Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012
Tímamót - og takk
Mánudagur, 31. desember 2012
Áramótablað Morgunblaðsins og The New York Times markar vissulega tímamót í íslenskri blaðaútgáfu. Efnið er það mikið af vöxtum og gæðum að furðu sætir. Í blaðinu birtist hver þungavigtargreinin á fætur annari eftir höfunda sem eru í stórmeistaraflokki í blaðamennsku. Þá hefur engu verið til sparað í útlitshönnun blaðsins. Samvinna Morgunblaðsins og New York Times við útgáfu þessa áramótablaðs er tímamót. Blaðið hefur þemað Tímamót og er þar vísað í að tímamót séu framundan á mörgum sviðum þegar nýtt ár gengur í garð eftir daginn í dag. Það er full ástæða til að óska eigendum og starfsfólki Morgunblaðsins til hamingju með þetta afrek á þessum síðasta degi ársins 2012. Morgunblaðið ætlar greinilega að sækja fram á árinu 2013 og er það vel fyrir íslenska blaðamennsku.
Fyrir mig eru þau tímamót að sennilega er komið nóg af pistlaskrifum mínum á þessu vettvangi. Þau málefni sem tekist hefur verið á um á síðustu árum eru flest til lykta leidd og er það vel. Vissulega á eftir að setja endapunktinn í nokkrum málum svo sem ESB málinu og stjórnarskrármálinu en það er ekki lengur spurning um hvort, heldur hvenær sá punktur verður settur. Ég vil trúa því að ég hafi haft erindi sem erfiði með mínu framlagi hér í bloggheimum og annars staðar.
Framundan eru spennandi tímar fyrir þá sem eru í framboðum fyrir næstu alþingiskosningar. Látum þá um þann slag sem hafa kosið að taka þátt í honum og hafa hlotið til þess traust félaga sinna. Ég hef áður sagt spádóm minn í því hvernig sú barátta endar og hvaða ríkisstjórn tekur við að þeim loknum. Vonandi verður það farsælt fyrir land og þjóð þó að sporin vissulega hræði. Ég leyfi mér engu að síður að trúa því að menn hafi lært af mistökum fortíðarinnar og forðist endurtekningar. Frelsi fárra án ábyrgðar og takmörkunar leiðir til helsis fjöldans. Og þjóðfélag án félagslegs réttlætis fær aldrei þrifist til lengdar. Það geta sjálfstæðismenn aldrei sætt sig við.
Ný ríkisstjórn hefur aftur á móti alla burði til þess að gefa þjóðinni von í stað vonleysis og hefja hér framfarasókn til betri lífskjara. Þjóðin er orðin þreytt á sitjandi ríkisstjórn og forystufólki hennar. Ógæfuríkisstjórn Samfylkingar og Vg kallaði þá ógæfu sjálf yfir sig eins og ég hef bent á í skrifum mínum hér á þessu kjörtímabili. Hún þurfti enga hjálp til þess frá stjórnarandstöðunni eða öðrum.
Tryggum lesendum þakka ég samfylgdina í gegnum árin og vona að næsta ár verði þeim og fjölskyldum þeirra gæfuríkt. Kærar þakkir, gleðilegt nýtt ár og gangið á Guðs vegum.
![]() |
Tímamótasamstarfi fagnað í prentsmiðjunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hækja ríkisstjórnarinnar rífur kjaft
Sunnudagur, 30. desember 2012
Það kemur úr hörðustu átt að Þór Saari af öllum mönnum tali um gömul vinnubrögð og fjórflokkafar. Rann Hreyfingin ekki inn í fjórflokkinn svokallaða þegar hún gekk inn í ríkisstjórnina og steinrann við hið sama. Þór Saari er orðinn einn af talsmönnum ríkisstjórnarinnar í flestum málaflokkum. Það er Hreyfingin sem heldur lífinu í ríkisstjórninni og skrifar upp á ,,úrelt" vinnubrögð á þingi, eins og hann kallar svo.
Þannig hefur Þór og flokkssystur hans tryggt sér völd og áhrif með samningum sem eru gerðir í reykfylltum herbergjum og þola ekki dagsins ljós. Það geta ekki talist heiðarleg vinnubrögð gagnvart neinum að taka ákvörðun um stuðning við ríkisstjórn fyrir luktum dyrum. Það gerðu þingmenn Hreyfingarinnar og Bjartrar framtíðar, sem eru smáflokkar sem boða ný vinnubrögð en brúka þau gömlu. Orð og gjörðir fara hér ekki saman.
Ef Þór Saari trúir því að hann sé boðberi nýrra tíma þá hefur hann misskilið sjálfan sig illilega.
![]() |
Ekki hægt að endurtaka 2007 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Stöð2 fór yfir strikið
Laugardagur, 29. desember 2012
Það var átakalegt að horfa á frétt Stöðvar2 um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Guðmundi Hjaltasyni og Lárusi Welding. Rætt var um ,,sneypuför" ákæruvaldsins og allt gert til að gera lítið úr niðurstöðu dómsins þar sem ákærðu voru dæmdir til fangelsisvistar. Síðan tók steininn úr þegar fréttamaður stöðvarinnar beindi spjótum sínum að dómaranum í málinu og reyndi að gera hann tortryggilegan.
Getur verið að ákæruefnið tengist með einhverjum hætti eiganda Stöðvar2? Óneitanlega minnti þetta á fjölmiðlafárið í kringum Baugsmálið svokallaða þar sem ákærðu komu fram á hverju kvöldi sem fórnarlömb spilltra stjórnvalda sem vildu koma höggi á fjölskyldu ,,Hróa hötts", sem hafði ekkert til saka unnið annað en færa alþýðu þessa lands matvöru á bónusverði.
Þeir sem sáu frétt RÚV um sama mál í kvöld voru upplýstir um sannleikann í málinu. Sérstakur saksóknari sótti málið gegn ákærðu og vann málið fyrir dómstólum. Ákærðu voru dæmdir fyrir glæp. Síðan geta menn deilt um hvort refsingin hæfi glæpnum. En varla eru menn settir bak við lás og slá fyrir ,,sneypuför" ákæruvaldsins, eða hvað? Þetta var sigur fyrir embætti Sérstaks saksóknara.
Þar með er ekki sagt að samúð okkar sé ekki með þeim dæmdu og fjölskyldum þeirra. En umfjöllunarefni þessa pistils var einkennilegt fréttamat Stöðvar2, svo ekki sé meira sagt.
![]() |
Fengu níu mánaða dóm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Össur starfar í umboði VG
Laugardagur, 29. desember 2012
Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. ráðherra og einn af stofnendum VG, gerir rétt í því að benda forystufólki sínu innan VG á þá ábyrgð sem þau bera á utanríkisráðherra Íslands, Össuri Skarphéðinssyni. Hann er utanríkisráðherra í stjórn sem VG á aðild að og þess vegna hlýtur VG að bera mikla ábyrgð á embættisstörfum hans. Forysta VG skrifar þannig upp á framgöngu hans í samningaviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Hún situr honum til samlætis í ESB lestinni á fyrsta farrými sem brunar til Brussel. Veisluhöldin og glasaglaumurinn í ESB lestinni með embættismönnum og sérfræðingum ESB eru á kostnað skattgreiðenda á Íslandi og í hinum 27 ríkjum Evrópusambandsins.
Spurning er aðeins þessi. Ætla VG liðar að fara úr lestinni fyrir næsta alþingiskosningar eða sitja sem fastast og skála glaseygðir í kampavíni fyrir Össuri og hirð hans sem vinnur baki brotnu að því að framselja fullveldi Íslands til sambands sem eru að taka á sig mynd Sambandsríkis Evrópu?
![]() |
Utanríkisráðherra í hlutverki loddara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skotglaður borgarstjóri skýtur á hálfvita
Föstudagur, 28. desember 2012
Jón Gnarr er öðruvísi stjórnmálamaður. Það er það sem gerir hann sérstakan og þannig nær hann að aðgreina sig frá öðrum stjórnmálamönnum, sem njóta ekki mikils trausts eða vinsælda um þessar mundir. Þess vegna má ekki vanmeta Jón Gnarr nú þegar hann sækir á ný mið. Hann sækist eftir athygli, fær hana og nýtur hennar.
Það sem kom á óvart í fréttinni um ,,hálfvita með riffla" var skotvopnaeign borgarstjórans í gegnum tíðina. Hann er þess vegna ekki bara skotglaður í orðum heldur líka með hættulegri vopnum svo sem Remington 700 Varmint riffli og Remington Marine magnum haglabyssu. Ófáar skammbyssur hefur kappinn sennilega átt um ævina.
Borgarstjóri Reykjavíkur sendir nú Bandaríkjamönnum skilaboð og segir að ,,skotvopnin innan landsins ykkar [séu] vandamálið" og það sé til skammar. Hann bætir við: ,,Hálfvitar og vitfirringar með riffla og samsæriskenninar." Allt er þetta hárrétt hjá borgarstjóranum.
Spurningin er bara, nú þegar við vitum að Gnarrinn er velvopnum búinn og skotglaður maður, hve alvarlega við eigum að taka kappann. En sennilega er hann hættur að skjóta með byssukúlum og lætur orðin duga í stjórnmálabaráttunni, orð sem svo sannanlega geiga sjaldan marks. En þetta er það sem vitfirringar Ameríku og annarra landa hafa ekki lært ennþá eða vilja ekki skilja. Þeir grípa til vopna í stað rökræðu. Þar liggur vandinn - og vitfirringin.
![]() |
Hálfvitar með riffla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sláum skjaldborg um heilbrigðiskerfið
Fimmtudagur, 27. desember 2012
Það er skylda stjórnvalda á hverjum tíma að tryggja heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Um það er ágæt þjóðarsátt. Á undanförnum árum hefur verið að molna undan heilbrigðisþjónustu samfélagsins, heilbrigðisþjónustu sem hér á árum áður var talin með þeim bestu í heimi. Heilbrigðiskerfið er einn af hornsteinum velferðarkerfisins sem almenn sátt ríkir um að eigi að vera hér til staðar fyrir alla Íslendinga. Daglega lesum við fréttir um að alvarlegir brestir séu komnir í heilbrigðiskerfið. Stjórnvöld hafa reynt að berja í brestina en hafa ekki haft erindi sem erfiði. Að 4.000 Íslendingar séu án læknis fyrir norðan er vitnisburður að átak þarf að gera í að skapa þjóðarsátt um endurreisn heilbrigðiskerfis landsmanna. Um þetta skrifaði ég reyndar grein í Morgunblaðið fyrir um áratug síðan enda voru þá alvarleg teikn á lofti með vaxandi sjúklingasköttum og vísun sjúklinga á göngudeildir. Allir eru sammála um að sá sársaukafulli niðurskurður í heilbrigðismálum sem hefur verið árlegur viðburður í fjárlögum á undanförnum áratug eða svo geti ekki gengið lengur, nema það standi til að gera hér róttækar breytingar á markmiðinu um heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Hluti af þessu hlýtur að vera bygging nýs spítala.
Alþingiskosningar eru á næsta ári. Allir stjórnmálaflokkar skulda þjóðinni að leggja fram skýra stefnu í þessum málum og benda á leiðir til að ná fyrrgreindu markmiði í því að tryggja öllum landsmönnum bestu heilbrigðisþjónustu sem er fáanleg á hverjum tíma. Staðan í dag er með öllu óásættanleg.
![]() |
4.000 án læknis fyrir norðan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Formaður Samfylkingarinnar valinn í opnu prófkjöri
Fimmtudagur, 27. desember 2012
Á landsfundum Sjálfstæðisflokksins fá aðeins þeir að kjósa forystu flokksins sem eru löglegir landsfundarfulltrúar. Og það getur enginn orðið nema hann eða hún hafi greitt um 8.000 kr. fyrir seturétt. Og ég geri ráð fyrir að flest sjálfstæðisfélög hafi það þannig að aðeins þeir félagar sem greitt hafa félagsgjald geti orðið fulltrúar félagsins á landsfundi. Já, það kostar að taka þátt í félagsskap og á að kosta. Gæta þarf þó hófsemi í þessu eins og öðru. Þú tekur þátt í flokksstarfi þíns flokks ef þú trúir því staðfastlega að flokkurinn hafi erindi sem erfiði með stefnu sinni í landsmálum. Allt er þetta svo sjálfsagt að varla þarf að taka þetta fram.
Í Samfylkingunni virðist hins vegar engu máli skipta hvort menn séu alvöru félagar í fylkingunni eða ekki. Það virðist ekki skipta máli hvort menn greiði félagsgjald eða ekki. Og það virðist ekki skipta máli að þeir sem velja formann Samfylkingarinnar séu í raun flokksbundnir eða ekki. Formannsframbjóðendur virðast líta á formannskjör sem opið prófkjör. Það er skrýtin pólitík. En það kemur svo sem ekkert lengur á óvart þegar Samfylkingin er annars vegar. Það sem þetta opinberar aftur á móti er þetta: Flokkur sem getur ekki haft einfaldar innri reglur á hreinu korteri fyrir formannskjör er engan veginn fær að stjórna landsmálunum. Það eru allir að vera farnir að sjá í dag og merkilegt að ESB klúbburinn innan Sjálfstæðisflokksins láti detta sér í hug að gæla við samstjórn með Samfylkingunni eftir næstu alþingiskosningar.
![]() |
Mikilvægt að ein regla gildi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Klaustur í klandri
Miðvikudagur, 26. desember 2012
Kirkjubæjarklaustur er með fegurstu bæjarstæðum á Íslandi. Þar á að standa blómleg byggð í skjóli fjalla og blómlegra akra. Raunveruleikinn er þó því miður annar. Írafárið út af sorpbrennslustöðinni segir kannski allt sem segja þarf um hvernig komið er fyrir íbúum Skaftárhrepps. Það hefur legið fyrir í allnokkurn tíma að sorpbrennslan er ólögleg og verður að víkja af umhverfisástæðum. Hvað hefur sveitarstjórnin gert til að undirbúa íbúa fyrir framtíðina? Það var frægt um árið þegar sveitarstjóri Skaftárhrepps talaði um sauðfjárbændur sem hálfgerða þurfalinga í beinni útsendingu. Nú berst hún fyrir því að sorpbrennslustöð fái að starfa áfram í þessu fallegasta sveitarfélagi Íslands þannig að stöðin fái að spúa eiturgufum yfir íbúa og gesti. Ætli hún taki ekki upp á því að hlekkja sig við reykháfinn til að koma í veg fyrir hið óumflýjanlega? Byggir framtíðarsýn sveitarstjórnarinnar á sorpbrennslu? Auðvitað er það bagalegt að sveitarfélag, sem er í kröggum, þurfi að leysa sorpmálin og upphitunarmál helstu stofnana í einu vetfangi, en stjórnvöld hljóta að sýna þessu skilning ef hér væri rekin lífvænleg byggðastefna í landinu.
Skaftárhreppur hefur allt til að bera til að geta orðið aftur lífvænlegt sveitarfélag með öfluga atvinnustarfsemi og fagurt mannlíf. En forsenda þess er að innviðir sveitarfélagsins séu til staðar svo sem verslanir, þjónustustofnanir og nægt húsnæði. Það þarf að skapa fjölbreytt atvinnutækifæri sem færa sveitarfélaginu arðvænleg störf sem færa sveitarfélaginu skatttekjur. Landbúnaðar hefur alltaf skipað veglegan sess í Skaftárhreppi en finna þarf leiðir til að búa til störf þar sem unnið er meira úr landbúnaðarafurðum. Þegar sláturhúsið var lagt niður vegna ,,hagræðingar" hjá Sláturfélagi Suðurlands þá var það mikið högg fyrir samfélagið í hreppnum. Það hefði aldrei átt að gerast. Á Kirkjubæjarklaustri ætti einnig að vera hægt að byggja upp klasa fyrir skapandi greinar, svo sem í upplýsingatækni, ef innviðir eru til staðar og þar skiptir sköpum greiðar og hagkvæmar tengingar við upplýsingasamfélagið. Ef sveitarfélagið veitti slíkum fyrirtækjum ívilnanir fyrstu árin þá myndi það örugglega draga að fjárfesta og fyrirtæki.
Mér, Síðumanninum, finnst sorglegt hvernig byggð í Skaftárhreppi hefur látið undan síga. Auðvitað liggur sökin ekki hjá íbúum eða sveitarstjórn að öllu leyti heldur miklu frekar skorti á raunverulegri byggðastefnu stjórnvalda. En frumkvæðið verður að koma frá íbúum ef það á að takast að snúa þessari óheillaþróun við. Þá er hægt að knýja á um hjálp ,,að sunnan" þegar hún verður til staðar í formi dreifbýlisþróunartefnu. Þá stefnu þurfa stjórnvöld að búa til, því staðreyndin er sú að hún er ekki fyrir hendi.
![]() |
Funduðu um sorpbrennslustöð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
,,Heimsendir" fyrir ríkisstjórnina
Sunnudagur, 23. desember 2012
Á tímum sem þessum, sem beínlínis hrópa á aðgerðir í þágu fyrirtækja og heimila landsmanna, þá gengur ekki að við völd sé jafn veik ríkisstjórn og raun ber vitni. ,,Hreina vinstri stjórnin" er svo löskuð að hún treystir á stuðning smáflokka. Björt framtíð og Hreyfingin hafa líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér. Sá stuðningur er dýru verði keyptur eins og Ögmundur Jónassonar, innanríkisráðherra, fékk að kenna á síðasta þingdaginn. Þegar ráðherrar hafa ekki lengur vald á sínum eigin málum þá er landið í raun stjórnlaust. Stór mál bíða næsta þings sem verður kosningaþing þar sem hver þingmaður mun fallbjóða hver annan. Þeir þingmenn sem eiga enga von á endurkjöri munu að sama skapi þvælast fyrir mikilvægum málum enda hafa þeir engu að tapa úr þessu.
Það er komið á endastöð hjá þessari ríkisstjórn. Það sjá allir bæði stuðningsmenn sem andstæðingar stjórnarinnar. Því fyrr sem forystufólk ríkisstjórnarinnar viðurkennir það, því betra fyrir þjóðarhag. Spá um heimsendi rættist ekki sem betur fer. En ,,heimsendir" fyrir ríkisstjórnina opinberaðist öllum síðustu daga þingsins.
Ríkisstjórnin ætti þess vegna að biðjast lausnar í upphafi nýs árs. Við ætti að taka starfsstjórn eins og tekið hefur við á Ítalíu hjá honum Monti. Boða ætti til alþingiskosninga sem gætu farið fram seinni hlutann í febrúar. Þá gæti tekið við ný ríkisstjórn sem færði fólkinu von í stað vonleysis, aðferðir í stað aðferðaleysis og samstöðu í stað samstöðuleysis. Við höfum einfaldlega ekki efni á að hafa þessa ríkisstjórn lengur við völd.
Gleðileg jól og hafið það sem best yfir jólahátíðina.
![]() |
Þingmenn komnir í jólafrí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.12.2012 kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Willem Noe, fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB: ,,Höft á innflutningi dýra til Íslands afnumin við aðild"
Föstudagur, 21. desember 2012
Í jólablaði Eiðfaxa skrifar þýski lögfræðingurinn Karola Schmeil grein um Evrópusambandið og íslenska hestinn. Það er full ástæða til að vekja athygli á þessari grein. Karola hefur áhyggjur af framtíð íslenska hestsins ef til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kemur. Hún minnist á málþing sem hún sat í Þýskalandi um inngöngu Íslands í Evrópusambandið árið 2010 og hafði áhuga á að vita hvaða meðhöndlun íslenski hesturinn fengi í aðildarsamningi. Hún varð fyrir vonbrigðum því ekki var minnst á íslenska hestinn á fundinum. Eða eins og segir orðrétt í grein Karolu:
Ekki var minnst á íslenska hestinn, alls ekkert. Lítillega var farið inn á landbúnaðarmál. Í þeim efnum þyrfti aðeins að aðlaga regluverk íslensks landbúnaðar að regluverki ESB. Afleiðingin verður sú, að innan skamms fyllast stjórnsýsluskrifstofur á Íslandi af Evrópusinnuðum embættisblókum sem horfa hýru auga til þeirra styrkja sem ESB veifar fyrir framan nefið á þeim.
Hann sagði svo ekki vera. Höft á innflutningi dýra til Íslands yrði afnumið. Það væri nefnilega þannig, að aðild hefði ekki bara kosti í för með sér heldur stundum ókosti líka.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)