Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Heitur kolamoli

 

Það er af nóg að taka í málefnum ríkisins sem kalla á úrlausn, en ekki þetta mál. Ríkisstjórnin mun brenna sig illa ef hún ætlar í leiðangur til að leggja niður landsdóm.

Landsdómur er heitur kolamoli sem ríkisstjórnin ætti að hafa vit á að snerta ekki. En það virðist hún ætla að gera ef marka má þessi orð fjármálaráðherra. Ætlar ríkisstjórnin að fara eyða kröftum í svona ,,gæluverkefni", sem kljúfa þjóðina í herðar niður og urðu til þess að fella síðustu ríkisstjórn? Það vona ég að hún geri alls ekki.

Ef ráðherrar ríkisstjórnarinnar hlusta á þjóðina í þessu sem öðru, nokkuð sem síðasta ríkisstjórn gerði ekki, þá er ekkert að óttast.


mbl.is Ætla að leggja niður landsdóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin verður að velja orrustur sínar betur

 

,,Þú ert ekkert annað en að ýta undir aumingjapólitík eins og þú gerðir í skuldamálum heimilanna", var sagt við mig þegar ég tók umræðuna um nýjustu ákvörðun menntamálaráðherra um að auka kröfur til námsframvindu hjá LÍN. ,,Já, það er ekki til of mikils mælst að þessir námsmenn drulli sér til að leggja stund á námið, þeim er engin vorkunn með það. Þeir eru jú einu sinni á framfæri okkar skattgreiðenda". Já, þannig er umræðan og í athugasemdum við síðasta pistil minn má finna smjörþefinn. Það er ömurlegt að þurfa að taka þessa umræðu hvernig sem á það er litið.

Umræðan um menntamál var ekki áberandi í kosningabaráttunni. Katrín Jakobsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, hafði að vísu fengið samþykkt lög þar sem afburðanámsmenn áttu að geta fengið hluta af námslánum sem styrk, en slíkt þekkist í nágrannalöndum okkar. Ef þau lög komast í framkvæmd þýðir það milljarða aukin útgjöld til menntamála. Það kann að vera að þeir fjármunir komi til baka með tíð og tíma. Vissulega er betra að beita hvötum til að fá fram betri árangur nemenda og betra menntakerfi, heldur en að beita þvingunum. Þingmenn stjórnarflokkanna lýstu vissulega yfir efasemdum um að þessi breyting kæmi á réttum tíma hafandi í huga stöðuna á ríkissjóði. En ég man ekki til þess að auknar kröfur um námsframvindu hjá LÍN hefði verið á kosningastefnuskrá nokkurs stjórnmálaflokks.

Ákvörðun Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra, í þessu efni hefur mætt mikilli andstöðu hjá öllum námsmannahreyfingum. Ákvörðunin hefur jafnframt komið af stað neikvæðri umræðu um menntun og námsmenn í þjóðfélaginu, og vissulega eru skilaboð stjórnvalda skýr með þessari ákvörðun, og hefur menntamálaráðherra einmitt notað þau rök fyrir ákvörðuninni að of litlar kröfur sé gerðar til námsframvindu íslenskra námsmanna miðað við önnur Norðurlönd. Fyrst sagði hann ákvörðunina gerða til að spara ríkisútgjöld en síðan sagði hann ákvörðunin gerða til að samræma kröfur til náms innan Norðurlandanna. Ef svo er þá á hann langt í land með það því eigi dugar að taka bara sætu bitana en sleppa þeim súru. Ef ríkisstjórnin ætlar að jafna aðstöðu námsmanna við það sem best gerist á Norðurlöndunum þá kostar það ríkissjóð aukin útgjöld, ekki minni. Ef gera á raunverulegar endurbætur í menntamálum þá þarf að viðhafa vandaðri vinnubrögð en þarna koma fram.

Í stjórnmálum er þýðingarmikið að velja sínar orrustur. Menntamálaráðherra hefur valið hvar hann ætlar að berjast. Það er ekki hans einkamál, heldur allrar ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar. Var þessi ríkisstjórn ekki mynduð um eitthvað allt annað en þetta?

Það ætla ég svo sannanlega að vona.


Námsmenn fordæma allir vinnubrögð menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins

Einhliða, illa ígrundaðar ákvarðanir sem teknar eru í flýti, eins og þær sem hafa verið teknar varðandi lánasjóðinn, misbjóða íslenskum námsmönnum gróflega. Íslenskir námsmenn gera skýlausa kröfu um að fallið verði frá fyrirætlunum um niðurskurð og að breytingar á úthlutunarreglum verði endurskoðaðar. 

Þannig álykta allar námsmannahreyfingar Íslands. Höfum í huga að hægri menn unni glæsilegan kosningasigur í Háskóla Íslands í síðustu stúdentakosningum. Þeim er misboðið. Þarf frekari vitnanna við um þess ákvörðun menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins?

Menntamálaráðherra bar fyrir sig í útvarpsviðtali í dag að verið væri að samræma kjör námsmanna hér og á Norðurlöndum. Gott og vel. Þá hlýtur ráðherra að ganga alla leið og þá er rétt að hafa þennan hluta ályktunar námsmannahreyfinganna í huga:

Þá fordæma námsmannahreyfingarnar þá ákvörðun stjórnvalda að leggja niðurskurðarkröfu á lánasjóð námsmanna. Hreyfingin segir kjör íslenskra stúdenta töluvert bágbornari en á hinum Norðurlöndunum en þar hljóta stúdentar styrki að viðbættum valkvæðum lánum. Því er forkastanlegt að stjórnvöld ætli sér að draga enn úr kjörum íslenskra námsmanna.

Við hljótum því að bíða eftir næsta skrefi ráðherra við að jafna kjör námsmanna hér á landi við það sem gerist á öðrum Norðurlöndunum.   


mbl.is Námsmenn fordæma vinnubrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En flöt hækkun skulda? Var OECD spurð um það?

 

Auðvitað vill enginn flata lækkun á skuldum því þá lækka þær ekki neitt. Við viljum að lækkunin verði hallandi og halli niður á við.

En annars hvaða vitleysa er þetta? Auðvitað geta allir tekið undir það að lækkun skulda með almennri aðgerð á alla skuldunauta, ríka sem fátæka, er í venjulegu árferði og venjulegum aðstæðum, eins og þær gerast alls staðar hjá siðmenntuðum þjóðum, absúrd.

En að sama skapi er flöt hækkun skulda vegna hækkunar á sköttum, kaffi, sokkabuxum, brennivíni og sígarettum vegna eins stykkis fjármálahruns með tilheyrandi hruni á gjaldmiðli jafnt absúrd og þekkist hvergi í siðmenntuðum löndum. Ef OECD hefði verið spurt um hvort flöt hækkun skulda væri ráðleg þá hefði þessi ágæta framfarastofnun sagt að slíkt væri ekki ráðlegt né rétt, enda eru skuldunautar að fá á sig flata hækkun skulda vegna aðstæðna sem væru ekki í þeirra valdi, og mætti kalla forsendubrest fyrir skuldunautinn, en happadrætti fyrir lánadrottininn. Þetta ætlar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að leiðrétta þar sem ráðherrarnir ríða á fákum réttlætisins.

Já, ef spurninginn er vitlaus, þá verður svarið jafn vitlaust. Það þekkjum við úr fréttatímum Stöðvar 2 og RÚV þegar þeir missa sig í ESB málunum og hlaupa um eins og mörgæsir.


mbl.is Flöt lækkun lána ekki ráðleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn mun fá það óþvegið

Það hefur aldrei skort á að Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður, gefi skýr og heiðarlög svör við þeim spurningum sem beint er til hans. Svar hans að þessu sinni er engin undantekning frá þessu.

Það er þó ekki sama hægt að segja um ríkisstjórnina í heild. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spilar inn á þetta og segir skorta skýr svör frá ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um stöðuna í ESB málinu. Þó að það sé erfitt að viðurkenna það, þá er nokkuð til í því. Þessari óvissu þarf að eyða, þó ekki væri nema af virðingu við viðsemjandann, Evrópusambandið og 27 ríki þess.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, talaði tæpitungulaust í viðtali við RÚV í kvöld um ESB málið. Allt sem hann sagði var sannleikanum samkvæmt. Forseti Íslands veit hvað hann syngur og sá söngur er eyrnakonfekt fyrir meirihluta þjóðarinnar í málinu. 

Þeir sem sjá ESB aðild í hillingum hafa þó ekki verið jafn ánægðir með orð forsetans. Fyrir þeim var kvöldið ónýtt. Á morgun fær Ólafur Ragnar Grímsson að heyra það óþvegið frá ESB sinnum og ganga má að því vísu að Stöð2 gangi harðast fram. Það munu mörg ,,vitnin" koma fram fyrir alþjóð til að draga orð forseta Íslands í efa, enda trúverðugleiki vinstri stjórnarinnar undir.


mbl.is Þjóðaratkvæði ekki fyrirhugað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er eiginlega í gangi?

Það er einmitt kosturinn við almennar aðgerðir til að takast á við skuldavanda heimilanna að þá er engin þörf að hnýsast í fjárhag einstaklinga eða fara í flókna greiningarvinnu. Það sparar fjármuni þegar upp er staðið. Vandanum hefur verið ágætlega lýst. Það þarf að leiðrétta verðbólguskotið sem varð vegna hrunsins. Það er einfalt að reikna það út. Og það er sömuleiðis einfalt að takast á við vandann og leysa hann. Höfuðstólinn er þarna í eigu eins og skuld annars. Allar þessar upplýsingar liggja fyrir í opinberum gögnum. Þennan verðtryggða höfuðstól þarf að leiðrétta vegna forsendubrestsins. 

Og ríkisstjórnin hefur lofað að þessi vandi verði leystur. Kjósendur gera ríka kröfu til þess að við það loforð verði staðið. Þarf að koma hér upp opinberum miðlægum gagnagrunni um fjármál einstaklinga og heimila til þess? Nei, verður ekki séð.


mbl.is „Ofboðslega langt gengið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira af sætu, minna af súru

 

Það kom að því að ríkisstjórnin færi að dreifa einhverju ,,sætindum" til almennings, ekki bara ,,súrindum". Frelsi aldraðra til ,,að bjarga sér" er aukið og var sannanlega tími til kominn. Vonandi fá fleiri jólagjafir og veglegri þetta árið ef marka má orð Sigrúnar Magnúsdóttur, alþingismanns. Það eykur hagvöxtinn og gleðina í þjóðfélaginu og veitir víst ekki af. Þessi glaðningur varð þó ekki til þess að gleðja stjórnarandstöðuna á Alþingi.

Í dag hef ég fengið að heyra það hjá félögum mínum eftir að pistil gærdagsins um embættisverk Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra. Stundum verða menn að vera sammála um að vera ósammála. Það kann að vera að Illugi eigi sér málsbætur í að rétt sé að auka kröfur til nemenda í háskólanámi en það breytir ekki því að þessi ákvörðun er illa undirbúin og á eftir að draga dilk á eftir sér fyrir ríkisstjórnina.

En til að enda þetta á jákvæðum nótum þá kom Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skemmtilega á óvart á Alþingi í dag þar sem hún las Katrínu Júlíusdóttur, fyrrv. fjármálaráðherra, pistilinn. Glæsileg frammistaða hjá henni verð ég að segja þar sem hún opinberaði tómahljóðið í fyrrverandi ráðherrum vinstri stjórnarinnar.


mbl.is „Skýr skilaboð til aldraðra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illugi fer illa af stað

 

Það verður varla sagt að Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, fari vel af stað. Fyrst ræður hann sem formann LÍN sjálfan framkvæmdastjórann sem stóð vaktina í Fjármálaeftirlitinu fyrir hrunið. Sennilega vinargreiði en með því gaf hann kjósendum fingurinn. Og nú ákveður hann að fara í stríð við stúdenta. Þessi ákvörðun ráðherrans varðandi námsframvindu er vissulega merki um skammsýni eins og formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands bendir réttilega á. Þetta kann að spara aura fyrir ríkissjóð í ráðuneyti menntamála en þetta mun koma annarsstaðar niður sem kostnaður fyrir skattgreiðendur. Og minnumst ekki á það ógrátandi hvaða neikvæðu áhrif þetta hefur á alla námsmenn í háskólanámi og fjölskyldur þeirra. Var þetta aðgerð í þágu heimilanna?

Ef ráðherrann heldur áfram á þessari braut horfir ekki vel fyrir Sjálfstæðisflokknum og ríkisstjórninni. Þetta er slæmt karma. Ríkisstjórnin þarf að draga þessa ákvörðun til baka án tafar.


mbl.is Breytingar LÍN merki um skammsýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Hefur ekki mikil áhrif á samskipti Íslands og Bandaríkjanna ef Snowden fær hæli", sagði aðjúnkt við Háskóla Íslands

 

Já, þetta var mat Silju Báru Ómarsdóttur, aðjúnkts við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, þann 20. júní þegar hún var spurð út í málið í frétt á Vísir.is. RÚV tók síðan upp fréttina en fréttastofa RÚV hefur fjallað um flótta Snowden undan réttvísinni í öllum fréttatímum í hálfan mánuð. Þetta er eitt af þeim málum sem RÚV er mjög hugleikið þessa dagana, hitt er undirskriftarsöfnunin um ólögin hans Steingríms J. Sigfússonar. Gæti það verið vegna þess að bæði þessi mál gætu komið ríkisstjórninni í bobba?

Utanríkisráðherra og forseti Bandaríkjanna hafa á síðustu dögum lýst yfir hve alvarlegum augum stjórnvöld þar í landi líta á mál Snowden, sem í þeirra augum er ótýndur glæpamaður. Það ríki sem tekur við njósnaranum verður ekki í öfundsverðri stöðu í alþjóðamálum. Auðvitað kemur ekki til greina fyrir Ísland að íhuga slíkt hvað sem Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við Háskóla Íslands, segir. Við skulum vona að íslensk stjórnvöld meti stöðuna af betra innsæi en aðjúnktinn við Háskólann. Vonandi hefur Silja Bára þó endurmetið áhrif þess að Snowden yrði boðið hér hæli, annað væri ábyrgðarlaust.


mbl.is Í Rússlandi til frambúðar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir móðga Íslendinga

 

Helle Thoning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, hefði getað sagt margt huggulegra en að minna á eina stefnumál Samfylkingarinnar á fundi hennar með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra. Vonandi hefur Sigmundur Davið sagt á móti að Íslendingar vilji Danmörk úr ESB svona til að undirstrika ósvífni Helle Thoning-Schmidt gagnvart nýrri ríkisstjórn Íslands, sem hefur á stefnuskrá sinni að halda Íslandi fyrir utan ESB. Kannski hefur Helle haldið að Samfylkingin væri ennþá við stjórn á Íslandi og hafi talið sig með þessu vera að vinna sér inn nokkur stig í samskiptum þjóðanna. Lýsir þetta vel veruleikafirringu jafnaðarmanna í Danmörku, en þeirra bíða sömu örlög og sytraflokksins á Íslandi í næstu kosningum þar. Helle er því vorkunn. Valdatíð hennar er senn lokið í dönskum stjórnmálum og ekki kæmi það pistlahöfundi á óvart að hún endaði sinn pólitíska feril í Brussel, himnaríki uppgjafa stjórnmálamanna.


mbl.is Danir vilja Ísland í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband