Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
Guðlaugur Þór segðu af þér!
Föstudagur, 30. apríl 2010
Ef þetta verður niðurstaða borgarstjórnarkosninganna þá yrði þetta áfellisdómur yfir stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Kjósendur eru að senda skýr skilaboð sem verða ekki misskilin.
Það er þess vegna sárgrætilegt að horfa upp á ,,styrkþega" stjórnmálaflokkanna, sem fjallað er um í rannsóknarskýrslunni, halda áfram að stinga höfðinu í sandinn og hanga á stöðum sínum eins og hundar á roði. Umræddir stjórnmálamenn flýja fréttamenn og gefa þannig frat í kjósendur sína. Kjósendur krefjast þess að þeir ábyrgu axli ábyrgð og segi af sér. Því lengur sem þeir draga það því dýpra draga þeir stjórnmálaflokka sína niður í svaðið. Lýðræðinu er hætta búin ef stjórnmálamenn hunsa lýðræðislegar leikreglur í eigin þágu. Þeir verða þá margir Jónar Gnarrarnir í sveitarstjórnum og á Alþingi á næstu árum.
Þó mér sé það ekki ljúft þá finnst mér rétt að rifja upp pistlaskrif mín um Guðlaug Þór Þórðarson. Fyrir rúmlega ári síðan skrifaði ég pistil um prófkjörsslag hans og Illuga undir heitinu Af verkunum skaltu þekkja þá. Þá þótti mér ótrúlegt að þeir félagar færu fram og enn ótrúlegra að kjósendur Sjálfstæðisflokksins veldu þá til áframhaldandi forystu eftir það sem á undan hafði gengið. Og 9. apríl 2009 skoraði ég á Guðlaug Þór að leggja spilin á borðið vegna nýlegra upplýsinga um óeðlilega háa styrki sem hann þáði ella myndi hann varpa skugga á alla sjálfstæðismenn ....
Rætt hefur verið um hatramma kosningabaráttu hans gegn Birni Bjarnasyni í prófkjöri fyrir síðustu kosningar þar sem öllum var ljóst að eigendur Baugs Group (eða Gaums, eða Stoða, ja eða FL Group !?) studdu hann opinberlega og tengsl hans við REI málið er öllum kunn. Guðlaugur Þór á þess vegna að hafa frumkvæði að því að gera fjármál sín opinber og sýna þar með að hann hafi ekkert að fela. Ella varpar hann skugga á Sjálfstæðisflokkinn og þar með alla sjálfstæðismenn.
Og nú hefur þetta gengið eftir. Guðlaugur Þór var lengi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en hann situr í dag sem þingmaður Reykvíkinga. Og enn skrifaði ég 13. apríl fyrir rúmu ári síðan.
Þáttur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur trúað fyrir mörgum trúnaðarstörfum í þágu flokksins, er málaður dekkri litum með degi hverjum í fjölmiðlum. Hann hefur verið uppvís af misræmi í málflutningi. Í stuttu máli sagt er staða hans ekki trúðverðug í augum kjósenda lengur sem gerir jafnframt stöðu Sjálfstæðisflokksins óþolandi. ....
Bjarni Benediktsson, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, verður á þessari ögurstundu í sögu Sjálfstæðisflokksins, núna aðeins 12 dögum fyrir alþingiskosningar, að taka af skarið og gera þær ráðstafanir sem þarf til að flokksmenn geti hafið kosningabaráttuna af fullum þunga. Það gerist aðeins með því að Guðlaugur Þór Þórðarson axli ábyrgð og segi sig frá öllum trúnaðarstörfum á vegum Sjálfstæðisflokksins.
Það á enginn að sitja undir þeim ásökunum þegjandi að trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins hafi þegið mútur eins og pólitískir andstæðingar flokksins saka þá um.
Rannsóknarnefnd Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að þeir háu styrkir sem stjórnmálamenn fengu frá bönkum og fyrirtækjum tengdum þeim voru óeðlilegir. Í hugum flestra kjósenda voru þessar peningagjafir ekkert annað en mútur. Það er þess vegna alveg ljóst að það er löngu komin tími á allsherjarhreingerningu innan Sjálfstæðisflokksins hvað þess mál varðar ef honum á að takast að ávinna sér traust kjósenda að nýju.
![]() |
Besti flokkurinn fengi fjóra kjörna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fólk rekið af jörðum sínum út á Guð og gaddinn!
Fimmtudagur, 29. apríl 2010
Í um 450 daga hefur þjóðin beðið eftir skjaldborg vinstri stjórnarinnar. Í 450 daga hafa ráðherrar vinstri stjórnarinnar sagt að unnið væri dag og nótt í að bjarga heimilum landsmanna frá grimmum afleiðingum hrunsins. Dagarnir hafa verið notaðir i að vinna að aðild Íslands að ESB og bjarga andlitinu vegna meingallaðra Icesave samninga. Bæði mál sem þorri Íslendinga hefur barist gegn hatrammlega.
Fréttirnar um Sigurgeir Runólfsson, bónda á Skáldabúðum, og fjölskyldu hans er sem köld vatnsgusa framan í þá Íslendinga sem trúði því staðfastlega að innistæða væri fyrir loforðum vinstri stjórnarinnar. Loforðum um ný vinnubrögð. Loforðum um nýtt Íslands. Loforðum um skjaldborg um heimilin. Loforðum um að fjármagnseigendur réðu ekki lengur aðgerðum eða aðgerðaleysi stjórnvalda. Hrollkaldur veruleikinn er sá að hafin er aðför nýeinkavæddu bankanna að heimilum, fyrirtækjum og bændum um allt land.
Sagan er að endurtaka sig frá kreppunni miklu í Bandaríkjunum 1929 þegar bændur voru reknir af jörðum sínum út á Guð og gaddinn. Þegar Franklin D. Roosevelt, tók við embætti sem forseti Bandaríkjanna árið 1933, þá hrinti hann í framkvæmd metnaðarfullum og ,,nýjum sáttmála" til að vinna bug á kreppunni eins og ég hef skrifað um áður. Hann boðaði að enginn yrði borinn út af heimilum sínum eða af jörðum sínum á hans vakt og stóð við það! Vinstri stjórnin á Íslandi skrifaði aftur á móti undir samning við handrukkara alþjóðlegra fjármagnseigenda um daginn þar sem þeir hétu því að fólk yrði borið út af heimilum sínum eigi siðar en í október ef það greiddi ekki skuldir sínar! Þetta hefur Steingrímur J. nýlega staðfest.
Nú er sem sagt að koma í ljós sem ég óttaðist og hef varað við hér á vefsíðu minni að vinstri stjórnin hefur sóað dýrmætum tíma. Tíma sem nota átti til að reisa skjaldborgina og ráðast í raunhæfar aðgerðir í peninga- og efnahagsmálum svo hægt yrði að spyrna við fótum. Nú er sem sagt komið á daginn, eins og ég hef reynt að vara við, að skjaldborgin reyndist vera skulda- og skattborg. Nú er komið á daginn að tíminn var notaður til að bjarga fjármagnseigendum og aðalleikendum hrunsins, svo þeir mættu halda fyrirtækjum sínum og koma eignum sínum undan. ,,Hrægömmunum" hefur verið hleypt lausum á varnarlausan almenning sem virðist eiga sér fáa málsvara í ríkisstjórn Íslands.
Hve lengi ætla raunverulegir málsvarar almennings að láta þetta viðgangast?
Hlustum svo á ræðu Franklin D. Roosevelt frá árinu 1941 þar sem hann fjallar um frelsin fjögur til handa mannkyninu - tjáningarfrelsi, trúfrelsi, frelsi frá skorti og frelsi frá ótta. Höfum við náð að tryggja þessi fjögur frelsi fyrir alla íbúa jarðarinnar nú um 70 árum síðar?
![]() |
Jörðin seld án auglýsingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Alþingi greiðir götu Björgólfs Thors
Miðvikudagur, 28. apríl 2010
Ég verð nú að segja alveg eins og er að ég botna hvorki upp né niður í þessari afgreiðslu iðnaðarnefndar Alþingis né í orðum Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað styðja allir atvinnuuppbyggingu í Reykjanesbæ. Auðvitað styðja allir uppbyggingu hátækniiðnaðar eins og gagnavera sem nýtir innlenda orkugjafa. Auðvitað slær enginn hendinni á móti erlendu fjármagni til að byggja upp atvinnutækifæri á Íslandi. En eru ekki fleiri fiskar í sjónum en aðalleikendur hrunsins?
Og lítum á fleiri staðreyndir. Björgólfur Thor Björgólfsson, er óumdeilanlega einn af ,,útrásargosunum" svokölluðu, eins og núverandi velferðarráðherra vinstri stjórnarinnar kallaði þá félaga Jón Ásgeir, Hannes Smára, Ólaf í Samskipum, Pálma í Fons, Karl í Milestones og Björgólf Thor. Það er og staðreynd eins og kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að þessir ,,gosar" lögðu íslenskt þjóðfélag á hliðina. Það gerðu þeir með dyggri aðstoð stjórnvalda og völdum hóp stjórnmálamanna sem þáðu óeðlilega háa styrki sjálfum sér til framdráttar. Af lestri skýrslunnar má ljóst vera að hér var framið Íslandsrán fyrir framan nefið á eftirlitsaðilum og stjórnvöldum. Þó enginn hafi verið dæmdur þá stendur þetta allt í rannsóknarskýrslunni ef alþingismenn hafa fyrir því að lesa hana.
Það er þess vegna ótrúleg yfirlýsing alþingismannsins Jóns Gunnarssonar sem lesa mátti í þessari frétt mbl.is og kemur best fram í þessum hluta hennar:
Jón segir mikilvægi verkefnisins svo mikið að það eigi ekki að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Ég læt ekki þátttöku útrásarvíkinga með hliðartengingu í svona verkefni eyðileggja meira fyrir okkur en orðið er.
Jón segist ætla að taka málið upp á vettvangi þingsins og krefjast svara um hvaða stefnu Alþingi ætlar að móta sér þegar kemur að útrásarvíkingum, sem hafi þegar öllu er á botninn hvolft ekki verið dæmdir.
Ef þetta er almenn skoðun þingmanna Sjálfstæðisflokksins þá skammast ég mín fyrir að tilheyra þeim stjórnmálaflokki. En að sama skapi er afgreiðsla iðnaðarnefndar mér einnig ráðgáta.
Þegar gagnaverið var kynnt til sögunnar við hátíðlega athöfn, og útrásargosarnir voru í hávegum hafðir, þá mátti öllum vera ljóst að fyrirtæki Björgólfs Thors var ,,kjölfestufjárfestir" verkefnisins. Síðan hafa menn reynt að breiða yfir þessa óþægilegu staðreynd. Og segja nú eins og Jón Gunnarsson að tilgangurinn helgi meðalið. Það sé sem sagt í lagi gefa afslátt af siðferðinu ef hægt er að hagnast á því.
Skúli Helgason, formaður iðnarðarnefndar og þingmaður Samfylkingarinnar, segir þannig blákalt að ,,siðbyltingin" sé hafin. Jú, með því að Björgólfur Thor fái ekki sérstakan skattaafslátt, sem upphaflega var ætlun löggjafans að veita honum með sérstökum lögum frá Alþingi. Iðnaðarnefnd hafi gugnað á því. Siðbótin felst í því að Björgólfur Thor sé farin ,,að greiða til baka" skaðann sem hann olli þjóðarbúinu. Jú, með því að taka af honum hinn sérstaka skattaafslátt sem lögin áttu að færa honum með sérstökum lögum þar um! Hvaða vitleysa er þetta eiginlega?
Svo má spyrja sig: Hvað ef hagnaður verður af rekstri fyrirtækisins? Á Björgólfur Thor að fá hann? Og hvað með verðmæti þeirrar ,,viðurkenninguna" sem hann fær frá íslenskum stjórnvöldum, sem ætla að hliðra til með sérstökum lögum frá Alþingi til þess að koma gagnaverinu hans á koppinn? Er þetta ,,business as usual" stefna íslenskra stjórnvalda og stjórnmálastéttarinnar í hnotskurn? Hafa menn ekkert lært þarna niðri á Austurvelli?
Ef þetta er ,,siðbyltingin" á Alþingi þá er best að koma sér úr bænum og til óbyggða ....
![]() |
Þingið kveður upp siðferðisdóm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
,,Og hvað ef Þýskaland kastar evrunni?"
Miðvikudagur, 28. apríl 2010
Þegar fjallað er um ástandið í Grikklandi þá heyrist nú oft samhljómur við ástandið á Íslandi. Og hér á ég við bæði ástandið þar fyrir hrun og í dag. Reginmunurinn liggur hins vegar í að Grikkland er í Evrulandi en Ísland ekki. Aðildarsinnar hamra stöðugt á að þetta eigi að sýna okkur Íslendingum veginn til vegs og virðingar. Sjálfstæðissinnar segja á móti að Grikkland sé víti til varnaðar. Sagan á eftir að skera úr um hvort er rétt. Þeir sem lesið hafa pistla mína ætti að renna grun um skoðun mína á því.
En nóg um það. Ég vil hins vegar vekja athygli á athyglisverðri grein þýska blaðamannsins Robert Heusinger sem skrifar grein í dag um krísuna í Grikklandi undir fyrirsögninni: Og hvað ef Þýskaland kastar evrunni?
Þar fjallar hann um tvískinningshátt þýskra stjórnmálamanna í Grikklandsmálinu og gætu eflaust ýmsir stjórnmálamenn á Íslandi, ónefndir, sagt að málflutningur kollega þeirra í Þýskalandi sé ætlaður til heimabrúks. Þannig segir Heusingar að ...
... sá hafi verið tíminn að Þjóðverjar hafi viljað vera Evrópumenn meiri en Þjóðverjar. Sameining Evrópu hafi verið óumdeilanlegt markmið. Sá tími er löngu liðinn, það sé engum vafa undirorpið. Með sameiningu Þýskalands hefur þetta land öðlast stolt að nýju.
Það er ekki laust við það að þessi orð veki mann til umhugsunar um framtíðina með hliðsjón af sögu Þýskalands í veraldarsögunni þó það hafi ekki verið efni greinar Heusinger.
Áhyggjur hans liggja í því að þýskir stjórnmálamenn hafi talað sig út í horn í þeim tilgangi að auka fylgi sitt í heimalandinu. Þýskaland þurfi á evrusamstarfinu að halda - meira en nokkurt annað ríki í myntbandalaginu. Því ef Þýskaland kastaði evrunni og tæki upp að nýju þýska markið þá myndi það þýða efnahagslegt hrun í Þýskalandi. Önnur ríki svo sem Frakkland og Ítalía myndi hagnast með auknum útflutningi vegna mun hagstæðari samkeppnisstöðu. Þýskaland sæti uppi með þýska markið sem myndi verðleggja þýska framleiðslu allt of hátt með tilheyrandi hruni í útflutningi og atvinnuleysi. Önnur ríki í Evrópu væru hins vegar laus úr þýsku prísundinni.
Það er þannig niðurstaða Heusingar að Þýskaland sé nauðugur einn kostur; að aðstoða Grikkland og önnur ríki í myntsamstarfinu sem eiga í vandræðum. Þýskaland standi og falli með evrunni.
![]() |
Þurfa tíma og frið til að breyta Grikklandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íslensku flugfélögin þurfa einnig aðstoð
Þriðjudagur, 27. apríl 2010
Þessi ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þýðir að samkeppnisstaða íslensku flugfélaganna versnar og þess vegna hljóta íslensks stjórnvöld að mótmæla þessari ákvörðun þó ekki væri nema til málamynda. En auðvitað mun það hafa lítil áhrif. Þetta þýðir hins vegar að íslensk stjórnvöld verða að taka lán, sem þau mega reyndar ekki, til þess að aðstoða íslensku flugfélögin í sama mæli og önnur evrópsk félög. Þessi aðstoð gæti að vísu komið til með öðrum hætti t.d. að stjórnvöld frestuðu skattgreiðslum eða felldu niður af flugfélögunum í einhvern tíma. Það kynningarátak sem stjórnvöld ætla að hrinda að stað til að bæta ímynd Íslands sem ferðamannalands (og að skaðlausu mætti bæta ímynd okkar almennt!) gæti fallið ágætlega saman við þessa aðstoð.
![]() |
ESB leyfir stuðning vegna ösku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
,,Sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann"
Sunnudagur, 25. apríl 2010
Það er engin framtíð í fortíðinni. Þetta veit forysta Framsóknarflokksins. Hún á hrós skilið fyrir að biðja þjóðina ,,margfalt afsökunar á andvaraleysi og mistökum sem gerð voru í aðdraganda bankahrunsins". Það er meira en aðrir flokkar hafa gert. Hins vegar þarf Framsóknarflokkurinn að gera betur en þetta í viðleitni þeirra við að gera upp fortíðina. Þjóðin þarf að vita, og framsóknarmenn líka, hvaða mistök forystufólk flokksins gerði og hverjir bera ábyrgð á þeim mistökum. Það vantar sem sagt að botna fyrripart vísunnar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, las upp í gær á miðstjórnarfundi flokksins.
Það þýðir sem sagt ekki bara að koma fram og segja ,,sorry sorry sorry" margfaldlega og halda að þá hafi flokknum verið fyrirgefið ,,andvaraleysið og mistökin". Kjósendur flokksins eiga rétt á að heyra alla vísuna með stuðlum og höfuðstöfum. Þegar þjóðin fetar áfram einstigið framundan þá er gott að hafa hugfast að hlutirnir breytast ekki af sjálfum sér heldur liggur breytingarkrafturinn hjá okkur sjálfum. En þá þurfum við að vita hverju við þurfum að breyta og hvernig. Og til að öðlast fyrirgefningu þarf að iðrast af einlægni og sýna yfirbót. Það er lærdómurinn sem við eigum að draga af hinni ágætu rannsóknarskýrslu.
Stjórnmálamenn sem gera hreint fyrir sínum dyrum, játa mistök sín eða yfirsjónir, biðjast fyrirgefningar á þeim, iðrast af auðmýkt og sýna yfirbót - þeir fá uppreisn æru. Aðrir ættu að taka pokann sinn og snúa sér að öðru. Íslendingar eiga skilið að heyra sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann. Svo einfalt er það.
![]() |
Framsóknarflokkur biðst afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
,,Business as usual"
Sunnudagur, 25. apríl 2010
Samfylking í Reykjavík svífur ennþá um á bleiku skýi sjálfsblekkingar. Dagur B. Eggertsson sem er fulltrúi Samfylkingarinnar sem á að boða fólki framtíðarsýn er ennþá í fortíðarskotgröfum stjórnmálaflokkanna. Í þeim skotgröfum eru búin til innantóm loforð um að tryggja hagvöxt í dag en í gær var það vímulaust Ísland eða 90% húsnæðislán. Um daginn boðaði Dagur átakastjórnmál fortíðarinnar á götum borgarinnar. Átökin eiga að standa um okkur og hina. Allt sem við segjum og gerum er gott en allt sem hinir segja og gera er vont. Svartur hvítur heimur sem byggir á trúnni á að eiga óvin til að hræða fólkið með til að fá fylgi þess. Hræðsluáróður stjórnmálaflokka hefur hrakið þjóðina ofan í skotgrafir spillingar og fúsks.
Auðvitað viljum við öll meiri hagvöxt, minni atvinnuleysi og betri tíð með blóm í haga. ,,Segðu bara það sem fólið vill heyra", sagði einn góður áróðursmeistari stjórnmálaflokks og bætti við: ,,Loforð í dag þýðir atkvæði á morgun". En vantar okkur fleiri falleg loforð frá stjórnmálaflokkum sem hafa staðið sig með þeim ágætum sem lýst er svo vel í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis? Vantar okkur fleiri ,,leikrit" og ,,leikara" sem stálu senunni í sömu skýrslu? Verður okkur kjósendum bara boðið upp á ,,business as usual"?
![]() |
Vilja stefna að 3,5% hagvexti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kreppur gera þá ríku ríkari
Laugardagur, 24. apríl 2010
Þetta staðfestir það sem löngum hefur verið vitað í gengum veraldarsöguna. Kreppur gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Og þetta sjáum við núna þegar við skoðum fjárhirslur ríkasta fólksins. Þeir sem kunnu fótum sínum forráð í góðærinu eru nú að uppskera sem þeir sáðu. Hvaða Íslendingar skyldu það vera þegar upp er staðið?
Kreppur ,,losa um eignir" og hrista upp í öllu fjármálakerfinu. Þeir sem eru klókir, og eiga aðgang að lausafé vel að merkja, hirða þessa dagana eignir á niðursettu verði. Kreppur framkalla kapphlaup hjá ríkasta fólkinu þar sem hákarlarnir éta veiku fiskana í sjónum. Svo sem eins og íslensku bankana en þeim stjórnuðu gráðugir bankamenn, og óvitar, sem kunnu ekki að reka banka í alþjóðlegu umhverfi. Þeir tóku himinhá skammtímalán til að fjárfesta í langtímaeignum, þ.e. eignir sem þörfnuðust þolinmóðra peninga. Þetta var kórvilla íslensku bankanna að sögn auðugs þýsks atvinnurekanda sem ég átti ágætt spjall við í útlöndum fyrir nokkru og staða Íslands bar á góma. Íslenska fjármálahrunið kom honum ekki á óvart. Það var fyrirséð og alþjóðlegu fjármálahákarlarnir fengu fyrir löngu ,,blod på tanden". Og þeir Íslendingar sem vissu hvert stefndi eru nú að hirða upp leifarnar með græðgiglampa í augum.
Gallinn við allar kreppur er að almenningur verður verst úti. Við endum alltaf uppi með reikninginn í formi skattahækkana og lægri kaupmáttar. Það er þess vegna sem við megum ekki láta bankana okkar aftur í hendurnar á óvitum eða eigendum sem eru einungis að hugsa um skammtímagróða. En um það hef ég ekki hugmynd frekar en þorri Íslendinga enda fæst ekki uppgefið hverjir eigi Arion og Íslandsbanka. Það kallast víst gegnsæi og að hafa allt upp á borðinu. Ég efast reyndar um að sjálfur forsætisráðherra Íslands hafi hugmynd um það og nýlega sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, að íslenskur banki gæti vel farið á hausinn án þess að hann hefði hugmynd um það. Hvað hefur þá breyst?
Og eftir þennan niðurdrepandi pistil þá verð ég að setja þennan hollenska umræðuþátt sem kemur manni alltaf til að brosa út í annað - þó umræðuefnið sé ekki aðhlátursefni. Og hér kemur hann loksins með enskri þýðingu þó það skipti reyndar engu máli!
![]() |
Eru aftur orðin forrík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Jörðinni varð bumbult
Laugardagur, 24. apríl 2010
Ætli jörðinni hafi ekki bara verið bumbult eins og flestum eftir að hafa lesið rannsóknarskýrsluna. Það held ég. Ég býst við að flestir Íslendingar séu ennþá að jafna sig eftir lesturinn og þeir sem eru ennþá að lesa þurfa að skjótast á salernið með æluna í hálsinum. Og auðvitað á það sama við um landvættina. Fyrst varð að fá útrás fyrir reiðina á Fimmvörðuhálsi og hraunið rann niður í Hrunagil. Þannig sýndu landvættirnir hvernig ætti að fara með þá sem voru ábyrgir fyrir hruninu. Það ætti sem sagt að hrauna yfir þá ábyrgu.
Og svo þegar allur sannleikurinn kom upp á yfirborðið við lestur skýrslunnar góðu þá varð að losa um æluna í hálsinum. Við þurfum öll að fá útrás fyrir innbyrða reiði. Líka landið.
Það er hins vegar verst að ennþá eru þeir seku að rembast eins og rjúpan við staurinn. Þeir eru flestir í afneitun og halda áfram að benda hver á annan. Það er eðlilegt að hver og einn spyrji sig: Hvað hefur raunverulega breyst í stjórnmálum, stjórnsýslu og í viðskiptalífinu? Ég spyr mig t.a.m. hverjir muni sæta ábyrgð á milljarða tapi lífeyrissjóðanna sem nú eru hver á fætur öðrum að skerða lífeyri um allt að 20%! Á endanum kemur þetta niður á skattgreiðendum sem þurfa að borga brúsann með hærri útgreiðslum ellilífeyris. Er verið að rannsaka sparisjóðakerfið sem var eyðilagt af aðalleikurum hrunadansins í skjóli stjórnvalda? Gengu ekki þekktir stjórnmálamenn þar út með milljónir í vasanum í gróða fyrir vel unnið dagsverk við að koma sparisjóðunum á kaldan klaka? Á bara að láta þetta viðgangast átölulaust? Nei, það er ekki von að manni verði bumbult.
Þangað til ekkert raunverulega breytist magnast reiðin upp hjá landsmönnum sem getur bara endað á einn veg.
![]() |
Öskuskýið var heilög refsing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Flott afsökun fyrir útrásargosana líka
Föstudagur, 23. apríl 2010
Án þess að ég ætli að fella dóma í máli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, fyrrverandi borgarstjóra Reykvíkinga og þingmanns Samfylkingarinnar, eða annarra kjörinna fulltrúa okkar sem þáðu háa styrki frá föllnu bönkunum þá bið ég hana að íhuga eigin orð sem koma fram í frétt mbl.is:
Segir hún að tal um að þessir fjármunir hafi runnið í hennar eigin vasa sé helber lygi sem hún geti ekki setið undir. Reikningar og uppgjör liggi fyrir, öllum fylgiskjölum hafi verið skilað til skattsins fyrir 3 árum og uppgjörið sé öllum til skoðunar.
Vissulega voru þetta háar upphæðir. Og við þær aðstæður sem nú ríkja eru þær svimandi háar. Það afsaka ég alls ekki. Þessi prófkjör fóru úr böndunum og sjálf mun ég aldrei taka þátt í slíkum aftur.
Ég býst við að Jón Ásgeir, Björgólfur Thor, Hannes Smárason, Pálmi í Fons og Bakkabræður gætu notað nákvæmalega sömu vörn. Voru þeir ekki bara að reka fyrirtæki sem ,,gleyptu" alla þessa fjármuni sem nú eru tröllum gefnir? Ekki tóku þeir öll þessi lán í eigin þágu til að reka heimili sín? Er þá Steinunn Valdís sem sagt að halda því fram að þeir séu jafn saklausir og hún? Ég er viss um að Björgólfur Thor geti sagt að ,,hann munu aldrei taka þátt í slíku aftur", enda hefur hann einn útrásargosanna beðist afsökunar á gjörðum sínum. Ég á líka von á því að allir þeir sem stóðu að rekstri bankanna geti sagt eins og Steinunn Valdís að rekstur þeirra hafi ,,farið úr böndunum og þeir muni aldrei taka þátt í slíku aftur".
Þær 13.000.000 krónur sem framboð Steinunnar Valdísar fékk í styrki frá bönkunum í beinhörðum peningum fóru í að styðja hennar persónulega framboð, ekki satt? Þá eru ekki taldir með styrkir sem hún kann að hafa fengið frá Glitni en yfir þeim virðist umlykja leyndarhula. Eða voru þetta styrkir til Samfylkingarinnar? Eða voru þetta styrkir til eignarhaldsfélags í hennar eigu? Spyr sá sem ekki veit.
![]() |
Segir ásakanir á hendur sér rangar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)