Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Bjarni Benediktsson heillar sjálfstæðisfólk í Kópavogi

Myndina tók pistlahöfundurBjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, mætti á morgunfund í Kópavoginn hjá Sjálfstæðisfélagi Kópavogs. Það var fullt út úr dyrum og þurftu þeir sem komu seint að láta sig hafa það að standa allan fundinn sem tók á þriðja klukkutíma. 

Bjarni Benediktsson fór vel yfir stjórnmálasviðið og verkefni ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins þetta eina og hálfa ár sem stjórnin hefur starfað. 

Það sannaði ræða hans í morgun í þéttsetnum sal sjálfstæðisfólks að vegur Bjarna sem formanns Sjálfstæðisflokksins vex með hverjum deginum sem líður, eins og einum fundarmanni varð að orði. 

Formaðurinn talaði af mikilli sannfæringu. Þekking hans á þeim viðfangsefnunum er slík að andstæðingar hans eru ekki öfundsverðir. Þetta steinlág hjá formanni Sjálfstæðisflokksins. Hvergi var veikan blett að finna í málflutningi hans, sama hvar var komið niður.

Í pistli hér á Moggablogginu hefur Halldór verkfræðingur farið ágætlega yfir efni ræðu Bjarna. Ræðu sem stóð yfir á aðra klukkustund og alls um tvær klukkustundir með svörum við fjölmörgum fyrirspurnum fundarmanna. Samt stórefa ég að nokkrum hafi leiðst sem segir sína sögu.

Staða Bjarna Benediktssonar sem leiðtogi sjálfstæðismanna hefur aldrei verið sterkari. 

 

mbl.is Náttúrupassi samþykktur í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gera eitthvað annað og helst ekki neitt

Ég held að fæstir séu með á nótunum þegar kemur að rammaáætlun um virkjunarkosti. Þess vegna botna fáir í upphlaupinu á Alþingi þar sem þingmaður Pírata skipar öðrum þingmönnum ,,að steinhalda kjafti". Og þingheimur þagnaði - um stund. 

Össur Skarphéðinsson, fyrrv. utanríkisráðherra, hefur lýst því ágætlega hvernig virkjunarkostir voru fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk í baktjaldamakki forystufólks Samfylkingar og Vinstri grænna. Í reykfylltu herberginu gáfu Vinstri grænir Samfylkingunni frítt spil í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið á meðan Samfylkingin leyfði Vinstri grænum frítt spil í að slá allri framtíðaruppbyggingu í orkumálum á frest. Þannig héldu Vinstri grænir í heiðri stefnu sinni ,,að gera bara eitthvað annað í atvinnumálum" og helst ekki neitt.

Annars var það óþarfi hjá Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, að hleypa öllu upp á Alþingi með því að veifa rauðri dulu framan í stjórnarandstöðuna. Enda kom umhverfisráðherra af fjöllum og taldi þetta ekki skynsamlegt útspil hjá nafna mínum. Sumir myndu flokka þetta upphlaup undir umhverfisspjöll í stjórnmálum, enda hugmyndin um rammaáætlun frá framsóknarmönnum komin, og gekk út á að halda friðinn en alls ekki að efna til ófriðar. 


mbl.is „Bara steinhaldið kjafti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bentu í austur, bentu í vestur. Bentu á þann sem að þér þykir bestur

Það er úr vöndu að ráða með val á næsta ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Margir kom til greina sem sýnir best að þingbekkur sjálfstæðismanna hefur á að skipa hæfum einstaklingum. 

Við val á ráðherra þarf flokkurinn að varast að skipa einstaklinga sem eru umdeildir. Það útilokar strax Pétur Blöndal, Guðlaug Þór Þórðarson, Brynjar Níelsson og Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Þá hafa helst verið nefndir Einar K Guðfinnsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Birgir Ármannsson. Þau tvö fyrstnefndu koma úr landsbyggðarkjördæmum meðan Birgir er fulltrúi Reykvíkinga.

Öll finnst mér koma sterklega til greina og yrðu Sjálfstæðisflokknum til sóma í ráðherrastóli. Núverandi ráðherrar flokksins koma úr Kraganum, Norðausturlandi, Suðurlandi (Suðurnesjum) og Reykjavík.

Enginn ráðherra kemur úr kjördæmi Einars K Guðfinnssonar, Vesturlandi, sem hlýtur að gefa honum forskot á aðra. Sama er að segja um þá reynslu sem Einar K hefur eftir áratugasetu á Alþingi og sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þá er Einar K óumdeildur, er fulltrúi mikilvægs kjördæmis, einharður sjálfstæðissinni og annálaður mannasættir.

Ef skipa á konu í ráðherrastól þá kemur Unnur Brá Konráðsdóttir sterklega til greina. Hún er óumdeild, harður andstæðingur aðildar að Evrópusambandinu, eins og Hanna Birna, og staðfesta hennar í Icesave málinu sýndi að þar er á ferð sjálfstæður og sterkur stjórnmálamaður. Hún er úr sjávarútvegs- og landbúnaðarkjördæmi og ekki veitir af að þessar atvinnugreinar eigi sterka talsmenn í ríkisstjórn.

Birgir Ármannsson er gegnheill sjálfstæðismaður sem lætur ekki sviptivinda í stjórnmálum hagga sér. Reykvíkingar gera tilkall til meiri valda og því er eðlilegt að horft sé til Birgis í því sambandi. Hann er sömuleiðis andstæðingur aðildar Íslands að Evrópusambandinu, lögfræðingur sem kemur sér vel í innanríkisráðuneytinu þar sem dómsmálin eru undir, og óumdeildur gallharður talsmaður grunngilda sjálfstæðisstefnunnar. Menn eins og Birgi er fengur að hafa með í liði sínu. Það er hins vegar álitamál að Sjálfstæðisflokkur skipi fjóra af fimm ráðherrum af suðvesturhorni landsins, því Ragnheiður Elín kemur af Suðurnesjum. 


mbl.is Pétur vill verða ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Upp upp mín sál og allt mitt geð"

Ríkisstjórnin er komin með vindinn í bakið eftir vel útfærða skuldaleiðréttingu, en ekki síður nýtur ríkisstjórnin batnandi hags þjóðarbúsins og þjóðarinnar allrar. Allar vísitölur eru á uppleið og þar með væntingavísitala Gallup.  

Alþingi fær það vandasama hlutverk að úthluta ,,nokkuð stórum upphæðum" eins og það er orðað við fjárlagaliði í fjárlögum ríkisins á næsta ári. Á slíkum stundum þarf að vanda til verka enda víða fjárþörf. Það er ekki annað að sjá en að Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, kunni vel við sig í þessu hlutverki og sé vandanum vaxin.

 


mbl.is Ný útgjöld kynnt á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár lykilspurningar um lekamálið

Það var fínt hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, að bregða sér af landi brott úr argaþrasi stjórnmálanna, enda hefur hún sennilega fengið sig fullsadda af því. Þá mun hún sjá lekamálið í víðara samhengi. 

Það sem stendur eftir að fá svör við varðandi hið fræga minnisblað sem lak út úr innanríkisráðuneytinu, og þar með dómsmálaráðuneyti ríkisins, er þetta:

1. Hver bað um að minnisblaðið yrði tekið saman? Það hlýtur að vera lykilspurningin í málinu.

2. Hver samdi minnisblaðið? Það hefur komið í ljós hjá aðstoðarmanni Hönnu Birnu að hann samdi ekki minnisblaðið og ennþá hefur ekki komið fram hver bað um að umrætt minnisblað yrði tekið saman í ráðuneytinu. Þessu þarf að fá svar við.

3. Hvaða gögn hafði höfundur minnisblaðsins í höndum við samningu þess? Nýjasta átakamálið, sem núverandi lögreglustjóri Reykjavíkur er flæktur inn í, er að fá svör við hver hafði leyfi til að biðja um upplýsingar frá lögreglu. Það hefur einnig komið í ljós að þær upplýsingar sem nú er tekist á um að hafi komið frá lögreglunni á Suðurnesjum voru ekki sendar í ráðuneytið fyrr en eftir að minnisblaðið var búið til í ráðuneytinu og eftir að það lak út. Það þýðir að innanríkisráðuneytið hafði fengið einhverjar upplýsingar áður, og því er mikilvægt að það verði upplýst hvaðan þær upplýsingar komu og hver bað um þær upplýsingar. Þau gögn ættu þá að vera til í skjalasafni ráðuneytisins geri ég ráð fyrir.

 


mbl.is Hanna Birna erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

John F Kennedy: "An error does not become a mistake until you refuse to correct it"

Lekamálið fer í sögu- og kennslubækur. Lærdómurinn af því er margþættur og mikilvægt að hver læri sína lexíu. Sá virti fræðimaður Ólafur Þ Harðarson, stjórnmálafræðiprófessor, fór ágætlega yfir þetta í fréttatíma ríkissjónvarpsins. Vonandi hlustaði ,,þjóðin" en ekki síður stjórnmálamenn og fjölmiðlafólk á þessa stuttu en hnitmiðuðu kennslustund Ólafs, sem með sönnu má kalla fræðimann úr Háskóla Íslands.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, telur sig þurfa að bera blak á samherjum sínum í stjórnmálum. Honum væri þó hollt að hafa hugfast að hann er forsætisráðherra ,,þjóðarinnar" og talar sem slíkur, en ekki sem vinur ,,vina sinna" í stjórnmálum sem kunna að bera sig aumlega í lýðræðislegu réttarríki.  

Lekamálið verður fært í kennslubækur í stjórnmálafræði, fjölmiðlafræði og opinberri stjórnsýslu. Um ókomna tíð munu menn læra af mistökum sem stjórnmálamenn gerðu, aðhaldshlutverki fjölmiðla, en ekki síður, af staðföstum embættismönnum sem stóðu sína vakt, hafandi í huga að:

Stundin er alltaf rétt til að að gjöra hið rétta.   

Ræða John F Kennedy, forseta Bandaríkjanna (og ,,húgenotti"), fjallar um hlutverk fjölmiðla og stjórnvalda í lýðræðislegu þjóðfélagi, og það á vel við að birta hana hér að nýju af þessu tilefni. 


Sjálfsmörk í fótbolta og stjórnmálum

776796Þeir sem horfðu á hið frábæra landslið okkar í fótbolta leika gegn Tékkum í gær eru sennilega ennþá með ónotaverk í maganum eftir sjálfsmarkið sem gerði út um leikinn. Þjálfarinn var sennilega of seinn að skipta út leikmönnum til að styrkja vörnina þar sem hún var veikust fyrir. 

Stjórnmál eru stundum eins og fótbolti. Þar keppast andstæð lið að skora í mark andstæðinganna. Verst líður manni ef liðið manns skorar sjálfmark. Og best líður manni þegar það skorar, og auðvitað ef það leiðir síðan til sigurs. Vinstri stjórnin hennar Jóhönnu skoraði aðallega sjálfsmörk, okkur andstæðingum hennar til ómældrar gleði. Það furðulega var þó að stuðningsmenn stjórnarflokkanna virtust fagna sjálfsmörkunum líka. Þeir föttuðu það bara ekki fyrr en eftir leikinn að þetta væru sjálfsmörk! En það er önnur saga.

Stuðningsmenn ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafa horft upp á mörk og sjálfsmörk stjórnarinnar. Glæsilegt og tilþrifamikið mark var skorað þegar ríkisstjórnin landaði skuldaleiðréttingunni. Þá skoraði ríkisstjórnin með lækkun skatta, ábyrgri efnahags- og fjármálastjórn og viðsnúningi í fjármagni til heilbrigðisþjónustu í upphafi ferilsins. Allt hefur það og mun leiða til kjarabóta fyrir alla í samfélaginu.

En sjálfsmörkin hafa verið nokkur því miður á sama tíma. Hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á ESB málinu stefnir í að verða eitt af furðulegastu og langdregnastu sjálfsmörkum stjórnmálasögunnar. Boltinn er þó ekki inni ennþá. Þá er lekamálið og eftirmál þess klárlega sjálfsmark. En í stað þess að þjálfarinn skipti leikmanninum út af sem er ábyrgur, þá virðist leikmanninum í sjálfsvald sett hve lengi hann fær að hanga inná. Og að síðustu er hækkun á neðra þrepi virðisaukaskattsins, matarskattsins svokallaða, sjálfsmark ef af verður. Megi Guð og lukkan forða okkur stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar frá því slysi.   


mbl.is Frosti styður ekki hækkun matarskatts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innanríkisráðherra gefi ríkisstjórninni starfsfrið

gnarr_og_co-4xLekinn úr innanríkisráðuneytinu sem nánasti aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, hefur játað og verið dæmdur í fangelsi fyrir er orðið ríkisstjórninni, en þó sérstaklega Sjálfstæðisflokknum, vandræðamál. Fyrir sjálfstæðismenn er málið dapurlegt í ljós þess að hér er á ferðinni varaformaður Sjálfstæðisflokksins og einn af sterkustu ráðherrum flokksins.

Þeir sem vilja gera lítið úr málinu skulu hafa eftirfarandi í huga. Það er búin að fara fram lögreglurannsókn sem ríkissaksóknari fyrirskipaði. Uppstokkun hefur orðið á innanríkisráðuneytinu með tilheyrandi vandræðagangi, óvissu og kostnaði í stjórnsýslunni. Rannsókn lögreglu hafði leitt í ljós að leki hafði orðið úr ráðuneytinu. Og það þrátt fyrir innanhúsrannsókn ráðuneytisins sjálfs og neitun ráðherra. Lögreglan hafði aflað sannanna sem sýndu að minnisblaðið kom úr innanríkisráðuneytinu. Að lokum játaði sakborningur verknaðinn og í leiðinni að hafa logið að lögreglunni og ráðherra sínum. Þennan aðstoðarmann valdi Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, sem aðstoðarmann sinn. Auðvitað eiga allir sér málsbætur, einnig aðstoðarmaðurinn sem segist hafa framið verknaðinn í fljótfærni, og hann hefði ekki gert sér grein fyrir alvarleika málsins.  

Nægir að ráðherra segi sig frá dómsmálum en haldi áfram sem innanríkisráðherra? Þá er rétt að hafa eftirfarandi í huga.

Allt starfsfólk innanríkisráðuneytisins hefur legið undir grun um glæp í allan þennan tíma frá því málið kom upp og dæmt var í málinu fyrir nokkrum dögum síðan. Ráðherra lét gera innanhúsrannsókn í ráðuneytinu þar sem allar tölvur, þ.á.m. aðstoðarmanna sinna voru rannsakaðar.  Sú rannsókn leiddi í ljós engan leka úr ráðuneytinu. Ráðherra hefur neitað fyrir það á Alþingi að minnisblaðið umdeilda hafi verið til í ráðuneytinu hennar. Það reyndist rangt hjá ráðherra. Minnisblaðið var búið til í ráðuneytinu og var dreift innan þess til æðstu embættismanna að því er virðist.

Ráðherra hefur sakað pólitíska andstæðinga sína um pólitískar ofsóknir. Vissulega hafa stjórnmálamenn nýtt sér málið til að koma höggi á ríkisstjórnina og Sjálfstæðisflokkinn og það með góðum árangri. En er hægt að saka stjórnmálamenn um að taka þátt í stjórnmálum? Það mætti frekar snúa þessu máli þannig að innanríkisráðherra hafi gefið skotleyfi á ríkisstjórn og Sjálfstæðisflokkinn. Ráðherrann ber ábyrgð á ráðuneytinu. Hann ber ábyrgð á aðstoðarmanni sínum. Hann ber ábyrgð á viðbrögðum sínum eftir að málið kom upp. Svo einfalt er það. 

Þá er að nefna rannsókn Umboðsmanns Alþingis. Bara það að hann hafi tekið málið til skoðunar er alvarlegt mál. Við það bætist að ráðherra hefur ráðist að embætti Umboðsmanns og þar með reynt að grafa undan trúverðugleika embættisins. Það er ljótur leikur og ekki til fyrirmyndar í réttarríki með tilliti til mikilvægs hlutverks Umboðsmanns Alþingis. Höfum í huga í þessu sambandi að um innanríkisráðherra er að ræða sem jafnframt gegndi embætti dómsmálaráðherra, sem ber að verja réttarríkið, en ekki að grafa undan því.

Niðurstaða undirritaðs er þess vegna að Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, ætti alvarlega að íhuga stöðu sína og ef það leiðir ekki til afsagnar, þá verður þingflokkur Sjálfstæðisflokksins að hafa vit fyrir ráðherranum. Vissulega getur ráðherra bent á að lekinn er ekki frá honum kominn í bókstaflegri merkingu, en eftirmálin sem ég rakti hér að ofan eru þó hennar og hennar eingöngu. Ráðherrann þarf að axla pólitíska ábyrgð.

Það er þess vegna einboðið að innanríkisráðherra víki, þó ekki væri nema til þess að gefa ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks starfsfrið í þeim erfiðu málum sem eru framundan. Staða Hönnu Birnu innan forystu Sjálfstæðiflokksins hlýtur jafnframt að vera til skoðunar í framhaldinu.  

 


mbl.is Tryggvi og Hanna Birna boðuð á fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarspítali rísi, en hvar?

Nú þegar ríkisstjórn heimilanna hefur leiðrétt forsendubrestinn á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna, eins og stjórnarflokkarnir lofuðu að gera, þá hlýtur eitt af forgangsverkefnum hennar að vera bygging þjóðarspítala. Þar sem breiður stuðningur meðal þjóðarinnar og stjórnmálamanna er orðinn við þessa framkvæmd þá er verkefnið að finna hagkvæmustu leiðina til að fjármagna framkvæmdina. Nýr spítali er forsenda þess að hér verði í framtíðinni hægt að bjóða upp á sambærilega heilbrigðisþjónustu og í nágrannalöndunum.

Að vísu eru menn ekki á eitt sáttir um staðsetningu, og hefur verið bent á Fossvoginn eða Vífilstaðalandið en margt mælir með þessum stöðum í stað núverandi hugmyndar. En eins og Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, hefur bent á þá hefur Alþingi samþykkt að spítalinn rísi við Hringbraut, og eftir því er unnið. Fyrst mætti því fá ráðgjafahóp skipulagsfræðinga um borgarskipulag og spítalarekstur til að gera samanburð á þessum þremur staðsetningum fyrir þjóðarspítala. Þá vinnu þyrfti að hefja án tafar.


mbl.is Greiða þarf af lánunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jöfnuður og réttlæti í boði kröfuhafa föllnu bankanna

Heimilin urðu fyrir forsendubresti við hrun fjármálakerfisins. Það var ekki heimilunum að kenna. Aðalleikendur hrunsins voru fjárglæframenn innan fjármálakerfisins sem léku almenning grátt. Gallað eftirlitskerfi, værukærir, trúgjarnir og í versta falli spilltir stjórnmálamenn buðu síðan hættunni heim.

Já, það varð hrun og já, það varð forsendubrestur. Og þennan forsendubrest lofuðu núverandi stjórnarflokkar að leiðrétta með svokallaðri skuldaleiðréttingu. Hún skyldi fela í sér að að fjármunir yrðu fluttir frá þeim sem högnuðust á forsendubrestinum, sem varð í kjölfar hrunsins, og til þeirra sem voru fórnarlömb forsendubrestsins. Sem sagt yrðu kröfuhöfum föllnu bankanna þeirra Björgólfs feðga og Baugsveldisins sendur reikningur svo hægt væri að bæta heimilum landsins hækkun á stökkbreyttum verðtryggðum húsnæðislánum. Þessu lofuðu báðir stjórnarflokkarnir (ekki aðeins Framsóknarflokkurinn sem því sé haldið til haga, því tekist var á um þetta á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í fjölmennustu nefnd fundarins. Þar höfðu ,,leiðréttingarsinnar" sigur að lokum eftir málefnalegar rökræður landsfundarfulltrúa. Um þetta fjallaði ég á sínum tíma hér á þessum vettvangi.) 

Þetta var alls ekki sjálfgefið. Þetta mætti mikilli mótstöðu innan Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, og vissulega voru efasemdir innan Sjálfstæðisflokksins. En bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn lögðu fram kosningastefnuskrá þar sem þessu var lofað enda væri forgangsmál að koma til móts við heimilin í landinu með almennum aðgerðum til að lækka húsnæðisskuldir. Það væri efnahagsleg nauðsyn, ekki aðeins fyrir skuldsett heimili, heldur ekki síður sem liður í efnahagsumbótum. Vinstri flokkarnir töldu ekkert frekari svigrúm til staðar til að koma til móts við heimilin í þessum efnum. Þeir skiluðu því auðu fyrir síðustu kosningar. Það varð þeim að falli.

Ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins hefur nú ráðist í stærstu skuldaleiðréttingu í þágu heimilanna frá stofnun lýðveldisins. Fjármunir hafa verið færðir frá fjármagnseigendum í formi bankaskatts á kröfuhafa gömlu bankanna til þorra heimila sem eru með verðtryggð húsnæðislán. 3/4 hlutar fjármagnsins fór til heimila með lág- og meðaltekjur. 

Helga Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hugnast ekki þessi fjármagnsflutningur frá þeim sem högnuðust á hruninu til heimilanna í landinu. Samfylkingin sýndi í verki í stjórnartíð sinni að þeir settu hagsmuni fjármálakerfisins ofar hagsmunum heimilanna í landinu. Besta dæmi þessa eru svokölluð Árna Páls lög, sem síðar voru dæmd ólögleg þar sem þau brutu á rétti lánþega. Það kemur því úr hörðustu átt þegar þingmaður úr þessum sama flokki gráti þurrum tárum loksins þegar réttlætið nær fram að ganga.

En það er kannski eins annað sem kemur frá þessum flokki, sem með röngu vill kenna sig við jafnaðarstefnu, að þegar jafnaðarstefna er borin á borð fyrir þá, þá kannast þeir ekki við hana.  


mbl.is „Gefur tekjuhæstu heila Hörpu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband