Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Meirihluti afnámsnefndar um verðtryggingu virðist ekki hafa lesið skipunarbréfið

Það ætti öllum að vera orðið ljóst að afnámsnefndin um verðtryggingu hefur misskilið hlutverk sitt hrapalega. Verkefnið var að útfæra leiðir til að afnema verðtryggingu af neytendalánum, og þar með húsnæðislánum. Verkefnið var ekki að skoða hvort það ætti að afnema verðtryggingu af neytendalánum, heldur hvernig. Um það var kosið í vor. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn voru sigurvegarar og stefna beggja flokka verður að teljast nokkuð skýr í þessum málum.

Þannig samþykktu sjálfstæðismenn á landsfundi 2013 ,,að stefna að því að verðtryggð lán verði ekki almenn regla þegar kemur að húsnæðiskaupum almennings". Og til að skerpa á þessu samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2013 eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar á fyrsta starfsári verði markviss og tímasett áætlun um að verðtryggð húsnæðis- og neytendalán verði ekki almenn regla líkt og verið hefur. 

Niðurstaða afnámsnefndarinnar getur því miður ekki talist samræmast þessari stefnu Sjálfstæðis-flokksins. Það hillir undir lok fyrsta starfsárs ríkisstjórnar Sjálfstæðs- og Framsóknarflokksins en með meirihlutaálit afnámsnefndarinnar í höndum verður ekki séð að ríkisstjórnin hafi veganesti í þessa vegferð. Þvert á móti þá hefði mátt halda að stjórnarandstaðan hefði laumað sér inn í nefndina, enda endurspeglaði meirihlutaálit hennar miklu frekar skoðun Samfylkingar og VG í þessum málum, heldur en stefnu núverandi ríkisstjórnar. Í raun var meirihluti nefndarinnar að segja að ekki hafi verið innistæða fyrir kosningaloforðum stjórnarflokkanna. Ef ég hefði verið forsætisráðherra þá hefði ég alvarlega hugleitt að neita að greiða þóknun til þeirra sem stóðu að meirihlutaálitinu þar sem þau hunsuðu algjörlega skipunarbréf sitt frá forsætisráðherra þjóðarinnar.

Það var aftur á móti hughreystandi að heyra forsætisráðherra taka fram að ríkisstjórnin myndi nýta bæði meirihluta- og minnihlutaálit afnámsnefndarinnar í þeirri vinnu ,,að verðtryggð húsnæðis- og neytendalán verði ekki almenn regla líkt og verið hefur." 

 

 


mbl.is Fasteignaverð gæti lækkað um 20%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar lýðræðisríkja eiga ekkert erindi til Rússlands

Auðvitað eiga ráðherrar í lýðræðisríkjum ekkert erindi til Rússlands til treysta Pútín einvald Rússlands í sessi. Það kann að vera ógeðfellt að blanda saman stjórnmálum og íþróttum en það hafa einræðisherrar ávalt gert til að sýna samlöndum sínum svart á hvítu að umheimurinn skrifi upp á stjórnarhætti þeirra. Með því að koma á vetrarólympíuleikana í Sochi í Rússlandi hefur Pútín og einræðisstjórn hans fengið syndakvittun frá leiðtogum lýðræðisríkja, og þessi syndakvittun treystir kverkatök valdaklíku Pútíns á rússnesku þjóðinni. Forseti Íslands gekk svo lengst með því að bjóða Pútín í opinbera heimsókn til Íslands.

Látum íþróttamönnum eftir að baða sig í sviðsljósinu og á verðlaunapöllum í Rússlandi í boði Pútíns. Það er verðugt og rétt, en höldum stjórnmálunum fyrir utan leikana. Ráðamenn á Vesturlöndum ættu að minnast þess hvernig Adolf Hitler, kanslari Þýskalands, nýtti sér ólympíuleikana í Berlín 1936 sér og nasistum til framdráttar. Þá skapaði andúð Hitlers á ,,óæðri kynstofnum" spennu í kringum leikana þar sem Jesse Owens kom, sá og sigraði. Að þessu sinni eru það samkynhneigðir sem eru í sviðsljósinu vegna andúðar stjórnvalda í Rússlandi á samkynhneigðum. Kunnuglegt stef í mannkynssögunni?

En það væri móðgun við Pútín ef stjórnmálamenn lýðræðisríkja sætu heima og það má auðvitað ekki gerast, eða hvað?

 

 


mbl.is Gagnrýndu Rússlandsför ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Datt RÚV óvart inn á athugasemdakerfi DV?

Ummæli Björns Braga Arnarssonar um nasista og Austurríkismenn í Ríkisútvarpinu ber auðvitað að harma og fordæma. Ef þau hefðu verið skrifuð í athugasemdafærslu á DV eða í skrifuð í bloggheimum þá hefðu þau varla vakið athygli, enda þar margt sagt af heift og í ógáti. En að Ríkisútvarpið af öllum fjölmiðlum landsins skulu hafa útvarpað slíkum ummælum eru auðvitað tíðindi til næsta bæjar. Athyglisverð eru viðbrögð úr útvarpshúsinu um ,,að gripið hafi verið til viðeigandi ráðstafana", svona eins slíkar ráðstafanir séu skrifaðar í stein. Það kann þó að vera í þessari heilögu ríkisstofnun sem telur sig handhafa sannleikans í helstu deilumálum samtímans.  


mbl.is Ummælin draga dilk á eftir sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viljum við fulla aðild að Evrópusambandinu eða halda áfram þátttöku í EES?

 

Það er rétt hjá Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra, að þegar rætt er um hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eða ekki, þá er málið einfalt: Evrópusambandið allt er í boði, eða aðeins hluti þess. Valkostirnir eru nefnilega að gerast fullur aðili að Evrópusambandinu eða halda áfram að vera aukaaðili. Aukaaðildin felst í aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Með þátttöku í því er Ísland hluti af innri markaði Evrópusambandsins og hefur innleitt fjórfrelsið á öllum sviðum nema að hluta í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Á þeim sviðum hafa stjórnvöld aðlagað lög og reglur líka og gera á hverjum degi, svo sem þegar við innleiddum matvælalöggjöf Evrópusambandsins hér á landi og Viðauka I, eins og það er kallað á ESB máli. Stundum mætti vanda betur til þeirrar innleiðingar og koma  að þeirri innleiðingu á fyrri stigum innan EES samstarfsins, eins og við höfum fullan rétt á.

Þegar kemur að samkeppnislögum, eða lögum um póst- og fjarskipti svo dæmi séu tekin, þá erum við að fullu aðlöguð Evrópusambandinu. Lög okkar eru þau sömu og lög ríkja Evrópusambandsins, og jafnvel erum við fullgildir þátttakendur í stofnunum sambandsins, svo sem Póst- og fjarskiptastofnun Evrópusambandsins.

Málið snýst því ekki um hástemmdar yfirlýsingar aðildarsinna um hvort Ísland ætli að vera einangrað við ysta haf þar sem við neitum öllu samstarfi við önnur Evrópuríki, eða þátttöku í Evrópusamstarfi. Það er röng fullyrðing eins og rakið var hér að ofan. Málið snýst um það hvort við viljum afsala enn stærri hluta af fullveldi okkar, og þá í undirstöðuatvinnuveg okkar, sjávarútvegi, til aðildarríkja Evrópusambandsins með fullri aðild að Evrópusambandinu, eða láta staðar numið. Með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu náðust hagstæðir samningar um markaðsaðgang að innri markaði Evrópusambandsins fyrir fiskinn okkar, en á sama tíma tókst að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði okkar í mikilvægum málaflokkum. Okkur tókst kannski ekki ,,að fá allt fyrir ekki neitt", eins og haldið hefur verið á lofti, en náðum að koma á samstarfi við Evrópusambandið sem færði okkur ávinning í efnahags-, menntamálum og á fleiri sviðum þjóðfélagsins, án þess t.d. að þurfa að fórna sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, eins og við þyrftum að gera með fullri aðild að Evrópusambandinu. Það er auðvelt og fljótlegt að að kynna sér sögu ríkja sem hafa gengið í sambandið til að átta sig á þessu, og þar eru engar undanþágur í boði, enda sameiginlegar stefnur í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum hluti af grundvallarlögum Evrópusambandsins.

Allt tal aðildarsinna um að halda blekkingarleiknum áfram á forsendum Samfylkingarinnar í því sem kallað hefur verið ,,aðildarviðræður" fellur um sjálft sig. Þjóðin þarf bara að spyrja sig einnar spurningar, og hún er sú, hvort hún kjósi að gerast fullur aðili að Evrópusambandinu eða halda samstarfinu um innri markað Evrópusambandsins með þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu. Valið hefur aldrei staðið um annað.   


mbl.is ESB er og verður deilumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getum við hætt að deila um ESB?

 

Eitthvað vilja menn teygja og toga ESB málið í allar áttar. Sú staða er komin upp að aðildarsinnar, sem töldu þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB málið óhugsandi fyrr en endanlegur aðildarsamningur lægi fyrir við Evrópusambandið, hafa skipt um kúrs og heimta þjóðaratkvæðagreiðslu nú um áframhald aðildarviðræðna. Allir muna hatramma andstöðu aðildarsinna við að bera undir þjóðina hvort sækja ætti um aðild að Evrópusambandinu í upphafi ESB vegferðarinnar. Þá var tækifæri til að spyrja þjóðina og láta hana ráða för. Þá stóðum við á krossgötum. Það hefði gefið þáverandi ríkisstjórn mun sterkari stöðu ef þjóðin hefði sagt já þá. Og ef hún hefði sagt nei þá hefðum við komið í veg fyrir þá ,,borgarastyrjöld" sem hefur geisað um málið á síðustu árum, þar sem vilji þjóðarinnar hefur ekki legið fyrir með formlegum hætti.

Auðvitað er aðild Íslands að Evrópusambandinu stórmál. Um er að ræða fullveldismál íslenska ríkisins. Stærri geta málin varla orðið í sögulegu tilliti. Þess vegna þurfa stjórnmálamenn að finna sáttaleið sem stærsti hluti þjóðarinnar getur lifað við. Það verður ekki gert öðruvísi en að spyrja þjóðina. Það ættu allir deiluaðilar að vera búnir að átta sig á. En um hvað á að spyrja?

Auðvitað kemur ekki til greina að halda áfram óvissuferð Samfylkingarinnar með því að spyrja hvort halda eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið áfram með sama hætti og verið hefur. Það væri móðgun við almenna skynsemi og meirihluta þjóðarinnar. Það liggur fyrir að best hefði verið að spyrja þjóðina í upphafi hvort hún vildi halda í þessa vegferð. Það var ekki gert eins og komið hefur fram.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá stefnu að telja það ekki þjóna hagsmunum Íslands að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Sömuleiðis að stöðva aðildarviðræðurnar og taka þær ekki upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. En atkvæðagreiðslu um hvað? Því var haldið opnu. ESB máið er aftur á móti ekki einkamál eins stjórnmálaflokks, eða sitjandi ríkisstjórnar. Það kom vel fram á síðasta kjörtímabili.

Það reynir því á stjórnmálastéttina að finna lausn sem almenn sátt almennings og atvinnulífs getur ríkt um í bráð og lengd. Það er mál að linni.   


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband