Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011
ESB sóar fjármunum í stríð í Líbíu, almenningur mótmælir í Brussel
Fimmtudagur, 31. mars 2011
Og svo að lokum er hér frétt um stríð sem ESB virðist vera komið í, í Líbíu. RT ræðir við Nigel Farage, þingmann á Evrópuþinginu, um hernaðaríhlutun Breta, Frakka og fleiri ríkja ESB. Ég er hræddur um að hér séu heldur langt gengið í aðgerðum sem SÞ heimiluðu vissulega, en þó einungis til að koma á flugbanni til að vernda óbreytta borgara fyrir refsiaðgerðum hers Gaddafis. Það sem kann að sýnast einföld hernaðaríhlutun í fyrstu kann að magnast upp og dragast á langinn. Í upphafi skal endinn skoða. En Össur er kominn í sinn stríðsleik með stóru strákunum í Evrópu. Hann fær klapp á bakið fyrir það frá vinum hans innan ESB. Hann leikur sér hins vegar með lífi ríkisstjórnar, sem er illa leikinn fyrir. En hann veit að hann á vini í leynum á Alþingi, sem gætu framlengt ráðherradóm hans, þó ríkisstjórnin falli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.4.2011 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jón Ásgeir í febrúar 2008: ,,Ég get fullyrt það að Baugur stendur ekki höllum fæti" og ,,Skoðum aðild að Evrópusambandinu ... þá eiga bankarnir framtíð á Íslandi"
Fimmtudagur, 31. mars 2011
Og úr því að við erum byrjaðir á spaugi þá snúum við okkur að Baugi. Hér er drottningarviðtal við Jón Ásgeir í stöðinni hans, Stöð 2, í febrúar 2008. Hlustum og hlæjum, ja, - eða kannski er meira við hæfi að gráta. Rétt að taka fram að Stöð 2 er ennþá í eigu þessa sama Jóns Ásgeirs. Þetta viðtal fer í sögubækurnar. Tvö gullkorn frá Jóni Ásgeiri: ,,Við höfum rekið þá stefnu í okkar skráðum félögum að segja söguna eins og hún er", og ,,Það er engum greiði gerður að reyna fegra eitthvað bækur með því taka ekki raunmat eigna", Bónusaðferðafræðin: ,,Hver króna skiptir máli. Oft er betri krónan sem sparast en græðist". Hann hefði kannski mátt fara eftir þessari aðferðafræði betur sem hann predikaði.
Og Bónus spurningin hjá fréttamanni Baugs, sem greinilega var það efni sem Baugur vildi koma að: ,,Hvað getur ríkið gert til að koma meira til móts við fjármálageirann?". Og hér hafa allir stjórnmálamennirnir sem höfðu þegið alla styrkina frá Baugi lagt vel við hlustir þegar Jón Ásgeir sagði m.a.: ,,Langtímasjónarmið fyrir ríkið sé ekkert annað en að við skoðum alvarlega aðild að Evrópusambandinu, því ef að það gerist þá eiga bankarnir framtíð hér á Íslandi". Og áfram er spurt: ,,Eigum við að kasta krónunni?". Svar Jóns Ásgeirs: ,,Krónan er ekki framtíðargjaldmiðill .. Með Evrópusambandinu þá höfum við aðgang að Evrópska seðlabankanum, sem gjörbreytir myndinni". Já, þar með var stefna Samfylkingarinnar mótuð og henni hefur ekki verið breytt að neinu leyti enn þann dag í dag. Þarna er stefna vinstri stjórnarinnar í ESB málum römmuð inn af Guðföðurnum.
Nýlega tók svo Stöð 2 aftur viðtal við Jón Ásgeir, í þættinum hans Audda og Sveppa. Það var mikið spaug um Baug. Sagan endurtekur sig, aftur og aftur, þangað til við lærum af sögunni. Það höfum við ekki gert, því miður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eistar um Ísland: Drekar og Björk
Fimmtudagur, 31. mars 2011
Hvaða augum sjá Eistar Evrópu? Það sjáum við hér í þessu myndbandi. Snilld! Ekkert annað orð yfir það.
Réttlætið og reiknistokkurinn
Miðvikudagur, 30. mars 2011
Er hægt að reikna sig niður á réttlæti með reiknistokk? Í umræðunni um Icesave er gerð tilraun til þess. Það er búið að telja fólki trú um að rangt sé rétt, svart sé hvítt, vegna þess að við höfum ekki efni á öðrum valkosti. Það ku vera rétt að samþykkja ranglæti, annars munum við hafa verra af. Það rétt að samþykkja ranglæti, vegna þess að við höfum ekki efni á réttlæti. Og svo reikna menn og afreikna allar hugsanlegar og óhugsanlegar kröfur og málaferli. Óttinn hræðir gungur frá því að gera það sem satt er og rétt. En verðum við ekki stundum að staldra við og spyrja okkur þessara spurninga? Hvað segir réttlætiskenndin okkur að gera? Hvað er rétt og rangt? Er hægt að reikna sig frá ranglætinu með óttanum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Yfirlýsing landbúnaðarráðuneytisins ,,Bændasamtök Íslands höfnuðu ekki beiðni ráðuneytisins um upplýsingar eða sérfræðiaðstoð; þvert á móti"
Þriðjudagur, 29. mars 2011
Ríkisendurskoðun hefur látið misnota sig í krossferð ráðandi stjórnmálaafla gegn Bændasamtökum Íslands. Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið, sem er lykilráðuneyti í að afla gagna um íslenskan landbúnað í þeirri rýnivinnu sem stendur yfir vegna umsóknar um aðild að Evrópusambandinu, sá sig tilneytt til að senda frá sér yfirlýsingu í dag til að leiðrétta rangfærslur í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Fyrirsögnin hér að ofan er hluti af þeirri yfirlýsingu. Þar segir að rangt sé farið með að samtökin hafi hafnað beiðni ráðuneytisins um að starfsmenn samtakanna veittu sérfræðiaðstoð um landbúnaðarmál vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB. Ríkisendurskoðun hefur látið hafa sig út í að apa eftir formanni samninganefndar Íslands gagnrýnislaust í viðtali við Fréttablaðið þar sem embættismaðurinn fór rangt með. . Það er staðfest formlega með yfirlýsingu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Síðan eru dregnar alvarlegar ályktanir út frá þessari röngu fullyrðingu sem gerir skýrslu Ríkisendurskoðunar enn svartari í stjórnsýslulegu tilliti.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar stendur orðrétt:
Að mati Ríkisendurskoðunar er hætta á að samtökin hefti aðgang stjórnvalda að þessum upplýsingum ef þau síðarnefndu fara gegn vilja eða hagsmunum samtakanna. Mikilvægt er að fyrirbyggja að slíkar aðstæður skapist. Í þessu sambandi má benda á að í október 2010 höfnuðu Bændasamtökin beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um að starfsmenn samtakanna veittu sérfræðiaðstoð um landbúnaðarmál vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu.
Hér gengur opinber eftirlitsstofnun mjög langt í kjaftasögustíl Gróu á Leiti. Textinn allur er gróf aðdróttun og atvinnurógur byggður á fullyrðingu, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, hefur upplýst að er alröng. Ríkisendurskoðun gefur í skyn ,,að hætta sé á að samtökin hefti aðgang stjórnvalda að upplýsingum", sem Bændasamtökunum ber að veita stjórnvöldum samkvæmt samningi milli stjórnvalda og Bændasamtakanna, þ.e. Búnaðarlagasamningi. Ef það myndi gerast þá yrði það klárt samningsbrot. Og eftir að ráðuneytið hefur nú leiðrétt þessa alvarlegu rangfærslu í skýrslu Ríkisendurskoðunar þá hlýtur stofnunin að draga hana til baka og biðja hlutaðeigendur opinberlega afsökunar.
Ríkisendurskoðun á ekki að vera áróðursstofnun fyrir ráðandi öfl í þjóðfélaginu. Við sáum nóg af því í Fjármálaeftirlitinu fyrir hrun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.3.2011 kl. 07:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Trúum og treystum Tryggva fyrir framtíðinni. Hann er traustsins verður!
Þriðjudagur, 29. mars 2011
Er þetta ekki sami Tryggvi Þór Herbertsson, alþingismaður eftir hrun, fjármálaráðgjafi fyrir hrun, sem skrifaði faglega og dýra skýrslu með leigupenna frá Ameríku um að íslenska bankakerfið væri skothelt og traust korteri fyrir hrun? Auðvitað eigum við að trúa og treysta Tryggva Þór fyrir framtíðinni eins og við treystum honum fyrir fortíðinni. Ekki spurning! Láttu þér ekki detta annað í hug!
![]() |
53% af Icesave greiðist í ár og á næsta ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mikill er máttur mottunnar
Sunnudagur, 27. mars 2011
Mottumars er fallegt framtak. Framlag karla er að safna mottu í mars. Motta, eða skeggvöxtur, er stuðningur við baráttuna gegn krabbameini. Skilaboð til allra karlmanna um að vera meðvitaðir um þennan skæða sjúkdóm sem læðist að fólki eins og þjófur að nóttu. Krabbamein er ekki dauðadómur. Það hefur sá sem þetta ritar fengið að reyna. Andlega tekur það þó á að greinast og berjast við krabbamein, og þá ekki síður á aðstandendur en sjúklinginn sjálfan. Karlmenn sem glíma við krabbamein geta ekki leyft sér þann munað að safna mottu. Lyfjameðferðin sér til þess. Fyrsta mottan sem vex eftir meðferð segir því meira en orð fá lýst. Þess vegna geng ég stoltur með mína mottu og hef gert í 7 ár.
Heilbrigðiskerfið á Íslandi vinnur kraftaverk á hverjum degi. Kraftaverkið felst í þeim krafti, jákvæðni og þekkingu sem fórnfúst heilbrigðisstarfsfólk okkar býr yfir þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem því er boðið upp á. Þar er valinn maður og kona í hverju rúmi. Kraftaverkið felst og í þeim árangri sem heilbrigðiskerfið hefur náð á öllum sviðum. Með því að slá skjaldborg um heilbrigðisstarfsfólkið okkar, þá sláum við skjaldborg um heilbrigði landsmanna í bráð og lengd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jóhanna er Þrándur í Götu, segir Þorsteinn Pálsson söfnuði Samfylkingarinnar
Sunnudagur, 27. mars 2011
Ástæðurnar fyrir því að ekki er unnt að koma á sátt um nýja útfærslu á stjórnkerfi fiskveiða er hins vegar að finna innan Samfylkingarinnar. Þar er á ferðinni ,,óróleg deild" sem nýtur verndar forsætisráðherra. Að því leyti er forsætisráðherra sjálfur nú meiri Þrándur í Götu málefnalegs árangurs í stjórnarsamstarfinu og á vinnumarkaðnum en þingmennirnir tveir sem fóru um þingflokki VG.
Þannig hljóðar hugvekja Þorsteins Pálssonar þessa helgina fyrir söfnuð Samfylkingarinnar innan allra flokka. Allt styður þetta pistil minn um að öfl innan þjóðfélagsins ætli að koma þessum Þrándi í Götu fyrir kattarnef til að ná ,,árangri" í stjórnarsamstarfinu. Silfur-Egill tók síðan drottningarviðtal við krónprins Samfylkingarinnar, ESB aðildarsinna og fjármagnseigenda í þætti sínum í dag.
Teningunum hefur verið kastað. Væntanlega fer Jóhanna að átta sig á hverjir séu vinir hennar í raun en sennilega er það orðið of seint.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þar mótmæla þeir, hér kyssa þeir vöndinn
Sunnudagur, 27. mars 2011
Bretar mótmæla orsakavöldum efnahagshrunsins, bönkum og fyrirtækjarisum innlendum og erlendum, sem tröllriðu þjóðfélögum til að fá útrás fyrir áhættu- og gróðafíkn sína. Hrunið hefði átt að vera öllum víti til varnaðar. Í stað þess hefur ráðandi öflum tekist ,,að grafa snyrtilega yfir skítinn" með kattískum hætti og gera sig klár fyrir næstu lotu.
Til að kóróna meðvirknina á Íslandi þá berjast stjórnvöld okkar fyrir því að kyssa á vöndinn með því að samþykkja þjóðnýtingu himinháa skulda áhættufíklanna. Þegar hafa stjórnvöld gengið í ábyrgð fyrir, eða greitt úr ríkissjóði um 500 milljarða til fallna bankakerfisins, eftir hrun. Nú á að fá almenning til að taka á sig 700 milljarða ríkisábyrgð í viðbót. Það er höfuðstólinn sem Icesave III snýst um. Látum ekki plata okkur eina ferðina enn af talsmönnum banka (sem hafa haldið og kostað fjölmarga ,,fræðslufundi" um Icesave III) eða talsmönnum viðskiptalífsins (Áfram hópurinn, SA og ASÍ), sem rugla okkur með vonarpeningum og væntingum um góðar endurheimtur og stöðugt gengi íslensku krónunnar. Þann söng ættum við að kannast við frá því fyrir hrun.
Upphæðin sem þú, ágæti lesandi, skrifar upp á með því að segja JÁ 9. apríl er 700.000.000.000 íslenskra króna miðað við gengi evru og punds. Ef allt fer á versta veg er það upphæðin (vel að merkja þó, miðað við núverandi gengi) sem skattgreiðendur og almenningur á Íslandi þarf að greiða.
Munt þú kyssa vöndinn 9. apríl?
![]() |
Mestu mótmæli síðan 2003 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jóhanna á samúð mína alla
Laugardagur, 26. mars 2011
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er ekki öfundsverð af hlutverki sínu þessa dagana. Það ættu allir að geta tekið undir. Hún er fórnarlamb eigin lagasetningar, orða um jafnréttiskennd annarra og síðast en ekki síst fórnarlamb eigin flokkssystkina. Það á hún bara að viðurkenna. Sumir sem gagnrýna hana nú harðast og krefjast þess að hún axli ábyrgð ættu að spara stóru orðin og líta í eigin barm. Reynum að horfa á málin af sanngirni og heiðarleika, út frá staðreyndum og rökum, í stað þess að saurga öll mál með pólitískum refskap.
Staðreynd málsins er þessi. Lög og reglugerðir koma ekki á jafnrétti eða betra siðferði. Veldur hver á heldur í þeim málum. Jóhönnu er vorkunn í þessu máli. Þannig hafði einn umsækjandi, flokkssystir forsætisráðherra, fengið vilyrði fyrir stöðunni af háttsettum aðilum innan Samfylkingarinnar. Þá áttu nýsett jafnréttislög Samfylkingarinnar að tryggja að hæfari einstaklingar fengju ekki stöðuna þar sem þeir voru af röngu kyni. Jóhanna taldi sér ekki fært að verða við þessu og réði þann umsækjanda sem talinn var hæfastur af hlutlausum sérfróðum aðila.
Fyrir það fær hún nú skammir frá eigin flokksmönnum og þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem sjá sér leik á borði stjórnmálanna. Markmiðið er að koma Jóhönnu frá sem er helsta hindrun í vegi þeirra sem vilja koma Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn til að keyra í gegn Icesave III og aðildarumsóknina að ESB og koma í veg fyrir byltingarkenndar breytingar í sjávarútvegsmálum.
Árni Páll Árnason og Össur Skarphéðinsson, helstu talsmenn þess að styrkja ríkisstjórnina með aðkomu Sjálfstæðisflokksins, hafa sleppt víghundunum lausum á Jóhönnu og bíða svo eftir að vera kallaðir til forystu.
![]() |
Stefnt að lækkun skatta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)