Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Omega

Ert þetta ekki bara orðið ágætt? Það held ég. Í fjögur ár hef ég reynt að hafa áhrif á þjóðfélagsumræðuna í þeim málum sem ég mér fannst skipta máli. Vonandi hefur mér tekist að hafa jákvæð áhrif og tekist að varpa ljósi á mál sem skipta okkur öll máli í nútíð og framtíð. Íslenskur landbúnaður hefur verið mér hugleikinn enda skiptir landbúnaður sköpum fyrir eyríki handan hafsins eins og Ísland. Sjálfstæði og fullveldi Íslands hefur sömuleiðis oftsinnis komið fyrir í pistlum mínum þessi fjögur ár sem vefsíða mín hefur lifað hér á Moggabloggi. Baráttan gegn Icesave var ein sú þýðingarmesta af öllum og þar vannst sigur að lokum. Aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur og verið umfjöllunarefni mitt enda eru fá málefni sem skipta þjóðina meira máli um þessar mundir. Lýðræðinu er hætt komið ef við iðkum það ekki m.a. með lýðræðislegri umræðu á vefnum. Framtíð lýðræðis er í höndum netverja.

Ég tel mig hafa sinnt minni lýðræðislegu skyldu með því að láta mig málin varða. Ef við erum ranglæti beitt þá eigum við ekki að horfa undan eða þegja. Við eigum að svara fyrir okkur og láta í okkur heyra. Það hef ég reynt að gera. Það er mál að linni. Nú er komið að öðrum að taka við kyndlinum. Ég þakka öllum dyggum lesendum en gestir vefsíðunnar frá upphafi hafa verið yfir 312.000. Á síðasta ári voru þeir rúmlega 127.000. Gestafjöldi á dag hefur yfirleitt verið á bilinu 250 til 500 manns, stundum færri en oft fleiri. Takk fyrir mig.

Höfum alltaf hugfast þetta úr Orðskviðunum. Læt ég það vera lokaorðin mín hér í bloggheimi.

Sofa ögn enn, blunda ögn enn, leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast, þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi og skorturinn eins og vopnaður maður. 


Kvöldklukkur hljóma


Óvitar fálma í myrkvi með fjöreggið

 

Ég veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta eftir að hafa lesið þessa ótrúlegu frétt á mbl.is. Varaformaður sjávarútvegsnefndar og háttvirtur alþingismaður virðist fálma í myrkvi eins og óviti. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hún fálmar með fjöregg þjóðarinnar í óvitaskap sínum. Samfylkingin undir forystu Ólínu Þorvarðardóttur vill koma núverandi sjávarútvegsstefnu fyrir kattarnef. Hún á að vera helsta böl þjóðarinnar - þ.e.a.s. íslenska sjávarútvegsstefnan. 

Jú, víst var þetta eitt af helstu kosningaloforðum Samfylkingarinnar. En stjórnarflokkarnir eru þekktir fyrir allt annað en að efna kosningaloforð. Þannig ætlar Ólína að láta gera úttekt á núverandi sjávarútvegsstefnu vegna þess að útlendingar sögðu í gær að stefnan væri sú besta í heimi, en ekki sú versta í heimi, eins og stjórnarflokkarnir sögðu kjósendum fyrir kosningar. Svo ætlar Össur líka að selja Evrópusambandinu íslensku sjávarútvegs-stefnuna sem á að glóa eins og gull á rústum sjávarútvegs ríkja sambandsins. Varla fer hann að selja þeim svikna vöru sem hefur verið útvötnuð og fyrnd?  

Samfylkingin lofaði engu að síður fyrningarleið sem var flott áróðursbragð. Stefna með fínum orðum eins og sameign þjóðarinnar, sægreifar, byggðastefna og mannréttindi. Enginn vissi hins vegar hvaða áhrif sú leið hefði á sjávarbyggðir, sjávarútveginn eða efnahag þjóðarinnar. Skjóta sem sagt fyrst og spyrja svo. Það er í tísku hjá ríkisstjórninni. Svo settu stjórnarflokkarnir upp leikrit sem kallað var Sáttanefndin. Og sáttanefndin fundaði daga og nætur og fann upp svokallaða samningaleið í sjávarútvegi. En þá fór hrollur um stjórnarliða enda blandast sátt og samningar við stjórnarstefnuna álíka vel og olía og vatn. Þá fengu simpansar í ráðuneyti Jóns Bjarnasonar það verkefni að semja frumvarp með framsóknarívafi um ný lög um fiskveiðar. Samfylkingin sagði þetta með simpansana alla vega á Alþingi og ekki fer hún með fleipur eða gífuryrði. Ég vissu þó ekki að þeir væru farnir að nota simpansa í stjórnarráðinu en það kann að vera liður í stjórnarstefnu villikatta og apakatta.  


mbl.is Vill úttekt á áhrifum núverandi kvótakerfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán Haukur Jóhannesson (5. hl. af 5): ,,Hagsmunaaðilar hafa tekið virkan og góðan þátt"

Ef við snúum okkur að öðrum viðkvæmum málum eins bann við innflutningi á lifandi dýrum? Við erum með undanþágu í EES varðandi þetta ákvæði. Er það ekki eitthvað sem við þurfum að semja um sem tekur tillit til sérstöðu Íslands að einhverju leyti?

Jú, algjörlega. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Bústofnar okkar eru mjög fornir og hafa verið einangraðir frá alda öðli. Við höfum mjög slæma reynslu af því að flytja inn lifandi fé til kynbóta til dæmis. Þetta er eitthvað sem við að sjálfsögðu höldum til haga. Þetta er mjög mikilvægt mál. Til að undirbyggja okkar sérstöðu og kröfur þá munum við setja fram ýmis vísindaleg rök því til stuðnings.

Er líklegt að þetta fáist samþykkt?

Ég held að það sé alveg skilningur á því að Ísland og sjúkdómastaða bústofna hér sé allt önnur en lifandi dýra á meginlandi Evrópu. Það eru ýmsir sjúkdómar sem eru til staðar í bústofnum í Evrópu sem ekki fyrirfinnast hér á landi. Það er þá spurning um leiðir til að tryggja það að við getum haldið þessari stöðu. Auðvitað eru ákveðin prinsipp innan Evrópusambandsins og eitt þeirra er viðskipti með lifandi dýr. En það eru ýmis frávik frá því m.a. á grundvelli sjúkdómastöðu á ákveðnum svæðum.

Verður mikil breyting frá því að vera innan EES annars vegar og aðili að ESB hins vegar hvað þetta varðar þ.e. innflutning á lifandi dýrum?

Við erum með undanþágu í EES varðandi lifandi dýr. Það sama er t.d. með sjávarútveginn. Þar erum við með undanþágur hvað varðar erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi í EES samningnum þó að það sé eitt af grunnprinsippum innri markaðarins. Og þetta kemur allt upp á borðið vegna þess að við erum að því með því að sækja um aðild að ganga inn í þetta samstarf. Það þýðir að við þurfum að fara í gegnum þetta allt. Við erum með ýmsar sérlausnir og undanþágur í EES og gerðum þess sem við höfum tekið yfir í gegnum EES samninginn. Það er ekki sjálfvirkt að undanþágur sem við erum með í EES flytjist yfir. Við þurfum að fara í gegnum þetta allt. Við þurfum þá að sannfæra Evrópusambandið um það að forsendur hafi ekki breyst hvað varðar þær undanþágur sem við höfum undir EES og að það sé réttlætanlegt að halda þeim áfram.

Hvað kostar að fara í þennan klúbb? Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, var að gefa upp töluna 15 milljarðar nýlega sem aðildargjaldið yrði á ári brúttó. Við á ESB Með og á móti - kannski.is vefnum höfum nefnt lægri tölur en þetta með vísun í skýrslu sem utanríkisráðuneytið lét gera árið 2003. Hvað liggur fyrir um þetta?

Ég ætla að nota tækifærið og hrósa ykkur fyrir þennan ágæta vef kannski.is. Hann er mjög sniðugur og góður vefur.

Það er skilgreint hvernig aðildargjöldin eru fengin. Það felst í því að við þurfum að greiða hluta af tolltekjum, eitthvert brot af virðisaukaskattstekjum og síðan hlutfall af þjóðarframleiðslu. Það liggur fyrir að það er ca. 15 milljarðar. En síðan þarf að draga frá því hvað við fáum á móti. Það vitum við ekki. Og svo ég vitni í þína ágætu ritgerð, Jón Baldur, eina ferðina enn, þá vitum við það ekki fyrr en samningur liggur fyrir. Það mun mjög ráðast af því hvers konar samning við náum í landbúnaði, byggðamálum og sjávarútvegsmálum. Þannig að það er ekki hægt að segja nákvæmlega til um það. Ef við lítum til Finna sem menn hafa nú oft gert í þessu samhengi þá hafa þeir sum árin verið að borga meira til Evrópusambandsins, og kannski oftar, heldur en þeir fá til baka. En einhver ár hafa þeir líka fengið meira til baka úr sjóðum ESB. En aftur, þetta er eitthvað sem ómögulegt er að segja til um fyrr en samningur liggur fyrir og við vitum nákvæmlega hvað það er sem við höfum samið um.

En kostnaðurinn við umsóknarferlið? Hvað mun það kosta?

Á fjárlögum er gert ráð fyrir 990 milljónum króna á þremur árum, 2009-2012. Það er það sem við erum að vinna eftir. Það er líka lögð áhersla á aðhald sem við munum fylgja eftir í útgjöldum. Hingað til erum við alveg á áætlun með þessi útgjöld.

Nú skiptir mjög miklu máli að þú sem aðalsamningamaður njótir viðtæks trausts hjá hagsmunaaðilum. Hvernig hefur þú hagað þeirri vinnu að vera í sambandi við hagsmunaaðila og tryggja að það ríki þetta trausts á þessari vinnu?

Jú, ég hef leitast við að hitta fulltrúa hagsmunaaðila og hef reyndar átt fjölda funda með allskonar hópum; frjálsum félagasamtökum, fulltrúum sveitarfélaga, eldri borgurum o.s.frv. Og það er vissulega mikilvægt að það sé gott trausts þar á milli. Og ég mun auðvitað leitast eftir því og núna sérstaklega þegar við erum að fara í þennan fasa, þegar þessi kaflaskil verða, að eiga gott samráð. En við eigum auðvitað í stöðugu samráði við hagsmunaaðila í gegnum samningahópana. Þá má nefna að sunnlenskir kúabændur fengu mig á fund til sín og eyfirskir kúabændur. Ég hef farið á opna fundi t.d. í Dalvík og Menntaskólanum á Akureyri. Við erum náttúrulega boðin og búin, þau okkar sem erum að sinna þessari vinnu, til að koma á fundi með fólki og kafa ofan í einstök mál, t.d. ofan í landbúnaðarmálin, sjávarútvegsmálin, gjaldmiðilsmálin og eiga hreinskiptin samskipti. Þessari vinnu munum við halda áfram, að sjálfsögðu.

Að lokum. Finnst þér jafnframt að hagsmunaaðilar hafi tekið fullan þátt í þessari vinnu og veitt umbeðnar upplýsingar og aðstoð?

Hagsmunaaðilar hafa tekið virkan og góðan þátt. Sú vinna hefur gengið í stórum dráttum mjög vel.  


Stefán Haukur (4. hl.): ,,Að óbreyttum reglum Evrópusambandsins í sjávarútvegi þá myndum við fá allar veiðiheimildir úthlutaðar til Íslands. En vissulega eins og menn hafa bent á þá er hægt að breyta þessum reglum."

 

Ef við hugum að ferlinum hinum megin við samningsborðið. Við erum að semja við 27 sjálfstæð ríki og það hlýtur að taka þá ákveðinn tíma að komast að niðurstöðu. Hvernig næst niðurstaða í þeim hópi?

Evrópusambandið þarf að fjalla um málið sín megin, í sínum hópi. Það eru þessi 27 ríki. Það getur tekið mismikinn tíma. Væntanlega þurfa þeir að skoða í kjölinn hvernig þeir vilja nálgast málið. Og eftir að við setjum okkar samningsmarkmið fram þegar að verður opnað á það þá þurfa þeir að skoða það og meta hvernig þeir bregðast við. Við vitum ekkert um það. Það verður að koma í ljós. Þá hefjast viðræðurnar fyrir alvöru.

Ég gleymdi einum þætti varðandi sjávarútvegsstefnu ESB. Grunnþáttur í henni er veiðireynsla. Veiðiheimildum, eða kvótum, er útdeilt í samræmi við veiðireynslu. Þá kem ég aftur að því sem ég var að segja áðan (innskot: sjá 3. hl. viðtals við Stefán Hauk) að þessir staðbundnu stofnar við Íslandsstrendur hafa alfarið verið veiddir af Íslendingum í yfir 30 ár. Þannig að óbreyttum reglum Evrópusambandsins í sjávarútvegi þá myndum við fá allar veiðiheimildir úthlutaðar til Íslands. En vissulega eins og menn hafa bent á þá er hægt að breyta þessum reglum. Þá er það kannski eitthvað sem við þurfum að skoða hvernig við tryggjum í sessi til frambúðar að við höldum þessum rétti. Svo eru fjárfestingarnar annað.

En er það ekki rétt skilið að ef þessi regla um hlutfallslegan stöðugleika, þ.e. hvernig aflaheimildum er úthlutað, fer inn í stofnsamninginn þá öðlast hún mjög sterka stöðu? Þannig að það verður mjög erfitt að breyta þeirri reglu?

Jú, það sem er tekið inn í aðildarsamning, því verður ekki breytt án samþykkis ríkisins sem í hlut á.

En þessi regla um hlutfallslegan stöðugleika er ekki inn í neinum stofnsáttmála í dag, er það?

Nei, þess vegna segi ég það að við verðum einmitt að skoða það hvernig við getum tryggt það til frambúðar ef þetta verður hluti af okkar samningsmarkmiðum. En við erum ekki búnir að klára þessa undirbúningsvinnu og þróa samningsmarkmiðin.

En hefurðu ekki áhyggjur af þessari forræðissviptingu, þó að þeir muni taka tillit til þessa og hins? Það er í þeirra valdi, lagasetningarvaldið er hjá þeim, þ.e að ákveða leyfilegan heildarafla o.s.frv.?

Ég held að það sé of snemmt að fara út í svona bollalengingar. Við skulum fyrst sjá hvernig samningsmarkmiðin muni líta út og hvað okkur gengur að ná þeim fram. En vissulega er það þannig að það er ráðherraráð Evrópusambandsins sem tekur, eins og reglurnar eru í dag, ákvörðun um heildarafla. En þá er reynslan sú að það eru bara þau ríki sem hafa um þann stofn að segja sem taka þátt í þeirri umræðu og ákvörðun. Þannig að í okkar tilviki þá erum við eina ríkið sem sætum að þessum afla eða þessum aflaheimildum. Þannig að við erum í raun og veru eina ríkið í framkvæmd sem hefði eitthvað um það segja. En formlega vissulega hefðu hin ríkin það. En þetta er eitthvað sem við ætlum að skoða í kjölinn og athuga hvernig við getum útfært í samningsmarkmið. 

Hér birti ég endurrit af ESB þætti Nei eða Já? á Útvarpi Sögu frá 19. maí sl. Gestur þáttarins var Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og aðalsamningamaður Íslands í samningaviðræðum við ESB. Þáttastjórnendur voru við Elvar Örn Arason, stjórnmálafræðingur. Þetta er 4. hl. af 5 sem ég birti hér.                                  


Stattu þig, Ögmundur!

ogmundurÖgmundur Jónasson, innanríkisráðherra, gerir rétt í því að verða við eindregnum tilmælum FÍB um að ekki verði lagðir á vegtollar. Vegtollar eru skattar í dulargervi. Og eins og alþjóð ætti að vita þá er ógerlegt að fella niður skatta sem þegar hafa verið lagðir á og fundnir upp af stjórnmálamönnum. Bifreiðaskatturinn hans Jóns Baldvins og Jóns Sigurðssonar, ráðherra Alþýðuflokksins, átti að vera tímabundinn skattur en í dag er hann ennþá innheimtur og hefur stökkbreysts frá því hann varð fyrstu lagður á.

Vegtollar eru einnig annað orð yfir ,,einkaframkvæmd". Frægasta einkaframkvæmdin er tónlistarhöll elítunnar, Harpa, sem skattgreiðendur fengu í fangið. Í Kópavogi þekkjum við til einkaframkvæmda svo sem Gustsvæðið og Kórinn. Allar þessar einkaframkvæmdir enduðu hjá okkur skattgreiðendum eftir hringrás sem braskarar græddu á. Vegaframkvæmdir á vegum einkaaðila með vegtollum er einkaframkvæmd og sömuleiðis skattheimta - á sama tíma.

Vissulega er þetta leið til að komast hjá banni AGS á frekari lántökur ríkissjóðs, sem AGS virðist ætla að horfa framhjá, en loftfimleikar og feluleikur er það. Það er alltaf betra að koma til dyranna eins og maður er klæddur og kalla hlutina réttum nöfnum. Einu sinni var talað um að sjúklingaskattar ættu að auka kostnaðarvitund sjúklinga. Þetta kallast að auka kostnaðarvitund bifreiðaeigenda, eins og hún væri nú ekki næg fyrir. Var ekki verið að hækka vegtollinn í Hvalfjarðargöngin vegna minni umferðar?

Ögmundur er stefnufastur og heiðarlegur stjórnmálamaður sem aðrir stjórnmálamenn mættu gjarnan taka sér til fyrirmyndar að þessu leyti.

Mynd: mbl.is


mbl.is „Hreinskiptinn fundur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán Haukur (3. hluti): ,,Við erum að reka hér sjálfbæran sjávarútveg án ríkisstyrkja"

Varðandi sjávarútvegsmálin þá segir í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis eftirfarandi orðrétt: 1. Reglur ESB fela í sér að sambandið hafi fullar valdheimildir til lagasetningar á sviði fiskveiða. 2. Ákvarðanir um leyfilegan heildarafla, aflahlutdeild og sóknartakmarkanir eru teknar sameiginlega af stofnunum ESB. 3. Borgarar í aðildarríkjum ESB hafa heimild til að fjárfesta í sjávarútvegi í sambandinu öllu, en hægt er að krefjast þess að eigendur útgerða hafi efnahagsleg tengsl við það ríki sem úthlutar þeim aflaheimildum. Hér eru talin upp öll atriði sem eru algjörlega andstæð okkar markmiðum sem við ætlum að ná. Ætlum við ekki að undirgangast sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB?

Það er alveg ljóst að við munum sækja fram með samningsmarkmið sem við teljum vera viðunandi en það er náttúrulega þjóðin að lokum sem mun eiga lokaorðið með það. En það er ágætt að halda til haga nokkrum atriðum sem að ég held að geti hjálpað okkur mikið að knýja fram sérlausn. Í fyrsta lagi er sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins sniðin í kringum aðstæður sem eru allt öðruvísi en hjá okkur þ.e.a.s. við aðstæður eins og eru við Eystrasaltið þar sem eru mörg ríki sem liggja að hafinu og eru að veiða sömu stofna. Þeir byggja á ríkisstyrkjum sem við gerum ekki. Við erum að reka hér sjálfbæran sjávarútveg án ríkisstyrkja. Okkar efnahagslögsaga liggur ekki að efnahagslögsögu neins aðildarríkja Evrópusambandsins. Staðbundnu stofnanir hér sem ekki fara út fyrir efnahagslögsöguna eru alfarið veiddir af Íslendingum og það eru 2/3 hlutar stofnana í verðmæti. Þannig að þetta eru til dæmis atriði sem að ættu að hjálpa okkur að sannfæra menn um það ESB megin að við þurfum sérlausnir. Við erum í raun og veru að reka okkar sjávarútveg án markaðíhlutunar, með mjög skilvirkum hætti og án ríkisstyrkja. Þannig að ég held að við höfum ýmis atriði sem við getum nýtt okkur í þessum samningaviðræðum. Fyrir utan að efnhagslögsaga okkar er mjög stór og hlutfallslega er sjávarútvegur okkar mikilvægur okkar hagkerfi. Þetta er um 10% af okkar þjóðarframleiðslu og 40% af gjaldeyristekjum koma úr sjávarútvegi. Síðan eru ákvæði í sáttmála Evrópusambandsins, þessum svokallaða Lissabon sáttmála, sem vísa til aðstæðna sem að við búum við; eyja norðurhjarans til dæmis. Og þar eru ýmis rök sem við vonandi getum nýtt okkur til hins ýtrasta í þessum viðræðum.

 Finnurðu þennan skilning hjá mótaðilanum, aðildaríkjum ESB, á sérstöðu Íslands?

Já, ég finn það. Evrópusambandið á ekki að fara í neinar grafgötur um það hvað við leggjum ríka áherslu á sjávarútvegs- og landbúnaðarmáin til dæmis. Við höfum alveg verið mjög heiðarlegir gagnvart Evrópusambandinu hvað það varðar.

Hefur eitthvað komið fram í rýnivinnunni sem bendir til þess að við þurfum ekki að undirgangast lög og reglur ESB t.d. í sjávarútvegsmálum?

Svo að það sé alveg skýrt. Þessi rýnivinna voru ekki samningafundir. Þar vorum við að gera grein fyrir okkar stefnu og regluverki í sjávarútvegsmálum, alveg eins og í landbúnaðarmálunum, draga fram okkar sérstöðu og flagga þeim atriðum sem við teljum mögulegt vandamál ef af aðild verður. Þessum munum við síðan halda til haga og útfæra í samningsmarkmið.  

Hér birti ég endurrit af ESB þætti Nei eða Já? á Útvarpi Sögu frá 19. maí sl. Gestur þáttarins var Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og aðalsamningamaður Íslands í samningaviðræðum við ESB. Þáttastjórnendur voru við Elvar Örn Arason, stjórnmálafræðingur. Þetta er 3. hluti sem ég birti hér.            


,,Síðan hafa hetjur átt, heima í þessu landi, ýmis borið arfinn hátt, eða varist grandi"

Það kann að vera að Jón Sigurðsson, forseti, hafi átt sér draum um stjórnarskrá fyrir Ísland. Og sá draumur rættist. Íslendingar fengu stjórnarskrá og aukið sjálfstæði frá Dönum meðan Jón lifði. Og fleiri draumar nafna míns forseta áttu eftir að rætast. Alþingi var endurreist og í brjóstum Íslendinga vaknaði sú von að þeir fengju fullt sjálfstæði og fullveldi. Jón Sigurðsson kveikti vonarneista með löndum sínum um allt land um að þessi fámenna þjóð á hjara veraldar gæti öðlast sjálfstæði frá Dönum og gæti orðið þjóð með þjóðum. Minniháttarkenndin sem hafði þjakað þjóðina í aldir hvarf smátt saman vegna glæsilegrar baráttu sjálfstæðissinna eins og Jóns Sigurðssonar frá Hrafnseyri við Arnarfjörð. Jón forseti skrifaði þrotlaust um möguleika landsmanna til að byggja upp landið, nýta auðlindir þess með þeim mannauði sem þjóðin bjó yfir.

Að halda því fram, eins og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, gerði í þjóðhátíðarræðu til heiðurs Jóni Sigurðsson að helsti draumur hans hafi verið stjórnarskrá fólksins er varla hægt að kalla annað en sögufölsun. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur markvisst gert allt það sem Jón Sigurðsson barðist gegn. Hann vildi telja kjark í þjóðina. Ríkisstjórnin hefur gert allt til að berja kjarkinn úr þjóðinni. Hann vildi efla sjávarútveg og landbúnað. Ríkisstjórnin gerir allt til að veikja þessar atvinnugreinar. Jón Sigurðsson barðist fyrir að færa völdin frá meginlandi Evrópu svo þjóðin öðlaðist fullt sjálfstæði. Ríkisstjórn Jóhönnu gerir allt til að færa völdin frá Íslandi til meginlands Evrópu. Þann eld sem Jón Sigurðsson, forseti, tókst að kveikja, frelsisglóð, er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, að takast að slökkva.

Það er vel við hæfi að Jóhannes úr Kötlum endi pistil minn að þessu sinni með Íslendingaljóði - Land míns föður. Flutt á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum árið 1944.

 


mbl.is Draumur Jóns um stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán Haukur aðalsamningamaður Íslands: ,,Við getum ekki komist að því hvað við getum samið um nema í samningum" - 2. hluti ESB Nei eða Já? þáttar

 

Hefur aðildarferlið ekki breyst í tímans rás?

Jú, vissulega. Skipulagið hefur breyst t.d. frá því Svíar, Finnar og Austurríkismenn gengu inn í Evrópusambandið árið 1995. Og Evrópusambandið hefur verið að þróa þetta, og læra af reynslunni, og skipuleggja þetta o.s.frv. Svo hefur Evrópusambandið líka breyst og innviðir þess.

Gerir aðild að Evrópusambandinu ekki kröfu um að það þurfi að breyta miklu í landbúnaðarmálum hér á landi?

Vissulega kallar aðild að Evrópusambandinu á ýmsar breytingar. Það er hins vegar spurning hvernig þær verða útfærðar. Hvað landbúnaðarmálin varðar þá þurfum við, og það er þáttur í þessari vinnu okkar, að það er að greina nákvæmlega hvaða verkefni koma til, hvaða verkefnum við þurfum að sinna við mögulega aðild. Hvernig er hægt að sinna þeim stjórnsýslulega? Hvernig er hægt að koma þeim fyrir? Og hvaða stofnanir gætu sinnt því? Allt þetta er þáttur í þessari vinnu.

Spurning um fyrirkomulag samninganefndar og vinnuhópa við aðildarferlið. Hvernig koma hagsmunaaðilar að þessari vinnu?

Við höfum aðalsamninganefnd sem í eiga sæti 18 einstaklingar, sem hafa verið beðnir að hafa tekið þessi verkefni að sér í krafti sérfræðiþekkingar og stöðu í þjóðfélaginu. Undir þessari aðalsamninganefnd starfa 10 samningahópar um einstök svið. Í þessum samningahópum eru fulltrúar hagsmunaaðila með sína fulltrúa.

Ég held að það sé erfitt að bera saman sjávarútvegs- og landbúnaðarhópinn. Vissulega snerta landbúnaðarmál neytendur og launþega. Í því samráði sem átti sér stað þegar verið var að setja upp þetta skipulag og hverjir ættu að eiga fulltrúa þar þá býst ég við að það hafi komið fram óskir um þetta.

Á hverju munu menn byrja á samningaviðræðum við Evrópusambandið?

Við erum að fara opna fyrir viðræður. Þeir kaflar sem verða opnaðir í næsta mánuði, 27. júni, þá verða það sennilega kaflar um opinber útboð, samkeppnismál, vísindi og rannsóknir, og menntun og menningu. Þetta eru allt kaflar sem falla undir EES samninginn og eru viðalitlir kaflar. Niðurstaðan úr rýnivinnunni er að þarna eru fá mál sem þarf að semja um, en þó ákveðnir þættir í samkeppnismálum, svo sem einkasala á áfengi og tóbaki.

Það liggur ekki fyrir ennþá hvenær veigameiri  og erfiðari kaflar verða opnaðir. Við förum að horfa til haustsins með fulltrúum Evrópusambandsins. Við gerum ráð fyrir að næsti formlegi fundur verði í október. Við höfum verið að ræða við Pólverja, en þeir munu taka við formennsku í Evrópusambandinu á þeim tíma.

Er ekki réttara að byrja á þessum erfiðari köflum, eins og sjávarútvegsmálum, og taka þann slag?

Jú, það hefur verið okkar skoðun og reyndar hefur framkvæmdastjórnin sagt það líka að þeir vilji gjarnan taka þessa erfiðari kafla ef við köllum það það í bland við hina. En að hluta til ræðst þetta af því að landbúnaðarkaflinn er bara einfaldlega svo efnismikill. Þetta er svo mikið efni og mikil greiningavinna. Við þurfum líka að undirbyggja okkar samningsafstöðu. Þrátt fyrir þína spurningu áðan (innskot: þ.e. spurning JBL) að það væri ekkert um að semja því við værum að undirgangast reglur ESB. Þá er það ekki þannig, því að við erum einmitt að undirbyggja okkar samningsmarkmið og við þurfum að setja fram vísindaleg gögn og ýmis rök. Og eins og fram kemur í þinni ágætu ritgerð á Ísland samleið með ESB í landbúnaðarmálum (innskot: Hér er Stefán Haukur að vísa í BA-ritgerð Jóns Baldurs í stjórnmálafræði (2009): Á Ísland samleið með Evrópusambandinu í landbúnaðarmálum?) og þá vitum við ekki fyrr en samningur liggur fyrir. Og við getum ekki komist að því hvað við getum samið um nema í samningum. Þannig að þú kemst nú að þeirri niðurstöðu í þinni eigin ritgerð og það er nákvæmlega það sem við ætlum að gera.                   


,,Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama"

Það er einhver falskur tónn í þessum bakstungum fyrrum vinnukarla Ólafs Skúlasonar biskups í bak núverandi biskups sr. Karl Sigurbjörnssonar. Sr. Örn Bárður, fyrrum fræðslustjóri Ólafs Skúlasonar, stingur nú hnífnum í bak sr. Karls biskups og áður hafði sr. Baldur, fyrrum biskupsritari Ólafs Skúlasonar, gert hið sama. Ég man ekki eftir að þessir tveir vinnukarlar Ólafs, þáverandi biskups, hafi haft jafn hátt þegar fórnarlömb yfirmanns þeirra þurftu sárlega á slíku að halda. Þá minnir mig að sr. Örn Bárður hafi verið að skrifa í pólitíska áróðursgrein um að færa Esjuna eða eitthvað í þeim dúr. Af öllum prestum Þjóðkirkjunnar þá hefði farið betur á því að þessir tveir settust ekki í dómarasætið yfir núverandi biskup. Eða eins og segir í hinni Helgu bók (Rm. 2:1):

Fyrir því hefur þú, maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama.


mbl.is Telur að forysta kirkjunnar eigi að víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband