Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Ætla menn að láta Samfylkinguna eyðileggja þetta líka?

 

Það verður ekki annað sagt en að þessa dagana séu kjöraðstæður í stjórnmálum fyrir Össur Skarphéðinsson. Meðan Árni Páll Árnason, formaður hans, sleikir sárin eða er ennþá í afneitun, og veit ég ekki hvort er betra, þá er Össur í miklum ham og hefur sjaldan liðið betur. Refur íslenskra stjórnmála, eins og mig minnir að Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, hafi kallað hann, spjallar við mann og annan í trúnaðarsamtölum og skiptir þar engu máli hvort viðmælandi er til vinstri eða hægri, og spinnur sögur í fjölmiðlum Samfylkingarinnar. Markmiðið er að reka fleyg á milli formanna og þingmanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins.

Miðað við ummæli Bjarna Benediktssonar, formann Sjálfstæðisflokksins, þá er plottið að svínvirka. Bjarni virðist hafa fengið þau skilaboð á fyrsta þingflokksfundi nýs þingflokks að Bjarni eigi að taka ,,einkaleyfið" af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins. En þetta var einmitt það sem Össur vildi heyra og víst er að hann hafi skálað í koníaki í kvöld. Svo endar hann kvöldið eða nóttina með einu góðu bloggi. Fjölmiðlar föllnu stjórnarflokkanna er nú notaðir grimmt í að magna upp sögusagnir og úlfúð milli framsóknar- og sjálfstæðisfólks. Í dag var talað um að ,,sjálfstæðismenn væru öskureiðir", ,,Valhöll væri að springa af bræði" og að ,,forsetinn og Framsókn væru með plott í gangi til að niðurlægja sjálfstæðismenn". Sjá ekki allir í gegnum spunann í spunameisturum Össurar og Co.? Það ætla ég svo innilega að vona.

Nei, sjálfstæðismenn geta andað rólega. Það er engin ástæða til að fara á taugum þó að Sigmundur Davíð vilji fá sér café latté með vinstri mönnum. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins á aftur á móti að hefja undirbúning að stjórnarmyndunarviðræðum við Framsóknarflokkinn. Það gera þeir best með því að útfæra leiðir til að ná saman með Framsóknarflokknum í helsta kosningamáli þeirra. Með ,,jákvæðu hugarfari" eins og Halldór Jónsson, sjálfstæðismaður Numbro Uno í Kópavogi, hvetur til á bloggsíðu sinni, þá finnast lausnir ef viljinn er sterkur. Á sama hátt þarf Framsóknarflokkurinn að útfæra leiðir til að uppfylla helsta kosningaloforð Sjálfstæðismanna um að hækka ráðstöfunartekjum heimilanna með skattalækkunum. Það sem sameinar þessi háleitu markmið eru aðgerðir í þágu heimila sem eru ennþá að kljást við afleiðingar hrunsins, eins og kom skýrt fram í skýrslu Seðlabanka Íslands í dag. Þar er staðfest að grípa þarf til aðgerða strax ef ekki á illa að fara. Án þess að koma til móts við skuldsett heimili með róttækum aðgerðum þá verður hér enginn efnahagsbati og stöðugleiki í efnahagsmálum. Það vita bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn, og um það eiga þeir að sameinast um. Lykilinn er lausn á snjóhengjunni og losun gjaldeyrishafta í kjölfarið. 

Í guðanna bænum látið ekki Samfylkinguna eyðileggja mögulegt ríkisstjórnarsamstarf þessara umbótaflokka, sem eru sammála um flest. Nóg hefur Samfylkingin eyðilagt nú þegar þó henni takist ekki þetta líka.


mbl.is Framsókn ekki með „einkaleyfi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn á sviðið og af hverju Jóhanna gekk út um bakdyrnar

 

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, á sviðið. Það fer ekki á milli mála. Hver stjórnmálaleiðtoginn á fætur öðrum koma og setjast við fótskör hans á Bessastöðum. Hann kallar þá til sín eins og sá er valdið hefur.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, kom fyrst og mun forsetinn hafa lesið henni pistilinn í bókstaflegri merkingu. Forsetinn byrjaði á því að minnast á Icesave þrisvar sinnum og frækilega framgöngu sína við að verja íslenska hagsmuni og spurði svo hvasst: ,,Hvar varst þú og ríkisstjórn þín þá?" 

Þá las hr. Ólafur Ragnar næst upp úr Svavars samningnum og spurði svo: ,,Er nokkuð til í því hjá honum Davíð að þér hafi láðst að lesa samninginn yfir áður en þú undirritaðir hann?" Jóhönnu var ekki skemmt en náði ekki að svara forsetanum á innsoginu því hr. Ólafur Ragnar benti Jóhönnu á bókaskápinn bakvið sig og spurði: ,,Veistu, Jóhanna, hvað þetta er allt saman hér fyrir aftan mig?" Þegar Jóhanna kom af fjöllum, enda Hrannar aðstoðarmaður hennar hvergi nærri, var forsetinn fljótur að uppfræða hana. ,,Þetta eru lög og reglur Evrópusambandsins, og svo finnur þú Lissabon sáttmálann hér á borðinu í fimm innbundnum bókum með öllum tilvísunum og neðanmálsgreinum", sagði forsetinn sposkur á svip. En þú hefur örugglega lesið þetta allt saman úr því að þú sóttir um aðild að Evrópusambandinu, og samþykktir þá allt þetta, ekki satt?" 

Forsetinn gaf forsætisráðherra ekki færi á að svara heldur stóð upp og sagði: ,,Æ, svo gleymdi ég rauða kverinu og Jafnaðarmaðurinn 101 kennslubókinni hér í næsta herbergi, og ætlaði að fara yfir með þér hvað fór úrskeiðis hjá ykkur í hreinu vinstri stjórninni". Um leið og forsetinn hvarf sjónum var Jóhanna fljót að láta sig hverfa út um bakdyrnar á Bessastöðum.   


mbl.is Umboðið til Bjarna eða Sigmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mátti hann bara breyta þjóðfélaginu?

 

Árni Páll fullyrðir í erlendum fjölmiðlum að ,,þeir" hafi nákvæmlega ekki neitt lýðræðislegt umboð til að breyta þjóðfélaginu. Þetta var stórmerkilegt yfirlýsing frá stjórnmálamanni sem hefur gengið harðast fram í því að breyta þjóðfélaginu með aðlögun Íslands að Evrópusambandinu með lokatakmarkinu að gera Ísland hluta þess með tilheyrandi fullveldisafsali. Hvaða umboð hafði hann og hans flokkur til þess? Var kosið um það í alþingiskosningunum árið 2009 eða fékk Samfylkingin lýðræðislegt umboð til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu? Eða var þetta ákveðið í þröngum hópi leiðtoga vinstri flokkanna í reykfylltu bakherbergi að nóttu til þar sem stjórnarþingmenn sátu undir hótunum ef þeir kusu ekki rétt? Ég man ekki betur.

Auðvitið er það galið að hefja stjórnarsamstarf með slíkum vinnubrögðum sem geta seint kallast lýðræðisleg, heiðarleg né gegnsæ. Slík vinnubrögð eru víti til varnaðar.  


mbl.is Ekkert umboð til að breyta þjóðfélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný ríkisstjórn fær tvö ár til að sanna sig

Nú er um að gera að vanda sig fyrir Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkinn þegar kemur að stjórnarmyndun. Í upphafi skal endinn skoða eins og ,,hreina vinstri stjórnin" hefur fengið að kenna á. Kjósendur gera miklar kröfur til stjórnmálamanna í dag og það verður þrautin þyngri að standa undir þeim vonum og væntingum sem svífa í loftinu eftir kosningarnar 27. apríl. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur býr ennþá við óvinveitta fjölmiðla sem munu fá útrás fyrir reiði sína á næstu dögum og vikum, eins og við erum þegar farin að sjá.

Það er þess vegna mikilvægt fyrir báða flokkana að ná fram helstu kosningamálum sínum og það ætti ekki að vera erfitt úrlausnarefni að skrifa þau í stjórnarsáttmálann. Það verður öllu erfiðari þraut að hrinda þeim í framkvæmd hratt og fumlaust, því kjósendur munu krefjast þess. Þess vegna þarf að gera aðgerðaáætlun strax í upphafi og tímasetja framkvæmd allra stefnumála. Kjörtímabilið er fjögur ár en langlundargerð kjósenda verður ekki nema í tvö ár. Á fyrstu tveimur árum kjörtímabilsins þarf ríkisstjórnin að vera búin að hrinda í framkvæmd helstu stefnumálunum ef vel á að fara. Það þýðir jafnframt að agavald formanna á ráðherrum þarf að vera strangt og þeir ættu að hafa leyfi til að skipta út ráðherrum á miðju kjörtímabilinu ef stefnumálin ná ekki fram að ganga eins og að var stefnt.

Val á ráðherrum skiptir öllu máli þegar ný ríkisstjórn er valin. Ráðherrarnir eru þeir sem bera ábyrgð á framgangi mála og það eru þeir sem koma fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Sömuleiðis hljóta formennirnir að vanda valið á formönnum fastanefnda á alþingi.

Það ætti ekki að vera erfitt val hjá formönnum að velja ráðherra ef þeir einfaldlega taka efstu menn á listum. En þar sem kjördæmin eru sex og væntanlega verða ráðherrar bara tíu þá vandast málið.

Hjá Framsókn liggur nokkuð ljóst fyrir hverjir verða ráðherrar: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Frosti Sigurjónsson, Eygló Harðardóttir og Vigdís Hauksdóttir.

Hjá Sjálfstæðisflokknum lítur þessi listinn þá væntanlega svona út (efstu menn á listum).

Bjarni Benediktsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kristján Þór Júlíusson (þyrfti þá að segja af sér sem annar varaformaður), Illugi Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Einar Kr. Guðfinnsson.

Þetta þarf þó ekki að verða niðurstaðan ef formenn ákveða að velja ráðherra með öðrum hætti en að taka efstu menn kjördæmanna. 


mbl.is Bíða eftir umboði forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skapa þarf andrúmsloft samvinnu og sátta

Svona hugsa lausnamiðaðir menn, eins og Jón Þór Ólafsson, nýr þingmaður á Alþingi Íslendinga, gerir í þessari frétt enda flestir þingmenn Pírata tengdir upplýsingatæknigeiranum með einhverjum hætti. Þannig þarf fólk að vinna í þeim geira atvinnulífsins, sem og í öðrum geirum að sjálfsögðu, til að ná árangri. 

Síðasta kjörtímabil var tímabil átaka og sundrungar hvert sem litið var. Stjórnvöld verða að gefa gott fordæmi og skapa rétt andrúmsloft samvinnu og sátta. Fráfarandi ríkisstjórnar brást því miður illilega í þessu verkefni.

Ný ríkisstjórn þarf að skapa andrúmsloft samvinnu og sátta framar öllu öðru.


mbl.is Hægt að skapa þverpólitíska sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Benediktsson eini stjórnmálaleiðtoginn sem óskaði Framsóknarflokknum til hamingju með sigurinn

Það hefur vakið athygli mína að enginn stjórnmálaleiðtogi hefur óskað Sigmyndi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, til hamingju með þann glæsta sigur sem Framsóknarflokkurinn vann í þessum kosningum nema Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Það er dapurlegt að aðrir leiðtogar hafa ekki séð ástæðu til þess sama, eins og hefð hefur verið fyrir í stjórnmálum hér á landi og erlendis.

Framsóknarflokkurinn er óumdeildur sigurvegari þessara kosninga. Flokkurinn bætir við sig 10 þingmönnum og hefur þar með jafnmarga þingmenn og Sjálfstæðisflokkurinn, en samanlagt hafa þeir 38 þingmenn sem er traustur meirihluti á alþingi. Þá bætir hann mest við sig eða 9,6 af hundraði frá kosningunum 2009.

Ólína Þorvarðardóttir hefur ástæðu til að vera fúl eftir að kjósendur höfnuðu henni og flokk hennar í gær. Samfylkingin mun loga stafnanna á milli á næstu misserum þar sem manneskjur eins og hún munu koma úr öllum skúmaskotum með heyhvíslarnar í leit að sökudólgum. Þeir munu finnast margir í mjúkum fletum sínum. En að leita þeirra hjá pólitískum andstæðingum er heldur langsótt, en kemur ekki á óvart. Það hafa þau gert allt þetta kjörtímabil og því fór sem fór. Vonandi fara þau að líta sér nær.


mbl.is Ráðaleysi, baktjaldamakk og hljóðskraf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frávik -0,1% í spá minni á fylgi Framsóknarflokksins, +0,4% hjá Samfylkingu

Í kjördag setti ég fram kosningaspá sem var ekki svo galin. Ég spáði að Framsóknarflokkurinn fengi 24,5% atkvæða á landsvísu en niðurstaða kosninga var 24,4% og frávikið hvað varðaði Samfylkinguna var aðeins +0,4%. En á eftir er samanburðurinn. Úrslit kosninganna koma fyrst, í sviga er spáin mín, og síðan frávik:

Sjálfstæðisflokkur 26,7% (24,5%) +2,2%

Framsóknarflokkur 24,4% (24,5%) -0,1%

Samfylkingin 12,9% (12,5%) +0,4%

Vinstri grænir 10,9% (9,5%) +1,4%

Píratar 5,1% (6,5%) -1,4%

Björt framtíð 8,2% (6%) +2,2%

Flokkur heimilanna 3% (4%) -1%

Dögun 3,1% (3,5%) -0,4%

Lýðræðisvaktin 2,5% (3%) -0,5%

o.s.frv.


Ætlar þjóðin að sitja uppi með Samfylkinguna í áratug?

 

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, skynjar sveiflu til Samfylkingarinnar. Sú hótun liggur í loftinu og er raunveruleg að Samfylkingin myndi fjórðu ríkisstjórnina á sex árum. Ef sú ríkisstjórn setur allt kjörtímabilið þá hefur Samfylkingin stjórnað landinu í heilan áratug, segi og skrifa 10 ár! Viljum við það? Ég vona að þeir sem hyggjast kjósa Samfylkinguna í dag viti hvað þeir eru að gera.

Það mun þýða áframhaldandi aðlögun að Evrópusambandinu, þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar sé andvígur aðild. Það mun þýða áframhaldandi stríð gegn undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Það mun þýða áframhaldandi leikaraskap með stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og fullveldi Íslands til að skapa meiri sundrungu og ófrið meðal þjóðarinnar. Það mun þýða áframhaldandi þjónkun við fjármagnsöflin. Það mun þýða að Kínastjórn kaupi hér upp Ísland hægt og bítandi, þar sem byrjað verður á Grímsstöðum á Fjöllum. Það mun þýða áframhaldandi skattpíningu almennings. Það mun þýða áframhaldandi stríð gegn sjálfstæðum gjaldmiðli Íslands, krónunni, sem Samfylkingin baktalar við hvert tækifæri sem gefst. Það mun þýða áframhaldandi stríðsrekstur gegn íslenskum hagsmunum.

Já, þetta er leiðin sem Samfylkingin býður upp á í kosningunum í dag þegar Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, eru þökkuð vel unnin störf með hnífasettið í bakinu frá samflokksmönnum sínum. Sjálfstæðismenn fengu að finna fyrir þessu sama hnífasetti fyrir fjórum árum, og nú hafa Vinstri grænir borið sig aumlega í bakinu eftir hnífstungur frá samstarfsflokknum. Það verður að segja Samfylkingunni til hrós að hún kann að kenna öðrum um eigin skítverk.

Og hér að ofan í myndbandinu ver Árni Páll Árnason verðtrygginguna þannig að helstu verðtryggingarsinnar fá gæðahúð. Þá fær Árni Páll skínandi fyrirlestur um ,,ágæti" skuldaúrræða ríkisstjórnarinnar t.d. hvað varðar 110% leiðina.

Annars ætlaði ég ekki að vera pólitískur í dag, en nauðsyn brýtur lög!


mbl.is Skynjar sveiflu til Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV tók stöðu og skuldamál heimilanna af dagskrá í gærkvöldi. Munu kjósendur gera það líka?

Við sem erum flokksbundnir og fórum ungir í stjórnmálaskóla í Valhöll ættum ekki að vera í vafa í kjörklefanum. Vissulega er maður ekki fullkomlega sáttur við alla frambjóðendur eins og lesendur mínir hafa orðið varir við og sömuleiðis sárnaði mér að stefnan sem var mörkuð á landsfundi var mistúlkuð illa í meðförum sumra frambjóðenda. Ég hef gert skyldu mína í að reyna rétta kúrsinn, bæði á landsfundinum og hér í bloggheimum, en auðvitað er takmarkað hvað óbreyttir landsfundarfulltrúar og flokksmenn geta gert. Það eru skiptar skoðanir um þetta eins og annað. Ef við förum yfir afrekaskrá ríkisstjórnarinnar þá hefði mátt búast við því að Sjálfstæðisflokkurinn væri að landa einum af stærsta kosningasigri sínum í dag, en allt bendir til að svo verði ekki, og það ætti að vera sjálfstæðismönnum umhugsunarefni. Í stað þess er það hinn stjórnarandstöðuflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, sem landar sigrinum, enda vann hann heimavinnuna vel.

Sjálfstæðisflokkurinn fer fram með heildstæða stefnu þar sem hækkun ráðstöfunartekna heimilanna er í fyrirrúmi, losun gjaldeyrishafta í þágu þjóðarhagsmuna og uppbyggingu í atvinnulífinu getur hafist að nýju. Aðildarviðræðum við Evrópusambandið verður sjálfhætt og þjóðin ákveður framhald þeirra. Það merkilega í umræðunni um lokun Evrópustofu er að Evrópusambandið myndi mjög líklega loka henni um leið og aðildarviðræðum er hætt af hálfu Íslands.   

Þá hefur stjórnarandstöðunni tekist með góðri aðstoð fjölmiðla stjórnarflokkanna að ráða því hvaða mál eru sett á dagskrá í kosningabaráttunni. Í umræðum leiðtoganna í gær þá ákvað RÚV að ræða um efnahagslegan stöðugleika! Hvaða flokkur hefur talað hér mest um efnahagslegan stöðugleika, nema auðvitað Samfylkingin! RÚV ákvað að taka stöðu og skuldamál heimilanna af dagskrá þó að skoðanakannanir hafa sýnt að það er eitt helsta kosningamálið!

En allt getur gerst á lokametrunum og svo sannanlega eru þetta eitt mest spennandi kosningar á lýðveldistímanum. Það verður spenna þar til síðasta atkvæði hefur verið talið. Ég ætla að leyfa mér að kasta fram þessari kosningaspá miðað við tilfinninguna þessa stundina:

Sjálfstæðisflokkur 24,5%, Framsóknarflokkur 24,5%, Samfylkingin 12,5%, VG 9,5%, Píratar 6,5%, BF 6%, Flokkur heimilanna 4%, Dögun 3,5%, Lýðræðisvaktin 3%, Regnboginn og HG 2,5%. Þetta þýðir að Píratar, BF, Dögun og Flokkar heimilanna gætu náð inn mönnum, ef þannig spilast í ákveðnum kjördæmum. Í NV kjördæminu getur síðan allt gerst þar sem Jón Bjarnason nýtur þar mikils persónufylgis og þá er í framboði Landsbyggðarflokkurinn.

Gleðilega hátíð!


mbl.is Sjálfstæðisflokkur með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afrekaskrá fyrstu hreinu vinstri stjórnarinnar

Vinstri elítan reynir nú allt sem hún getur til að smala kjósendum til sín með hræðsluáróðri. Spunameistarar Samfylkingarinnar og VG úr harðlínusellu Steingríms og Björns Vals hafa fundið ýmsa drauga úr fortíðinni til að skelfa kjósendur til sín. Vandinn er bara sá að svæsnir draugar síðasta kjörtímabils eru kjósendum ofarlega í huga ennþá. Skulu hér nefndir nokkrir til sögunnar.

Árna Páls ólög 

Allir lántakendur muna Árna Páls lögin. Þá var ríkisstjórnin aldrei þessu vant snögg til aðgerða. Ástæðan var einföld. Árni Páll, sem sækist nú eftir að verða næsti forsætisráðherra (já, óttist það!), var þá fljótur til að í þágu umbjóðenda sinna í fjármálastofnunum til að setja lög á skrílinn til að verja hagsmuni lánveitenda. Það liggur fyrir svart á hvítu þegar Hæstiréttur hefur dæmt þessi lög hans og ríkisstjórnarinnar ólög sem gengu á rétt lántakenda, þ.e. almennings í landinu. Vilja kjósendur meira af svona ólögum?

Auðlindir seldar erlendu skúffufyrirtæki

Þá muna allir eftir Magma ævintýrinu þar sem ríkisstjórnin tryggði að erlendur aðili keypti í raun auðlindir til 80 ára, auðlindir sem eru ekki endurnýtanlegar. Stór orð féllu hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar en niðurstaðan var staðfest. Við hve margar ýtur hefðu ráðherrar og þingmenn Vinstri grænna hlekkjað sig við ef Vinstri grænir hefðu ekki verið í ríkisstjórn og framið slíka óhæfu gegn íslenskum hagsmunum? Í pistli frá 21. mars rifjaði ég þetta upp: 

Já, í fjögur ár hafa þau horft á undanskot alþjóðlegu stórfyrirtækjanna og ekkert aðhafst af viti. Jú, skipað nefnd á nefnd ofan til að koma sér hjá því að taka ákvörðun og grípa til aðgerða. Í fjögur ár hafa undanskot þessara alþjóðlegu stórfyrirtækja fengið að líðast í stjórnarráðinu og milljarðar runnið úr landi í arðgreiðslur á sama tíma og enginn tekjuskattur hefur runnið í galtóman ríkiskassann.

Ríkisstjórn stóð vörð um verðtrygginguna

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hefur viðurkennt að hann vildi taka verðtryggingu á neytendalánum úr sambandi árið 2009. Sama segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, núna korteri fyrir kosningar. Reyndar sagði hann að það hefði átt að gera strax eftir hrunið og er þá væntanlega að vísa ábyrgðinni annað. Almenningur reis upp og krafðist aðgerða árið 2011 og mótmælti á Austurvelli. Enginn felldi þá tár í ríkisstjórnarflokkunum í þágu skuldsettra heimila eða gerði neitt í kjölfar mótmæla sem voru þau mestu á lýðveldistímanum. Vissulega var skipuð nefnd fyrir flokksgæðinga sem skilaði þóknun í vasa þeirra, en engu réttlæti fyrir skuldsetta heimili.

,,Sviðin jörð brigða"

Atli Gíslason, fyrrverandi þingmaður VG, flutti ræðu á síðustu dögum síðasta þings þar sem hann rakti ágætlega ,,sviðna jörð brigða" þessarar ríkisstjórnar, og ég fjallaði um í pistli. Listinn var ekki fagur:

  • Sótt um aðild að ESB með skilgetnu afkvæmi þess, Icesave.
  • Stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í efnahagsmálum.
  • 11,5 miljarðar settir í Sjóvá-Almennar.
  • Bankakerfið endurreist á víkjandi lánum sem þýðir áhrifaleysi stjórnvalda á rekstur tveggja stærstu banka landsins sem eru í eigu vogunarsjóða.
  • Skúffufyrirtækið Magma komst upp með það að kaupa auðlindir okkar á Reykjanesi fyrir slikk.
  • Hvers á íslensk stóriðju að gjalda fyrir að ívilna erlendri stóriðju? Kísilverið við Bakka og orka fyrir það er tilraunarstarfsemi þar sem náttúru Íslands nýtur ekki vafans. Lífríki Mývatns er í hættu.

Landsdómsmálið

Þá er það svartur blettur í réttarsögu Íslands og í sögu alþingis hvernig alþingi klúðraði uppgjöri eftir hrunið. Þegar þingheimur setti fjóra af vinnufélögum sínum á sakabekk, ákærði, dæmdi og sýknaði á víxl, þá fóru þingmenn stjórnarliðsins þar fremst í flokki með heykvíslina, svo sem Ólína Þorvarðardóttir, og með hróp að sakborningum.

Icesave í þágu Evrópusambandsins

Icesave er síðan enn ein sorgarsagan og stór hluti af ,,afrekssögu" ríkisstjórnarinnar sem kjósendur kjósa vonandi út í hafsauga á morgun. Sumir gengu þar fram af slíku offorsi að skömm þeirra verður skráð á spjöld sögunnar. Icesave og uppgjörið á skuldum einkabanka útrásarvíkinga átti að skrifa á reikning skattborgara allt í nafni Evrópusambandsins, sem gerðist málsaðili að málinu fyrir EFTA dómsstólnum, sem Íslendingar unnu að lokum. Skömm þeirra sem gengu í lið með andstæðingum íslenskra hagsmuna hverfur ekki þó að þessi ríkisstjórn hverfi, því miður. En það var ríkisstjórnin sem keyrði þetta mál áfram af offorsi allt kjörtímabilið, og það þurfti þjóðarátak til að stöðva þá feigðarför. Stjórnarflokkarnir ætluðu sér aldrei að bera eitt eða neitt undir þjóðina í einbeittum ásetningi sínum að koma skuldum einkabanka yfir á ábyrgð ríkisins. 

Ætlar þú að verðlauna á morgun þessa tvo vinstri flokka sem stóðu fyrir þessari aðför að íslenskum hagsmunum?

Aðlögun að Evrópusambandinu

Hvað sem Össur og Árni Páll segja þá hefur aðlögun Íslands að Evrópusambandinu átt sér stað allt kjörtímabilið. Ástæðan er einföld. Við sóttum um að gerast aðilar að Evrópusambandinu í júlí 2009. Síðan þá hefur staðið yfir rýni á íslenskum lögum og stjórnsýslu til að finna út hvað þurfi að aðlaga að lögum og reglum Evrópusambandsins. Þetta hefði ekki átt að koma neinum á óvart sem sótti um aðild, þó að nú komi sumir Vinstri grænir af fjöllum, eins alltaf þegar upp komst um guttann Tuma. Tugi milljarðar af fjármunum Evrópusambandsins hafa komið inn í fjárlög íslenska ríkisins í svokölluðum IPA styrkjum, sem hafa bara eitt markmið: Að aðlaga íslenskt regluverk og stjórnsýslu að Evrópusambandinu. Við aðild Íslands að Evrópusambandinu þá taka gildi sameiginlegar stefnur sambandsins í hinum ýmsu málaflokkum svo sem landbúnaði og sjávarútvegi, og að sjálfsögðu þarf Ísland að vera tilbúið frá fyrsta degi að vinna innan þeirra. Ef ekki, þá þarf að semja um aðlögunartíma, og út á það ganga aðildarviðræðurnar.

Allt þetta fer fram þó að meirihluti þjóðarinnar sé andvígur aðild, og að málið hafi ekki verið lagt fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Vilt þú stöðva þessa aðför að fullveldi og sjálfstæði Íslands? Á morgun kýst þú með fullveldinu eða á móti því. Það er ekki flóknara en það.

Röng forgangsröðun. Bætur öryrkja og aldraða skertar

Þá greip hreina vinstri stjórnin til þess úrræðis að skerða bætur þeirra sem síst skyldi; öryrkja og aldraða. Á sama tíma hækkaði ríkisstjórnin listamannalaun um 100% og fjölgaði styrkþegum. Á sama tíma hafa þau dælt fjármunum í Hörpuhítina eins og enginn væri morgundagurinn. Á sama tíma hafa þau sett 1,3 milljarð í að búa til nýja stjórnarskrá sem engum árangri skilaði. Og þannig mætti lengi telja. En á sama tíma hafa þau svelt heilbrigðiskerfið og Landhelgisgæsluna; grunnstoðir fullvalda ríkis. Nafngiftin - ríkisstjórn hinnar röngu forgangsröðunar - verður seint af þessari ógæfu ríkisstjórn tekin. Það hlýtur að vera forgangsmál kjósenda að kjósa þessa ríkisstjórn BURT! 

Læt ég þessari yfirferð um afrekaskrá ,,fyrstu hreinu vinstri stjórnarinnar" nægja í bili.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband