Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Ríkisstjórn sem lifir á ölmusu frá stjórnarandstöðunni

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Samfylkingar-Silfrinu Evrópuþingmenn spyrja þingmenn á Alþingi: ,,Af hverju eruð þið  að þessu?", og eru þá að tala um aðildarviðræðunarnar við Evrópusambandið. Já, er nema von að spurt sé, og þó fyrr hefði verið. Það er rétt hjá Bjarna að svo uppskera menn sem þeir sá. Það er nýr og gamall sannleikur. 

Rýr uppskera ríkisstjórnarinnar ætti ekki að koma neinum á óvart miðað við hve hroðvirknislega var staðið að sáningu í upphafi. Hvorki þjóðin né þingið voru höfð með í ráðum þegar Össur Skarphéðinsson, hershöfðingi aðildarsinna og félagar hans, keyrðu aðildarumsóknina í gegn af fádæma hörku á júnídögum fyrir þremur árum síðan. Sumir þingmenn stjórnarinnar greiddu atkvæði undir hótunum forsætisráðherra sem lagði líf hreinu vinstri stjórnarinnar undir aðeins mánuði eftir að hún var mynduð. Aðildarsinnar úr röðum stjórnarandstöðunnar tryggðu að lokum aðildarumsókninni brautargengi með Evrópusambandsstjörnur í augunum. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur síðan þurft að lifa á ölmusu frá stjórnarandstöðunni í þungavigtarmálum. En kannski eru þetta nýir tímar í íslenskum stjórnmálum að búa við slíkar minnihlutastjórnir.


mbl.is „Af hverju eruð þið að þessu?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Ef árekstrar verða á milli Evrópulöggjafar og innlendrar löggjafar þá verður Evrópulöggjöfin að ráða og ganga fram fyrir", segir Björg Thorarensen lagaprófessor

Í þessum 3. hluta viðtalsins við Björgu Thorarensen, lagaprófessors, ræðum við Elvar Örn við hana um eineðlis og tvíeðlis ríki í lagalegum skilningi og þjóðréttarlegar skuldbindingar. Allt tengist þetta umræðunni um aðild Íslands að Evrópusambandinu þar sem óumdeilt er að við aðild afsalar íslenska ríkið sér hluta fullveldis síns til stofnana Evrópusambandsins. Um þetta sagði Björg m.a.: ,,Við verðum samkvæmt skipulagi og grunnprinsippi Evrópusambandsins að tryggja svokölluð forgangsáhrif. Það þýðir að við verðum að tryggja að ef árekstrar verða á milli Evrópulöggjafar og innlendrar löggjafar þá verður Evrópulöggjöfin að ráða og ganga fram fyrir." 

3. hluti viðtals við Björgu Thorarensen í þættinum ESB Nei eða Já? á Útvarpi Sögu 1. mars 2012  

JBL: En svo ég verði nú leiðinlegur, þá sögðu Grikkir þetta líka og við vitum hvernig þeir standa núna. En ef við höldum okkur við lagalegu hliðina. Þú ert einmitt að gefa hér út kennslubók og ert mikið að skrifa um þetta og kenna þetta. Þú ert að tala um þar þjóðarrétt og landsrétt, sem sagt þetta er svona tvær hliðar á sama peningi, kannski, og fullveldi. Þú ert að tala um eineðli og tvíeðli og þá fer þetta nú að flækjast, eineðli þjóðarréttar ef ég man rétt, og tvíeðli og allt þetta. Og hvað þýðir þetta á mannamáli?

BT: Já, á mannamáli. Þetta er svona önnur hlið, þetta tengist ekki beinlínis Evrópusambandinu. Vegna þess að ef og þegar við göngum inn í Evrópusambandið þá þurfum við bara að tryggja það auðvitað að fyrst og fremst að gerðir Evrópusambandsins hafi hér ákveðið lagagildi eftir alveg sérstökum leiðum sem eru ólíkt öllu öðru milliríkjasamstarfi. Eineðli og tvíeðli er nokkuð sem er notað til þess að greina hvernig réttarkerfi ríkja eru svona á almennum grundvelli, og nú er ég ekki að tala um Evrópusambandið sem hefur svo mikla sérstöðu. Hvaða áhrif það hefur þegar ríki fullgildir alþjóðlegan samning? Hver er staða alþjóðsamningsins að landsrétti? Í mjög mörgum ríkjum Evrópu, sérstaklega á meginlandi Evrópu, þá er staðan einfaldlega þannig að ef að ríki fullgildir til dæmis mannréttindasamninga á vegum Sameinuðu þjóðanna, að þá er á sama tímapunkti hægt að beita ákvæðum þess samnings eins og lögum fyrir dómstólum landsins. Og það er vegna þess að við fullgildinguna að þá er litið til þess í eineðlisríkjum að landsréttur og þjóðarréttur séu eins og ein heild. Og með skuldbindingu sinni að vera aðili að samningnum að þá er ríkið búið um leið að tryggja það að það sé hægt að beita honum innanlands. Tvíeðlisríkin, hins vegar, Ísland tilheyrir þeim hópi og einnig önnur Norðurlönd og Bretland svo dæmi séu tekið, þau líta svo á að þegar að ríki hefur fullgild þjóðréttarsamning eins og til dæmis Mannréttindasáttmála Evrópu, þegar hann var fullgildur á sínun tíma á Íslandi, 1953, þá tók hann gildi var þjóðréttarlega skuldbindandi við Ísland og Ísland lofaði því gagnvart öðrum samningsaðilum að tryggja réttindin sem voru tryggð í samningnum. En það var ekki hægt að beita samningnum eins og lögum hér innanlands vegna þess að hann hafði ekki verið innleiddur af löggjafanum. Hann hafði ekki verið samþykktur í formi laga. Þetta er aftur spurning um einmitt að íslenska löggjafarþingið er eini aðilinn sem getur búið til eitthvað sem er bindandi lög í íslensku réttarkerfi.

EÖA: En það sem að þú átt við er að alþjóðlegar skuldbindingar þurfa þá að fara í gegnum þingið?

BT: Þingið ef þau eiga að verða lög. Og það þarf að vera samþykkt eins og lagafrumvörp inn í þremur umræðum o.s.frv.

EÖA: Þannig að Mannréttindasáttmáli Evrópu fór í gegnum þingið?

BT: Nei, ekki fyrst. Það rétta er að þingið þarf að veita samþykki sitt stundum fyrir því að samningar séu fullgildir. Til þess að þjóðréttarskuldbindingin sé búin til. Það var gert árið 1953 og það var bara gert með þingsályktun, þá er  ríkisstjórninni veitt heimild til að fullgilda samning. Ef að samningurinn á að virka sem lög í landinu þá þarf þingið að leggja fram frumvarp um að hann sé lög í landinu og það gerðist ekki fyrr en 1994 þegar Mannréttindasáttmálinn var lögfestur á Íslandi vegna þess að það höfðu komið upp ákveðnir árekstrar. Á meðan að samningur í tvíeðlisríki sé fullgildur að hálfu ríkisins en ekki lögfestur þá vissulega skuldbindur ríkið sig til að innleiða reglurnar með einhverjum hætti. Kannski með því að breyta lögum eða aðlaga þau og skýra landslög til samræmis við þennan þjóðréttarsamning en ef árekstur verður á milli þá ganga landslögin framar.  Í eineðlisríkjum þá gengur samningurinn framar.

EÖA: Hver er grundvallarástæðan fyrir því að þjóðirnar velji þetta fyrirkomulag um eineðli og tvíeðli?

BT: Þetta byggir bara á á afskaplega langri hefð og þetta er sameiginlegt norræni lagahefð sem og sérstaklega á Norðurlöndunum og í Bretlandi og það eru svona sögulegar rætur á bak við þetta og milli ólíkra réttarstefna sem voru uppi fyrr á öldum. En það hefur ekkert þessara ríkja, sem eru þessi dæmigerðu tvíeðlisríki eins og Ísland og Norðurlöndin, tekið upp einhvers konar álitamál um að hverfa frá þessu.

JBL: En er þetta svolítið svipað og, ef við reynum að koma þessu yfir á [umræðuna um] Evrópusambandið, eins og þú varst að lýsa með EES samningnum að það væri svona tvíeðlissamningur. Þú þarft að innleiða lögin hér.

Akkúrat. Já, hann var fullgildur og svo var samningurinn lögfestur í heild sinni.

JBL: En ef við förum inn í Evrópusambandið þá erum við kannski komin með ,,eineðla ríki“.

BT: Já, við þurfum að tryggja það samkvæmt Evrópusambandinu.

JBL: Já, þá er það Evrópusambandið sem setur lögin og það bara tekur gildi hér strax og þarf ekki að fara í gegnum þingið.

BT: Algjörlega, reglugerðir og þannig löggjöf, og ekki nóg með það: Við verðum samkvæmt skipulagi og grunnprinsippi Evrópusambandsins að tryggja svokölluð forgangsáhrif. Það þýðir að við verðum að tryggja að ef árekstrar verða á milli Evrópulöggjafar og innlendrar löggjafar þá verður Evrópulöggjöfin að ráða og ganga fram fyrir. Jafnvel þótt að það gildi ekki venjulegar reglur um nýrri lög, að þau skuli ganga framar eldri. Það verður alltaf að tryggja ákveðin forgangsáhrif Evrópusambandsréttar í öllu tilliti.

JBL: Þannig að við verðum, Elvar Örn, ,,eineðla“ með Evrópusambandinu ef að við gerumst aðilar. En nú gerum við hlé á þættinum og höldum svo áfram.

ESB Nei eða Já? – Evrópuþátturinn, Útvarpi Sögu. Viðtal við Björgu Thorarensen (BT), prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og varaformann samninganefndar Íslands í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Þáttastjórnendur voru Elvar Örn Arason (EÖA) og Jón Baldur L‘Orange (JBL). Þátturinn var sendur út í beinni útsendingu þann 1. mars 2012. Við endurritun þáttarins eru augljósar villur leiðréttar, texti styttur og orðalag lagfært þar sem það á við. Engar efnislegar breytingar eru gerðar.  Evrópustofa styrkti endurritun þáttarins að upphæð 10.000 kr.


mbl.is Þjóðin verði spurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur í ESB stríðinu við dagsbrún: Hreina vinstri stjórnin hörfar á öllum vígstöðvum

 

Þessi skoðanakönnun sem virðist vera unnin með vísindalegum aðferðum er enn ein vísbendingin um að þjóðin er mjög svo afhuga aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta er jafnframt vísbending um að ástandið í þjóðfélaginu sé að róast og pendúllinn sé á hraðri leið til hægri að nýju. Rykið er að falla eftir hrunið og almenningur er farinn að ná áttum. Samfylkingin stefnir hraðbyri í fylgi undir 20% og Vinstri grænir er að komast í kjörfylgi með um 8 til 15%. Sennilega eiga þessir ,,hreinu vinstri flokkar" eftir að falla eitthvað meira. Hreina vinstri stjórnin, stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, er á hverfandi hveli. Niðurtalningin er hafin. Ætli það sé ekki hægt að fara að fækka hersveitunum á ESB vígstöðvunum og flytja þær til nýrra átakasvæða? Það held ég bara, satt best að segja.


mbl.is Mikill meirihluti vill ekki í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víðtækar valdheimildir eru settar í hendur stofnana ESB við inngöngu í ESB, segir Björg Thorarensen, lagaprófessor

,,Já, það liggur eiginlega alveg ljóst fyrir að vegna hversu víðtækar valdheimildir eru settar í hendur þessara stofnana að þá getum við það ekki að óbreyttri stjórnarskrá sem segir hverjir eru æðstir handhafar ríkisvalds”, sagði Björg Thorarensen (BT), lagaprófessor við Háskóla Íslands og varaformaður samninganefndar Íslands í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, í þættinum ESB Nei eða Já? á Útvarpi Sögu þann 1. mars sl. aðspurn um hvort ekki þyrfti að breyta stjórnarskrá Íslands ef Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu. Þáttastjórnendur voru Elvar Örn Arason (EÖA) og Jón Baldur Lorange (JBL). Evrópustofa styrkti endurritun þáttarins og birtist 2. hluti hans hér, en áður hafði ég birt 1. hluta.

JBL: Maður veltir fyrir sér í þessari vinnu í aðildarviðræðunum og þú ert í þessum hóp sem snýr að lagalegum málefnum. Hvað er verið að ræða þar við Evrópusambandið varðandi fullveldi?

BT: Það er ekkert komið að því að ræða neitt sérstaklega um það við Evrópusambandið, vegna þess að það er einfaldlega bara eitt að því sem við þurfum að ákveða í okkar innra skipulagi. Evrópusambandið skiptir sér ekkert af því hvernig við högum okkar innri reglum. Við verðum hins vegar að horfa á okkar æðstu reglu sem er í stjórnarskráinni og íhuga; leyfir stjórnarskráin okkur að taka upp það samstarf við alþjóðlega stofnun að fela henni ýmis völd eins og að setja bindandi lög, fái hér framkvæmdavald, kveða upp ákvarðanir sem eru bindandi hér innanlands og síðan að dæma með bindandi hætti sem hafi þá sömu verkan og dómar hér innanlands.

Lesa meira hér.


Hærri opinber útgjöld kalla á hærri skatta

 

Þetta er hárrétt athugað hjá Pétri H. Blöndal, enda kann hann með peninga að fara, sinna og annarra. Auðvitað eiga skattgreiðendur fullan rétt á að vita hvort þeir muni borga Vaðlaheiðargöngin að hluta eða að öllu leyti. Alþingi samþykkir fjárlög í umboði þjóðarinnar. Þingmenn eru fulltrúar þjóðarinnar allrar, ekki bara hluta hennar. Þeir verða að gæta almannahagsmuna, ekki sérhagsmuna. Stundum fer það þó saman og þarf ekki að vera eins og olía og vatn, eins stundum er haldið fram. Þannig þarf að gæta að hagsmunum sjávarútvegsins fyrst til að hann geti þjónað hagsmunum þjóðarinnar í bráð og lengd, svo dæmi sé tekið. Sama á við um skapandi greinar, landbúnaðinn, iðnaðinn o.s.frv. Þá þurfa stjórnvöld að tryggja hagsmuni atvinnurekenda sem og verkalýðsins ef vel á að fara.

Það eru kunn vísindi að fólk fer betur með eigin fjármuni en fjármuni annarra. Ef sýslað er með fé annarra þá er tekin meiri áhætta. Það segja rannsóknir. Og í nýlegri rannsókn kom fram að 90% af framkvæmdum opinberra aðila fer fram úr fjárhagsáætlun og munar þar mjög miklu þegar upp er staðið. Getur það verið vegna þess að þeir sem taka ákvörðun um framkvæmdina eru ekki að hætta eigin fé, heldur fjármunum skattgreiðenda? Þetta eru sterkustu rökin fyrir því að fólk fái að halda sem mestu eftir að eigin sjálfsaflafé. Skattar skerða frelsi einstaklinga og fyrirtækja. Of háir skattar lama þjóðfélagið hægt og bítandi. Sóun á opinberu fé leiðir til hærri skatta. Höfum það í huga þegar við veltum fyrir okkur opinberum stórframkvæmdum sem stjórnlyndir stjórnmálamenn vilja selja kjósendum korteri fyrir kjördag. Vilt þú, lesandi góður, ekki halda sem mestu eftir að aflafé þínu? Hvort er þér eða fjármálaráðherra betur treystandi til að verja því skynsamlega?


mbl.is Skattgreiðendur verði ekki blekktir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefjum okkur yfir flokkadrætti

 

Það er eitthvað ógeðfellt við réttarhöldin og dóminn yfir Geir H. Haarde. Í fyrsta lagi má nefna að slegið var upp sakamálaréttarhöldum yfir fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar fyrir glæpi gegn þjóðinni. Ákærandinn var Alþingi Íslendinga. Bara þetta vekur strax upp óhug og tortryggni.

Vissulega varð að gera upp hrunið. Það varð að grafast fyrir um aðdraganda hrunsins og orsök þess. Þjóðin átti heimtingu á að vita sannleikann. En það sem var lífsnauðsynlegt: það varð að rannsaka hvað gerðist og hvernig væri hægt að koma í veg fyrir að hrunið endurtæki sig með öllum þeim hörmungum það olli fyrir þorra almennings. Skipun rannsóknarnefndar Alþingis var skynsamleg leið til að hefja slíka vinnu. En þegar þeirri vinnu lauk 12. apríl 2010 þá hófst pólitískur darraðardans sem ekki sér fyrir endann á.

Við getum öll verið nokkuð sammála um það að traust almennings á stjórnmálaflokkum, stjórnmálamönnum og Alþingi sé í lágmarki um þessar mundir. Ef eitthvað er þá hefur traustið og trúverðugleikinn minnkað heldur en hitt frá hruninu haustið 2008. Það er þess vegna hjákátlegt þegar stjórnmálamenn hafa hertekið sviðið í eftirleiknum eftir hrunið. Þannig horfðum við á hvernig alþingismenn eyðilögðu vinnu rannsóknarnefndar Alþingis eftir að þeir fengu niðurstöðu nefndarinnar í hendur. Alþingi ákvað að gerast dómari í eigin sök og handvelja sakborninga fyrir Landsdóm og kastaði til höndum í undirbúningi fyrir Landsdóm. Í stað þess að þingmenn reyndu að hefja sig yfir flokkadrætti í þágu þjóðareiningar þá lögðust þeir í skotgrafahernað sem hefur alið á sundrungu og ófriði í þjóðfélaginu. Það færir okkur ekki fram á veginn að láta flokkinn koma fyrstan en fólkið síðast - hvar í flokki sem við stöndum.

Það voru haldnir heitir fundir í stjórnmálaflokkum fyrir nokkrum mánuðum þar sem ályktanir voru samþykktar um sakamálið fyrir Landsdómi. Sömuleiðis eru nú haldnir tilfinnaþrungnir fundir í stjórnmálaflokkum eftir dómsniðurstöðu til að koma höggi á pólitíska andstæðinga og dómara Landsdóms. Allt vekur þetta óhug, magnar upp átök og hatur, og færir okkur fjær samfélagi sátta og samstöðu. Í stað þess að byggja upp og halda áfram, þá er haldið áfram að rífa niður og sá tortryggni og hatri. Ef við höldum áfram þessa vegleysu þá er voðinn vís. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að láta hefndarhug stýra för.

Er ekki mál að linni? Stjórnmálamenn allra flokka verða að standast freistingar skammtímavinsælda á tímum eins og þessum. Þeir eiga að taka höndum saman allir sem einn og leiða þjóðina sameinaðir fram á veginn með vonina og viljann að vopni. Þá, og aðeins þá, fer að birta til og kraftur fólks um allt land leysist úr læðingi að nýju.  


mbl.is Landsdómi ekki beitt í hefndarskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landkynningarátakið Landsdómur

 

Þó undanfari Landsdóms hafi ekki verið neitt skemmtiefni, nema kannski fyrir þann í neðra, þá hafa gárungarnir fundið út að málið sé góð landkynning. Erlendir fjölmiðlar hópast til landsins og keppast við að fjalla um málið, ,,inspired by Iceland". Þetta segir okkur bara eitt. Fleiri pólitíkusa fyrir Landsdóm! Fleiri pólitísk réttarhöld, takk.

Steingrímur hefur sjálfur sagt að hann kvíði ekki dómi sögunnar (eða sagði hann dómi götunnar?) og sé þess vegna óhræddur við að fara næst fyrir Landsdóm. Svo hlýtur Össur að vera heitur sem ráðherra fyrirhrunstjórnar, hrunstjórnar og eftirhrunstjórnar. Össur er sem sagt allt í kring eins og þar segir, alls staðar en þó hvergi. Jóhanna veit að hennar tími mun koma fyrr en síðar. Allt gæti þetta orðið góð landkynning. Þá vilja heittrúaðir stuðningsmenn hreinu vinstri stjórnarinnar sem enn situr lifandi dauð að forseti Íslands verði dreginn fyrir Landsdóm fyrir landráð. Aðrir vilja draga ríkisstjórnina alla fyrir Landsdóm fyrir sama landráð. Og vissulega er ekki landráð nema í tíma sé tekið. Svo vildu níumenningarnir (það eru alls staðar níumenningar!) í saksóknaranefnd Alþingis draga Ingibjörgu Sólrúnu, forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, fyrir Landsdóm. Sumum finnst þó nægjanleg refsing felast í útlegð hennar Kabúl þar sem hún er umkringd afgönskum Talíbönum, ekki íslenskum.

Það er ekki nema von í ljósi alls þessa að Jóhanna og Össur hafi sagt, eftir að pólitískur andstæðingur þeirra hafði verið kjöldreginn fyrir Landsdómi, að nú ætti að leggja niður Landsdóm hið snarasta. Hann hefði þjónað hlutverki sínu. 


mbl.is Víða fjallað um Landsdóm erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var þetta ,,uppgjörið" við hrunið?

Þá vitum við allt um ,,sannleikann um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða", ekki satt? Rannsóknarnefnd Alþingis sem var skipuð með lögum nr. 142/2008 átti að leiða allan sannleikann um þetta í ljós. Við lásum um það allt í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem kom út 12. apríl 2010. Í sömu lögum frá Alþingi var kveðið á um að rannsóknarnefndin ætti einnig ,,að leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni og hverjir kynnu að bera ábyrgð á henni." Og eins og kunnugt er þá komst rannsóknarnefndin að þeirri niðurstöðu að þrír ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í störfum sínum: Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Árni Mathiessen, fjármálaráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra. Rannsóknarnefndin kvað hins vegar ekki upp dóma og vísaði málinu til meðferðar Alþingis. Þá tók við níu manna þingmannanefnd undir forystu Atla Gíslasonar, sem taldi sig þess umkomin að bæta við einum ráðherra í hópinn fyrir vanrækslusyndir: Ingibjörgu S. Gísladóttur, utanríkisráðherra. Þar með voru þingmenn komnir í dómarasæti og sá ekki fyrir endann á því í meðförum þingsins, þar sem þrír ráðherrar voru ,,sýknaðir" en einn ,,sakfelldur": Geir H. Haarde. Þar með skriðu þingmenn með málið ofan í skítugar pólitískar skotgrafir. Réttarhöldin fyrir Landsdómi yfir Geir H. Haarde urðu pólítísk réttarhöld. Það með eyðilögðu ákveðnir þingmenn málið vitandi vits. Þessir sömu þingmenn vissu upp á hár hvað þeir voru að gera. Þeir hafa ástæðu til að fagna í dag lágkúrulegum sigri. Fyrir okkur hin þá erum við engu nær um ,,sannleikann um aðdraganda og orsök" hrunsins því þessi réttarhöld fjölluðum um allt annað en það uppgjör. En vissulega vitum við núna allt um þýðingu þess að halda ríkisstjórnarfundi um mikilvæg málefni ríkisins. En skyldi Jóhanna og Össur vita það? 


mbl.is Sakfelldur fyrir eitt ákæruatriði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðvörun

 

Það eru engir aukvisar sem neita forsætisráðherrum Kína og Íslands og fylgdarliði að ganga í bæinn. En það gerðu eigendur Kersins með eftirminnilegum hætti. Wen sá kínverski hefur sennilega ekki skilið svona framkomu enda er hún ekki liðin í Kína. Óskar og Hagkaupsbræður hefðu umsvifalaust verið sendir í endurhæfingarbúðir án réttarhalda og sennilega væru ýmsir ónefndir hér á landi nokkuð sáttir við það miðað við þau ofsafengnu viðbrögð sem þessi táknræni gjörningur kallaði fram. Hitt er svo annað mál hvort það geti talist eðlilegt að náttúruundur séu í einkaeigu en meðan lög landsins banna ekki slíkt þá er ekkert við því að segja. Þá er rétt að hafa í huga að öllum er leyfilegt að skoða Kerið en sækja þarf um leyfi fyrir hópa fólks þar sem landið nýtur vafans en ekki ferðafólk. Það var þess vegna skrýtið að náttúruverndargúrú lands og þjóðar tæki sér stöðu með fólkinu en ekki landinu í fréttum í gær. Er hann ekki helsti talsmaður þess ásamt Svandísi dóttur Svavars Icesavefara að fólk verði að ganga á mjúkbotna inniskóm víða um landið því til verndunar?

En svo geta menn hugsað um það þegar kínverski fjárfestirinn Núbó hefur fengið 3% landsins til afnotaréttar næstu áratugi hvort hann muni ekki loka hliðum þess fyrir Íslendingum sem ,,fordæmdu harðlega gróf mannréttindabrot kínversku harðstjórnarinnar" sem hann þjónar? Þeir íslensku stjórnmálamenn sem funda í reykfylltum bakherbergjum dag og nótt til að fara í kringum íslensk lög og ákvörðun íslensks ráðherra vegna Grímsstaða á Fjöllum ættu kannski að hugleiða þann möguleika þó ekki væri nema eitt andartak. Að þessu leyti er gjörningur eigenda Kersins mikilvæg viðvörun.


Jóhanna og Össur fordæmdu harðlega gróf mannréttindabrot kínversku harðstjórnarinnar

Við undirrituð almennir íslenskir ríkisborgarar biðjum liðsmenn Falun Gong hreyfingarinnar og aðra erlenda gesti af asísku bergi brotnu afsökunar á óskiljanlegu framferði íslenskra stjórnvalda í tengslum við opinbera heimsókn forseta Kínverska alþýðulýðveldisins til Íslands. Við fullvissum ykkur um að það er ekki í samræmi við vilja íslensks almennings. Jafnframt fordæmum við harðlega gróf mannréttindabrot kínversku harðstjórnarinnar heima fyrir sem og á hernámssvæðum hennar.

Þetta er yfirlýsing sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skrifuðu undir og birtist fyrir 10 árum síðan í fjölmiðlum. Sömuleiðis aðstoðarmaður Jóhönnu ásamt fjölda annarra Íslendinga. Tilefnið var meðferð íslenskra stjórvalda á Falun Gong meðlimum sem komu til landsins ti að mótmæla forseta Kínverska alþýðulýðveldisins í opinberri heimsókn hans hingað til lands. Ég geri fastlega ráð fyrir að þessi þrjú fyrrnefnd fyrirmenni hafi notað upplagt tækifæri sem þau höfðu að þessu sinni til að ,,fordæma harðlega gróf mannréttindabrot kínversku harðstjórnarinnar heima fyrir sem og á hernámssvæðum hennar.” Allt er þetta fólk sem vill láta taka sig alvarlega enda er málið grafalvarlegt eins og hástemmd yfirlýsing þeirra vitnaði um. Var Jóhanna kannski að fordæma kínversku harðstjórnina þegar hún skálaði í kampavíni fyrir kínversku gestunum í gær? Eða hefur eitthvað breyst í Kína á einum áratug til batnaðar í mannréttindamálum heima fyrir og á hernámssvæðum hennar? Eða hefur skoðun ráðherra kannski breyst á einum áratug? Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands skulda landsmönnum skýringu á orðum sínum árið 2002 og svo aftur árið 2012.


mbl.is Höfðu ekki áhuga á heimsókn Wen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband