Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Allar viðvörunarbjöllur í gang í stjórnarráðinu - Bankarnir gætu tapað!

Og þar með er kauphækkunin upp á 4,5% brunnin upp í verðbólgubálinu. Þetta var stutt gaman og skammgóður vermir fyrir okkur aumingjana. Bankamennirnir eru hins vegar þegar búnir að reikna út verðtryggingargróðann af hækkun verðtryggðu húsnæðislánanna. En auðvitað kemur þetta ekki á óvart. Hagsmunir bankanna eru í forgangi ríkisstjórnar fjármagnseigenda og erlendra kröfuhafa. ASÍ og SA spila með. Þarna fundi þeir leið til að auka hagnað bankanna á einu augabragði. Spurning hvort einhver hafa verið augafullur þegar hann hringsnérist svona í þágu þeirra stóru. Alla vega var hinn sami ekki að snúast í kringum alþýðuna svo mikið er víst. Enda varla hægt að ætlast til að elítan beygi sig og bugti fyrir smælingjunum á þessum síðustu og verstu tímum. Seðlabankastjórinn hennar Jóhönnu sagði svo í dag að ekki væri hægt að samþykkja tvöfalda frumvarpið hans Jóns Bjarna, sem Samfylkingin sagði að simpansar hefðu samið, vegna þess að það myndi stefna efnahag bankanna í tvísýnu. Áður var búið að benda á að tvöfalda frumvarpið myndi ganga að sjávarútvegnum dauðum, leggja landsbyggðina í rúst og valda atvinnuleysi sjómanna og fiskvinnslufólks. Það neyðaróp varð aðeins til að púkinn á fjósbitanum tútnaði út sem aldrei fyrr enda virðist ríkisstjórnin nærast af sundurlyndi og fjandskap út í eigin þjóð. En nú er sagt að allar viðvörunarbjöllur hringi eftir að hinn mjög svo faglegi seðlabankastjóri benti á að einkavæddu bankarnir, sem eru í eigu erlendu vogunarsjóðanna, gætu tapað á tvöfeldninni í stjórnarráðinu. Þegar bankarnir blæða þá hlustar hreina vinstri stjórnin. Þegar fólkinu blæðir þá heyrir enginn. 


mbl.is Spá 5% verðbólgu í lok sumars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er EES samningurinn brot á stjórnarskrá Íslands, eða ekki?

 

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur gefið í skyn að EES samningurinn sé brot á stjórnarskrá Íslands. Á hverjum degi sé verið að innleiða tilskipanir frá Evrópusambandinu, sem Íslendingar verði að lúta í einu og öllu. Á mannamáli þýðir það að fullveldi Íslands hefur verið framselt að hluta til erlends ríkjasambands. Og Össur segir lausnina vera að Ísland gangi í Evrópusambandið. ESB-aðildarsinnar segja að það sé skömminni skárra vegna þess að þá ,,deilum" við fullveldinu með ríkjasambandinu, en framseljum það ekki. Við fáum að sitja við borð valdsmanna í Brussel og á okkur verði hlustað. Að ríkjasamband með 500 milljónum íbúa leggi við hlustir þegar ríki með 0,3 milljón íbúa byrsti sig. Já, svona álíka og þegar íbúar í Hólmavík koma til Reykjavíkur til að tala fyrir tilvist bæjarbúa.

Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn, fullyrti í þættinum ESB Nei eða Já? að EES samningurinn hefði verið brot á stjórnarskrá þegar hann var samþykktur á sínum tíma. Valgerður Bjarnadóttir, alþingismaður fyrir Samfylkinguna, viðurkenndi að vegna breytinga á Evrópusambandinu frá því að EES samningurinn hefði verið samþykktur væri hann á gráu svæði gagnvart stjórnarskránni. Hér má hlusta á þáttinn frá 26. maí sl.

En aðalmálið er þetta hvað sem okkur finnst um gildi EES samningsins að öðru leyti fyrir land og þjóð. Alþingismenn hafa unnið eið að stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Er samningurinn brot á stjórnarskrá de facto, eða ekki? Hvað ber alþingismönnum og forseti Íslands, sem eiga að verja og virða stjórnarskrá Íslands, að gera ef þeir telja að stjórnarskráin sé vanvirt? Hvað á að gera við alþingismenn og forseta Íslands ef þeir eru uppvísir af stjórnarskrárbrotum? Svari nú hver fyrir sig.


mbl.is Íslandi ber skylda til að innleiða ESB-gerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fulltrúi í flokksstjórn Samfylkingarinnar:,,Jóhanna er lýðskrumari"

Þetta sagði einn af fulltrúum í flokksstjórn Samfylkingarinnar um formann Samfylkingarinnar í pistli á Útvarpi Sögu í dag. Þar lýsti hann ,,lýðræðisslegum" vinnubrögðum innan Samfylkingarinnar, sem í orði vill meina að sé lýðræðislegasti stjórnmálaflokkur Íslands - og sá með mesta gegnsæið. Á annað ár hefur þessi þolinmóði fulltrúi í flokksstjórn beðið eftir svari við spurningu, sem vísað var til framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, en ekkert fengið. Og svarið sem hann fékk frá formanni framkvæmdastjórnar flokks ,,gegnsæis og lýðræðis" á flokksstjórnarfundinum um helgina var stutt og skorinort: ,,Ég mun ekki svara þér. Þú getur skrifað okkur bréf". Þetta var eftir að Jóhanna Sigurðardóttir, formaður flokksins, hafði neitað að svara fyrirspurn flokksstjórnarmannsins á fundinum. Fyrirspurnin var um hvenær Samfylkingin ætlaði að afnema verðtryggingu á skuldbindingum, en þetta var eitt af kosningaloforðum flokksins fyrir síðustu þrennar alþingiskosningar eða svo. 

Og mat flokksstjórnarfulltrúa Samfylkingarinnar á ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem Baugsfjölmiðlarnir hafa blásið út í áróðursskyni: ,,Allt lýðskrum".

Ef eigin félagar Jóhönnu eru farnir að kalla hana lýðskrumara er þá ekki mál að linni?


mbl.is Vildu fá Jóhönnu og Steingrím
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er fullt tilefni til að vera bjartsýn, þrátt fyrir ríkisstjórnina

 

Já, við höfum fullt tilefni til að vera bjartsýn. Þrátt fyrir þrjár hatrammar atrennur þessarar ríkisstjórnar til að binda drápsklyfjar á Íslendinga með Icesave, þá tókst það ekki. Þrátt fyrir að þessi ríkisstjórn noti hvert tækifæri sem henni gefst til að sundra þjóðinni, þá hefur það ekki tekist. Þrátt fyrir að þessi ríkisstjórn ráðist með kjafti og klóm á frumatvinnuvegi þjóðarinnar, þá tóra þeir enn. Þrátt fyrir hrunið og þrátt fyrir ríkisstjórnina, þá lifir þjóðin enn. Þrátt fyrir að þessi ríkisstjórn skapi óvissu og ófrið, þá veit þjóðin að það kemur aftur vor í dal. Já, þrátt fyrir allt þá býr hér þjóð við ysta haf sem kann að lifa af náttúruhamfarir og vondar ríkisstjórnir. Það er vor í lofti og sumar við dagsbrún. Guði sé lof fyrir það.


mbl.is „Fullt tilefni til að vera bjartsýn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá Alþýðuflokki til Evrópusamfylkingar

Jóhanna Sigurðardóttir er sérfræðingur í flokkaflakki og stofnun nýrra stjórnmálaflokka. Frá Alþýðuflokki til Evrópusamfylkingar gæti ævisaga hennar heitið. Þar segði hún frá vegferð sinni frá Alþýðuflokknum, til Þjóðvaka, í Samfylkingu og loks til stofnunar Evrópusamfylkingarinnar. Hún bauð upp í dans á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. Sem forystumaður í Alþýðuflokknum tókst henni með góðri hjálp Jóns Baldvins og Jóns Sigurðssonar að rústa þeim flokki. Þjóðvaki var skammlífur undir forystu Jóhönnu. Nú hafa forystumenn Samfylkingarinnar gengið að Samfylkingunni dauðri í tveimur ríkisstjórnum. Nafnið Samfylking mun minna þjóðina á órofa samfylkingu með fjármagnseigendum og löglausum kröfum Breta og Hollendinga í nafni ESB aðildar. Og þá er ekkert annað að gera en að skipta um kennitölu og nafn. Sumir myndu segja að tilgangurinn væri að villa á sér heimildir. Aðrir að tímabært væri að fá sér annað skipspláss þegar dallurinn væri hættur að fiska. En Jóhanna, hvers eiga Vinstri grænir að gjalda að fá ekki að vera ,,memm"?


mbl.is „Lyktar af örvætningu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Björgunarstarfinu er að mestu farsællega lokið", segir forsætisráðherra

 

Segðu þetta Jóhanna við þá sem hafa verið atvinnulausir svo mánuðum skiptir! Segðu þetta við þær fjölmörgu fjölskyldur sem hafa flúið landið í neyð sinni! Segðu þetta við fyrirtækin sem hafa fallið og eru að falli komin! Segðu þetta við millistéttina sem er þjökuð af skattpíningu í boði vinstri stjórnarinnar! Segðu þetta við skuldsettar fjölskyldur sem ennþá eru að bíða eftir skjaldborginni þinni! Segðu þetta við fjölskyldurnar sem neyðast til að bíða í biðröðum eftir matargjöfum hjálparstofnanna! Segðu þetta við gamla fólkið og öryrkja sem ekki hafa orðið varir við ,,björgunarstarfið" þitt Jóhanna!

En auðvitað er Jóhanna ekki að tala um ,,þetta fólk". Þetta er ekki ,,venjulegt fólk" að áliti ráðherra ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra er að tala um þá sem ríkisstjórnin slóg skjaldborg um; fjármagnseigendur og vogunarsjóði sem eru nýir eigendur ný-einkavæddu bankanna. Björgunarstarfinu er ,,að mestu farsællega lokið" fyrir þessa hópa. Það er hárrétt hjá forsætisráðherra ríkisstjórnar fjármangara og elítunnar. Og þessir hópar héldu upp á áfangann þegar ríkisstyrkta ráðstefnuhöllin hans Björgólfs Guðmundssonar var opnuð og skálað var í kampavíni. Allt í boði ríkis og borgar. Börnin fengu að skoða dýrðina viku síðar en þurftu að greiða aðgangseyri.

Já, svo slær forsætisráðherra sér á brjóst og talar um fjárglæframennina og stóreignaelítuna. Hefur einhver fjárglæframaður og aðili í stóreignaelítunni verið settir bakvið lás og slá í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem ætlaði að hreinsa til? Hefur ekki þvert á móti verið mokað undir þetta lið leynt og ljóst? Samþykkti Alþingi ekki sérlög fyrir Björgólf Thor vegna einkafyrirtækis hans, svo hann fengi sérmeðferð samkvæmt skattalögum? Lifir vinstri stjórnin ekki í skjóli fjölmiðlaveldis annars fjárglæfra- og stóreignamanns sem kenndur er við rosabaug? Hefur hár á höfði hinna svokölluðu útrásarvíkinga verið snert í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur? Horfum við ekki upp á ,,business as usual"? Ég veit ekki betur.

Ríkisstjórnin hefur fundið sér nýjan óvin. Það er íslenskur sjávarútvegur.  Jú, Jóhanna ætlar að ráðast til atlögu við ,,sægreifana". Það er þegar búið að afgreiða millistéttina og litlu og meðalstóru fyrirtækin, sem eru komin í eigu erlendu vogunarsjóðanna. En hvar eru þessi sægreifar? Eru þeir ekki fyrir löngu farnir úr landi með skattfrjálsar tekjur sínar eftir að hafa selt sig út úr greininni? Eða á kannski að gera þeim auðveldari fyrir að komast aftur inn í íslenskan sjávarútveg bakdyramegin? Og ekki myndi það valda þeim sem eru með gular stjörnur í augunum vonbrigðum ef vinir þeirra í Evrópu gætu fjárfest í íslenskum sjávarútvegi í nafni alþjóðahyggju og samstöðu allra þjóða. Það mun örugglega bæta lífskjör á Íslandi að arðurinn af sjávarútvegnum fari úr landi, eins og arður einkabankanna.

Nei, þeir geta klappað á áróðurssamkomum Samfylkingarinnar fyrir lífskjarasókn, sem þessi ríkisstjórn hefur tryggt með aðgerðum og aðferðaleysi sínu að verði aldrei í þeirra valdatíð. Við getum fyrst hafið lífskjarasókn þegar fólkið í landinu hefur fengið að kjósa sér nýja fulltrúa á Alþingi Íslendinga.


mbl.is Ofurlaunaliðið fær ekki að soga til sín hagvöxtinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan um landið

Reyndar er þrætueplið aðeins lítið land að flatarmáli, en deilan hrikaleg og hugsanlegar afleiðingar hennar einnig. Undanfarið hefur þessi ágreiningur skekið undirstöður heimsfriðarins.

François Mitterrand (1916-1996), forseti Frakklands, komst þannig að orði á sínum tíma um deilu Araba og Ísraela. Þrætueplið er ennþá landið, Palestína, sem báðir deiluaðilar gera kröfu til.

Vandi, sumir myndu segja tilvistarvandi, Ísraels í dag felst m.a. í því að ef öllum palestínsku flóttamönnunum yrði leyft að snúa til baka með afkomendum sínum í samræmi við alþjóðalög, eða rúmlega 4 milljónum flóttamanna, og þeir fengju fullan kosningarétt þá yrðu Arabar meirihluti íbúa. Það þýddi að Ísrael yrði þá ekki lengur Gyðingaríki heldur Múslimaríki.

Lesa meira.


Steingrímur Joð: ,,Við kunnum að skipuleggja mótmæli"

 

Já, það kunni hann sannanlega. Hann þrýsti mjög á um þjóðstjórn mánuðina eftir hrun en þegar það dugði ekki til að koma honum til valda þá efndi hann loforð sitt við þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde. Vinstri grænir hvöttu til mótmæla og sagt er að þeir hafi skipulagt þau í þaula, jafnvel með aðstoð þingmanna úr röðum Vg til að brjótast í gegnum varnir óeirðalögreglunnar. Á sama tíma hvíldu mótmælendur sig í húsakynnum Vg en þreyttir lögreglumenn fengu að heyra það frá formanni Vg þegar þeir hvíldu sig í húsakynnum Alþingis. Svo segir sagan.

Annað atvik sem er Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, minnist á í bók sinni Hrunið er athyglisvert í ljósi sögunnar. Orðrétt stendur í bók Guðna (bls. 277):

Í umræðum á Alþingi um vantraust á ríkisstjórnina hélt Björn Bjarnason dómsmálaráðherra því hins vegar fram að Steingrímur J. Sigfússon hefði helst tafið fyrir frumvarpi hans um sérstakan saksóknara til að kanna orsakir bankahrunsins og lögsækja fólk ef þurfa þætti. ,,Þetta er þvættingur," greip Steingrímur fram í og hrópaði svo: ,,Étt'ann sjálfur!" Um leið og Björn Bjarnason kvartaði yfir því orðbragði fór Steingrímur úr sæti sínu, gekk að ræðustól Alþingis, starði reiður á ráðherrann, hélt svo áfram til Geirs H. Haarde, beygði sig fram og ,,bankaði" tvisvar í öxlina á honum.

Og staðan í dag er sú að Steingrímur Joð er valdamesti maður Íslands og fyrrverandi forsætisráðherra, sem var steypt af stóli í ,,skipulögðum mótmælum" sætir nú ákæru fyrir Landsdómi.


mbl.is Steingrímur íhugi stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árangurinn af heimsókn Steingríms Joð strax farin að skila sér

Steingrímur Joð hefur greinilega haft góð áhrif á Íra. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Írlands hleypur strax í ræðustól með stríðsyfirlýsingu gegn Íslandi. Ég sem hélt að Steingrímur Joð gæti bara valdið skaða á Íslandi, en hann er greinilega fjölhæfur. Hvað sem má segja um Steingrím Joð þá er hann góður enskumaður. Þannig að Írar hafa ekki misskilið hann eins og Darling misskildi Árna Matt forðum. En kannski er ég bara að misskilja Steingrím Joð, því auðvitað þýðir þessi stríðsyfirlýsing Íra í garð Íslendinga að Össur getur alveg gleymt að láta sig dreyma lengur um náðarfaðm Evrópusambandsins. Svona vinna þeir vel saman ráðherrar í ríkisstjórn Íslands.


mbl.is Írar vilja aðgerðir gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræðingar vara við kreppum og jarðfræðingar við jarðhræringum

 

Steingrímur sá hrunið fyrir. Þess vegna varaði hann Íslendinga við kreppunni. Og þar sem allir tóku svo mikið mark á Steingrímu Joð þá voru Íslendingar mjög vel undirbúnir undir kreppuna. Eða tók kannski enginn mark á kallinum, sem hrópaði eins og hrópandinn í eyðimörkinni? Hvað segir það okkur um Steingrím Joð? Hvað segir það okkur um okkur? Skrifaði Steingrímur Joð ekki bók í langri útlegð sinni í stjórnarandstöðu? Var það þar sem hann varaði við kreppunni? Varð það metsölubók á Íslandi? Kannski er hægt að nálgast bókina hjá Braga fornbókasala. 

Nú er Steingrímur Joð jarðfræðingur, sem ku vera góður undirbúningur undir að vera fjármálaráðherra í landi sem glímir við kreppu og eftirköst hennar. Jarðfræðingar eru manna bestir til að vara við jarðhræringum eins og dæmin sýna. Ef jarðfræðingur varar við eldgosi á Íslandi á næstu 10 árum þá trúa honum allir, enda bara nokkuð líklegt að það gerist á eldfjallaeyju. Eins er það með hagfræðinginn sem varar við kreppu á næstu 10 árum, eða svo. Það er hins vegar spurning hvort við myndum leggja trúnað á orð hagfræðings sem færi að vara við jarðhræringum, frekar en orð jarðfræðings sem varar við kreppu.

Annars hljóta Írar að vera mjög sáttir við að sitja uppi með Steingrím Joð í stað Obama, sem varð að stytta dvöl sína á Írlandi vegna jarðhræringa á Íslandi. Já, fyrst kom Englandsdrottning til Írlands, svo Bandaríkjaforseti og loks fjármálaráðherra Íslands. Írar fengu gosið í Grímsvötnum og svo Steingrím í kaupbæti. Þetta verður seint toppað. Það hefði verið meira vit fyrir frændur okkar Íra að spyrja kallinn um eldgos en efnahagskreppur.


mbl.is Steingrímur: Varaði við kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband