Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
Jón Ásgeir tók frá okkur strákana okkar
Þriðjudagur, 31. ágúst 2010
Á maður að hlægja eða gráta? Veit það ekki. Spaugstofan var sameign þjóðarinnar en verður það ekki lengur. Hún seldi sig hæstbjóðanda. Þá hefur þjóðin bæði misst handboltann og Spaugstofuna í hendurnar á Jóni Ásgeiri. Það er svakalega svekkjandi að maðurinn sem skildi eftir sig um 1 000 milljarða í skuldir hér og þar og alls staðar leggi þjóðarskútuna svo á hliðina að við höfum tapað því sem sameinað hefur þjóðina í gleði og sorg - strákana okkar í handboltanum og í Spaugstofunni. Niðurskurðurinn í RÚV er bein afleiðing af hruninu sem Jón Ásgeir átti stóran þátt í að kalla yfir Ísland. Að vísu finnst föður hans ósanngjarnt að búið sé að gera soninn að skúrki. En ætli hann hafi bara ekki unnið til þess sjálfur óstuddur. Býst við því.
Og vegna þessa þá veit ég bara ekki hvort ég eigi að hlægja eða gráta.
![]() |
Spaugstofan á Stöð 2 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fuglinn Fönix flýgur á vit nýrra ævintýra
Þriðjudagur, 31. ágúst 2010
Jóhannes án Bónus flýgur eins og fuglinn Fönix úr brunarústunum og er endurfæddur. Bankinn og lánadrottnar sitja eftir með skuldirnar í bónus. Og skjannhvítur fuglinn flýgur á vit nýrra ævintýra og er þakklátur guðinum Arion sem blés í hann nýjum lífsanda í þágu réttlætis, jafnræðis og gegnsæis.
Almúginn horfir vonaraugum á musteri Arions þar sem það gnæfir við himinn í allri sinni dýrð. Mun almúginn njóta sömu blessunar og fuglinn Fönix, sem flaug syndlaus úr skuldusúpu sinni? Fær þjakaður almúginn líka digrann heimamund í skilnaðargjöf að launum fyrir að rústa fjárhag heillrar þjóðar í skjóli fákeppni og fjölmiðlaveldis?
Og hvernig skyldi hnefi og steingríma réttlætisins bregðast við í höll drottningar Sannfylkingarinnar? Hvert fór andi hans og fjandi?
![]() |
Jóhannes hættir hjá Högum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnarskrá hverra?
Sunnudagur, 29. ágúst 2010
Það kæmi ekki á óvart að það tækist að skapa ólgu og ósætti um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það þarf ekki mikið til að koma. Fyrsta álitamálið er hve miklu á að breyta. Er þetta heildarendurskoðun í fagurfræðilegum stíl eða er þetta heildarendurskoðun á efni hennar. Er markmiðið að fínpússa hitt og þetta svona eins og listamaður sem er að leggja lokahönd á meistarastykkið sitt. Eða er markmiðað að tæta stjórnarskránna í sig, jafnvel leggja hana alla til hliðar, og semja nýja stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið frá grunni?
Og hver á svo að hafa dagskrárvaldið um hvaða þætti eigi endurskoða og í hvaða tilgangi? Eru það stjórnvöld? Er það undirbúningsnefndin? Er það þjóðfundurinn? Er það alþingi götunnar? Er það kannski menntaelítan í Háskólanum? Eða er það kannski forseti Íslands eða biskupinn?
Og hver á svo að semja stjórnarskrána? Verður fenginn til þess nefnd lögfræðinga sem túlkar sundurlausar hugmyndir eitt þúsund þjóðfundarfulltrúa? Eða fær stjórnlagaþingið þetta verkefni í heimavinnu? Hvaða tilgang mun undirbúningsnefndin hafa þegar undirbúningi er lokið? Verður hún alls staðar og allt í kring?
Í undirbúningsnefndinni er fulltrúi sem vill stofna annað lýðveldi Íslands. Svo er annar fulltrúi sem sagði nýlega í fjölmiðlum að ekki ætti að gera miklar breytingar á stjórnarskránni og fjallaði svo í stuttu máli hvaða breytingar helstar ætti að gera. Já, ,,ég vill ganga minn veg og þú vilt ganga þinn veg", eins og söngskáldið orti. Og vegurinn að heiman er vegurinn heim. Og víst er að ,,Vegir liggja til allra átta, enginn ræður för". Eða hver mun ráða för í þessum leiðangri? Eða verður þetta ferð án fyrirheits eins og í ESB málinu?
Spurningin sem skiptir meginmáli er einföld: Stjórnarskrár hverra verður hún?
En eigum við ekki að vera bjartsýn og syngja með Megas ....
![]() |
Engin þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ísland er komið inn í andyri Evrópusambandsins
Sunnudagur, 29. ágúst 2010
Það er erfitt að rökræða við fólk sem viðurkennir ekki raunveruleikann. Þetta á við marga þeirra sem bera ábyrgð á aðildarferlinu að Evrópusambandinu.
Þannig er það öllum ljóst að aðlögun að Evrópusambandinu er hafin. Evrópusambandið sjálft talar um foraðild eða pre-accession. Í þessum tilgangi er samin áætlun þar sem meginþættir eru samningar um réttindi og skyldur en ekki síst samstarfsáætlun sem neglir niður markmið um umbætur sem aðildarríkið þarf að ná. Fjárhagstuðningur Evrópusambandsins er hluti af þessari foraðildaráætlun. Allt þetta kemur skýrt fram á heimasíðu Evrópusambandsins eins og bent hefur verið á að undanförnu af mörgum bloggurum svo sem Agli Jóhannssyni og Ísleifi Gíslasyni og í ágætum fréttaskýringum í Morgunblaðinu. Þá hef ég verið að benda á þetta í pistlum hér á vefsíðunni á annað ár (sjá m.a. Teningunum kastað, Ríkisstjórn Íslands fellst á ..., Ísland á hraðri leið ..., Nýfrjálshyggjubandalagið ESB, sem og m.a. í greinum í Bændablaðinu og í erindi sem ég flutti um ESB á Mýraeldahátíð í vor.
En Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og sá ráðherra í ríkisstjórn sem ber ábyrgð á aðildarferlinu öllu, segir að engin aðlögun sé í gangi. Að engu verði breytt í stjórnsýslunni vegna aðildar að ESB fyrr en eftir að þjóðin hafi samþykkt aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta eru hans orð. Hvern er hann að reyna að blekkja? Þjóðina? Nei, því þjóðin veit hvað er í gangi? Samstarfsflokkinn? Já.
En hann er ekki að blekkja forystumenn Vinstri grænna. Þeir vita nákvæmlega hvað er í gangi eins og kom fram hjá Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Nei, Össur er að halda blekkingarleiknum áfram gagnvart kjósendum Vinstri grænna og ýmsum sjálfstæðismönnum sem telja að það séu saklausar aðildarviðræður í gangi og ekkert annað. Síðan sé bara hægt að sjá hvað er í pokanum og fara prúðbúinn á kjörstað.
En þá, þegar Stephensen fjölskyldan fer prúðbúin á kjörstað, þá er foraðildarferlinu lokið. Þá hefur regluverk og stjórnsýsla Íslands verið aðlöguð að kröfum Evrópusambandsins. Þá er Ísland að sönnu reiðubúið að ganga inn í sambandið með kostum þess og göllum. Öðruvísi getur aðildarríkið ekki farið að ganga í takt við önnur aðildarríki.
Hvernig á framkvæmdastjórnin t.a.m. að geta haft eftirlit með landbúnaðarkerfinu hér á landi ef öll stjórntæki eru ekki til reiðu? Hvernig á að vera hægt að greiða út styrki til landbúnaðar ef Ísland framfylgir ekki hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB (CAP)? Og hvernig á að vera hægt að framfylgja sjávarútvegsstefnunni (CFP), sem er líka sameiginleg (common policy), ef öll stjórntæki og regluverk er ekki til staðar í aðildarríkinu? Hvernig á að Ísland að geta tekið fullan þátt í starfi Evrópusambandsins ef við samþykkjum ekki né framfylgjum grundvallarkröfum þess um aðild eða acquis communautaire? Þetta er kjarni málsins. Jú, vissulega getur aðildarríkið samið um aðlögunartíma 1-5 ár eða svo, og um það fjallar einmitt aðildarsamningur Íslands að Evrópusambandinu. Ekkert annað.
Ísland er komið inn í andyri Evrópusambandsins og þarf að gera sig klárt til að ganga í stofu.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Talar Sigurður Einarsson í gegnum Össur?
Laugardagur, 28. ágúst 2010
Mikið hlýtur Sigurður Einarsson, hinn ósnertanlegi, að hafa verið ánægður með þessi orð Össurar. Interpolbrosið fer ekki af honum. Það var eins og Sigurður og aðrir Kaupþingsmenn hefðu þarna talað í gegnum Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, fyrrum styrkþega þeirra. Auðvitað höfðu Kaupþingsmenn ekkert gert glæpsamlegt sem kallaði á þessi viðbrögð Breta. Auðvitað hefði þessi efnahagslega árás ekki verið gerð á Ísland af hálfu Breta ef Ísland hefði verið i Evrópusambandinu. Þetta eru söguskýringar Össurar og annarra Samfylkingarmanna. Söguskýringar sem smellpassa við söguskýringar fjárglæframannanna sem settu okkur rakleiðis á hausinn. En hvernig passar þetta við vandlætingu Samfylkingarinnar þegar þeir tala um að sjálfstæðissinnar kenni útlendingum um allt og ekkert? Eitthvað hljómar þetta í mín eyru falskt og hjákátlegt hjá utanríkisráðherra. Hann trúir því einlæglega að allir sem eru honum ekki sammála séu annað hvort að misskilja allt eða þá að þeir skilji ekki neitt í sinn haus.
![]() |
Efnahagsleg árás af hálfu Breta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar fjárglæframanna ata embættismenn auri
Laugardagur, 28. ágúst 2010
Fréttablaðið ber blak af höfuðpaur hrunsins. Sigurður Einarsson, ráðherrasonurinn og hinn ósnertanlegi, fær forsíðuna og nokkrar blaðsíður að auki til að ráðast á opinberan embættismann. Kunnuglegt stef frá Baugsmálinu þegar opinberir embættismenn voru orðnir glæpamennirnir en ekki öfugt. Sú atlaga peningaaflanna tókst fullkomlega og við eru að súpa seyðið af því í dag. Sigurður vorkennir samstarfsmanni sínum Hreiðari Má að þurfa hafa verið í einangrun í 12 daga og kennir vondum saksóknara um níðingsskap. En datt blaðamanni ekki í hug að nefna að ástæðan var að Sigurður Einarsson sjálfur á sökina á einangrunarvist samstarfsmannsins? Sigurður neitaði nefnilega að koma til landsins í 90 daga og komst upp með það. Í raun hefði þurft að halda samstarfsmönnum hans í einangrun þangað til næðist í höfuðpaurinn. Þá einangrun hefði mátt skrifa á reikning Sigurðar. En sérstakur saksóknari gafst upp og Sigurður sigraði. Hann kom svo til landsins sigri hrósandi. Hér er hann kominn vel vopnaður gagnrökum eftir langan undirbúning og eftir samtöl lögfræðinga hans við samstarfsmennina, sem sátu í einangrun fyrir hann á Íslandi. Víst er að ekki skortir hann fé.
Síðan vita Kaupþingsmenn og aðrir fjárglæframenn að þeir geta notað fjölmiðla sína óspart til að ata opinbera embættismenn auri að vild. Láglaunaðir embættismennirnir geta ekki svarað fyrir sig á sama vettvangi. Sigurður og gengi hans vita líka að dómsstólar ráða ekki við að dæma í málefnum skipulagðrar glæpastarfsemi. Lögfræðingastóð þeirra kann að teygja lopann og veit hvar smugurnar liggja í réttarkerfinu. Þeir vita líka að nú geta þeir talað að vild enda Eva Joly fjarri góðu gamni og á leið í forsetaframboð í Frakklandi. Þeir vita einnig að vinstri stjórnin sem lofaði að hreinsa til og koma á réttlæti er rúin trausti og vinnuþreki. Þeir vita að öfl innan Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins undirbúa myndun nýrrar ríkisstjórnar af kappi. Og þeir vita einnig að óhætt er orðið að allir styrkþegarnir þeirra í gegnum árin á öllum stigum þjóðfélagsins geta nú farið að spinna að nýju. Til hamingju Ísland!
![]() |
Vill rannsókn á vinnubrögðum sérstaks saksóknara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Eru mennirnir brjálaðir?
Laugardagur, 28. ágúst 2010
Þeir stjórnmálamenn sem taka ákvarðanir um geggjaðar hækkanir eins og þessa á tímum eins og þessum eru harðbrjósta. Á almenningi hafa dunið hækkanir stanslaust frá hruni. Skattar hafa hækkað. Vöruverð hefur hækkað. Þjónustugjöld hafa hækkað. Íbúðalán hafa farið hamförum. Allt á sömu bókina lært. Á sama tíma eru fjöldauppsagnir og þeir sem halda vinnu þurfa að taka á sig kjaraskerðingar. Landflótti er skollinn á.
Og þá stígur Samfylkingin fram í boði Besta flokksins og hækkar orkuverðið um þriðjung! Já, segi og skrifa um 30% og þetta ku vera bara byrjunin. Það hefur þær afleiðingar að íbúðalán landsmanna fara í nýjar hæðir í einu vetfangi. Eru mennirnir brjálaðir? Það er ekkert annað orð yfir þetta. Bera þeir ekkert skynbragð á umhverfið? Hver er veruleiki stjórnmálamanna sem leyfa sér þennan munað?
Það er sagt að á krepputímum þá leyfi stjórnmálamenn sér þann munað að stjórnast af bölsýni. Okkur vantar stjórnmálamenn sem þora að standa með fólkinu í landinu. Stjórnmálamenn sem bera hag almennings fyrir brjósti fyrst og síðast en ekki stofnana eða stjórnmálaflokka. Kaldur raunveruleikinn er nefnilega sá að fólkið í landinu þolir ekki meira. Það er ekkert lengur af því að taka. Stjórnvöld - ríki og sveitarfélög - geta tekið glórulausar ákvarðanir um hækkanir á álögum í glæstum húsakynnum út í hið óendalega í þeirri von að þær skili einhverju þegar upp er staðið. Það er tálsýn en á sama tíma mannvonska. Þetta kallast ofbeit á sveitamáli og mundi sömuleiðis flokkast undir illa meðferð á skepnum.
Ætli þetta sé ekki 'the closest thing to crazy' þó Katie Melua syngi hér um öllu fallegri hluti.
![]() |
28,5% hækkun á gjaldskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Borgarstjóri brosir og skemmtir sér
Föstudagur, 27. ágúst 2010
Borgarstjóri brosir og sýnir auðmýkt frammi fyrir kjósendum sínum. Svo sendir hann þeim þriðjungs hækkun á orkureikningnum. Fyrir kosningar vissi hann varla hvar Orkuveitan var til húsa en nokkrum mánuðum síðar dundar hans sér við að senda bakreikninga á línuna. Í dagbók sinni kvartar hann yfir töffaragangi og hroka í Sjálfstæðismönnum. Hann vill frekar fá-læti og fjör í galskapin. Helst vildi hann að allir dagar væru gleðidagar svo hann gæti klætt sig upp við hæfi. Borgarstjórinn skrifar hins vegar ekkert um sjokkerandi gjaldskrárhækkun á alla landsmenn enda er ekkert fyndið við það.
![]() |
Sýni auðmýkt en fæ töffaragang á móti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Blekkja, hnekkja og svekkja
Fimmtudagur, 26. ágúst 2010
Blekkja, hnekkja og svekkja eru orðin einkunnarorð ónefndra ráðherra. Allt á að vera faglegt, heiðarlegt og gagnsæi hafið yfir allan vafa. Allt upp á borði í orði en ekki á borði. Ráðherra vill láta skipa vin sinn sem forstjóra Íbúðalánasjóðs en fær ekki. Þá er bara að hnekkja ákvörðun löglegrar stjórnar. Svo er að blekkja almenning og loks eru allir hæfu umsækjendurnir, sem þvælast fyrir ráðherranum, svekktir. Ásta H. Bragadóttir gerir rétt í því að taka ekki lengur þátt í þessum blekkingarleik. Það stefnir í enn eitt klúðrið í embættisfærslu félagsmálaráðherra.
![]() |
Ásta dregur umsókn til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Stjórnarsamstarf byggt á blekkingu. Samfylkingin leitar að næsta fórnarlambi
Fimmtudagur, 26. ágúst 2010
Væri ekki rétt að senda skeyti til Brussel og spyrja hvor ráðherrann í ESB ríkisstjórninni hefði rétt fyrir sér? Þá þyrfti ekki að deila meira um það.
Ef Össur hefur rétt fyrir sér þá getur stjórnsýslan slappað af næstu 2-3 árin eða þangað til aðildarsamningur hefur verið samþykktur af þjóðinni. Sem verður vonandi aldrei. Ef Össur hefur aftur á móti rangt fyrir sér, sem hann hefur örugglega, þá er hann algjörlega óhæfur að stýra aðildarferlinu sem er í gangi. Hann veit þá ekkert hvað er í rauninni í gangi! Við gætum þá allt eins fengið Magnús bróður hans til að taka við keflinu. Stækkunarstjóri ESB sat að þessu sinni ekki við hlið Össurar til að sussa á spunann í kallinum eins og í Brussel um daginn.
Ef Jón Bjarnason hefur rétt fyrir sér þá hefst aðlögunarferlið strax í næsta mánuði með rýnifundum (screening) með fulltrúum ESB hér og þar í stjórnsýslunni. Í framhaldinu sækja íslensk stjórnvöld um styrki til ESB í þeim tilgangi að aðlaga regluverkið að grunnregluverki ESB. Um grunnregluverk ESB verður ekki samið ef einhver skyldi hafa haldið það. Aðildarríkið skal lúta því í einu og öllu enda sótti það (þ.e. Ísland) um að gerast aðili að ESB en ekki öfugt. Með aðildarumsókn sinni samþykkti ríkisstjórn Íslands grunnregluverk ESB þ.m.t. sameiginlega landbúnaðarstefnu og sjávarútvegsstefnu sambandsins. Flóknara er það nú ekki.
Ég vona að ráðherrar Samfylkingarinnar hafi upplýst samstarfsflokkinn um þetta. Ef ekki þá er þetta ríkisstjórnarsamstarf byggt frá upphafi á blekkingu. Við því geta VG aðeins gert eitt. Spurningin er hins vegar hvort Samfylkingin verður búinn að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum áður en VG átta sig á muninum á réttu og röngu.
![]() |
Sótt um styrki til að breyta stjórnsýslunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)