Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Þögn ríkisfjölmiðla hrópandi

Það hlýtur að hafa vakið athygli fleiri en mín að ríkisfjölmiðlarnir, RÚV og Stöð 2, minntust ekki orði á mótmælin sem boðað er til á Austurvelli kl. 10:30 á morgun við þingsetningu. Það er óhætt að segja að ríkisfjölmiðlarnir standi undir nafni. Hins vegar er ljóst að fjórða valdið er ekki til á Íslandi í dag, frekar en fyrir hrun. Þeir hafa afsalað sér valdinu til ráðandi afla.


mbl.is Býst við 20 þúsund manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kátt á hjalla í spillingarkoti framsóknarmanna

finnurogolafurÞá hefur einn af nánustu samstarfsmönnum Finns Ingólfssonar verið ráðinn yfir Einkavæðingarbankastofnun ríkisins. Finnur er jú einn af þeim framsóknarmönnum sem auðgaðist persónulega á stjórnmálastarfi sínu. Hann kom snauðugur inn í pólitík en fór auðugur úr henni. Auðvitað er það bara tilviljun og hefur ekkert að gera með að hann var lykilmaður í einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans. Það var jú hann sem sást aka brosandi með útrásarvíkingnum Ólafi í Samskipum, rétt eftir að þeir yfirfærðu Búnaðarbankans til sín í skjóli sterkrar stöðu sinnar innan Framsóknarflokksins (sjá mynd). 

Páll Magnússon var aðstoðarmaður Finns og Valgerðar Sverrisdóttur, en ég spái því að dómur sögunnar leiki þessa ráðherra illa. 

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, skrifar svo um afrek ráðherra Framsóknarflokksins hér forðum:

Síðan er náttúrlega stóra mótsögnin sem fram kemur í viðhorfum þessa ráðherra Framsóknarflokksins, annars vegar til lítt þóknanlegra hægri manna sem helmingaskiptastjórnin hefur hleypt að kjötkötlunum og hins vegar braskspesíalista Framsóknar sem fengið hafa að valsa með þjóðareignirnar og nota þær til þess að stórhagnast á. Þar horfa menn til manna á borð við Þórólf Gíslason á Sauðárkróki, eins helsta fjáröflunarmanns flokksins til áratuga, Finns Ingólfssonar, fyrrum varaformanns og Ólafs Ólafssonar eins helsta fjármálagúrús flokksins til langs tíma. Tveir hinir síðarnefndu birtust sællar minningar skælbrosandi á baksíðu Morgunblaðsins ( sjá hér ) þegar þeir höfðu handsalað kaupin á Búnaðarbankanum í árslok 2002, nokkuð sem er til umræðu þessa dagana. Þess má geta í framhjáhlaupi að Ólafur Ólafsson hefur átt í smá viðskiptum undanfarna daga, sbr. þessa frétt Morgunblaðsins. Fram kemur að hann er að kaupa hlut í eignarhaldsfélaginu Eglu fyrir 5,5 milljarða. 

Og það merkilega er að Ögmundur skrifaði þennan pistil á heimasíðu sína 15. júní árið 2005! Það sýnir best að rétt er að leggja við hlustir þegar Ögmundur talar, eins og ég hef oft vakið athygli á.

Egill Helgason, Silfur-Egill, bætir við fimm árum síðar:

Hann verður allsherjar reddari fyrir hóp manna í viðskiptalífinu þar sem eru fremstir í flokki Ólafur Ólafsson og Þórófur Gíslason, starfar á mörkum stjórnmálanna og viðskiptanna þar sem hin miklu tengsl hans koma mjög til góða. Verður forstjóri Vátryggingafélagsins sem hafði verið selt út úr Landsbankanum með mjög sérkennilegum hætti – VÍS verður síðan eitt þeirra félaga sem kaupir Búnaðarbankann – verður stjórnarmaður í KB-banka eins og hann hét þá, er einn af mönnunum sem tekst að brenna upp eignir Samvinnutrygginga , eignast stóran hlut Icelandair í gegnum kaup á félagi sem nefnist Langflug og var í eign áðurnefnds eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga, öðru nafni Gift. Er þá ekki allt upp talið.

Já, hér er rætt um Finn Ingólfsson, sem finnur alltaf leiðir til að lenda standandi, eins og ráðning Páls sannar best. Þá er sem sagt Páll Magnússon, handlangari og vinur Finns, sem er vinur Ólafs Ólafssonar, komin yfir Bankasýslu ríkisins.

Það er sagt er að kátt sé í spillingarkoti framsóknarmanna. Og það kemur ekki á óvart að þessi ráðning er á ábyrgð Árna Páls Árnasonar, sem er frægur af endemum fyrir ráðningar sínar. Hann hlýtur að vera tekinn í Guðatölu Finns og félaga eftir þennan gjörning. En ætlar Ögmundur að sitja undir þessari ráðningu þegjandi? 


mbl.is Páll ráðinn forstjóri Bankasýslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svikamylla Samfylkingarinnar og Trójuhestur Grikkja

 

trojuhesturGylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er blindaður af ESB sólinni. Sama er að segja um Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, eins og kom fram í Kastljósi í gærkvöldi. Bæði bíða þau eftir að ESB komi með lausnirnar á öllum okkar vandamálum. ESB á að losa okkur við verðtrygginguna, lækka vöruverð, lækka vexti, bæta stjórnsýsluna, losa okkur við krónuna, landbúnaðinn og íslensku sægreifana. Öll stefnumál Samfylkingarinnar koma frá ESB í einum pakka. Það er pakkinn.

En auðvitað sjá allir sem fylgjast með heimsfréttum að ESB er ekki í stakk búið að gefa neinar gjafar. Þeir eiga fullt í fangi með sinn Trójuhest, sem Grikkir færðu þeim í nútímanum, en færðu Trójubúum forðum.

Á meðan gerist ekkert enda má ekkert gera fyrir almenning fyrr en ESB pakkinn í samfylkingarumbúðunum kemur til landsins. Það má ekki spilla gleðinni og eftirvæntingunni um komu frelsarans. Þjóðin þarf að þrauka þar til frelsarinn kemur. Öll stefnumál Samfylkingarinnar eru stefnumál ESB. Og þess vegna má ekki hrinda þeim í framkvæmd fyrr en Ísland er orðið hluti af ríkjabandalaginu sem stefnir hraðbyri í að verða sambandsríki, að sögn Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Ég held að þjóðin sé loksins farin að átta sig á þessari svikamyllu. En meðan Vinstri grænir spila með þá blæðir þjóðinni út, hægt og örugglega, meðan við bíðum eftir að Samfylkingunni takist ætlunarverk sitt að afhenda fullveldi okkar og sjálfstæði erlendum aðilum á nafni misskilinnar alþjóðahyggju.


mbl.is Kostir og gallar ESB-aðildar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Strange Case of Dr Jekyll and Mr Hyde"

Jekyll-mansfield,,Einn af hornsteinum flokksins samkvæmt upphaflegri stefnuyfirlýsingu og landsfundarsamþykktum til þessa dags hefur verið yfirlýst andstaða við aðild að Evrópusambandinu. Á þessu var hnykkt af formanni flokksins Steingrími J. Sigfússyni frammi fyrir alþjóð fyrir alþingiskosningarnar vorið 2009 og því bætt við að umsókn um aðild kæmi ekki til greina eftir kosningarnar."

Þannig ritar Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. ráðherra og einn af lykilstofnendum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Þetta kemur fram í grein Hjörleifs ,,Eigum við að trúa þessu um VG-forystuna?" og hann ritaði 9. september 2010. 

Steingrímur segir nú ískaldur að ekki sé gott að setja ESB umsóknina á ís, eins og kom fram á fundi sem Heimssýn og Herjan stóðu fyrir í Háskólanum í dag. Steingrímur kallar eftir upplýstri og efnislegri umræðu um kosti og galla aðildar. Hver stöðvar hann í þeirri umræðu?

Steingrímur segist vera andvígur aðild að Evrópusambandinu. Hann hlýtur þá að vita hvað er í pakkanum, því varla gæti hann verið andvígur aðild ef hann vissi það ekki. Varla hefur hann barist gegn aðild að Evrópusambandinu og fengið flokksfélaga sína til að gera slíkt hið sama, ef hann vissi ekki hvað væri í pakkanum. En samt vill hann halda áfram viðræðum við Evrópusambandið og eyða meira en milljarði í þær viðræður. Og ekki verða þeir fáir milljarðarnir sem Evrópusambandið mun hafa fjárfest í þessu gæluverkefni ríkisstjórnar Íslands þegar upp verður staðið og ,,pakkinn" verður á ríkisstjórnarborðinu. Skítt með stjórnsýsluna sem er öll að fara á hliðina vegna vinnu við áætlanir um aðlaganir að ESB. Skítt með sjávarútveginn og landbúnaðinn sem eru í uppnámi og óvissu á meðan á þessum skrípaleika stendur. Skítt með þjóðina sem er klofinn í herðar niður vegna deilna um mál sem hann Steingrímur segist í dag ætla að berjast gegn með kjafti og klóm. Hvern þykist Steingrímur vera að blekkja?

Steingrími er alveg sama um allt þetta, því hann ætlar að berjast gegn aðild, enda er hann andvígur aðild, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sem ber ábyrgð á ferlinu, er andvígur aðild og flokkurinn þeirra er andvígur aðild. Já, andvígur áður en ESB pakkanum verður pakkað inn í gjafapappír aðildarsinna og ESB.

Þá er eðlilegt að barnið spyrji: En af hverju að halda áfram viðræðum um pakka sem Steingrímur veit hvað verður í og Steingrímur ætlar að afþakka? Jú, vegna þess að hann telur að þjóðin sjái ekki það sem hann sér nú þegar! Það þurfi að pakka stóra ESB pakkanum (þ.e.a.s. ESB samningnum með þúsundum tilvísanna í lög og reglur ESB, sáttmála, tilskipanir og reglugerðir, alls um þúsundir blaðsíðna) inn í fallegar og freistandi gjafaumbúðir svo hægt sé að selja þjóðinni varninginn. Og kannski fellur hann fyrir glitrandi glerperslunum líka þegar á hólminn er komið? Umbúðirnar skipta sköpum.

Þetta vita góðir markaðsmenn eins og Steingrímur J. Sigfússon. Honum tókst að selja kjósendum baráttu gegn einkavæðingu fyrir kjördag. Það breyttist í baráttu fyrir einkavæðingu eftir kosningar. Honum tókst að selja kjósendum baráttu gegn AGS fyrir kjördag. Það breyttist í baráttu fyrir AGS  eftir kosningar. Honum tókst að selja kjósendum baráttu gegn fjármagnseigndum fyrir kjördag. Það breyttist í baráttu í þágu fjármagnseigenda eftir kosningar. Honum tókst að selja kjósendum baráttu gegn Icesave. Það breyttist í baráttu fyrir Icesave eftir kosningar. Og honum tókst að selja kjósendum baráttu gegn umsókn um aðild að ESB. Steingrímur sendi inn umsókn um aðild að ESB innan mánaðar eftir kjördag.

Já, geri (selji) aðrir betur! Við höfum séð báðar hliðar á stjórnmála- og sölumanninum Steingrími J. Sigfússyni, dr Jekyll og herra Hyde.


mbl.is Ekki gott að setja umsókn á ís
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðursvörður alþingismanna - útrásarvíkingar o.fl.

 

,,Þingsetningin fór víst fram í gær í skjóli myrkurs. Almenningi er vinsamlegast bent á að óþarfi er að skunda á Austurvöll til að fagna og heiðra þingmenn á leið til messu."

Jæja, ég hefði allt eins átt von á að lesa þessa frétt í fjölmiðlum í morgunsárið. Sjáum við ekki öll hve illa er komið fyrir okkur þegar þingmenn þjóðarinnar þora ekki að setja Alþingi með sóma af hræðslu við eigin þjóð? Eru heitir vindar arabíska vorsins komir að Íslandsströndum?

Allt frá hruni hefur reiðin í þjóðfélaginu kraumað undir og verið að magnast. Stjórnvöldum hefur ekki tekist að slá á þá reiði. Stjórnvöld ákváðu að þjóna fjármagninu, ekki fólkinu. Trúnaðarbresturinn á milli þings og þjóðar sem varð til í hruninu er ennþá opið sár. Hyldýpis gjá myndaðist sem er óbrúuð ennþá. 

Það átti að vera verkefni löggjafar- og framkvæmdavaldsins eftir hrun að endurreisa traustið á lýðræðislegum stofnunum, stjórnsýslunni og stjórnmálamönnum. Það hefur mistekist.

Að síðustu legg ég til að útrásarvíkingar, kaupahéðnar með milljarða afskriftir, eigendur ný-einkavæddu bnakanna (vogunarsjóðir, útrásarvíkingar og braskarar), Bretar, Hollendingar (Icesave) og AGS standi heiðursvörð við Alþingi við þingsetninguna. Þeir hafa ríka ástæðu til að heiðra ráðherra og þá alþingismenn sem bera ábyrgð á stjórnvöldum fyrir og eftir hrun.   


mbl.is Vaxandi ólga og reiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmaður gefur laganna vörðum fingurinn

olinaSumir þingmenn stjórnarflokkanna leggja það í vana sinn að gefa fólki fingurinn. Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fer þar fremst á meðal jafningja. Síðast gaf hún Geir H. Haarde fingurinn og sendi hann fyrir Landsdóm. En að þessu sinni fengu lögreglumenn að sjá fingurinn. Í leiðinni ætlaði hún að slá sig til riddara með því að klappa björgunarsveitarmönnum réttsælis. Lögreglumenn hafa lýst furðu á ummælunum, en auðvitað furðar þjóðin sig á þeirri óvirðingu sem háttvirtur alþingismaður sýndi laganna vörðum í fjölmiðlum. Ólína, sem er ein af nánustu ráðgjöfum forsætisráðherra, hefur örugglega viljað með þessum ummælum senda lögreglunni skilaboð sem geta varla misskilist.

Á laugardaginn 1. október kl. 10:30 getur fólkið í landinu líka sent Alþingi og ríkisstjórninni skýr skilaboð. Ætlar þú að mæta?


mbl.is Lýsa furðu á ummælum þingmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða útlenskir málaliðar ráðnir til að gæta alþingismanna?

 

Allt er á hverfandi hveli. Lögreglan ákveður að heiðra ekki alþingismenn og sennilega verða fáir lögreglumenn sem munu vernda þá. Lögreglumenn ganga úr óeirðalögreglunni rétt fyrir óeirðir. Það boðar ekki gott. Alþingismenn óttast greinilega bæði lögregluna og almenning. Setningu Alþingis er flýtt til að forðast fólkið. Fyrir kosningar þá elta þingmenn kjósendur á röndum. Eftir kosningar þurfa kjósendur að elta þingmenn og ráðherra til að ná á þeim tali. Það er illa komið fyrir lýðræðinu. Það hljóta allir að sjá.

Lögreglan og almenningur er í sama liði. Alþingismenn ættu að vera það líka en einhverra hluta vegna þá hafa unnið sér það til ,,heiðurs" að svo er ekki. Ætli þetta endi ekki með því að stjórnvöld verði að fara ráða sér útlenska málaliða til að vernda sig? Þeir gætu kannski rætt við hann Huang sem hefur víst ágæt tengsl við Kínastjórn, sem kann að taka á mótmælendum. Nú, eða fært Alþingi til Grímsstaða á Fjöllum.

Ófriðurinn og óánægjan í þjóðfélaginu er komið á hættustig. Þeim er að takast að flytja inn ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs til Íslands. Það er holur hljómur í málflutningi þeirra sem þykjast berjast fyrir friði í heiminum og á sama tíma ala á ófriði í eigin landi. Vonandi fara stjórnvöld að átta sig á þessu og fara að vinna með fólkinu en ekki gegn því. Svona gengur þetta ekki lengur. 


mbl.is Flýta setningu Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látum ekki öfgamenn ráða för

 

Ég bið alla, alþingmenn og aðra, að hlusta á ræðu Benjamíns Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sem hann flutti af mikilli innlifun og einlægni á allsherjarþingi SÞ (sjá myndband í enda pistils. Myndbandið að ofan er ræða Simon Peres, sem hann flutti í þýska þinginu árið 2010 til að minnast helfararinnar), þessu sama og Össur Skarphéðinsson notaði til að hella olíu á eld ófriðarbálsins fyrir botni Miðjarðarhafsins. 

Ísland á að vera talsmaður friðar og sátta á alþjóðlegum vettvangi, en ekki að efna til ófriðar. Ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs mætti líkja við púðurtunnu og utanríkisráðherra íslensku þjóðarinnar hleypur um með eldspýtuna í leit að kveikjuþráðnum. Það þarf ekki að koma okkur á óvart miðað við hvernig ríkisstjórn Íslands hefur alið á ófriði hér á landi frá fyrsta stofndegi. Ef ófriður er í boði þá skal hann valinn. Ræða Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra Íslands, á allsherjarþingi SÞ var Íslandi ekki til sóma.

Ef Alþingi Íslendinga samþykkir þingsályktunartillöguna ríkisstjórnarinnar þá yrði það sorgardagur í sögu Íslands og Ísraels. Íslendingar hafa alltaf verið vinaþjóð lýðræðisríkisins Ísraels og hefur sú vinátta verið gagnkvæm. Ólafur T. Thors, forsætisráðherra Íslands, og bróðir hans Thor Thors, sendiherra, studdu heilshugar stofnun Ísraelsríkis árið 1948, Gyðingaríkis, sem átti að vera griðarstaður Gyðinga eftir helförina. Deila Araba og Ísraels á sér langa sögu sem skal ekki rakin hér.

Það er hins vegar uppgjöf að hverfa frá samningaleiðinni og samþykkja ályktun sem er stríðsyfirlýsing við Ísrael á ögurstundu. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku er mjög eldfimt. Það er mikilvægt að smáríki eins og Íslands beri klæði á vopnin og leiti leiða til að koma á varanlegum friði milli Araba og Ísraela. Það er alltaf von ef við höldum samningaleiðinni opinni. Lokum henni ekki. Sjálfstæði eins ríkis má ekki verða til þess að sjálfstæði annars verði ógnað. Það verður raunin ef Palestína öðlast sjálfstæði án þess að viðurkenna tilvist Ísraels sem Gyðingaríkis. Forsætisráðherra Ísraels gerði þessu góð skil í ræðu sinni á allsherjarþinginu SÞ. 

Við skulum ekki láta öfgamenn í hópi beggja deiluaðila ráða ferðinni. Missum ekki móðinn og drepum vonina. Það er vatn á myllu öfgamanna, bæði í hópi Araba og Ísraela. Ef Alþingi Íslendinga samþykkir þingályktunartillögu ríkisstjórnarinnar þá höfum við gengið í lið með öfgamönnum.       


mbl.is Lýsti yfir stuðningi við Palestínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar á heimshornaflakki meðan Róm brennur

Það er náttúrulega vonlítið að hafa vit fyrir ríkisstjórninni með röngu forgangsröðina. Ástandið í lögreglunni stigmagnast á sama tíma og almenningur býr sig undir mótmæli á Austurvelli 1. október. Samtök atvinnulífsins gáfust upp á ríkisstjórninni í dag. Í þeirra augum er ríkisstjórnin vanhæf. Og var víst tími til kominn að menn vöknuðu á þeim bænum. Samtökin eru ekki ein um þessa skoðun.

Á sama tíma eru lykilráðherrar í ríkisstjórnni á heimshornaflakki. Þar halda þeir fyrirlestra um eigin ágæti og lýsa sýndarveruleika á Íslandi. Þeir hrósa sér af árangri í efnahagsstjórn sem engin þegn þeirra hefur orðið var við á eigin skinni. En það er ekki nýtt á Íslandi að ráðherrar fari á flakk um heiminn til að safna dagpeningum. Og þó að dagpeningarnir séu ferðahvetjandi þá er hræðslan við dóm kjósenda öllu verri. Íslendingar eru nefnilega farnir að sjá hve klæðalitlir ráðherrarnir þeirra eru þó útlendingar geri ekki veður út af slíkum smámunum. Sinn er siður í hverju landi.  


mbl.is Segja sig úr óeirðasveitinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúdrín vildi heiðarlegar og lýðræðislegar kosningar!

 

Pútín og Medvedev voru ekki lengi að kveða Kúdrín í kútinn. Það er ekki rúm fyrir nema eina skoðun í Rússlandi. Skoðun Pútín. Allir sem leyfa sér að andmæla einræðisherranum er ýtt úr vegi. Í gær leyfði Kúdrín sér að andmæla skósveini Pútíns.  Í dag missti Kúdrín ráðherrastólinn. Og honum varð illilega á þegar hann bað um heiðarlegar og lýðræðislegar kosningar. Það er svona eins og að skvetta vígðu vatni á púka. Þetta kallast að hafa ægivald á málefnum og mönnum.  


mbl.is Kúdrín segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband