Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013
Bara ef forysta Sjálfstæðisflokksins hefði ekki hlustað á Þorstein Pálsson
Sunnudagur, 31. mars 2013
Þorsteinn Pálsson, fyrrv. formaður Sjálfstæðisflokksins en núverandi penni á fríblaði Jóns Ásgeirs og skoðanabróðir Össurar utanríkisráðherra, fer mikinn að vanda í fríblaði Jóns Ásgeirs. Með miklum ritæfingum telur hann að skýringu á fylgishruni Sjálfstæðisflokksins megi finna á Morgunblaðinu og hjá Evrópuvaktinni. Mikið held ég að Jón Ásgeir hafi verið ánægður með þessa samsæriskenningu dálkahöfundar síns enda hefur hann lengi eldað grátt silfur við þá tvo menn sem þar ráða ríkjum; Davíð Oddsson og Björn Bjarnason. Það þarf ekki mikinn speking til að átta sig á kórvillu Þorsteins, sem verður að skrifast á mikla auðmýkt Þorsteins fyrir eiganda fríblaðsins sem dálkur hans birtist í vikulega.
Alltaf, já alltaf, þegar forysta Sjálfstæðisflokksins hefur verið sammála Þorsteini Pálssyni þá hefur það kallað mikla óhamingju yfir Sjálfstæðisflokkinn. Líka þegar forystan var í höndum Þorsteins sjálfs.
Fyrsta skal nefna að að forysta flokksins var næstum því búin að kaupa rök Þorsteins að rétt væri að skoða aðild að Evrópusambandinu, en á síðustu stundu náðu almennir sjálfstæðismenn á landsfundi að stöðva þá feigðarför. Þessi linkind forystunnar kostaði Sjálfstæðisflokkinn fylgi og trúverðugleika.
Í annað sinn eftir mikið áróðursstarf og hræðsluáróður RÚV og fríblaðs Jóns Ásgeirs guggnaði forysta Sjálfstæðisflokksins í þriðju atrennunni í Icesave. Þeim fannst í lagi að þjóðnýta tap einkabanka sem var settur á hausinn af óreiðumönnum. Þar féll forystan á prófinu. Það feilspor ætlar að reynast dýrkeypt fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Í þriðja lagi væla varðhundar verðtryggingar hátt innan Sjálfsstæðisflokksins og skal engan undra að þar fer Þorsteinn Pálsson fremstur í flokki, en í liðinu eru einnig yfirlýstir ESB-aðildarsinnar sem hafa laumað sér á framboðslista Sjálfstæðisflokksins undir fölsku flaggi. Það munu örugglega margar skuldsettar fjölskyldur streyma á kjörstaði í vor til að kjósa formann Samtaka fjárfesta, varðhund verðtryggingar og yfirlýstan ESB-aðildarsinna á lista Sjálfstæðisflokksins. Eða hvað heldur þú?
Á sama tíma hefur annar flokkur, Framsóknarflokkurinn, vaxið og dafnað. Hvers vegna? Jú, í fyrsta lagi vegna afdráttarlausrar afstöðu til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Í öðru lagi vegna harðrar baráttu gegn Icesave frá upphafi til enda. Þeir létu aldrei undan þrýstingi manna eins og Þorsteins Pálssonar. Og í þriðja lagi vegna baráttu gegn verðtryggingu á húsnæðislánum og fyrir sanngjarnri skuldaleiðréttingu vegna forsendubrests.
Ef forysta Sjálfstæðisflokksins hefði bara hlustað á hinn almenna sjálfstæðismann í stað þess að verða fyrir röksemdasmiti frá Þorsteini Pálssyni og fríblaði Jóns Ásgeirs, þá væri staða flokksins önnur en raun ber vitni. Þá værum við að tala um stórsigur Sjálfstæðisflokksins í næstu alþingiskosningum og hefði ekki komið mér á óvart að flokkurinn hefði fengið hreinan meirihluta þingmanna.
![]() |
Svipað ástand á Kýpur og var hér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Eins dauði er annars brauð
Sunnudagur, 31. mars 2013
Það eru mikil vonbrigði að eigendur Melabúðarinnar hafi ákveðið að taka virkan þátt í kosningabaráttunni fyrir næstu alþingiskosningar. Með þessu stillir Melabúðin sér upp með einum stjórnmálaflokki, öðrum fremur, Samfylkingunni. Þetta minnir óneitanlega á hvernig stórkaupmenn tóku virkan þátt í stjórnmálabaráttunni með auðvaldinu til að halda alþýðu manna niðri í upphafi verkalýðsbaráttu á Íslandi og Einar Benediktsson samdi sitt Íslandsljóð:
Sjá, hin ungborna tíð vekur storma og stríð, leggur stórhuga dóminn á feðranna verk. - Heimtar kotungum rétt, - og hin kúgaða stétt, hristir klafann og sér hún er voldug og sterk.
Við höfum horft upp á á undanförnum árum hvernig stórkaupmenn sölsuðu undir sig smáverslun og heildverslun um allt land, keyptu bankastofnanir og fyrirtækjasamsteypur, og munaði ekki um að kaupa stjórnmálaflokka, eins og kemur ágætlega fram í bók Björn Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, Rosabaugur yfir Íslandi.
Og við höfum horft upp á hvernig Samfylkingin, stórkaupmenn og innlendir sem erlendir kaupahéðnar tilbiðja Evrópusambandið til að leggja af alla verndartolla fyrir innlenda framleiðslustarfsemi, svo erlendar vörur geti hægt og bítandi flætt yfir landið með tilheyrandi atvinnuleysi fólks sem vinnur við að framleiða vörur úr íslenskum afurðum. Þetta staðfesti formaður Samtaka verslunar og þjónustu og varaþingmaður Samfylkingarinnar þegar hún sagði kjúklinga- og alifuglabændum stríð á hendur. Þeirra framleiðsla verður feig ef þessi framleiðsla nýtur engrar verndar í formi tolla. Þá hefur skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sýnt fram á um 40% sölusamdrátt á lambakjöti ef verndartollar falla niður, eins og Samfylkingin og stórkaupmenn berjast fyrir. Þetta fannst formanninum fínt og vildi sjá hér frekar erlendar landbúnaðarafurðir í verslunum, enda gróðinn meiri fyrir verslunina ef þessi aðför að íslenskum landbúnaði gengur eftir. Eins dauði er annars brauð. Það var þá tími til að hefja þessa aðför á Páskum.
Samþjöppun í smávöruverslun á Íslandi hefur kallað yfir neytendur hærra vöruverð og hamlað því að heilbrigð samkeppni geti dafnað í þágu heimilanna. Í stað þess að horfa til verndartolla fyrir innlenda framleiðslu og atvinnu íslensk verkafólks, þá ættu stjórnmálaflokkar frekar að berjast fyrir því að koma á virkri samkeppni með matvöru, eldsneyti og tryggingar á Íslandi. Verndartollar og vörugjöld renna til ríkisins til að standa undir velferðarkerfinu. En verslunargróðinn hann rennur úr landi og í vasa kaupahéðna. Þangað eigum við að sækja kjarabætur, en ekki í eigin vasa.
![]() |
Það varð allt vitlaust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
,,Sviðin jörð brigða" Atli Gíslason ofbýður Steingrími með sannleikanum
Föstudagur, 29. mars 2013
Ræða Atla Gíslasonar, alþingismanns utan flokka, á lokadegi alþingis er fyrir margt merkileg. Þar rekur Atli, sem sagði sig úr þingflokki VG á kjörtímabilinu, hvernig forysta flokksins hefur svikið hvert kosningamálið á fætur öðru. Þökk sé þeim sem tók þetta saman á Youtube myndbandi með skýringartexta. Er nema von að Steingrími J. Sigfússyni hafi verið misboðið, ofboðið og nóg boðið að heyra sannleikann allan sagðan í einni ræðu af fyrrverandi samherja sínum.
Tökum þetta saman:
- Sótt um aðild að ESB með skilgetnu afkvæmi þess, Icesave.
- Stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í efnahagsmálum.
- 11,5 miljarðar settir í Sjóvá-Almennar.
- Bankakerfið endurreist á víkjandi lánum sem þýðir áhrifaleysi stjórnvalda á rekstur tveggja stærstu banka landsins sem eru í eigu vogunarsjóða.
- Skúffufyrirtækið Magma komst upp með það að kaupa auðlindir okkar á Reykjanesi fyrir slikk.
- Hvers á íslensk stóriðju að gjalda fyrir að ívilna erlendri stóriðju? Kísilverið við Bakka og orka fyrir það er tilraunarstarfsemi þar sem náttúru Íslands nýtur ekki vafans. Lífríki Mývatns er í hættu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Alþingi án þingheims er ekki til
Föstudagur, 29. mars 2013
Á alþingi sitja alþingismenn og skipa þannig alþingi Íslendinga. Hvað er alþingi án alþingismanna? Á þjóðveldisöld komu þingmenn saman til alþingis á Þingvöllum. Á Þingvöllum var alþingi sett, skipað og slitið af þingmönnum sem komu alls staðar af landinu og höfðu verið til þess valdir. Alþingi án þingheims er ekki til. Það eru alþingismenn sem fara með löggjafarvaldið og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Alþingi sjálft er dauð stofnun án lifandi þingheims.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti alþingis, segir þjóðina bera traust til alþingis en ekki til alþingismanna. Forseti alþingis er forseti alþingismanna sem hún segir að þjóðin beri ekkert traust til lengur. Hún hlýtur því að taka fulla ábyrgð á þeirri alvarlegu stöðu sem er komin upp; gjánni milli þings og þjóðar. Ræða hennar er enn eitt dæmi um hvernig fólk sem við höfum valið í trúnaðarstöður í stjórnkerfinu víkur sér undan ábyrgð og bendir hver á annan.
![]() |
Traust á Alþingi en ekki þingmönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Efnahagsleg staða Kýpur sú sama og eftir innrás Tyrkja árið 1974
Fimmtudagur, 28. mars 2013
Fyrirsagnir EU Observer, eða Evrópuvaktarinnar upp á íslensku, eru ekki uppörvandi í skýrslu dagsins:
- Utanríkisráðherra Kýpur segir skort á samstöðu meðal aðildarríkja ESB hafi komið efnahag Kýpur aftur til ársins 1974 eins og efnahagsleg staða landsins var eftir innrás Tyrkja!
- Kýpur er fyrsta ríkið í evrusamstarfinu (euro-zone) sem þarf að taka upp höft í peninga- og gjaldeyrismálum.
- Lúxemborg og Malta hafna samanburði á bankakerfi þeirra og Kýpur. En Deutsche bank segir þessi tvö ríki hafa fulla ástæðu til að hafa áhyggjur.
- Aðeins þremur mánuðum áður en ,,aðlöguð" Króatía gengur í Evrópusambandið hvetur framkvæmdastjórn sambandsins Króata til að gera betur í að uppræta spillingu og mansal.
Evrópumál | Breytt 29.3.2013 kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sjálfstæðismenn skotnir í Framsókn
Fimmtudagur, 28. mars 2013
Það er ætti að vera orðið öllum ljóst að Framsóknarflokkurinn er á réttri leið í kosningabaráttu sinni fyrir alþingiskosningarnar 27. apríl 2013. Stefnumálin eru að slá í gegn. Forysta og frambjóðendur Framsóknarflokksins eru sömuleiðis að ná í gegn þegar næstum þriðji hver kjósandi ætlar að gefa þeim atkvæði sitt. Við höfum þarna Frosta Sigurjónsson, sem er efsti maður á lista flokksins í Reykjavík, en hann hefur látið að sér kveða á síðasta kjörtímabili sem skeleggri baráttu í ESB og Icesave. Kynni mín af Frosta, en ég sat með honum í stjórn Heimssýnar og var í baráttusveit hans í Icesave, segja mér að þar fer þingmannsefni sem á fullt erindi á Alþingi. Hann hefur sýnt viljann í verki. Þá höfum við Ásmund Einar Daðason, annan mann á lista Framsóknarflokksins, í NV-kjördæmi sem allir þekkja fyrir einarða afstöðu í baráttunni fyrir fullveldi og sjálfstæði Íslands, og þar lét hann engin flokksbönd og Steingrímsista múlbinda samvisku sína. Hann skipti um flokk, en ekki sannfæringu. Þá skal nefna Sigmund Davíð formann sem verður ekki sakaður um að vera vindhani í pólitík. Það sá þjóðin í Icesave. Þegar kemur að afstöðunni til aðildar Íslands að Evrópusambandinu þá ættu kjósendur að geta gengið að því vísu að Framsóknarflokkurinn er ekki á leiðinni með Ísland inn í Evrópusambandið. Í því sambandi er nóg að horfa til helstu frambjóðenda flokksins í öllum kjördæmum.
Og þá komum við að máli málanna. Hér varð hrun! Ergó: Það þarf að taka á forsendubrestinum sem heimili landsins urðu fyrir við hrunið. Verðbólguskotið sem varð vegna gengisfalls krónunnar og skattahækkanna stjórnvalda í fjögur ár. Vinstri stjórnin hefði getað sett þak á verðtrygginguna, eða breytt grundvelli verðtryggingarinnar til að milda höggið sem hefur lent á heimilum landsmanna. Hún valdi þann kost að gera ekkert. Forseti ASÍ tók undir með ríkisstjórninni að mikilvægara væri að rétta við fjárhag lífeyrissjóða og banka heldur en að koma skuldsettum heimilum til bjargar.
Vandinn er þarna enn stærri en áður vegna þessa og hverfur ekki eins og dögg fyrir sólu. Framsóknarflokkurinn viðurkennir þennan vanda sem liggur á heimilum landsmanna eins og mara. Til að hægt sé að leysa vandann verður fyrst að viðurkenna að hann sé til staðar. Og Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram róttækar aðgerðir til að ráðast að vandanum og gefið skuldsettum heimilum von. Úrræði stjórnarflokkanna hafa reynst vegleysa og skottulækning. Svörin sem heimilin hafa fengið bera með sér vonleysi og hroka. Því miður hefur sumir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins stokkið á þessa dauðadæmdu lest sem stjórnarflokkarnir bjóða þjóðinni upp á út í vonleysið. Þeir hafa gert málflutning stjórnarliða að sínum. Vilhjálmur Bjarnason, formaður Samtaka fjárfesta, fer þar fremstur í flokki og kjósendur flýja í hrönnum. Og ef það var ekki nóg þá eru ESB-aðildarsinnar að spretta upp á framboðslistum hér og þar og stilla sér við hlið Samfylkingartrúboðsins. Í mínu kjördæmi Kraganum eru alla vega tveir ESB-aðildarsinnar í fyrstu fimm sætunum! Aftur er Sjálfstæðisflokkurinn kominn í sömu stöðu og fyrir fjórum árum síðan að kjósendur vita ekki hvort flokkurinn er að fara eða koma í þessum málum.
Það sem Framsóknarflokkurinn er einnig að vinna á er að hann hefur skýrt afstöðu sína í ESB málum, tryggt að frambjóðendur tala þar einni röddu og endurnýjun á framboðslistum er til fyrirmyndar.
Auðvitað eru sjálfstæðismenn skotnir í Framsókn. Annað væri óeðlilegt!
![]() |
Framsókn með 28,5% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bankarnir endureinkavæddir
Miðvikudagur, 27. mars 2013
Bankar ganga kaupum og sölum. Fyrsta einkavæðingin tókst svo vel að þegar upp var staðið þá voru bankarnir í raun aldrei keyptir þó þeir hafi verið seldir. Skýringin var auðvitað sú að kaupendurnir greiddu aldrei uppsett söluverð. Þeir fengu bara lánað fyrir því með einhverskonar krosslánum á milli banka. Síðan þegar það átti að sækja peningana þá gripu menn í tómt. Síðari einkavæðingin varð síðan í tíð núverandi ríkisstjórnar sem seldi bankana í skjóli næturs til huldufólks. Ennþá er ekki vitað hvaða huldufólk keypti þá, eða fékk bankana afhenta á silfurfati. Silfurfat var það, því hagnaður endureinkavæddu bankanna frá hruni er mældur í evrum, ekki smápeningum eins og krónum.
Og aftur er farið að tala um að selja bankana, eða að endureinkavæða þá, og þá skal huldufólkið sem á bankana í dag selja þá með miklum afslætti til lífeyrissjóðanna, sem eru að springa af peningum. Þess vegna þarf að koma peningunum í skjól og hvar annars staðar en einmitt í bönkunum? Allt er enn á huldu um hver selur hverjum og hvernig sá getur selt eitthvað sem hann ekki á. En svo vill Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem RÚV birtir viðtöl við á hverri stundu banna lífeyrissjóðnum að lána til húsnæðislána, enda vill hann selja lífeyrissjóðunum bankana svo þeir geti lánað til húsnæðislána! Allt vill Árni banna, nema verðtrygginguna. Já, og allt er þetta mjög rökrétt, svo rökrétt, að Jóhanna Sigurðardóttir, forveri hans í formannsstóli Samfylkingarinnar, sat hjá við atkvæðagreiðslu um frumvarp eftirmanns síns á síðustu stundu. Það var mikil traustyfirlýsing við nýjan formann, enda brosti Árni Páll í gegnum tárin í fimmta viðtali kvöldsins sem RÚV tók við hann í kvöld.
![]() |
Vilja ræða hugsanlega sölu banka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.3.2013 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fjallið tók jóðsótt og það fæddist mús
Miðvikudagur, 27. mars 2013
Nú hef ég ekki verið einn af helstu áhugamönnum um breytingar á stjórnarskrá Íslands, enda talið mörg önnur verk þarfari og hefðu átt að vera ofar á forgangslista stjórnvalda. Eftir á annan milljarð króna af skattpeningum borgaranna, fjögur ár og tillögu að nýrri stjórnarskrá í á annað hundrað greinum, þá hefur stjórnarmeirihlutanum tekist að ljúka málinu. Hvernig? Jú, engin ný stjórnarskrá verður til og engar breytingar verða gerðar á stjórnarskránni. Ekki stafur af þeim atriðum sem þjóðin fékk að kjósa um í þjóðaratkvæðagreiðslu kemst í gegnum Alþingi. Ekkert.
Eina sem Alþingi ætlar að samþykkja er ákvæði um að auðveldara sé að breyta stjórnarskrá Íslands! Þetta kostaði okkur skattborgara næstum því 2.000.000.000 króna, heilt kjörtímabil og ærin fórnarkostnað, vegna þess að það var svo margt annað sem við hefðum getað nýtt tímann til og fjármunina til að gera. Hefði t.d. mátt leggja grunn að skjaldborg um heimilin í staðinn? Samfylkingin lofaði nýrri stjórnarskrá, skjaldborg um heimilin, afnámi verðtryggingar, aðildarsamningi við Evrópusambandið svo fátt eitt sé nefnt. Allt þetta hefur Samfylkingin nú svikið. Allt sem Vinstri grænir lofuðu kjósendum hefur verið snúið á hvolf í alræmdustu öfugmælavísu síðari tíma í stjórnmálasögu Íslands.
Sjaldan hefur þetta orðatiltæki átt betur við en í stjórnarskrármálinu: Fjallið tók jóðsótt og það fæddist mús.
![]() |
Birgitta mátti ekki segja frá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fylgishrun stjórnarflokkanna
Miðvikudagur, 27. mars 2013
Það efast enginn um að Framsóknarflokkurinn er á siglingu. Spurningin er hvort þessi fylgisalda muni fleyta framsóknarmönnum alla leið inn í stjórnarráðið. Þá hljóta það að vera stórtíðindi að helmingur þeirra sem kusu Samfylkinguna í síðustu alþingiskosningum hafa snúið baki við flokknum, og formannsskipti breyta engu nema síður sé. Sama er að segja um hinn stjórnarflokkinn Vinstri græna. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er aðeins 21%! Mikið er talað um fylgishrun Sjálfstæðisflokksins, en samt er hann að mælast með meira fylgi en hann fékk í síðustu kosningum, og samt er hann með meira fylgi en báðir stjórnarflokkarnir eru með til saman! En auðvitað hlýtur þessi staða að vera áhyggjuefni fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins sem er ekki að skila neinni uppskeru í hús þrátt fyrir óvinsælustu ríkisstjórn síðari tíma. Önnur framboð en Björt framtíð eru ekki að ná í gegn hjá kjósendum miðað við skoðanakannanir, en allt getur gerst fram að kosningum 27. apríl. Það hefur leiftursókn Framsóknarflokksins sýnt fram á með óyggjandi hætti.
Við almennir sjálfstæðismenn eru ennþá hálf vankaðir eftir misheppnaðan landsfund í síðasta mánuði. Landsfundurinn sem átti að þétta raðirnar að baki forystunni og blása okkur baráttuanda í brjóst skilaði okkur einhverju allt öðru. Það sem átti að vera viðspyrna varð okkur fjötur um fót. Þá eru sumir ónefndir frambjóðendur flokksins hálfgerðar kjósendafælur sem skemma fyrir þeim fjölmörgu frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins sem myndu sóma sér vel á Alþingi.
![]() |
Framsóknarflokkurinn stærstur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Já, bara ef við hefðum verið í Evrópusambandinu eins og Kýpverjar og Grikkir
Mánudagur, 25. mars 2013
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði í þætti á Stöð2 í gær að það væri ekki að hægt að bera saman Ísland og Kýpur vegna þess að rússneskir glæpamenn hefðu sett bankakerfið á Kýpur á hausinn. Það virðist þá réttlæta það að bankainnstæður á Kýpur eru gerðar upptækar af Evrópusambandinu um allt að þriðjungi, því ella hefði Evrópusambandið með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins knúið Kýpur í gjaldþrot. Hvernig er komið fyrir réttarríkinu, þar sem eignarétturinn er heilagur, þegar eignir í bönkum eru gerðar upptækar í nafni Evrópusamvinnu? Fordæmið hefur verið gefið og aðeins spurning hvaða ríki innan sambandsins verður næsta fórnarlambið á altari evrunnar og Evrópusamrunans.
Þegar Grikkland stóð frammi fyrir sama vanda þá sögðu ESB-trúboðarnir að Grikkir hefðu logið sig inn í Evrópusambandið og þar fyrir utan tækju Grikkir Íslendingum fram í skattsvikum. Þetta væru ástæðurnar fyrir því að aðild að Evrópusambandinu og sameiginlegu myntbandalagi með evru hefðu ekki bjargað þessum ríkjum Evrópusambandsins frá hruni.
Þannig réttlæta þeir kenninguna sína um að hér hefði ekki orðið neitt hrun ef Ísland hefði verið aðili að Evrópusambandinu og hefði hent íslensku krónunni fyrir evruna. Sennilega hefði það líka komið í veg fyrir að útrásarvíkingarnir hefði tröllriðið fjármálakerfinu hér á landi og skilið eftir rústir einar. Já, þá myndi drjúpa smjör af hverju strái á Íslandi, bara ef Íslendingar hefðu ekki verið svo ,,skyni skroppnir" að halda í sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Kaffihúsaofvitarnir í 101 Reykjavík sem sötra expressó í smábollum eru gáttaðir á heimóttaskap og einangrunarhyggju meirihluta þjóðar sem er svo rómantísk að trúa á úrelt fullveldi og sjálfstæði ríkja ennþá á 21. öldinni.
![]() |
Kýpur missir heilan áratug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 26.3.2013 kl. 07:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)