Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012
Er fræðslufulltrúi Þjóðkirkjunnar að segja að forseti Íslands sé lygari og rógberi?
Laugardagur, 30. júní 2012
Stuðningsmenn Þóru hefðu kannski halað inn meira af atkvæðum ef þeir hefðu einbeitt sér að því að tala upp kosti Þóru, í stað þess að tala niður helsta andstæðinginn, Ólaf Ragnar. Þannig voru það stuðningsmenn Þóru sem ákváðu að þessar forsetakosningar snérust um galla sitjandi forseta, en ekki kosti þess frambjóðanda sem þau studdu.
Það var byrjað á því að ráðast á sitjandi forseta fyrir að vera pólitískur vegna þess að hann ákvað að standa með lýðræðinu og þjóðinni, en ekki ráðandi stjórnmálaöflum. Þegar það virkaði ekki þá fóru spunadoktorar stuðningsmannaliðsins að snúa út úr orðum forseta Íslands. Þegar það virkaði ekki heldur þá var farið í að grafa upp fornar syndir sitjandi forseta á útrásartímum, enda hafði forsetinn látið glepjast á fagurgala fjölmiðla útrásarvíkinganna eins og þorri þjóðarinnar. Þegar það virkaði ekki þá datt einhverjum snillingi að nota Icesave gegn forsetanum, og var fenginn eitt stykki sagnfræðingur til að kvitta upp á spekinga. Og þannig má áfram telja.
Á síðustu metrunum var gripið til þess að ausa fjármunum í áróður í fjölmiðlum og í aðrar uppákomur, eins og sjálfhverfann Þórudag með hátíðarhöldum. Og síðan var Davíð Þór Jónssyni, fræðslufulltrúa í Þjóðkirkjunni, látinn messa yfir lýðnum að forseti Íslands hefði ,,byggt kosningabaráttu sína á ósannindum og níðrógi". Er nema von að Þjóðkirkjan sé svona illa farin með svona predikara í þjónustu sinni? Nýi biskupinn hlýtur að senda fræðslufulltrúann í endurmenntun í Siðferði 101 og Sannleika 101.
![]() |
Barátta byggð á ósannindum og níðrógi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þjóðin kýs sér forseta
Laugardagur, 30. júní 2012
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kallar kosningar þakkargjörð til þeirra sem færðu okkur lýðræðið og lýðveldið. Það eru orð að sönnu. Í dag kýs þjóðin sér forseta. Þeir sex forsetaframbjóðendur sem hafa att kappi í þessum kosningum hafa staðið sig með sóma. Vissulega hefur verið grunnt á því góða milli sumra frambjóðenda enda mikið í húfi og ýmsum brögðum beitt af stuðningsmönnum til að koma sínum frambjóðanda á framfæri.
Það liggur fyrir að Þóra Arnórsdóttir hefur varið hæstu upphæð í þessa kosningabaráttu, 14 milljónum, sagði hún í gær á RÚV. Það er há upphæð fyrir venjulegt launafólk, nokkur árslaun. Ólafur Ragnar Grímsson gaf upp að kosningabarátta hans myndi enda í 5 milljónum króna. Aðrir vörðu innan við einni milljón til baráttunnar. Þannig liggur fyrir að sá sem hafði úr mestum fjármunum að spila hafði yfirburði í að kynna sitt framboð með auglýsingum og uppákomum. Það hlýtur að teljast aðstöðumunur og vekja upp spurningar í aðdraganda alþingiskosninga, hvort þetta geti talist sanngjörn eða besta aðferðin við að velja fulltrúa á alþingi - eða forseta lýðveldisins. Erum við ekki brennd eftir hrunið? Þá höfðu sumum frambjóðendur forskot á aðra í krafti óhemju fjármagns? Það var rétt hjá Herdísi Þorgeirsdóttur að þetta kallar á tortryggni ef gegnsæið er ekki algjört. Hverjir eru það sem standa að baki frambjóðanda sem hefur 14 milljónir í kosningasjóð í reiðufé?
Þær reglur sem voru settar árið 2006 fyrir hrun um fjármögnun kosningabaráttu til alþingis og forsetaembættis þarnast endurskoðunar við í ljósi hrunsins. Hvað hindrar t.d. fjármálastofnun eða fyrirtækjasamsteypu í að styrkja frambjóðanda með myndarlegum fjárstyrk með því að dreifa honum á marga einstaklinga í smærri upphæðum, sem leggja síðan fjármagnið fram í sínu nafni? Þá kemur aldrei fram hver stendur bakvið styrkinn í raun? Spyr sá sem ekki veit. Með þessu er ég ekki að segja að eitthvað óeðlilegt sé að baki þeim 14 milljónum sem Þóra fékk eða 5 milljónum sem Ólafur Ragnar fékk í kosningabaráttuna. Opið bókhald myndi ekki leysa þetta vandamál að fullu og kannski verður aldrei hægt að koma í veg fyrir ójafnræði í fjármögnun kosningabaráttu frambjóðenda. En ættum við ekki alla vega að viðurkenna að þetta geti verið hættulegt lýðræðinu og reyna að tryggja meira gegnsæi og heiðarleika í kosningabaráttunni fyrir næstu alþingiskosningar. Þá myndi vonandi næsta alþingi vera skipað alþingismönnum sem eru þjóðinni þóknanlegri.
Til hamingju með daginn! Nýtum kosningaréttinn og kjósum okkur forseta.
![]() |
Lítur út fyrir góða kjörsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Framkvæmdastýra Evrópustofu: ,,Við störfum og erum sett á laggirnar fyrir íslenskan almenning"
Föstudagur, 29. júní 2012
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra Evrópustofu, segir að umræða um að Evrópustofa starfi fyrir einhvern stjórnmálaflokk sé á villigötum: ,,Við störfum og erum sett á laggirnar fyrir íslenskan almenning". Evrópustofa er upplýsingamiðstöð Evrópusambandsins og mun lýsa skoðun Evrópusambandsins á einstökum málefnum. Hér birtist 3. hluti viðtals míns við Þóru í þættinum ESB Nei eða Já? sem var sendur út beint á Útvarpi Sögu 26. janúar sl.
3. hluti: ,,Það hafa allir þann rétt að vita meira um þetta samband sem við erum að sækja um aðild að"
JBL: Ágætu hlustendur Útvarpi Sögu, þetta er þátturinn ESB Nei eða Já? Ég heiti Jón Baldur Lorange (JBL) og hérna hjá mér er Birna Þórarinsdóttir (BÞ), framkvæmdastýra Evrópustofu. Við erum búin að vera að ræða um Evrópusambandið, markmið og tilgang Evrópustofu. Hún er nýstofnuð, var sett á laggirnar á laugardaginn. Var ekki boðið upp á kokteil og kökur?
BÞ: Það voru nú engir kokteilar hjá okkur, við vorum bara með kaffi og kleinur og svo buðu við upp á belgískar vöfflur. Svo vorum við með risastóra ESB köku. Okkur fannst gaman að fólk fengi sneið af ESB kökunni.
JBL: Maður hefur heyrt það í umræðunni að Evrópustofa sé bara fyrir jásinna. Jafnvel hef ég heyrt, og síðast í dag, að þetta væri óeðlilegur stuðningur við einn stjórnmálaflokk. Það er oft talað um að þeir sem eru ,,euro-skeptical, menn séu gagnrýnir á [Evrópu]samrunann, að þeir eigi þarna ekkert erindi?
BÞ: Því fer svo fjarri vegna þess að sú umræða að við störfum fyrir einhvern stjórnmálaflokk er algjörlega á villigötum. Við störfum og erum sett á laggirnar fyrir íslenskan almenning. Það má segja það þannig að það er engin spurning of vitlaus til að spyrja hana. Við leggjum okkur fram við að svara. Við vonumst til þess að allir geti liðið eins og heima hjá sér hjá okkur vegna þess að ég held að margir hafi spurningar um Evrópusambandið en viti kannski ekki alveg hvernig þeir eigi að snúa sér í því að spyrja. Vegna þess að umræðan hefur verið því marki brennd að hún fer annaðhvort í nei eða já og maður þurfi oft að samsvara sig einhverjum hreyfingum til þess að fara að ræða Evrópumál. En það er bara engan veginn þannig. Það hafa allir þann rétt að vita meira um þetta samband sem við erum að sækja um aðild að. Og svo kannski eftir því sem maður leitar sér frekari upplýsinga getur maður farið þá að mynda sér skoðun, eða skipta eða styrkjast í skoðun. En ég bara vona að sem flestir sjái ástæðu til þess að senda okkur línu. Við erum eins og ég segi; við erum á netinu: www.evropustofa.is, við erum á Facebook, það má hringja í okkur og við tökum við öllum spurningum. Hvort sem þær eru nei, já eða út í bláinn. Við skoðum allar spurningar og við leggjum okkur fram við að svara þeim. En það er ein spurning sem við svörum ekki og það er: Á Ísland að ganga í Evrópusambandið eða ekki? Vegna þess að það er eitthvað sem fólk verður að gera upp við sjálft sig. Beinar spurningar um kosti og galla er kannski ekki það sem við svörum en ef þú vilt fá staðreyndir um hvað eina sem er, þá reynum við að svara því.
JBL: Við höfum fengið í þáttinn ýmsa fræðinga, Evrópufræðinga, dr. Baldur Þórhallsson og dr. Eirík Bergmann [Einarsson]. Nú er það algjörlega ljóst að þeir báðir eru hlynntir aðild að Evrópusambandinu og það kom fram í máli Baldurs, enda er hann varaþingmaður Samfylkingarinnar. Þannig að menn vita alveg hvar þeir hafa hann og ég spurði hann einmitt að því hvar mörkin væru á milli fræðimennskunnar og stjórnmálanna. Það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir fræðimenn að greina þarna á milli. En um leið og fræðimennirnir eru farnir að vera of mikið hlutdrægir þá hættir fólk að taka mark á þeim. Er þetta ekki það sama sem þið þurfið að passa ykkur á í Evrópustofu? Þegar þið eru að svara spurningum sem eru mjög pólitískar í eðli sínu um kosti og galla þá verðið þið að fara mjög varlega?
BÞ: Það er einmitt mjög vandrataður vegur sem við erum að leggja okkur fram við að feta. Í rauninni er sú ritstjórnarstefna sem við höfum auðvitað að veita upplýsingar út frá Evrópusambandinu. Vegna þess að við erum upplýsingamiðstöð ESB og ef fólk vill fá afstöðu annarra aðila þá verður það að leita annað þó að við kannski vísum fólki víðar til þess að fá kannski breiðara svar. En spurningar sem eru pólitísk eðlis, við svörum þeim eftir bestu getu, út frá þeim opinberu upplýsingum frá Evrópusambandinu um það. Ef við finnum það ekki þá erum við í vanda stödd. En við erum ekki að fara að leggja eitthvað hlutdrægt mat á spurningar sem eru pólitísks eðlis. Þá getur þess vegna verið að við gefum þær frá okkur. Við reynum að svara þeim eins vel og við getum út frá afstöðu Evrópusambandsins gagnvart því málefni sem spurt er um. Þannig að fólk viti allavega hvar Evrópusambandið stendur.
JBL: En það er alveg ljóst að þið takið afstöðu út frá skoðunum eða stefnum Evrópusambandsins en ekki út frá aðildarsinnum eða jáhreyfingunni hér á Íslandi eða einhverjum ákveðnum stjórnmálaflokki sem er að berjast fyrir aðild?
BÞ: Nei, alls ekki. Vegna þess að við erum upplýsingamiðstöð ESB á Íslandi og það eru aðrir sem sinna því. Svo er Evrópuvefurinn að sinna frábæru starfi og þau geta lagt sig fram við að koma með lengri og ítarlegri svör. Þau leita yfirleitt víðar á aðildarsinna eða andstæðinga aðildar til þess að skrifa sitt hvort svarið við sömu spurningunni. Við viljum þá geta vísað í þau svör svo fólk geti fengið kannski fleiri sjónarmið í svörin. En okkar svör eru út frá Evrópusambandinu.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bjúgverpill íslenskra stjórnmálamanna
Miðvikudagur, 27. júní 2012
![]() |
Hrakspár vegna Hörpu að rætast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tveggja manna tal í Brussel
Mánudagur, 25. júní 2012
Maður sagði mér sem annar maður hafði sagt honum frá samtali Össurar við háttsettan embættismann hjá Evrópusambandinu.
Össur: ,,Þú veist vinur minn að við Íslendingar rekum besta sjávarútveg í heimi. Við verndum fiskistofnana og þurfum ekki að ausa ríkisstyrkjum í greinina eins og þið þurfum að gera. Við höfum margt fram að færa í þessum málum innan Evrópusambandsins og okkar framlag verður þýðingarmikið fyrir Evrópusambandið þegar Ísland verður komið í ESB klúbbinn."
Embættismaðurinn: ,,Við vitum að þið eigið auðug fiskimið og sjávarútvegur ykkar er betur rekinn en í flestum ESB ríkjum. Við höfum líka fengið til okkar sérfræðinga frá útgerðarmönnum ykkar til að kynna fyrir okkur íslenskan sjávarútveg og hvernig þið hagið fiskveiðistjórnun. Mikilvægur þáttur í endurskoðun á stefnu okkar í sjávarútvegsmálum, CFP, er að læra af ykkur og öðrum sem hafa náð árangri á þessu sviði. Það gæti hins vegar verið þrautin þyngri að koma þessum umbótum í gegn í öllum ríkjum, og þar eru Spánverjar erfiðastir. Þá semjum við ekki um eitt eða neitt fyrr en makríldeilan er leyst, það veistu."
Össur: ,,Vinur minn, allt veit ég um það. Þess vegna höfum við skipt út aðalsamningamanni okkar í makríldeilunni og nýr samningamaður er jafnframt í samninganefndinni okkar um aðildarsamning við ESB. Það sýnir samningsvilja okkar í verki. Þá erum við að breyta stjórnun fiskveiða hjá okkur í átt að fiskveiðistefnu ESB, þannig að stefnan verður félagsleg, já í rauninni aðlöguð að CFP. Þá höfum við líka breytt stjórnskipuninni til að undirbúa hana að aðildinni, eins og þú veist, og við höfum rætt um áður."
Embættismaðurinn: ,,Ljómandi. En heyrði ég rétt að þið séuð að breyta fiskveiðistjórnun ykkar í átt að okkar?"
Össur: ,,Já, vinur minn, það er unnið á dallinum hjá mér."
Embættismaðurinn: ,,En þetta verður snúið ef þið verðið búnir að breyta ykkar fiskveiðistjórnunarkerfi þannig að það sé eins og okkar í dag, en við verðum síðan búnir að umbreyta okkar (e. reform) í átt að ykkar kerfi, sem þú lýstir sem besta kerfi í heimi. Er ekki eitthvað öfugsnúið við þetta?"
Össur: ,,Stjórnmálin á Íslandi er skrýtin, vinur minn. Aðalmálið var að fá skattfé til að greiða árgjaldið til ykkar, 15 milljarða. Það er sama upphæð og nýja veiðileyfigjaldið skilar inn í ríkissjóð. Hafðu ekki áhyggjur af þessu. Það hef ég ekki."
![]() |
Ég furða mig á þessari yfirlýsingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 08:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sorglegur vitnisburður um vanvirðingu á lýðræðinu
Mánudagur, 25. júní 2012
Ef allir þeir sem hyggjast kjósa Ara Trausta myndu færa sig yfir á Þóru á laugardaginn þá myndi það sennilega duga til að fella Ólaf Ragnar Grímsson sitjandi forseta úr embætti. Þá væri tilganginum náð með framboði stuðningsfólks ríkisstjórnarinnar gegn Ólafi. Þóra Arnórsdóttir tæki þá við lyklavöldunum á Bessastöðum. Ekkert myndi gleðja forystufólk ríkisstjórnarinnar meira. Pólitískur forseti væri þá kominn til valda með ólýðræðislegum vinnubrögðum.
Þó að Þóra vilji ekki kannast við hvaðan hún fær fylgi og stuðning þá vita það flestir aðrir. Skoðanakannanir staðfesta að næstum því hver einasti stuðningsmaður Samfylkingarinnar ætlar að styðja Þóru á laugardaginn og 62% af stuðningsfólki ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Jóhanna sjálf lýsti óbeint yfir stuðningi við framboð Þóru á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar, varaformaður Samfylkingarinnar hefur lýst skoðun sinni í fjölmiðlum og sumir þingmenn Samfylkingarinnar hafa ekki leynt skoðun sinni á sitjandi forseta. Varla er það helber uppspuni frambjóðendanna Ólafs Ragnars, Andreu, Herdísar og Hannesar að kjósendur telji framboð Þóru njóta velvilja ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna? Eða er Þóra að halda því fram að allir mótframbjóðendur hennar séu að hagræða sannleikanum?
Ari Trausti Guðmundsson er meiri maður en það að hann láti pólitíska refi í stuðningsmannaliði Þóru hafa áhrif á sig á lokaspretti kosningabaráttunnar. En yfirlýsing kosningastjórnar Ara Trausta er sorglegur vitnisburður um vanvirðingu stuðningsfólks Þóru á lýðræðinu og kjósendum. Þessum vinnubrögðum hljóta allir frambjóðendur að lýsa andstyggð og vanþóknum á.
![]() |
Hvöttu Ara til að hætta við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
,,Besta fjárfestingin eitt stykki forseti"
Sunnudagur, 24. júní 2012
Það er aldrei mikilvægara en nú að fjölmiðlar geri skyldu sína. Þeir þurfa að standi lýðræðisvaktina sem fjórða valdið. Síðasta vörnin fyrir lýðræðið og lýðveldið. Forsetakosningar 2012 eru prófsteinn á heilbrigði og heiðarleika íslenskra fjölmiðla. Fyrsta krafan hlýtur að vera að fá skýr svör frá öllum þeim sem ætla sér að fá lyklavöldin á Bessastöðum um hverjir það eru sem fjármagni kosningabaráttu þeirra. Opið bókhald er svarið. Og enginn frambjóðandi á að sleppa fyrir horn með kjaftavaðli. Opið bókhald um öll framlög einstaklinga og lögaðila upp á borðið, takk fyrir. Við eru illa brennd af vinnubrögðunum fyrir hrun þar sem opin prófkjör voru sem uppboðsmarkaður fyrir óheiðarlega pólitíkusa sem vildi fallbjóða sig hæstbjóðanda. Í viðskiptaheiminum montuðu menn sig af bestu fjárfestingunni í eignasafninu; alþingismannatali. ,,Besta fjárfestingin mín er eitt stykki þingmaður", sagði einn borubrattur forstjóri við fjárfesti í lúxussnekkjunni. Og nú þegar forseti Íslands hefur virkjað málsskotsréttinn þá gæti besta fjárfestingin í dag verið forseti Íslands.
![]() |
Þingmaður vill opið bókhald |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hin pólitíska forysta í ESB ríkjunum sjálfum hefur brugðist, segir framkvæmdastýra Evrópustofu
Sunnudagur, 24. júní 2012
2. hluti viðtalsins við Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastýru Evrópustofu, smellpassar við umræðuna innan Evrópusambandsins þessa dagana og þá sérstaklega þetta útspil Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands og einn af valdamestu mönnum Evrópu um þessar mundir. Ummæli Schäuble ættu ekki að koma neinum á óvart sem kynnt hafa sér samrunaþróun Evrópu frá stofnun Evrópusambandsins. Í þessum hluta viðtalsins ræðum við Birna einmitt um stofnanir Evrópusambandsins, lýðræðishallann og hver það sé sem ráði innan sambandsins, ríkin eða ESB stofnanirnar.
2. hluti: Stofnanaumhverfinu hefur verið breytt til að mæta lýðræðishallanum
JBL: En nú kemur einmitt að umdeildu atriði sem menn hafa verið að tala um, innan Evrópufræðinnar líka, en það varðar stofnanaveldið. Hann Ögmundur [Jónasson] hefur verið að koma örlítið að [þessu] en kannski undir öðrum formerkjum. En það er þegar stofnanirnar eru farnar að taka völdin af þjóðríkjunum. Sem sagt að framkvæmdastjórnin, Evrópuþingið, ráðherraráðið og svo framvegis. Þú talar um að þjóðríkin hafi þetta alveg í hendi sér, en finnst þér það vera alveg óumdeilt? Er ekki alveg eins hægt að halda því fram að stofnanaveldið eða stofnanir innan Evrópusambandsins séu að leiða þjóðríkin áfram að sambandsríki og þar með er fullveldi þjóða alltaf að minnka og minnka?
BÞ: Já, nú verðurðu að spyrja þig hverjar eru stofnanirnar og við komum aftur að því hvað er Evrópusambandið. Ef við horfum á þessar lykilstofnanir þá er það auðvitað þannig að þú ert með leiðtogaráðið sem mótar hina pólitísku stefnu Evrópusambandsins. Það hittist nokkrum sinnum á ári. Þetta eru þjóðarleiðtogar. Þetta eru einstaklingar sem eru lýðræðislega kjörnir til þess að leiða sína þjóð. Það eru þeir sem fara á fundina sem móta pólitíska stefnu Evrópusambandsins. Svo ertu með framkvæmdastjórnina sem vissulega er það sem flestir eiga við þegar þeir segja skrifstofubáknið. Þetta eru þá fólk sem starfar í stjórnsýslu sem er sett saman eingöngu til þess að sinna Evrópulögum og þeim reglugerðum sem eru settar og framfylgja þeim. Það sem framkvæmdastjórnin gerir vissulega er að hún er sá aðili innan stjórnsýslunnar sem kemur fram með drög að nýjum lagafrumvörpum. Sem sagt nýjum lögum innan ESB. En hverjir eru það svo sem samþykkja þessi lög eða fella? Jú, það er ráðherraráðið, sem er þá samsett af fagráðherrum frá hverju aðildarríki. Aftur fólk sem er lýðræðislega kjörið í sínu ríki til þess að fara með ákveðinn málaflokk, til dæmis eins og samgöngumál, landbúnaðarmál eða annað slíkt. Þau koma og eru fulltrúar síns ríkis í þeim umræðum þar sem talað er um: Ætlum við að breyta löggjöfinni hjá ESB, ef svo, hvernig? Hinn aðilinn sem samþykkir lögin er þingið. Hverjir sitja á þinginu? Jú, einstaklingar sem eru kjörnir beint af fólki í aðildarríkjunum. Það er almenningur í aðildaríkjunum sem kýs fólkið inn á Evrópuþingið. Þannig að þeir einstaklingar sem taka ákvarðanir um breytingar á ESB eru í fyrsta lagi þjóðarleiðtogar aðildarríkjanna sjálfra, sem móta hina pólitísku stefnu, og svo hinir sem staðfesta þetta, sem eru annars vegar ráðherrar í lýðræðislega kjörnum ríkisstjórnum aðildarríkjanna og hins vegar þingmenn sem kjörnir eru beint af fólkinu sjálfu.
JBL: Nákvæmlega. En þarna hefur hins vegar verið gagnrýndur þessi lýðræðishalli. Það er nú ekki mikil þátttaka í kosningu til Evrópuþingsins, sem dæmi. Er það ekki að meðaltali 40%, mismunandi eftir ríkjum, sem að hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Evrópusambandið sjálft.
BÞ: Vissulega. Vegna þess að með Lissabon-sáttmálanum var þinginu falið aukin völd einmitt til þess að í rauninni að mæta þessum lýðræðishalla. En svo kannski hefur hinn almenni kjósandi ekki tekið því eins fagnandi og búist var við með því að beita sér meira í kosningum til þingsins. En vonandi eigum við eftir að sjá breytingu á því. Annað áhugavert sem kom út úr Lissabon-sáttmálanum sem kemur í gagnið núna á þessu ári er lýðræðisfrumkvæðið, eins og það er kallað, sem gerir almenningi í aðildarríkjunum sjálfum kleift að setja mál á dagskrá. Í raun á sama hátt og framkvæmdastjórnin getur sett mál á dagskrá. Það er gerðar ákveðnar kröfur um lágmarksfjölda. Þú þarft að hafa það frá 7 aðildarríkjum að minnsta kosti milljón undirskriftir. En ef að það eru einhver mál sem brenna á almenningi í þessum ríkjum þá geta þau komið þeim á dagskrá.
JBL: Já, svona eins og var hér með Icesave á Íslandi væntanlega.
BÞ: Já, safnaðu fjölda undirskrifta og komdu málinu á dagskrá og ég meina kannski fylgja því róttækar breytingar í kjölfarið. Við vitum það ekki. En ég held að það sé samt vel þess virði að skoða hvernig stofnanaumhverfinu hefur verið breytt til þess að reyna mæta þessum lýðræðishalla.
JBL: En samt sýnir þetta ekki best að Evrópusambandinu hefur misheppnast að nálgast íbúa Evrópusambandsins, sem eru 500 milljónir? Að þegar áhuginn á þessum kosningum til Evrópuþingsins er ekki meiri og að þegar að til dæmis sáttmálar hafa verið lagðir fyrir ríkin, eins og stjórnarskrársáttmálinn, sem Frakkar og Hollendingar höfnuðu á sínum tíma. Síðan Lissabon-sáttmálinn sem Írar höfnuðu í þjóðaratkvæðisgreiðslu og áður höfðu þeir hafnað öðrum sáttmála, Nice-sáttmálanum. Þetta hefur leitt til þess að leiðtogarnir eru eiginlega hættir að spyrja þjóðirnar, allavega í þjóðaratkvæðisgreiðslu, um til dæmis breytingar á sáttmálum.
BÞ: Veistu það, ég verð nefnilega að stökkva á þennan punkt. Þú segir nefnilega hérna hvort að Evrópusambandið hafi brugðist í að koma þessu á dagskrá. Ég segi að það er ekki sambandið sem brást, það er hinn pólitíska forysta í ríkjunum sjálfum. Það er ekki Evrópusambandsins að setja mál á dagskrá. Alveg eins og Evrópustofa mun ekki vera kosningaskrifstofa þegar við kjósum um aðildarsamninginn. Það er hin pólitíska forysta í hverju ríki fyrir sig sem á að setja mál á dagskrá og hampa þeim eða berjast á móti breytingum, hvernig sem það er. Vegna þess að Evrópusambandið er auðvitað bara alþjóðastofnum sem fullvalda ríki koma að og það eru ríkisstjórninar sjálfar sem knýja þetta samstarf áfram. Það er að sjálfsögðu pólitískra hópa í hverju aðildarríki fyrir sig að beita sér í sínu ríki fyrir eða gegn breytingum eða í kringum kosningar til Evrópuþingsins. Það er ekki Evrópusambandið sjálft, alveg eins og það er ekki ráðherranna sjálfra að hvetja fólk til að kjósa nýja ráðherra. Þetta eru stofnanir sem kjörið er til og þetta eru samningar sem kosið er um. Þetta er pólitískt ferli eins og hvert annað.
JBL: Við fjöllum nánar um þetta og miklu meira. Við gerum núna stutt hlé [á þættinum] og höldum svo áfram og ræðum til dæmis um aðildaumsóknina og hvernig þið ætlið að kynna hana og förum kannski frekar yfir stofnanir Evrópusambandsins.
![]() |
Vill að ESB fái ríkisstjórn og forseta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hroki Jóhönnu
Föstudagur, 22. júní 2012
Ég bið þig afsökunar. Fyrir að hafa ekki ráðið þig. Fyrir að hafa þar með brotið jafnréttislög sem ég samdi. Fyrir að hafa gefið dómsstólnum fingurinn þegar hann benti mér á þetta. Og fyrir að hafa snúið út úr dómnum og gert lítið úr honum, og þér. En núna þegar ég hef verið margdæmd þá vil ég sættast við þig. Í guðanna bænum hættu að angra mig með dómum og sektargreiðslum! Þetta er komið nóg af kennslustund í jafnréttismálum, takk fyrir.
Já, þannig fer Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að því að biðja fólk afsökunar. Alla vega skil ég það ekki öðruvísi. Það sem er merkilegt við þetta allt saman er að með þessu háttalagi hefur Jóhanna sýnt skilning sinn á jafnréttismálum svart á hvítu. Látum vera að við karlpungarnir skiljum ekki allt þetta tal um jafnrétti kynjanna og jafnréttisstaðla, en við hljótum að gera þá kröfu til forsætisráðherra, krossfara jafnréttis og kvennabaráttu, að hún sé ekki úti að aka í þessum viðkvæma málaflokki. En nú hefur komið á daginn að allt var þetta bara ,,partur af programmet" hjá henni við að ná sér í vinsældir og atkvæði.
![]() |
Bauð fram sátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sameinast um Þóru gegn Ólafi. En hver borgar brúsann?
Föstudagur, 22. júní 2012
![]() |
Við sameinumst um Þóru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |