Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
Skaupið skandall
Laugardagur, 31. desember 2011
Óhætt er að segja að skaupið þetta árið hafi verið skandall. Meðferð þess á landsþekktum einstaklingum frá forseta til þáttastjórnenda gekk út á að gera sem minnst úr einstaklingum og niðurlægja þá sem mest. Þá var höfundum skaupsins sérstaklega illa við Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk, sem var því merkilegra að þetta eru flokkar í stjórnarandstöðu. Yfirleitt eru það stjórnarflokkarnir sem eru í aðalhlutverki enda stjórna þeir landinu. Lágkúran var allsráðandi frá upphafi til enda. Lélegra skaup hef ég ekki horft á verð ég að segja. RÚV hlýtur að biðja þá einstaklinga, sem verst voru leiknir af höfundum skaupsins, opinberlega afsökunar á þeirri meðferð sem þeir hlutu í kvöld. Sömuleiðis áhorfendum sem var ekki skemmt, nema kannski innsta kjarna í Samfylkingarfélagi Reykjavíkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.1.2012 kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (59)
Hreyfingin tryggir líf ríkisstjórnarinnar út árið 2012 gegn fjórum skilyrðum
Laugardagur, 31. desember 2011
Forystumönnum ríkisstjórnarinnar tókst að betla út stuðning þingmanna Hreyfingarinnar á síðustu stundu með fagurgala. Það verður að teljast pólitískt afrek. Jóhanna og Steingrímur lofuðu í staðinn ,,að skoða með jákvæðum huga" helstu stefnumál Hreyfingarinnar. Við sem eru eldri en tvævetra í pólitík vitum hvað þetta þýðir. En ef við skoðum þetta ,,með jákvæðum huga", enda stutt í áramót, þá gæti þetta þýtt eftirfarandi.
Í fyrsta lagi verður gerð óheiðarleg tilraun til að koma frumvarpi um stjórnarskrárbreytingar, þar sem valið verður ýmislegt góðgæti úr tillögum stjórnlagaráðs, í gegnum vorþingið. Það verður hins vegar séð til þess að það takist ekki með aðstoð Sjálfstæðisflokksins, enda hugnast stjórnmálaelítunni illa að auka völd lýðsins m.a. með ákvæðum um rétt þjóðarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild mál. Þannig kaupir ríkisstjórnin sér tíma til að hanga út árið með aðstoð Sjálfstæðisflokksins, hve fáránlega sem það nú hljómar.
Í öðru lagi verður skipuð nefnd til að fara yfir skuldavanda heimilanna sem vonandi skilar niðurstöðu á vorþingi 2012.
Í þriðja lagi var hluti samkomulagsins að Árni Páll Árnason viki úr embætti enda hefur hann verið helsti þrándur í götu þess að tekið verði af alvöru á skuldavanda heimilanna, enda helsti talsmaður fjármagnseigenda á stjórnarheimilinu. Það var einmitt hann sem lét hafa það eftir sér að ,,allt yrði gert til að leysa skuldavanda heimilanna ef það kostaði ekki neitt". Við það stóð hann, alla vega þegar kom að almennum leiðréttingum sem hefði komið til móts við skuldavanda flestra venjulegra fjölskyldna.
Í fjórða lagi ætlar Hreyfingin að tryggja að viðræður við ESB um aðild haldi áfram þar til aðildarsamningur verði lagður undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vonandi hefur Hreyfingin þá tryggt það í leiðinni að sú þjóðaratkvæðagreiðsla verði ekki aðeins ráðgefandi fyrir Alþingi, heldur bindandi.
![]() |
Erum með meirihluta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.1.2012 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Steingrímur Joð tók ,,eitraða peðið". Var Árni Páll ,,eitrað peð" líka?
Laugardagur, 31. desember 2011
Steingrímur J. Sigfússon er vissulega ekki sami maður í stjórn og stjórnarandstöðu. Það hefur þjóðin fengið að reyna. Steingrímur verður verðugt rannsóknarverkefni fyrir stjórnmálafræðinga á næstu árum og áratugum. Ef Steingrímur kemst upp með ,,drepa eitrað peð" á taflborði ríkisstjórnarflokkanna án þess að ríkisstjórnin falli þá hlýtur það að teljast stjórnmálalegt og sögulegt afrek. Jón Bjarnason sem var burtrekinn úr ríkisstjórn í gær virtist nefnilega vera ,,eitrað peð" eins og sagt er á skákmáli um peð á taflborðinu sem eru óvölduð en ef andstæðingurinn fellur í þá gildri að drepa það þá er víst að hann tapi skákinni. En kannski var þetta eins eitrað peð og Spassky bauð Fischer upp á í frægri skák í einvígi þeirra árið 1972, og Fischer þáði? Það þótti merki um mikilmennsku Fischers að þiggja eitraða peðið. Er Steingrímur Joð að leika sama leikinn nú? Er hann að sýna flokksmönnum sínum og samstarfsflokknum þvílíkur meistari hann er á taflborði stjórnmálanna?
Við áhugamenn um skák og stjórnmál fylgjumst nú jafnspenntir með framvindunni í stjórnmálum og áhorfendur á heimsmeistaramótinu árið 1972 eftir að Fischer drap eitraða peðið hans Spassky í endataflinu. Nú reynir á Steingrím Joð og ekki síður á andstæðinga hans í endatafli þessarar ríkisstjórnar.
Og það ótrúlega virðist einnig hafa gerst í samstarfsflokknum. Á skömmum tíma náði Árni Páll og stuðningsmenn hans að gera hann að ,,eitruðu peði" Samfylkingarmegin. Það sýna viðbrögð við brottrekstri hans úr ríkisstjórn og ég hef fjallað um. Það hafði næstum því fellt forystu Samfylkingarinnar á sögulegum flokksstjórnarfundi í gær.
Munu þessi eitruðu peð verða banabiti vinstri stjórnarinnar?
![]() |
Ekki sami maður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
,,Aldrei fór ég suður", getur Jón sagt. Árni Páll Kim Jong-un Samfylkingarinnar
Laugardagur, 31. desember 2011
Já, aldrei fékk Jón Bjarnason að fara suður til Brusselborgar að hitta hinu háu herra. Samfylkingin sá til þess. Mikið held ég að embættismönnum í Reykjavík og í Brusselborg séu skemmt og stutt sé í kampavínið og kampakætina í áramótagleðinni. Einni af mörgum hindrunum fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur verið rutt úr vegi. Össur og steingrímsistarnir kunna til verka í pólitík. Opnunarskilyrðum Evrópusambandsins hefur verið fullnægt.
Í leiðinni tókst þeim að styrkja Árna Pál Árnason í sessi sem arftaka Jóhönnu Sigurðardóttur. Árna Páli hefur tekist að breytast úr skúrki og hrakfallabálki í leiðtogaefni Samfylkingarinnar - á einu Sigmundar-augabragði. Stöð2, sem ennþá er í eigu útrásarvíkings eftir því sem best er vitað, hefur fréttamann í sinni þjónustu sem þreytist ekki við að draga taum Samfylkingarinnar. Spunadeild Samfylkingarinnar, sem á sterk ítök í Stöð2 og Fréttablaðinu, skrifar nú leikrit í anda Norður-Kóreu. Allir vita að tími leiðtogans mikla er kominn og farinn og þá þarf að skrifa nýjan leiðtoga í hlutverkið. Það mun víst vera Árni Páll. Umfjöllun Stöðvar2 um brotthvarf hans úr ríkisstjórn var svona eins og að hlusta á RÚV-NV (samanber leiðara Morgunblaðsins) segja frá Kim Jong-un. Sagt var frá miklum vinsældum hans og hin miklu afrek hans tíundið. Umfjöllun um brotthvarf Jóns Bjarnasonar úr ríkisstjórn kom svo á eftir og öllum mátti vera ljóst hver var hetjan og hver var skúrkurinn.
Fjármálaelítan, sem er helsta bakland Árna Páls, mun að sjálfsögðu ekki taka því þegjandi að talsmaður þeirra yfirgefi ríkisstjórnina. Það verður spennandi, en hrollvekjandi, að fylgjast með viðbrögðum hennar á næstu dögum og vikum. En kannski fær Árni Páll ,,að fara suður" í stað Jóns og fær að setjast í sendiherrastólinn í Brusselborg? Eitthvað hlýtur hann að launum fyrir að taka brottrekstrinum þegjandi.
![]() |
Látinn víkja vegna ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hvað var mest lesið á bloggárinu 2011? Átta mest lesnu bloggpistlar ársins
Miðvikudagur, 28. desember 2011
Það er við hæfi að birta lista yfir þá átta bloggpistla mína sem vöktu mesta athygli á árinu 2011. Hluti af pistli fylgir með en ef þið viljið lesa allan pistilinn þá smellið þið á fyrirsögnina. Um 106.000 innlit voru samtals á árinu 2011 og gestafjöldi um 96.000.
1. ,,Andskotans hálfviti, hlandspekingur, BRandari og kaunfúll barmabrundull" - 4.12.2011.
,,Ég las um Heilagt stríð Vantrúar af vantrú í Sunnudagsmogganum. Því meira sem ég las, því varð vantrúin og viðbjóðurinn meiri ...."
,,Gylfi þorði ekki að mótmæla á Austurvelli 1. október. Hann sat heima og fór sennilega yfir reikninga lífeyrissjóðanna. Og núna þorir hann ekki öðru en að láta í sér heyra eftir opinbera hýðingu á Austurvelli með ræðu Vilhjálms Birgissonar"
3. Það kom að því að þeir í Brussel föttuðu bjölluatið
,,Embættis- og stjórnmálamenn í Brussel eru að sjálfsögðu ekki ánægðir með að uppgötva að stjórnmálaelítan á Íslandi hafi bara verið að gera bjölluat í Brussel. En það er einmitt það sem er að koma í ljós, eins og formaður Bændasamtaka Íslands skrifaði um í leiðara Bændablaðsins fyrir margt löngu síðan. Sumir eru bara lengur að fatta en aðrir."
4. ,,Lokun netsins yrði landhreinsun", sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins"
,,Tryggva Þór var tíðrætt um netið og ,,blogglúðrasveitina", sem eru víst bloggarar landsins. Hann bar sig illa vegna umfjöllunar á netinu og í bloggheimum. Hann taldi að best væri að þagga niður í þessum gagnrýnisröddum, sem gagnrýndu skúffufyrirtækið í kringum Magma, erlendar fjárfestingar kaupahéðna o.þ.h. Icesave hefur örugglega verið honum ofarlega í hug en Tryggvi Þór var sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem harðast barðist með ríkisstjórninni í því máli. Og niðurstaða þingmannsins var að best væri að loka netinu, ,,það yrði landhreinsun"."
5. Salt í svöðusár þjóðarinnar
"Íslendingar hafa ekki lengur efni á að halda úti landhelgisgæslu svo sómi sé að. Á sama tíma er stórum upphæðum varið í aðildarviðræður við Evrópusambandið, sama samband og hefur leigt varðskip og flugvél íslensku Landhelgisgæslunnar. Á meðan verður landhelgin í kringum Ísland óvarin að mestu og öryggi sjómanna er teflt í tvísýnu. Hvað hefðu hetjur Íslands sagt úr þorskastríðunum ef þeir hefðu vitað að árið 2011 væri búið að mála varðskip Íslendinga með fánum erlends ríkjabandalags?"
"En honum, og forystu Sjálfstæðisflokksins, tókst ekki að snúa auknum meirihluta sjálfstæðismanna. Þeir kusu með hjartanu. Þeir sögðu NEI við kúgun Breta og Hollendinga. Þeir sögðu NEI við kúgun alþjóðlega fjármálakerfisins, sem er komið á endastöð í græðgi sinni, áhættusækni og eigingirni. Íslendingar láta ekki hræða sig til að láta réttlætið lönd og leið í þágu gráðugra fjármagnseigenda allra landa. Þeir sögðu NEI við þjóðnýtingu tapsins en einkavæðingu gróðans. Þeir segja NEI við þjónkun stjórnmálamanna við fjármálakerfið og viðskiptabaróna. Þeir hafa sagt hingað og ekki lengra!"
7. Forsetinn færir þjóðinni löggjafarvaldið í samræmi við stjórnarskrá Íslands
,,Í lýðræðisríkum hefur lýðurinn síðasta orðið. Ef Icesave samningurinn, sá þriðji í röðinni, hefði verið staðfestur af forseta Íslands hefði sú ákvörðun ekki verið afturkræf. Þó að þjóðin kysi nýtt Alþingi í alþingiskosningum þá gæti það þing ekki sagt upp Icesave samningnum. Ríkisábyrgð á skuld einkaaðila hefði verið staðreynt og skattgreiðendur þyrftu að greiða stríðsskaðabætur í áratugi til Breta og Hollendinga vegna einkastríðs fjárglæframanna. En með því að vísa málinu aftur til þjóðarinnar, eins og forseti Íslands hefur nú gert, þá er það þjóðin sem staðfestir eða synjar Icesave III lögunum. Enginn annar. Ekki Alþingi, ekki ríkisstjórn og ekki forseti Íslands. Valdið er nú í höndum þjóðarinnar, sem hafnaði síðustu samningum við Breta og Hollendinga. Þessi ákvörðun forseta Íslands, hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, er sigur fyrir lýðræðið, sigur fyrir stjórnarskrá Íslands og sigur fyrir þjóðina."
8. Er Sérstakur enn að safna gögnum? Jóhanna fann sökudólginn
,,Og núna fyrst erum við að frétta það að sennilega fást engar upplýsingar um Íslandsránið frá Lúxemborg. Flott er það! Það er ekki nema von að Sigurður Einarsson og þeir Kaupþingsmenn brosi allan hringinn þessa dagana. Árið byrjar vel hjá þeim félögum. En sennilega hefur forsætisráðherra ekki svo miklar áhyggjur af þessu. Hún hefur fundið sinn sökudólg á hruninu eins og lesa mátti í áramótakveðju hennar til Íslendinga í Morgunblaðinu. Jú, auðvitað er það Davíð Oddsson. Þetta var víst allt honum að kenna. Er þá ekki bara best að leggja niður embætti Sérstaks, úr því að Davíð er svona sérstakur í hennar huga. Það held ég."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Himneskir tónar á jólum
Laugardagur, 24. desember 2011
Gleðilega jólahátíð!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Lofsvert framtak en gera þarf enn betur
Föstudagur, 23. desember 2011
Það verður að þakka Hjálparstofnun kirkjunnar fyrir þetta lofsverða framtak. Ekkert er sárara en að horfa upp á mannlega eymd og niðurlægingu. Biðraðir hjálparstofnanna hafa því miður kallað þetta yfir skjólstæðinga sína með þeirri biðraðamenningu sem við höfum þurft að horfa upp á fyrir hver jól og áramót í fjölmiðlum. Auðvitað er ég ekki að lasta þá lífsnauðsynlegu velferðaraðstoð sem hjálparstofnanir veita en aðferðin við aðstoðina er ómannúðleg, eins og skjólstæðingar Hjálparstofnunar kirkjunnar lýsa í Morgunblaðinu í dag. Ég skrifaði tvo pistla um þetta í fyrra og hvatti til þess að velferðarkort kæmu í stað biðraða. Ég hef verið bænheyrður. Nú hefur Hjálparstofnun kirkjunnar hrint því í framkvæmd og ljóst að skjólstæðingar hennar þurfa ekki að ganga í gegnum svipugöngin lengur. Ég hefði að vísu viljað ganga lengra og að stofnaður yrði sérstakur velferðarsjóður og að ,,framlag komi frá ríki, sveitarfélögum, einstaklingum og fyrirtækjum sem vilja leggja sitt af mörkum." Það er allt hægt ef vilji er fyrir hendi eins og Hjálparstofnun kirkjunnar hefur sýnt fram á.
Gleðileg jól.
![]() |
Kortin draga úr niðurlægingunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hver var hönnunargallinn, Össur?
Fimmtudagur, 22. desember 2011
Ég saknaði þess að Þóra Arnórsdóttir, varafréttastjóri Kastljóss, varpaði fram þessari mikilvægu spurningu í kjölfar þess að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hafði upplýst þjóðina um að hann hefði vitað um hönnunargalla á evru-samstarfinu áður en umsókn um aðild að Evrópusambandinu var send til Brussel. Þar stendur Össur framar Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem var fyrst að komast að þessum hönnunargalla fyrir nokkrum vikum síðan. Gæti verið að hönnunargallinn sé sá að evru-hönnuðirnir hafi ekki lagt í á þeirri stundu að leggja til að fullveldi þeirra ESB ríkja sem ákváðu að taka upp evruna fyrir um 10 árum síðan yrði að skerða til muna? Afnema það í raun á ákveðnum sviðum í ríkisfjármálum.
Jacques Delors, einn af áhrifamestu forsetum framkvæmdastjórnar ESB frá upphafi, telur aðeins um tvennt að velja fyrir ríki ESB til að leysa evru-vandann: færa meira af fullveldinu til ESB eða samþykkja sameiginlegt refsingakerfi (e. transferring more sovereignty, or to accept a unified system of penalties). Sjá viðtal við Delors. Í viðtalinu minnist Delors einmitt á þennan hönnunargalla, eða "implementation error":
Delors told the British Daily Telegraph interview that the current debt crisis from the euro zone early implementation error , European leaders choose to present each member of the basic economic weaknesses and imbalances in each turn a blind eye, cosmetic defects countries, once the global debt crisis struck, all the defects in the euro area will be exposed. Delors said the euro zone from the beginning on the lack of strong, centralized, member states can not prohibit lavish borrowing, giving rise to highly indebted countries such as Greece and Italy, the brink of bankruptcy, dragging down the entire euro zone into a disaster.
Niðurstaðan var þessi hjá Össuri eins og kom fram í fræga viðtalinu í Kastljósi: Það gerir það áhugaverðara fyrir Íslendinga að gerast aðilar að ESB þegar þessi hönnunargalli hefur verið lagfærður. Og það verður aðeins gert með því að afsala meira af fullveldi Íslands til ESB. Það er digra gulrótin sem Össuri finnst svo bragðgóð. Verði honum af góðu, en vonandi lætur meirihluti Íslendinga ekki glepjast af þessum fagurgala. Er ekki komið nóg af þessu ,,endemis rugli", eins og Ögmundur Jónassonar spyr réttilega um á vefsíðu sinni? Að síðustu skal tekið heilshugar undir orð Ögmundar hér að neðan:
Ef þjóðin segir nei (innskot JBL: þ.e. í þjóðaratkvæðagreiðslu), þá getum við hætt að senda flugvélafarma af starfsfólki fyrir gríðarlega fjármuni til að fletta pappír suður í Brussel og notað tímann og peningana sem sparast til uppbyggilegra verka. Okkur liggur á að komast út úr þessu endemis rugli.
Evrópumál | Breytt 23.12.2011 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verður Össur látinn sæta ábyrgð?
Fimmtudagur, 22. desember 2011
Það vakti furðu í Kastljósviðtalinu við Össur í gær að hann, utanríkisráðherrann, og Össur sjálfur, töluðu nú allt í einu um hönnunargalla á evrunni, sem þeir báðir hefðu vitað um frá upphafi vega. Ekki minnist ég þess að þeir kappar hafi upplýst þjóðina eða þingið um þetta þegar sótt var um aðild - einmitt vegna þess hve evran var traust og átti að færa Íslendingum velsæld og langþráðann stöðugleika. Var þá umsókn um aðild að Evrópusambandinu byggð á fölskum forsendum? Þingmenn hljóta að spyrja Össur og Össur í þriðju persónu um þetta um leið og þing kemur saman að nýju. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins fjallar einmitt um þessa nýju blekkingu í morgun en spyr:
Muna einhverjir aðrir en Össur Skarphéðinsson eftir því að aðildarsinnar hafi áður en samþykkt var að sækja um aðild varað við hönnunargöllum í evrunni? Hver komu þessar aðvaranir fram? Ef Össur vissi af þessu en varaði ekki við, með hvaða hætti verður hann þá látinn sæta ábyrgð?
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 08:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
,,Jón Bjarnason situr í kjöltu minni", segir Össur
Miðvikudagur, 21. desember 2011
Ég heyrði ekki betur en að Össur hafi sagt þetta í Kastljósi í kvöld um landbúnaðarráðherrann. Maður sér fyrir sér Jón sitja eins og barnið í kjöltu Össurar þar sem hann, utanríkisráðherrann, situr í skærrauðum jólasveinabúningi. Og svo bætti Össur við að Jón væri vinnumaður hans í því verkefni að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Þá var Össuri tíðrætt um gular og digrar gulrætur í formi evra. Þar sem flestir sjá maðkétið mjöl, sér Össur digra gulrót. Já, mikil er trú þín maður, svo vægt sé að orði komist!
En annars var viðtal Þóru Arnórsdóttur við Össur þjófstarf á flugeldasýninguna á gamlárskvöld. Össur notaði flugelda, tertur, blys og kínverja, enda það síðarnefnda honum mjög hugleikið. Allt heila dótið enda maðurinn stórtækur mjög, sumir myndu segja hann vera með mikilmennskubrjálæði. En það ætti enginn að vera í vafa lengur um hver það er sem ræður á ríkisstjórnarheimilinu eftir Kastljós kvöldsins.
![]() |
Atkvæði greidd eftir kosningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.12.2011 kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)