að velta fyrir sér hvert ríkisstjórnin er að fara í sumum málum. Annað er ESB málið, hitt skuldaleiðrétting í þágu heimilanna.
 
Í ESB málinu byrjaði ríkisstjórnin á því að biðja um skýrslu um stöðu samningaviðræðnanna við Evrópusambandið og í framhaldinu yrði tekin ákvörðun um framhald þeirra. Þetta gerði hún þrátt fyrir að báðir stjórnarflokkarnir séu á móti aðild að sambandinu og vilji stöðva viðræðurnar. Og það var ekki aðeins stefna stjórnarflokkanna, það var loforð þeirra við kjósendur. Loksins þegar skýrslan kom út þá ákvað ríkisstjórnin að leggja fram þingsályktunartillögu um slit viðræðnanna. Þessi málsmeðferð kom mörgum á óvart en sennilega ríkisstjórninni sjálfri mest. Því núna segir ríkisstjórnin að það hafi verið fljótfærni að leggja slitatillöguna fram á alþingi, og best sé að hún sofni svefni hinna réttlátu í utanríkismálanefnd þingsins. Stjórnarandstaðan hefur sem sagt haft sigur í málinu, en sumir myndu segja skynsemin af sigrað í þessu máli, aðrir að ríkisstjórnin hafi gugnað þegar á hólminn var komið. Hitt er annað mál að með þessari málsmeðferð hefur ríkisstjórninni tekist að rugla hörðustu stuðningsmenn sína svo svakalega í ríminu og ekki verður séð hvernig, hvenær, eða yfir höfuð hvort,  þeir nái áttum að nýju. Þetta er svona haltu mér, slepptu mér stefna.
 
Í skuldaleiðréttingarmálinu setti ríkisstjórnin verkefnastjóra yfir málið sem seint verður sagt að hafi traust þjóðarinnar að baki sér eftir rislitla sögu í stjórnmálum og viðskiptum þar áður. Það var svona eins og að veifa rauðri dulu framan í þjóðina. Sá er þetta ritar spáði því að verkefnisstjóranum tækist með töfrabrögðum að eyðileggja málið. Og það virðist honum hafa tekist með glæsibrag og víst má sjá Vilhjálm Bjarnason, þingmann, glotta í bakgrunni, meðan Pétur Blöndal reiknar og reiknar með sparisjóðaívafi og sér á eftir hverri krónu, enda þefvís á fé án hirðis.
 
Leiðréttingin á skuldum heimilanna er víst háð því hve kjörkuð ríkisstjórnin er að sækja gull í fjárhirslur ,,hrægammasjóðanna" með skattlagningu. Það átti að vera hægur leikur fyrir kosningar og var þá hvorki spurt um fjárhæðir né réttlæti. En nú stendur leiðréttingin og fellur á því á því hve margir sækja um leiðréttingu og hvort ríkissjóður hafi efni á að efna stærsta kosningaloforð í heimi! Forsendubrestur heimilanna er óskilgreindur og reiknaður út eftir á af reiknimeistara ríkisins. Ríkisstjórnin ætlar sem sagt að láta fólkið berjast um bitana eins og hungraða úlfahjörð án þess að vita í sjálfu sér hvort það verði myndarlegur kjaftbiti eða aum kjötflís sem verður til skiptanna. Eða þetta sagði verkefnisstjórinn sjálfur í sjónvarpinu í beinni í öllu sínu veldi, og það er hann sem ræður. Stjórnarþingmenn enn stútfullir af loforðum ráða greinilega engu um þetta.
 
Nei, ef leiðrétting á stökkbreyttum verðtryggðum skuldum heimilanna, á forsendubrestinum, kostar 100 milljarða, þá kostar hún 100 milljarða, ekki 80. Þá fjármuni lofaði annar stjórnarflokkurinn að sækja til ,,vondu hrægrammasjóðanna". Orð skulu standa. Eða er ríkisstjórnin kannski að segja að stjórnarandstaðan hafi haft rétt fyrir sér allan tímann?
 
Hér dugar ekkert hálfkák hjá stjórnarflokkunum. Látið ekki úrtölusöfnuðinn telja úr ykkur kjark. Að hika er sama og að tapa.
 


Heilbrigt samfélag

Niðurstaðan úr rannsókn sem Rauði krossinn kynnti í gær er áfellisdómur yfir íslensku samfélagi eins og það hefur þróast á undanförnum árum og áratugum. Að rúmlega 12.000 börn á Íslandi búi við fátækt og að 2.500 börn þurfi stöðugt á aðstoð hjálparstofnana að halda hlýtur að vekja okkur af værum blundi í velferðarmálum og í hvernig samfélagi við viljum búa. Viljum við vera þekkt fyrir að vita þetta og bregðast ekki við með sómasamlegum hætti?

Við þetta bætist svo ástandið í heilbrigðiskerfi landsmanna sem hefur verulega látið á sjá á undanförnum tveimur áratugum. Nú er hún Snorrabúð stekkur. Kostnaður krabbameinsjúklinga hefur hækkað um 15% frá árinu 2008 samkvæmt annarri rannsókn sem var kynnt í vikunni. Við getum gefið okkur að kostnaður sjúklinga sem glímur við aðra sjúkdóma hafi hækkað enn meira en þetta. Dagdeildarþjónusta er orðið normið á Landspítalanum þ.e.a.s. að sjúklingar fá þjónustu á dagdeild og eru síðan sendir heim til að auka hagræðingu í heilbrigðiskerfinu. Með þessu er ,,kostnaðarvitund sjúklinga" ofarlega í huga sjúklinga þegar þeir þurfa að leita sér lækninga. Þetta hefur síðan þær afleiðingar, sem kom fram í fyrrgreindri rannsókn, að þeir sem veikastir eru í þjóðfélaginu leita sér ekki lækninga nema í algjörri neyð. Öryrkjar, aldraðir, einstæðar mæður og þeir þjóðfélagshópar sem eiga undir högg að sækja í þjóðfélaginu okkar hafa sem sagt ekki lengur efni á að nýta sér heilbrigðiskerfið okkar. 

Þarf þetta að vera svona? Eru við Íslendingar það illa settir fjárhagslega að við getum ekki boðið upp á manneskjulegt heilbrigðiskerfi óháð efnahag? Það er jafnframt eðlilegt að spyrja: Hvaða leyfi höfðu stjórnmálamenn til að breyta þessari grunnhugsjón Íslendinga að hér á Íslandi væri heilbrigðiskerfi fyrir alla sem þyrftu á því að halda óháð efnahag, stöðu og búsetu? Hve margar ræður voru fluttar á Alþingi Íslendinga á nýloknu þingi um þá grundvallarbreytingu sem hefur átt sér stað á viðhorfi stjórnvalda til heilbrigðisþjónustu við þegna landsins?

Núverandi ríkisstjórn tók loksins af skarið í síðustu fjárlögum með 4 milljarða aukafjárveitingu til heilbrigðiskerfisins til að snúa þessari óheillaþróun við. Það var stórmannlegt. En það þarf að gera betur. Það þarf að nýju að tryggja að öflugt heilbrigðiskerfi sé til staðar, fyrir alla, og þá sérstaklega þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Óbreytt ástand á ekki að vera ásættanlegt í þjóðfélagi sem svo sannanlega hefur efni á að reka öflugt heilbrigðiskerfi sem tekur sjúkum opnum örmum í stað þess að boða kostnaðarvitund sjúklinga í nafni hagræðingar. Aðeins þannig byggjum við upp heilbrigt samfélag. Það borgar sig.


Hinn pólitíski ómöguleiki og grafreitur glórulausra kosningaloforða

 

Að vera umsóknarríki að Evrópusambandinu eða vera ekki umsóknarríki að Evrópusambandinu. Þar liggur efinn. Greinilega í huga valdhafa hverju sinni.
 
Síðasta ríkisstjórn sótti um aðild en ákvað svo að svæfa aðildarferlið þegar það stóð á krossgötum. Einmitt þegar reyndi á ágreiningsmálin milli samningsaðila þá flúði ríkisstjórnin af hólmi. Í stað þess að hefja glímuna um sjávarútvegsmálin þá varð það að þegjandi samkomulagi á milli þáverandi ríkisstjórnar og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að láta þann heita kolamola ósnertan. Brenndir og brennimerktir vildu þáverandi stjórnarflokkar ekki eiga samtal við kjósendur í komandi alþingiskosningum. 
 
Stjórnarandstaðan vann algjöran sigur í síðustu alþingiskosningum eins og frægt er orðið. Annað eins afhroð í kosningum hafa stjórnarflokkar ekki hlotið á lýðveldistímanum. Þar var slegið enn eitt heimsmetið og þarf þá ekki að grípa til hausatölu landsmanna. Þáverandi ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum og allir töldu að þar með væri ESB umsóknin dauð og grafin. 
 
Við tóku stjórnarflokkar sem báðir höfðu á stefnuskrá að gera einmitt þetta: Drepa og grafa ESB umsóknina í grafreit glórulausra kosningaloforða. Að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu miðað við núverandi aðstæður er akkúrat þetta: glórulaust kosningaloforð!
 
En það merkilega virðist vera að gerast. Núverandi ríkisstjórn ákvað ekki að fara með kosningaloforð síðustu ríkisstjórnar um umsókn að Evrópusambandinu í þann grafreit. Nei, þeir virðast hafa ákveðið að dröslast með sitt eigið loforð við kjósendur í þann volaða grafreit. Ríkisstjórnin hefur þar með svarað spurningunni í verki um pólitískan ómöguleika og glórulaust kosningaloforð. Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu er ekki dauð. Hún lifir og það góðu lífi. Þökk sé ríkisstjórn Íslands. Þetta hlýtur að teljast til enn eins heimsmetsins. Í hverju skal ósagt látið.
 


mbl.is Samkomulag um þinglok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband