Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014
Hefur þjóðfélagið efni á að hækka laun lækna um helming?
Miðvikudagur, 31. desember 2014
Yfirlýsing Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, í læknadeilunni hefur vakið athygli. Vonandi segir það okkur að deilan sé að ná hámarki. Það er nú eða aldrei að ná samningum. Tíminn er tifar og klukkan slær um áramót. Ef deilan framlengist framyfir áramót er hætt við að deilan verði langvinn, eða endi með lagasetningu. Ef til þess kemur er hætt við að landflótti lækna nái nýjum hæðum.
Staða ríkisstjórnarinnar, og þá sérstaklega fjármálaráðherra, er ekki öfundsverð. Ef rétt er að kröfur lækna séu um næstum 50% launahækkun, verður ekki séð hvernig íslenska ríkið, við skattgreiðendur, höfum efni á þannig samningum. Höfum í huga að útgjöld til heilbirgðismála er einn af stærstu gjaldaliðum fjárlaga íslenka ríkisins. Það kann að leysa deiluna að láta undan en áhrifin er jafn skammvinn og að pissa í skóinn sinn í vetrarhörku.
Já, höfum við efni á að hækka laun lækna um helming? Og svo má auðvitað líka spyrja: Höfum við efni á að gera það ekki?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stjórnsýslan er ekki óvinur stjórnmálamanna
Mánudagur, 29. desember 2014
Tími til að hagræða í ríkisrekstri hlýtur að vera á öllum tímum. En eitt er að hagræða, annað að skera niður lögskipaða velferðarþjónustu við borgarana. Þar skilur á milli feigs og ófeigs. Auðvitað gætum við lagt niður dómstóla landsins, lögregluna og heilbrigðiskerfið í nafni hagræðingar í ríkisrekstri. Það myndi líta vel út í Excel. Það myndi líta vel út á gjaldahlið fjárlaga. Viljum við búa í þannig þjóðfélagi?
En til hvers ættum við þá að borga skatta? Jú, er það ekki vegna þess að við íbúar þessa lands viljum hafa hér öflugt heilbrigðiskerfi, sem grípur okkur í græðandi faðm sinn þegar við veikjumst, réttarríki með dómsstólum sem dæma eftir lögum og rétti, og lögreglu sem heldur uppi lögum og reglu? Fyrir það borgum við skatta af launum okkar og ráðstöfunartekjum með bros á vör.
Ef hrunið kenndi okkur eitthvað þá var það að án skilvirkrar stjórnsýslu bjóðum við hættunni heim. Ekki viljum að siðleysið í viðskiptalífinu fái aftur að vaða uppi og yfir þjóðina með hrikalegum afleiðingum, eða hvað? Auðvitað væri best að uppræta siðleysið og spillinguna í eitt skipti fyrir öll. Þá gætum við skorið niður í eftirlitsstofnunum stjórnsýslunnar með góðri samvisku. En sá tími er ekki kominn og kemur sennilega aldrei.
Stjórnmálamenn eiga að líta á opinbera stjórnsýslu sem vin en ekki óvin. Stjórnsýslan er hinn opinberi armur löggjafavaldsins sem á að þjóna borgurunum í nafni ríkisins. Stjórnsýslan á ekki að þurfa að vinna í skugga stjórnmálamanna, frekar en stjórnsýslan eigi að öðlast sjálfstætt líf í ,,kerfinu". Í þessu liggur leyndardómur ,,góðrar" stjórnunar ríkisins.
![]() |
Hagsmunaöfl í vegi hagræðingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þrjú baráttumál vinstri stjórnarinnar rifjuð upp
Mánudagur, 29. desember 2014
Um áramót er ágætt að rifja upp stærstu baráttumál vinstri stjórnarinnar sem Samfylkingin leiddi.
Hatrömm barátta ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, með stuðningi núverandi forystumanna Bjartrar framtíðar, gegn efnahagslegu fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar með tilraunum til að ríkisvæða risavaxnar einkaskuldir fallna Landsbankans er eitt baráttumál þeirrar ríkisstjórnar, sem þjóðinni tókst að koma í veg fyrir með þjóðarátaki gegn málinu.
Einörð barátta vinstri stjórnarinnar gegn fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar með aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir einarðan ásetning tókst ríkisstjórninni ekki það ætlunarverk sitt, sem betur fer.
Að síðustu skal hér rifjað upp barátta vinstri stjórnarinnar gegn stjórnarskrá Íslands. Ásetningurinn var klár, en hver var árangurinn?
Um þessi áramót þökkum við fyrir árangursleysi ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, með stuðningi forystumanna Bjartrar framtíðar, í öllum þessum þremur málum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Gleðilega jólahátíð!
Miðvikudagur, 24. desember 2014
Það bendir allt til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins sé á réttri leið. Þrátt fyrir það eru verkefnin ærin. Stærstu úrlausnarefnin liggja fyrir.
Lausn á læknadeilunni þarf að finnast fyrir áramót. Fjármála- og heilbrigðisráðherra er best treystandi til að landa samningi fyrir áramót sem er landi og þjóð til sóma gagnvart læknastéttinni, og á sama tíma rúmast innan þolmarka ríkisfjármála. Álitsgjafar á vinstri kanti stjórnmálanna krefjast þess að samið verði við lækna hvað sem það kostar, og fullyrða að það muni ekki hafa áhrif á aðra kjarasamninga eða efnahagslegan stöðugleika. Annað er að heyra á forseta ASÍ sem er kominn í pólitískt stríð gegn ríkisstjórninni, þrátt fyrir að síðustu kjarasamningar sem hann átti stóran þátt í að gera, hafi skilað efnahagslegum stöðugleika og aukningu kaupmáttar þorra launafólks. Helst er að heyra á honum að þessi árangur sé honum ekki að skapi.
Það en nefnilega svo að þó að við viljum gera vel við lækna, sem er forsenda þess að hér sé hægt að bjóða upp heilbrigðiskerfi sem er eitt hið besta á heiminum, þá verðum við að tryggja grundvöllinn. Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við hefur verið unnið að því hörðum höndum. Eitt af því er afnám hafta, annað er ábyrg stjórn ríkisfjármála með hóflegri skattheimtu, og það þriðja er öflugt atvinnulíf, sem skapar atvinnu fyrir alla og hefur burði og vilja til að greiða samkeppnishæf launakjör.
Við sem fámenn þjóð við ysta haf verðum að standa saman í endurreisninni. Sundurþykkja meðal okkar og hatrammar stjórnmála- og kjaradeilur eru vís leið til að gera vonir um slíka endurreisn að engu.
Megi Guð og gæfan færa okkur farsæld og gleði á nýju ári.
Gleðilega jólahátíð!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áfangasigur MS og vindhögg Egils Helgasonar
Föstudagur, 19. desember 2014
Atlagan að MS virðist hafa runnið út í sandinn eftir að áfrýjunarnefnd samkeppnismála ógilti úrskurð Samkeppniseftirlitsins. Það var áfangasigur fyrir MS og þar með íslenskan landbúnað. Umfjöllun um málið í Kastljósi í fyrradag og skeleggur málflutningur lögfræðings MS, Heiðrúnar Lindar, undirstrikaði að það er maðkur í mysunni þegar kemur að hlutlausum og heiðarlegum fréttaflutningi flestra fjölmiðla um MS og íslenskan landbúnað. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þessu máli lyktar.
Þá fjallar Egill Helgason um þá skoðun Frosta Sigurjónssonar, alþingismanns, að honum finnist að vanda megi betur innleiðingu ESB reglna í íslensk lög. Þannig er haft eftir Frosta á RÚV:
Það er frekar slæmt að maður er kosinn á þing og svo fær maður svörin þú ert kosinn tíu árum of seint, þú hefðir átt að vera hérna fyrir tíu árum að segja þessa hluti. Það er ekki svoleiðis, við þingmenn hljótum að vilja hafa eitthvað að segja um það hvernig lög eru sett, við erum lýðræðislega kjörnir og það er ekki ásættanlegt að einhverjir embættismenn segi okkur að það sé of seint.
Og Egill dregur þá ályktun að þetta sýni að Frosti sé illa upplýstur um þessi mál og spyr: Frosti er varla að fatta þetta fyrst núna? Við sem þekkjum til vandaðra vinnubragða Frosta, sem kynnir sér málin ofan í kjölinn, finnst að hér leggist Egill lágt í málflutningi.
Þessi áróðurstækni Egils þarf kannski ekki að koma á óvart. Þetta er sami málflutningur og fylgjendur aðildar Íslands að ESB hafa haldið á lofti. Hann gengur út á að EES ríkin séu búin að afsala sér svo miklu fullveldi með EES samningnum að það borgi sig að fara alla leið og gerast ,,fullir aðilar" að ESB, eins og það er orðað. Með því að senda sex þingmenn á þing Evrópusambandsins þar sem sitja fyrir rúmlega 700 þingmenn, fá einn meðlim í framkvæmdastjórn sambandsins (sem vel að merkja er þó ekki fulltrúi Íslands þar inni, heldur ESB) og fulltrúa í ráðherraráðið, þá ráði Íslendingar því sem þeir vilji ráða. Hefur einhver maður trú á því?
Kjarni málsins er þó sá að ef Íslendingar vilja hafa meiri áhrif á regluverk ESB þá geta þeir það ef þeir kjósa svo. Það geta þeir í gegnum regluverk EES samstarfsins, með því að vera virkari á þeim stöðum sem þeir hafa fullan aðgang að, koma fyrr að setningu reglna, og beita sér með ákveðnari og vandaðri hætti á öllum stigum mála. Það þýðir m.a. að óska eftir undanþágum frá regluverki ESB ef það hentar ekki íslenskum aðstæðum (Þetta tókst t.d. í ráðherratíð Kristjáns L. Möllers, þegar við fengum undanþágu frá reglum um hvíldartíma atvinnubílstjóra eftir að reglurnar höfðu verið settar).
Og það er einmitt það sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er að leggja grunninn að undir forystu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra. Þetta er hin nýja Evrópustefna íslenskra stjórnvalda; að sækja fram á öllum sviðum en hætta undanhaldinu.
Enda segir í sömu frétt RÚV á heimasíðu þeirra:
Í fréttum RÚV fyrir um ári var nokkuð fjallað um það hve illa íslenskum stjórnvöldum gengur í samanburði við Noreg, Liechtenstein og öll ríki Evrópusambandsins að taka upp reglur evrópska efnahagssvæðisins. Gloppur sem myndist á evrópska efnahagssvæðinu, þegar reglur eru ekki innleiddar á réttum tíma, komi sér illa fyrir bæði fyrirtæki og neytendur.
Ef Noregur og hvað þá Liechtenstein geta gert betur en við, önnur ríki EES samningsins, segir það ekki einmitt að við þurfum að nýta tækifærin betur innan EES? Við þurfum ekki að ganga í ESB til þess frekar en tvö fyrrgreind ríki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gylfi sveiflar sverðinu
Miðvikudagur, 17. desember 2014
Á sama tíma og ríkisstjórnin byggir upp og samþykkir ,,endurreisnarfjárlög", svo vitnað sé í forsætisráðherra þjóðarinnar, þá ætlar Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og fyrrverandi félagi í Samfylkingunni, að rífa niður. Öll fjögur ár síðasta kjörtímabils í tíð vinstri stjórnarinnar sat hann á kontór sínum og fylgdist með vinstri stjórninni rífa niður kaupmátt, rífa niður heilbrigðiskerfið, rífa niður stjórnarskrá lýðveldisins, rífa niður efnahagslegt sjálfstæði ríkisins með Icesave samningunum, rífa niður sjávarútveginn, rífa niður skuldug heimili og fyrirtæki, rífa niður forsendur kjarasamninga, rífa niður sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar með aðildarviðræðum við Evrópusambandið, svo nokkur dæmi séu tekin af handahófi.
Já þá, þagði hann þunnu hljóði og klappaði félögum sínum í Samfylkingunni á öxlina vegna tilræðisins við fullveldið. Þá blæddi heimilunum út, meðan hrægammasjóðir hrifsuðu bankana til sín í skjóli nætur, og ríkisstjórnin setti sérstök lög gegn hagsmunum heimilanna, til að þóknast fjármagnseigendum (Árna Páls lögin).
En nú, þegar kaupmáttur hefur aukist, verðbólga er í sögulegu lágmarki, skuldir heimilanna hafa verið leiðréttar af ríkisstjórninni (ekki dómsstólum eins og þurfti að gera í tíð vinstri stjórnarinnar), efnahagslegur stöðugleiki ríkir, gengi krónunnar er stöðugt, skattar hafa lækkað, endurreisn velferðarkerfisins er hafin, já þá, ætlar Gylfi Arnbjörnsson að setja ríkisstjórninni úrslitakosti. Já, nú er sverðinu sveiflað, sem var í slíðrum allt síðasta kjörtímabil, þegar félagar Gylfa stjórnuðu landinu og vegferðinni var heitið til fyrirheitnalandsins í Brussel.
![]() |
Setja úrslitakosti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er menningin í hættu?
Laugardagur, 13. desember 2014
Já, það varð hrun. Og undirstöður þjóðfélagsins riðuðu til falls, en féllu þó ekki. Hægt var að verja grunnstoðir velferðarkerfisins. Þá vakt stóðu vinstri og hægri menn, og allur pólitíski tónskalinn þar á milli. En megrunarkúr kann vera hollur um tíma en með tímanum breytist hann í hungurkúr, sem lamar þjóðarlíkamann hægt og bítandi. Þannig er komið fyrir heilbrigðiskerfinu okkar og þjónustu við aldraða og öryrkja.
En að halda því fram að Ríkisútvarpið sé í hættu er oftúlkun listamanna eins og Jakobs Frímanns sem nýtir sér stað og stund til vera í framboði.Auðvitað er þessi stofnun vel haldin ef við berum hana saman við ástandið í heilbrigðiskerfinu, sem siðmenntað velferðarþjóðfélag stendur og fellur með. Sama er að segja um yfirlýsingar um að menning þjóðarinnar sé í hættu enda er menningin sjálfsprottin og harðgerð jurt sem lifir meðan þjóðin tórir í þessu landi elds og ísa.
Hitt er svo annað mál að vandaður þjóðarfjölmiðill sem gætir hlutleysis í hvívetna í orði og athöfn er öryggisventill lýðræðisins í landinu. Að því hlutverki þarf að hlúa og ennþá tel ég meirihluta þjóðarinnar vera á sömu skoðun. Þeir fjármunir sem lagðir eru til af hendi skattborgara í dag ættu að vera nægjanlegir til að RÚV geti sinnt þessu hlutverki sínu af reisn.
![]() |
Vilja fá að borga tvö þúsund kallinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.12.2014 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Trúboð gegn kristnum sið
Miðvikudagur, 10. desember 2014
Það er vel til fundið hjá forsvarsmönnum Langholtsskóla að heimsækja hverfiskirkjuna, Langholtskirkju, í tilefni jólahátíðar. Þannig fá börnin að kynnast kristnum sið sem byggist á jólahefð þorra Íslendinga. Þekking getur aldrei skaðað neinn ef fræðslan er sett fram með virðingu fyrir mannréttindum og trúfrelsi einstaklinga.
Með því að gefa nemendum kost á að kynnast kristnum sið og hefðum Íslendinga verður ekki séð að brotið sé á mannréttindunum. Að halda því fram að um trúboð sé að ræða er ofstæki. Kristin gildi eru samofin menningu íslensku þjóðarinnar og verður vonandi svo áfram þrátt fyrir trúboð hins pólitíska Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar.
![]() |
Líf gagnrýnir heimsókn í kirkju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Náttúrupassi dagar uppi sem nátttröll
Miðvikudagur, 10. desember 2014
Sum fyrirbæri þola ekki dagsljósið og daga uppi sem náttúrutröll. Hugmynd ráðherra ferðamála um náttúrupassa er eitt þessara fyrirbæra. Ráðherra segist ekki hræðast umræðuna. Það sýnir best dómgreindarskort ráðherrans á þessari vondu ráðagerð sinni. Því meiri umræða sem verður um málið því ver lítur það út.
Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður, sagði réttilega í Kastljósi gærdagsins að ætlun ráðherrans að koma á náttúrupassa með þeim hætti sem er lýst í frumvarpi háttvirts ráðherrans yrði aldrei að veruleika. Það væri andstætt frelsishugsjón Íslendinga að takmarka umgengi landsmanna um eigin náttúruperlur eins og frumvarp ráðherra ferðamála mun gera ef það nær fram að ganga. Þar held ég að Steingrímur J. Sigfússon reynist sannspár. Það er trú mín að í þessu máli standi þorri sjálfstæðisfólks með Steingrími eins og hann flutti ágætlega mál sitt í Kastljósi þrátt fyrir freklega frammíköll stjórnanda. Við þetta má síðan bæta að hér er ráðherra Sjálfstæðisflokksins að leggja til nýjan skatt og aukinn ríkisrekstur með víðtæku eftirlitskerfi þar sem Íslendingar verða sektaður um 15.000 krónur á Þingvöllum ef þeir hafa ekki keypt sig inn á þennan helgasta stað Íslendinga. Þarf einhverju við þetta að bæta?
Á sama tíma er umhugsunarefni fyrir ráðherra Sjálfstæðisflokksins að leggja fram svo galið frumvarp sem stríðir gegn grunngildum sjálfstæðisstefnunnar. Það er alvarlegt dómgreindarleysi af hennar hálfu.
![]() |
Ráðnir verða náttúruverðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Óvæntur og djarfur leikur
Föstudagur, 5. desember 2014
Ráðherraleikur Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, var óvæntur. Og eins og í góðri skák þá hrökkva menn upp við eftir að hafa legið yfir stöðunni og úthugsað alla mögulega leiki, en síðan er kemur leikur sem enginn átti von á. Fyrstu viðbrögð eru undrun og vantrú.
Og þannig var það með djarfan ráðherraleik formanns Sjálfstæðisflokksins að skipa Ólöfu Nordal innanríkisráðherra. Sumir spurðu hvort þetta væri löglegur leikur í stöðunni. Er skákborðið ekki bara 64 reitir og aðeins hægt að færa þá taflmenn sem eru á borðinu (þ.e. meðlimir þingflokks Sjálfstæðisflokksins)? En vinstri stjórnin bjó til nýjar leikreglur, sem fjölgaði taflmönnunum á borðinu.
Staða Ólafar Nordal er þó sérstök. Ekki er langt síðan að hún var varaformaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en vegna óvæntra veikinda þá vék hún af velli. Nú hefur Bjarni formaður kallað hana aftur til starfa við mjög óvenjulegar aðstæður í stjórnmálum.
Það á eftir að koma í ljós hve góður eða slæmur ráðherraleikurinn mun reynast. Nú, þegar dagur er á enda runninn þá bendir allt til þess að Bjarni hafi styrkt stöðu Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar til muna í dag. Það hafa reyndir pólitískir andstæðingar flokksins áttað sig á. Fyrsti dagur Ólafar Nordal í ráðherrastól lofar góðu með framhaldið.
Formaðurinn þarf þó að gera sér grein fyrir að metnaðarfullum einstaklingum í þingflokknum sárnaði þessi taflmennska Bjarna. Það kann að draga dilk á eftir sér. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins munu reyna að magna upp draug ólgu, öfundar og óánægju innan þingflokksins. En auðvitað munu sjálfstæðismenn á þingi sjá í gegnum það þunna leikrit stjórnarandstöðunnar, og standa saman sem einn maður að baki forystu flokksins og nýjum ráðherra.
Þegar ég hvatti ríkisstjórnina til ,,að hugsa út fyrir boxið" til að finna lausn á læknadeilunni þá datt mér ekki í hug að snjallt væri að gera það líka í vali á nýjum ráðherra. En það hefur Bjarni gert og mælist vel fyrir hjá almenningi.
![]() |
Ólöf Nordal nýr innanríkisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)