Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Við búum í villta vestrinu

I. kapítuli 

Það er ekki laust við að maður fái á tilfinninguna að við séum stödd í villta vestrinu. Þannig fengu vildarvinir stjórnmálablokkanna ríkisbankana á silfurfati og ýmis stöndug ríkisfyrirtæki í leiðinni. Vildarvinirnir stóðu allt í einu uppi með fangið fullt af peningum. Síðan hafa fyrirtæki á smávörumarkaði og víðar fengið að sölsa undir sig markaðinn og skapað sér einokunarstöðu eða í besta falli fákeppnisstöðu á markaði. Samhliða voru einkavinavæddu bankarnir rændir innan frá um hábjartan dag fyrir framan nefið á yfirvöldum. Yfirvöld beindu ekki einu sinni blinda auganu að gjörningnum heldur gerðu allt sem í þeirra valdi stóð með bæði augun opin til að auðvelda þeim verknaðinn. Allar gagnrýnisraddir voru síðan þaggaðar niður eða gerðar ótrúverðugar í fjölmiðlum sem brugðust gjörsamlega skyldu sinni enda flestir í eigu ,,bankaræningjanna". Um allt þetta getum við lesið um í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. William Black, sérfræðingur í fjárglæpum, taldi þó að gleymst hefði að skrifa niðurlag skýrslunnar um að hér hefði viðgengist skipulögð glæpastarfsemi og meðhöndla ætti eigendur bankanna sem ótýnda glæpamenn, eins og var gert í Bandaríkjunum.

II. kapítuli

Og nýlega voru gengistryggðu lánin dæmd ólögleg. Þannig hefur verið stunduð ólögleg lánastarfsemi í stórum stíl á Íslandi í um 10 ár. Allir í stjórnkerfinu virðast hafa vitað þetta en enginn gerði neitt. Afsökun kerfisins er akkúrat að enginn annar hafi gert neitt! Þannig sagði Valgerður, ráðherrann hans Halldórs Ásgrímssonar, sem bar ábyrgð á viðskiptum í landinu þegar ólöglega lánastarfsemin hófst að hún hafi alltaf vitað að þetta væri kolólöglegt en hún hefði ekki gert neitt því enginn hefði spurt hana um þetta á Alþingi Íslendinga! Flottari afsökun verður varla fundinn á sögulegum tíma.

En þó að Hæstiréttur hafi kveðið upp sinn dóm þá vilja sumir ekki viðurkenna niðurstöðuna. Allt eins og í villta vestrinu. Dómurinn talar sínu máli en þykir íþyngjandi fyrir lögbrjótinn. En að þessu sinni er lögbrjóturinn ekki vesæll snærisþjófur heldur voldugir vogunarsjóðir, en þeirra er mátturinn og dýrðin.  

III. kapítuli

Og þannig hófst hafafríið í kringum Hæstaréttardóminn. Ríkisstjórnin, sem á Íslandsmet í að lýsa yfir hve vel undirbúin hún er fyrirfram, hefur hoppað og skoppað um allar bjána grundir ráðvillt og tvísaga. Fyrst sagðist hún ekki ætla að gera neitt og kom það svo sem ekki á óvart. Það var hefðbundið. Síðan flutti láglaunamaðurinn í Seðlabankanum heimsdagsspá um afleiðingarnar ef Hæstaréttardómurinn yrði túlkaður lántakendum í vil, þ.e.a.s. almenningi. Það var nóg fyrir Gylfi viðskiptaráðherra til að hvetja til aðgerða í þágu lánveitenda, þ.e.a.s. fjármagnseigenda. Ef það yrði ekki gert, sagði ráðherrann, þá færi hér allt til helvítis og var ekki laust við að Gylfi hefði fundið taktana frá því hann þrumaði yfir vanhæfu ríkisstjórninni á Austurvelli í Búsáhaldabyltingunni. Þetta kallast að tala tungum tveim. En auðvitað er ríkisstjórninni vorkunn að hafa svo strangt yfirvald sem AGS. AGS hefur talað og Steingrímur J. mun að sjálfsögðu hlýða að vanda. Pétur Blöndal er síðan sjálfum sér samkvæmur í að verja hagsmuni fjármagnseigenda, sem hann kallað að vísu mun fallegra orði - sparifjáreigendur. Auðvitað sýnir almenningur þessum boðskap skilning á krepputímum þegar allar krónurnar úr launaumslaginu fara í lífsins nauðsynjar og hagstæðu íslensku húsnæðislánin. Auðvitað þarf að verja allan sparnaðinn sem fjölskyldurnar í landinu leggja til hliðar í hverjum mánuði. Auðvitað á að taka fleiri krónur af skuldugum fjölskyldum til að verja stöðu sparifjáreigenda, sem er minnihlutahópur á Íslandi. Þetta er spurning um mannréttindi í villta vestrinu.  

Skrifað, Hólum í Hjaltadal 


mbl.is Segir „sveiattan" við málflutningi Gylfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrengir stöðu Samfylkingarinnar

Eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins er stefnan alveg hrein og klár. Ekkert smábarn getur misskilið hana. Sjálfstæðisflokkurinn telur það ekki þjóna hagsmunum Íslands að gerast aðili að Evrópusambandinu. Punktur. Þetta hefur alltaf legið fyrir. Meirihluti Evrópunefndar allra stjórnmálaflokka komast að þessari niðurstöðu fyrir aðeins þremur árum síðan. Hagsmunasamtök í sjávarútvegi og landbúnaði hafa komist að þessari sömu niðurstöðu ítrekað á undanförnum árum. Í dag eru mikill meirihluti landsmanna á þessari sömu skoðun. Í ríkisstjórn Íslands ætlar annar stjórnarflokkurinn að berjast gegn aðildarsamningi við ESB! Og á undanförnum mánuðum höfum við horft á risavaxin vandamál Evrópusambandsins um alla álfuna þar sem aðalaðdráttaraflið - evran - er í tilvistarkreppu. Límið í Evrópusambandinu - Þjóðverjar - hafa snúið baki í Evrópusamrunann og eru ekki aflögufærir lengur. Allt er á sömu bókina lært.

Ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins hefur svo sannanlega ekki þrengt stöðu Sjálfstæðisflokksins. Það er hárrétt mat hjá Einari K. Guðfinnssyni, sem reyndar vildi vísa tillögunni til þingflokksins til að halda friðinn við brúarsmiðina til Samfylkingarinnar. En ályktunin hefur þrengt stöðu Samfylkingarinnar og VG hefur ráð ríkisstjórnarinnar í hendi sinni. Áður gátu forystumenn Samfylkingarinnar hrætt VG með vísun í brúna, sem aðildarsinnar í Sjálfstæðisflokknum, voru að byggja í þágu Össurar og félaga. Nú hefur þeirri smíði verið hætt snarlega. Ályktun landsfundarins um ESB hefur þannig veikt stöðu ESB-aðildarsinna hvar sem þeir finnast og leynast. Vinstri stjórnin lifir varla af sumarið úr þessu. Því ættu allir sannir sjálfstæðismenn að fagna.

Ólafur Þ Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins sem Jón Ásgeir réði til starfa, reynir að espa landsmenn upp á móti frumatvinnuvegum þjóðarinnar. Það er og hefur alltaf verið háttur Bónusverja. Hann kallar allt það fólk sem hefur atvinnu af sjávarútvegi og landbúnaði þröngar sérhagsmunaklíkur. Hann gefur í skyn að hagsmunagæslumenn þessarar atvinnugreina beri ábyrgð á ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um að draga umsókn Íslands að ESB tafarlaust til baka. En hann veit vel að það var ungur sjálfstæðismaður Hallgrímur Viðar Arnarson, Kópavogsbúi og félagi í Sambandi ungra sjálfstæðismanna, sem á heiðurinn af því að þessi ályktun náði fram að ganga. Það voru ekki fulltrúar sjómanna né bænda því flestir þeirra höfðu fallist á málamiðlunartillögu nefndarinnar sem samþykkti stjórnmálaályktunina sem var lögð fyrir landsfundinn. En Fréttablaðið hefur ekki áhuga á sannleikanum ef hann þjónar ekki hagsmunum eigenda blaðsins.


mbl.is Þrengir ekki stöðu Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvor er meiri lýðræðisflokkur - Sjálfstæðisflokkurinn eða Samfylkingin?

Ef Bjarni Benediktsson hefði fengið rússneska kosningu til formanns Sjálfstæðisflokksins þá hefðu andstæðingar Sjálfstæðisflokksins, stjórnmálaflokkar og fjölmiðlar, velt sér upp úr því alla vikuna. Staðreyndin er sú að Bjarni var endurkjörinn með öruggum meirihluta í lýðræðislegri kosningu á landsfundi. Landsfundarfulltrúar höfðu val um tvo sterka einstaklinga og 62% þeirra endurkusu Bjarna Benediktsson sem formann. Kjör formanns var hluti af þeirri lýðræðisvakningu sem hefur orðið í Sjálfstæðisflokknum. Sama er að segja um góða kosningu varaformanns þar sem Ólöf Nordal fékk stuðning 70% fulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á að skipa glæsilegri sveit kvenna í trúnaðar- og ábyrgðarstörfum og nægir þar að nefna auk Ólafar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Unni Brá Konráðsdóttur, Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Ragnheiði Ríkharðsdóttur, sem var einmitt fundarstjóri landsfundarins. Það var vel við hæfi og tímabært að jafnréttisstefna var í fyrsta skipti samþykkt fyrir Sjálfstæðisflokkinn enda full þörf á að tryggja stöðu karla í stjórnum og nefndum í framtíðinni!

Forysta flokksins hafði kjark og þor til að brjóta upp fundarformið með virku málefnastarfi fyrri dag landsfundarins þar sem allir landsfundarfulltrúar, um eitt þúsund talsins, fengu að tjá sig og taka þátt í stefnumótun. Sumum íhaldssömum fannst nóg um en flestir voru sáttir við þessa tilraun sem tókst framar vonum. Forysta flokksins hefur nú í höndum þennan dýrmæta afrakstur og það verður í þeirra höndum að nýta sér hann til að styrkja stöðu flokksins á meðal kjósenda. Það er einmitt þetta sem fólkið í landinu hefur verið að kalla eftir. Að fá að koma skoðunum sínum á framfæri og að á það sé hlustað. Það var gert á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. Þetta eru ný vinnubrögð og í fullu samræmi við vonir okkur um Nýja Ísland. Landsfundinum var sjónvarpað beint, allt var eins opið og lýðræðislegt og kostur var.

Á sama tíma var Samfylkingin með fund. Þar var ákveðið að loka fundinum. Hvorki almennir félagar í Samfylkingunni, fjölmiðlar né aðrir landsmenn fengu að fylgjast með fundinum. Síðan er samþykkt einkennilega stuðningsyfirlýsing við Jóhönnu Sigurðardóttur sem formann Samfylkingarinnar að rússneskum sið. Þarf að samþykkja slík stuðningsyfirlýsingu á hverjum fundi í Samfylkingunni? Þetta er nú allt gagnsæið. Þetta er nú allt lýðræðið. Þetta kallar Samfylkingin að hafa allt upp á borðinu.  


mbl.is Bjarni kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það fer þá enginn neitt

Að mörgu leyti er hægt að taka undir þessi orð Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. En að öðru leyti alls ekki. Auðvitað er óþarfi að sundra flokksmönnum. Það vill enginn. Og auðvitað er málamiðlun ólíkra afla nauðsynleg ef þessi ólíku öfl hyggjast starfa saman. En stjórnmálaflokkur sem er ekki með skýra stefnu í grundvallarmáli eins og aðildinni að Evrópusambandinu hann er sundurþykkur í sjálfu sér og stenst ekki tímans tönn. Sá flokkur sem veit ekki hvort hann er að fara til hægri eða vinstri hann er ónýtur. Þess vegna hefur evrópustefna Sjálfstæðisflokksins frá síðasta landsfundi verið honum dragbítur og gert hann ótrúðverðugan í augum kjósenda. Núna hins vegar hafa sjálfstæðismenn rétt kúrsinn í þessum mikilvæga málaflokki sem og í ýmsum öðrum. Það mun reynast farsælt til lengri tíma litið. Það er nefnilega svo að ólík öfl sem hafa andstæða skoðun á grundvallarhagsmunamálum þjóðarinnar rúmast því miður ekki í eina og sama flokknum. Þeir sem reyna málamiðlun innan stjórnmálaflokka í svona grundvallarstefnumál sjá ekki heildarmyndina og í hjörtum þeirra hefur hugsjónaeldurinn kulnað. Þannig voru það ungir sjálfstæðismenn, fullir eldmóði og baráttuvilja, sem stóðu að þessari ESB tillögu og eiga allan heiður af afgreiðslu hennar. Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að kvíða framtíðinni með þetta kraftmikla fólk innan sinna raða.

Það er hægt að hafa ólíkar skoðanir og áherslur á mörgum málefnum. Það er hægt að hafa mismunandi skoðanir á leiðum að sameiginlegum markmiðum. En í svona stóri máli eins og hvort Ísland eigi heima í Evrópusambandinu þá verður það alltaf flokkum fjötur um fót að hafa liðsmenn innan sinna raða þar sem einn vill fara í austur en hinn í vestur. Það fer þá enginn neitt.


mbl.is Óþarfi að sundra flokksmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn þorir!

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið og er stærsta lýðræðishreyfing landsmanna. Það sannaðist í dag á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins þegar á annað þúsund sjálfstæðismenn af öllu landinu komu saman og leiddu smá sem stór mál til lykta með lýðræðislegum hætti. Stjórnmálaályktun hafði verið tekin saman á sérstökum fundi á landsfundinum, sem var ætlað að sjóða saman stjórnmálaályktun fundarins. Þar urðu mestu átökin um ESB tillöguna sem lág fyrir fundinum að draga umsókn Íslands að ESB til baka. Reyndar verður að segjast eins og er að þessi fundur var ekki auglýstur í dagskrá sem fundargestir fengu og þess vegna fór hann framhjá mörgum þar á meðal undirrituðum. Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður, stjórnaði fundinum sem örugglega hefur verið vandasamt verk vegna þess skamma tíma sem ætlað var til þessarar vinnu. Þetta tókst þó að því er virtist í þokkalegri sátt meðal annars vegna ágætrar vinnu Ásdísar Höllu, fyrrverandi bæjarstjóra Garðabæjar.

Eftir meðferð í fyrrgreindri nefnd hafði hin skýra tillaga um ESB verið vötnuð út verulega í þeim tilgangi að ná málamiðlun milli þorra sjálfstæðismanna og fárra aðildarsinna. Mjög langt var gengið í að ná málamiðlun við aðildarsinna enda virðist svo vera að þeir hafi hótað öllu illu ef ekki yrði orðið við kröfum þeirra. Nóg er að minnast á hótanir Sveins Andra Sveinssonar, lögfræðings, og Ólafs Stephensen, ritstjóra Fréttablaðsins, fyrir landsfundinn. Á landsfundinums sjálfum var ljóst að forysta flokksins hafði gengið mjög langt í að verða við kröfum aðildarsinna. Það sást í mjög einkennilegum, svo ekki sé sterkar að orði komist, aðdraganda þess að hægt væri að bera tillögu Hallgríms Viðars Arnarsonar frá Kópavogi undir atkvæði landsfundarins. Fyrst fékk Einar Kristinn að koma í ræðustól, eftir að mælendaskrá hafði verið lokað, til að hvetja til þess að tillagan yrði ekki samþykkt og vísaði í málamiðlunartillögu í fyrirliggjandi tillögu um stjórnmálaályktun. Jafnframt fékk Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, að koma í kjölfarið til að lýsa yfir stuðningi við málsmeðferð Einars Kristins. Þegar ljóst var að hinn skeleggi flutningsmaður tillögunar Hallgrímur Viðar gaf sig ekki þá kom Einar Kristinn fram með tillögu um að málinu yrði vísað til þingflokksins! Þá var landsfundargestum nóg boðið og var púað á þessi vinnubrögð. Landsfundargestir felldu síðan tillögu háborðsins um að vísa málinu til þingflokksins með þorra atkvæða og samþykktu síðan tillögu Hallgríms Viðars að gera þá skýlausu kröfu að umsókn Íslands að ESB yrði dregin til baka. Þorri fundargesta risu úr sætum og klöppuðu og létu það ekki á sig fá þegar Benedikt Jóhannsson, helstu aðildarsinni ESB í Sjálfstæðisflokknum, í félagi við annan gengu út úr fundarsalnum. Sjálfstæðismenn ákváðu þar með að hætta öllu málamiðlunarmoði í ESB málum og senda skýr skilaboð til kjósenda um hvar Sjálfstæðisflokkurinn stendur í afstöðunni til aðildar Íslands að ESB. Eftir daginn í dag á enginn að velkjast í vafa um það lengur.

Á sama tíma voru Vinstri grænir að samþykkja á flokksráðsfundi sínum tillögu um að klappa Samfylkingunni á bakið í viðleitni þeirra að koma Íslandi með hraði inn í ESB. Grasrótin í VG þorði ekki að taka harða afstöðu og hlýddu eins og þrælar svipuhöggum aðildarsinna í Samfylkingunni og í forystu VG. Grasrótin í Sjálfstæðisflokknum ákvað hins vegar að fylgja hjartanu og sannfæringunni í afstöðu sinni og gjöra það sem rétt er fyrir þjóðina og framtíðina. Háborðið á landsfundinum sýndi því miður dómgreindarskort í afgreiðslu þessarar tillögu sennilega í þeim tilgangi að halda aðildarssinnum góðum. Þeir létu þannig undan hótunum og svipuhöggum aðildarsinna í flokknum og utan flokksins. Vinnubrögð þeirra virtust hafa þann eina tilgang að hunsa skýran vilja landsfundarfulltrúa. Það tókst sem betur fer ekki. Ég er hins vegar viss um að endurnýjuð forysta átti sig fyrr en síðar á nýju landslagi í stjórnmálum á Íslandi. Það hefur orðið lýðræðisvakning á meðal þjóðarinnar. Fulltrúar á landsfundi Sjálfstæðisflokknum sýndu mikinn styrk og siðferðisþrek í dag. Nú þarf forystan bara að hlusta, þjóna og tileinka sér auðmýkt frammi fyrir fólkinu. Hlutverkin hafa snúist við. Sjálfstæðismenn geta verið stoltir og borið höfuðið hátt í dag. Þeir sögðu í dag: ,,Við þorum, og látum ekki hræða okkur frá því, að taka réttar ákvarðanir í þágu þjóðarinnar!" Lýðræðisvakning hefur átt sér stað í Sjálfstæðisflokknum. Línur hafa skýrst í íslenskum stjórnmálum. Til hamingju sjálfstæðismenn!


mbl.is Vilja draga umsókn til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að slökkva alla von sem vaknar

Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands virðist vera það kappsmál að slökkva alla von sem vaknar. Með dómi Hæstaréttar vaknaði von hjá þúsunda heimila sem hafa ekki séð fram úr skuldavanda sínum. Sama er að segja um fjölmörg fyrirtæki og sveitarfélög. Nú væri hægt að rísa undan fargi stökkbreyttu skuldanna og taka til hendinni við uppbyggingu nýja Íslands. Von vaknaði um að skapa fleiri störf, meiri hagvöxt og verðmætasköpun.

En fljótt dró ský fyrir sólu. Ráðherrar og þingmenn úr stjórnarliðinu voru mættir á staðinn með bölbænir og vonleysishjal. Þeir hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að slökkva vonina og sá sektarkennd í huga almennings í landinu, eins og þessi frétt um Gylfa viðskiptaráðherra, er ágætt dæmi um. Það er orðið mannskemmandi að horfa upp á þetta verð ég að segja. Hvernig á fólkið í landinu að öðlast trú á framtíðina með þessa óláns ríkisstjórn við völd?


mbl.is Almenningur fengi reikninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má seðlabankastjóri taka stöðu gegn almenningi?

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, já þessi sem var svikinn um launahækkunina sína, hvatti ríkisstjórnina að taka boltann á lofti og skjóta í markið. Markið í hans huga var mark almennings. Síðan naut hans þess að strá salti í sárið með því að hætta við að lækka stýrivexti til að ná sér niður á almenningi vegna dóms Hæstaréttar, sem féll ,,röngu megin" að áliti Seðlabankans og viðskiptaráðherra. Okurvextir Seðlabankans halda öllu atvinnulífi landsmanna í heljargreipum. Svo skal vera áfram.

Embættismaður í þjónustu borgaranna hvatti sem sagt stjórnvöld að taka stöðu gegn almenningi í landinu. Og enginn fjölmiðill hrópaði upp af forundran að embættismaður væri að skipta sér að stjórnmálum. Ekki einu sinni Morgunblaðið! Og nú hefur komið í ljós vankunnátta þessa æðsta manns í peningamálastjórn landsins. Í gær sagði hann að bankarnir myndu ekki þola að greiða samningsbundna vexti. Í dag sögðu sömu bankarnir að þeir þoldu það víst! Almenningur hlýtur að sofa rólega á nóttinni með svona seðlabankastjóra sem hvorki veit á hvaða launum hann var ráðinn né hvert þanþol banka landsmanna er.


mbl.is Taka stöðu gegn almenningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómurinn skapar réttlæti

Stjórnmálamennirnir okkar ættu að huga meira að réttlæti fyrir almenning en minna að réttlæti til handa fjármagnseigendum og fjárglæframönnum. Fyrsta sem velferðarráðherranum datt í hug var að sjálfsögðu að dómur Hæstaréttar myndi færa fólkinu réttlæti og peninga. Þeim datt að sjálfsögðu ekki í hug það væri þeirra hlutverk að skapa réttlæti og jöfnuð í þjóðfélaginu. Það er hlutverk fjármálastofnana ef marka má orð ráðherrans nú sem fyrr. Viðskiptaráðherranum, sem aldrei var kosinn af þjóðinni - heldur ráðinn af stjórnmálaelítunni, finnst líka dómurinn ranglátur. Honum finnst ekki sanngjarnt, frekar en Merði Árnasyni, Pétri Blöndal og Má Guðmundssyni, að létta skuldabyrðinni af fólkinu í landinu. Það skal fá að þola meira og meira af álögum, kaupmáttarrýnum og skuldabyrði - réttlátum sem stökkbreyttum.

En þetta er víst ríkisstjórn vinstri manna. Er það ekki alveg á hreinu?


mbl.is Dómurinn skapar ekki peninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankarnir eiga bágt - en fólkið ekki

Auðvitað veit Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, allt um gjafir og fórnir. Maðurinn sem fórnaði sér fyrir Ísland. Maðurinn sem hafði 8 milljónir í laun á bankakontór í Sviss en gaf eftir rúmlega 6 milljónir til að fá að vera aðalkarlinn í Svörtuloftum. Fórnargjöf hans til þjóðar sinnar. Svo voru menn að röfla yfir einhverjum hundrað þúsund körlum. Og vel að merkja þetta voru mánaðarlaunin, ekki árslaunin.

Og auðvitað veit Már Guðmundsson, sem allir í hinum alþjóðlega seðlabankaheimi þekkja að eigin sögn, að íslensku bankarnir þola ekki að bjóða almenningi lánakjör eins og þekkjast í öllum hinum siðmenntaða heimi. Þetta er maðurinn sem sagði fyrir nokkrum vikum að einn af þessum bönkum gæti þess vegna farið á höfuðið daginn eftir án þess að hann vissu nokkuð um það. En í dag veit hann allt um afkomu þessara sömu banka og í dag gerðist hann sérlegur talsmaður þeirra og hagsmunagæslumaður. Þannig gat hann sagt með fullri vissu að bankarnir myndu þola það ef þeir fengju einhliða að hækka vexti gengistryggðu bílalánin úr 3% í 8%, eða um meira en um 160%, en færu á höfuðið ef lánin bæru þá vexti sem þeim bæri. Já, bankarnir eiga bágt - en fólkið ekki.

Og þannig hafa þeir gömlu félagarnir úr Alþýðubandalaginu gefið tilskipun til ríkisstjórnarinnar - hann og Mörður Árnason. Nú á þriðji félaginn Árni Páll Árnason, velferðarráðherrann sem líka var félagi í sama bandalagi alþýðunnar, að taka boltann á lofti og skora mark, eins og seðlabankastjórinn sagði á blaðamannafundinum í Svörtuloftum í dag. Það hefur verið sótt að almenningi stöðugt frá hruninu, fátt er lengur fólkinu til varnar og seðlabankastjórinn krefst þess að stjórnvöld geri út um leikinn með marki.

Þetta er allt samkvæmt formúlunni eins og ég skrifaði þegar dómur Hæstaréttar var uppkveðinn. Stjórnvöld og fjármagnseigendur með dyggri aðstoð fjölmiðla þyrftu að fá ráðrúm til að kokka ranglætið ofan í alþjóð ....

Já, það er ný og gömul saga að samhljómur sé á milli stjórnmálanna og viðskiptalífsins. Á þeirri sögu er aldrei óvæntur né hamingjusamur endir. Næsti kapítuli hefst síðan eftir helgi þegar þessir sömu aðilar hafa náð óaðfinnanlegur samhljómi í þágu fjármagnseigenda. Þann samhljóm þarf að fínstilla með fjölmiðlum til að almenningur heyri ekki hinn undirliggjandi falska tón.

Það er að takast með miklum ágætum.


mbl.is Hefðu lækkað vexti meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Borgið okurlánin aumingjarnir ykkar!"

Það er ekki að spyrja að því þegar kommúnistar eru annars vegar. Fyrsta boðorðið er að jafna kjörin niður á við. Keyra alla niður á lægsta plan en ekki að koma öllum uppá hærra plan. Hugsjóninni um jöfnuð, réttlæti og bræðralag er snúið á hvolf í anda Orwell.  

Stundum mætti halda að stjórnarliðum væri ekki sjálfrátt í að keyra þjóðina niður í eymd og volæði. Mörður hlýtur að fá klapp á bakið frá fjármagnseigendum fyrir þessa vasklegu framgöngu í þágu erlendu vogunarsjóðanna, sem sagt er að eigi helstu fjármálastofnanir landsmanna. Svona stjórnmálamenn þarf ekki að styrkja fyrirfram.

Mörður virðist gleyma því að skattpíndur og skuldaþjakaður almenningur fékk á sig stökkbreyttar skuldir á einni nóttu. Það varð forsendubrestur. Þá færðust milljarðar frá skuldurum til lánveitenda. Grét Mörður þá í samúðarskyni með fólkinu í landinu?

Og ekki bara almenningur heldur allt atvinnulífið sem er að fótum komið. Rótgróin fyrirtæki í eigu vammlausra eigenda hafa verið keyrð í þrot af lánastofnunum af algjöru miskunnarleysi og skammsýni. Alþjóð hefur horft upp á hvernig heiðarleg athafnaskáld í viðskiptalífinu til fjölda ára hafa verið brotin niður í beinni útsendingu þannig að maður táraðist með viðmælendum. Á sama tíma fá fyrirtæki útrásargosanna að lifa á styrkjum. Í DV í dag er svo sagt frá persónulegum og hörmulegum afleiðingum af þessari okurlánastarfsemi, sem Hæstiréttur hefur dæmt ólöglega. Ekket mun bæta þann skaða. Hvar var samúð þingmannsins með þessu fólki?

Það er enginn að tala um það að fólk eigi ekki að borga til baka þá peninga sem það fékk að láni í íslenskum krónum með vöxtum. En að okra á fólki - hvort sem það er með stökkbreyttum gjaldeyrislánum eða verðbólgnum krónum í formi verðtryggingar - það kallast okurlánastarfsemi, og slíkt er syndsamlegt samkvæmt kristilegu siðferði. Við eigum ekki að sætta okkur við slíka starfsemi lengur. Við höfum ekki lengur efni á að keyra fólkið í landinu í þrot með okurlánastarfsemi. Nú er að mál að linni.

En Mörður Árnason, stjórnarþingmaður, öskrar á fólkið: ,,Borgið okurlánin aumingjarnir ykkar! Annað er ekki sanngjarnt!"


mbl.is Vill verðtryggingu á lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband