Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja sjálfstæði Íslands í nútíð og framtíð

Bjarni Ben og Sjálfstæðisflokkurinn eru hástökkvarar í þessari skoðanakönnun. Sjálfstæðismenn geta haldið áfram að auka fylgi sitt meðal þjóðarinnar ef þeir leggja fram trúverðuga og ábyrga áætlun um hvernig við eigum að vinna okkur út úr þeim miklu erfiðleikum sem steðja að þjóðinni. Þar hlýtur atvinnu- og einstaklingsfrelsi með ábyrgð að vera þungamiðjan til að verja velferð og hagsæld þjóðarinnar til framtíðar. Þar er lykilatriðið atvinnusköpun sem byggir á sjávarútvegi, ferðaþjónustu, landbúnaði og iðnaði sem nýtir innlenda orkugjafa. Þannig sköpum við verðmæti og öflum dýrmæts gjaldeyris til að skapa hagvöxt og standa undir velferðinni. Skattstofninn skapar verðmætin en það gera skattarnir ekki. Þetta eiga vinstri menn erfitt með að skilja eins og skattastefna vinstri stjórnarinnar er besti vitnisburður um.

Ísland þarf að halda áfram vinsamlegum samskiptum og viðskiptum við Evrópuþjóðir sem aðrar þjóðir. Sjálfstæði Íslands hefur alltaf byggt á því frá lýðveldisstofnun að loka engum leiðum í samskiptum við aðrar þjóðir. Þannig gátum við átt vinsamleg samskipti við Evrópuþjóðir, Bandaríkin og Sovétríkin samtímis sem skapaði okkur sterkari stöðu í viðskiptum og þegar á reyndi í alþjóðlegum samskiptum. Með aðild Íslands að Evrópusambandinu værum við að rjúfa þessa löngu hefð og einangra okkur innan 27 ríkjamúrs Evrópusambandsins, sem eru aðeins lítil hluti þeirra 192 sjálfstæðu ríkja sem eru í Sameinuðu þjóðunum. Þar með myndum við missa okkar sérstöðu og veikja okkar samningsstöðu til muna, sem við höfum oft þurft að nýta okkur frá stofnun lýðveldis á Þingvöllum. 

Þetta skilur Sjálfstæðisflokkurinn enda er þetta og hefur verið grunntóninn í sjálfstæðri utanríkisstefnu hans. Sjálfstæðismenn eru sem fyrr trúir stefnu sinni um að tryggja og efla sjálfstæði Íslands í nútíð og framtíð. Þess vegna styð ég Sjálfstæðisflokkinn.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn eykur fylgi sitt verulega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin stendur með íslenskum landbúnaði

Niðurstaða skoðanakönnunar Capacent er skýr skilaboð til stjórnvalda um að þau eigi að hlúa að íslenskum landbúnaði og tryggja tilverugrundvöll hans í framtíðinni. Samkvæmt skoðanakönnuninni þá telja 96% landsmanna það skipta máli að landbúnaður verði stundaður á Íslandi til framtíðar ef við heimfærum niðurstöðuna, úrtakið, upp á þýðið, þ.e. þjóðina. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar Capacent sem kynnt var á Búnaðarþingi sem sett var í dag á Hótel Sögu.

Rætur landsmanna liggja í sveitum landsins og þorri landsmanna veit að fæðuöryggi landsmanna skiptir sköpum fyrir áframhaldandi byggð í landinu. Þeir aðildarsinnar að ESB sé sáu sér leik á borði að ganga frá íslenskum landbúnaði fyrir fullt og allt með aðild að ESB eru örugglega hundfúlir yfir þessari niðurstöðu. Þeir munu reyna allt til að kasta rýrð á niðurstöðuna eða gera hvað þeir geta til að lýsa draumalandinu fyrir bændur innan hinnar sameiginlegu landbúnaðarstefnu sambandsins. Þannig eru þeir byrjaðir ,,að flytja út" bændur til Brussel til ,,að upplýsa þá og fræða" um ágæti aðildar. Þar verður öllu kostað til enda kynningarsjóðir ESB digrir. Bændasamtökin hafa tekið sér skýra stöðu í afstöðunni til aðildar að ESB. Í ræðu Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtakanna, á Búnaðarþingi í dag sagði hann: 

Hugmyndin að sækja um og sjá hvað er í boði er vafalaust best heppnaða pólitíska brella seinni ára.  Ekki getur fólk verið á móti því að kostir aðildar séu kannaðir.

Aðildarumsókn að Evrópusambandi nútímans er ekki annað en boð um að hér verði hafist handa við að breyta stjórnkerfi landsins að kröfum ESB og færa sjálfsstjórn okkar og sjálfstæði undir fjarlæg stjórnvöld.  Aðildarferlið á ekki að skoðast eingöngu í ljósi hagsmuna landbúnaðar og sjávarútvegs heldur þarf að svara því til hvaða hlutverk og stöðu íslenska þjóðin vill taka í samfélagi þjóðanna.  Hvert mun Evrópusambandið þróast og til hvaða Evrópusambands horfum við til?  Farnast okkur betur ef vélað er um grundvallarhagsmuni okkar af öðrum ríkjum?  Við höfum reynslu af því í okkar sögu. Höfum við gefist upp á því að vera sjálfstæð þjóð?

Undirbúningur bænda vegna aðildarviðræðna stjórnvalda við ESB er traustur og hann byggist á áralangri þekkingaröflun um innviði landbúnaðarstefnu ESB.  Við höfum ekki þurft að finna upp svör eða slá fram vonum og væntingum því kjarni málsins er að landbúnaðarstefna ESB þjónar ekki hagsmunum bænda eða neytenda.  Hún þjónar voldugum milliliðum og stórlandeigendum.  Evrópusambandið sjálft hefur sagt, að frá breytingu landbúnaðarstefnunnar árið 2004 hefur afurðaverð til bænda hríðfallið en verð til neytenda hækkað.  Hvert fór mismunurinn? ....

Að kvöldi dags þann 5. janúar sl. á fundi í Ráðherrabústaðnum með forystu ríkisstjórnarinnar og helstu atvinnu- og launþegasamtökum lét ég þau ummæli falla að nú verði ríkisstjórnin og aðrir stjórnmálaflokkar að taka höndum saman og leggja pólitísk átök til hliðar.  Umræður um aðild að Evrópusambandinu, fyrningarleið sjávarútvegs, og aðra þætti sem kljúfa þjóðina verður að láta bíða betri tíma.  Nú skiptir fyrst og fremst máli að hugsa um fólk en ekki pólitískar kenningar.  Með slíka sátt, samstöðu og samstarfsvilja eigum fyrr von á betri tíð.  Freysteinn Gíslason kemst svo að orði í einu kvæða sinna:

Þó að æði ógn og hríðir,

aldrei neinu kvíða skal.

Alltaf birtir upp um síðir,

aftur kemur vor í dal.

Við þetta er engu að bæta.


mbl.is Meirihlutinn á móti ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir 'must do'?

Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, var í ágætu viðtali í Silfri-Egils í dag. Hann heldur því fram, eins og annað Samfylkingarfólk, að niðurstöðu skýrslu framkvæmdastjórnar ESB eigi að skoða sem samningsgrundvöll. Nú eigi að setjast niður og semja sig frá niðurstöðum hennar þ.e.a.s. í þeim málum sem framkvæmdastjórnin bendir á að þurfa að breyta hér á landi til að regluverkið á Íslandi rými við grunnregluverk ESB.

Ég velti fyrir mér hvað enska sögnin must þýði á íslensku. Framkvæmdastjórnin notar nefnilega þessa sögn oft í skýrslunni þegar rætt er um nauðsynlegar breytingar sem Ísland verði að gera til að aðlaga sig acquis sambandsins, þ.e. grunnregluverki ESB. Í orðabókinni snara.is segir um hjálparsögnina must:

1 (gefur til kynna skyldu, nauðsyn o.þ.h.) a verða að: You ~ do as you’re told  

Ég óttast að sumir hafi misskilið tilganginn með skýrslu framkvæmdastjórnarinnar. Hún er skilaboð til íslenskra stjórnvalda um hverju þurfi að breyta í íslensku regluverki til að Ísland uppfylli grunnskyldur til aðildar að Evrópusambandinu. ESB ríkin 27 hljóta að leggja þunga áherslu á að Ísland tryggi að regluverk ESB taki hér gildi við aðild - sérstaklega í ljósi meininga um að Ísland hafi innleitt reglugerðina um innstæðutryggingar með hangandi hendi. Það kom skýrt fram í máli Eiríks Bergmanns að mjög erfitt væri að fá undanþágur eða aðlaganir samþykktar varðandi innri markaðinn sem er hluti af fyrstu stoð ESB eða yfirþjóðleg (supranational authority). Landbúnaður er einnig undir fyrstu stoðinni og þess vegna á það sama við um hann. Það er því á brattan að sækja og það eiga stjórnmálamenn og stjórnmálafræðingar að segja berum orðum.


,,Er ekki rétt að rísa á fætur?"

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að búa sig undir að taka við landsstjórninni. Skoðanakannanir hafa sýnt að landsmenn eru uppgefnir af innantómum loforðum vinstri manna og vilja fara hefja framfarasókn. Vilja aftur vor í dal.

Ráðherrar og þingmenn vinstri stjórnarinnar hafa talað og talað en efndir hafa látið á sér standa. Þeir lofuðu skjaldborg um heimilin en ekkert bólar á henni. Þeir lofuðu að taka á fjárglæframönnunum en hafa í stað þess afhent þeim fyrirtæki sín að nýju - með lægri skuldum. Þeir lofuðu að endurreisa bankana og gerðu það vissulega. Siðferðið gleymdist hins vegar í þeirri endurreisn og gömlu bankamennirnir leika lausum hala í bönkunum og ráðuneytum stjórnvalda. Þeir lofuðu að leysa Icesave hratt og örugglega en ennþá er það mál eins og opið svöðusár sem dregur land og þjóð í svaðið. Vinstri grænir lofaðu kjósendum sínum að halda Íslandi fyrir utan Evrópusambandið en samt erum við um borð í hraðlest til Brussel í boði vinstri stjórnarinnar. Lestarstjóri er Össur ,,hinn skarpi". Vinstri stjórnin lofaði atvinnuuppbyggingu og að skapa störf en umhverfisráðherra Vinstri grænna hefur róið í öfuga af kappi. Stjórnin lofaði að standa vörð um íslenskan landbúnað en bændur eru í dag í algjörri óvissu um framtíð sína. Sama er að segja um útgerðarmenn, sjómenn og fiskvinnslufólk sem þarf að lifa við hótanir um inngöngu í Evrópusambandið og hótanir um fyrningarleið í ofanálag. Er nema vona að næstum helmingur þjóðarinnar hefur íhugað að flýja land samkvæmt nýlegri skoðanakönnun?

Við svo búið má ekki standa. Við getum ekki látið okkur blæða út frekar en orðið er. Stjórnarandstöðuflokkarnir þurfa að bjóða fólkinu í landinu upp á trúverðugan valkost. Það þarf að móta trúverðuga stefnu til framtíðar sem boðar aftur vor í dal í bæjum og sveitum landsins. Framboðslistar flokkanna þurfa að endurspegla breytingar á hugarfari landsmanna þar sem heiðarleiki og traust á að vera í fyrirrúmi. Ekkert má verða í veginum fyrir nýrri endurreisn á grunni hinnar klassísku sjálfstæðisstefnu atvinnu- og einstaklingsfrelsis með ábyrgð. Með Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í fylkingarbrjósti er sigurinn vís.

Hefjum endurreisnina núna! Ísland er í lagi. Látum ekki telja okkur trú um annað! Já, er ekki kominn tími til að rísa á fætur?


Samningafundir fari fram á Suðurnesjum

Bretar kunna að makka bakvið tjöldin í reykfylltum bakherbergjum. Þeir eru jafnframt snjallir samningamenn sem kunna að nýta sér veikleika í liði andstæðinganna. Samningsferlið er úthugsað frá upphafi til enda. Þannig þarf að skoða allar ,,afsakanir" sem herkænskubragð. Það sem er merkilegast í þessari samningalotu er fundarstaðurinn - London - þar sem Bretar eru á heimavelli.

Hefði það ekki verið snjallt bragð af hálfu íslensku samninganefndarinnar að gera kröfu um að Bretar kæmu til Íslands ef þeir vildu ræða frekar við Íslendinga. Sérstaklega ef Bretar komu svona illa fram við okkar menn á síðasta fundi? Væri ekki rétta andrúmsloftið að finna á Herstöðvarsvæðinu á Suðurnesjum þar sem mætti koma upp ýmsum minnisvörðum frá hersetu Breta hér á landi í síðustu stríði með myndum af íslenskum fiskiskipum á leið til íbúa Bretlandseyja fullhlaðin af fiski?


mbl.is Leynifundur um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB aðildarsinnar vinna sigur í Kópavogi

Ómar Stefánsson nýtur ennþá trausts framsóknarelítunnar í Kópavogi eða þeirra 300 í ESB söfnuðinum sem höfðu fyrir því að mæta á kjörstað. Ef ég man rétt þá voru það 2.300 manns sem mættu til að velja efsta mann á lista sjálfstæðismanna Ármann Kristin. Gunnar I. Birgisson, keppinautur hans, fékk stuðning um 1.500 Kópavogsbúa í 1. sætið.

Andrés Pétursson, formaður samtaka sem vilja gera Ísland að hluta að Evrópusambandinu, nær 3ja sætinu með atkvæðum 300 Kópavogsbúa sem vilja sjá Ísland í ESB. Það kæmi mér ekki á óvart að Una María Óskarsdóttir, vinkona Sifjar ESB drottningar Framsóknarflokksins, væri hluti af ESB aðdáendum á Íslandi. Ómar Stefánsson, leiðtogi þessa föngulega hóps, er jafnframt einlægur aðildarsinni og hefur örugglega fengið lof fyrir að ýta Gunnari I. Birgissyni, fyrrum samstarfsmanni sínum í meirihlutanum, fram af bjarginu þegar hann barðist á bjargbrúninni fyrir pólitísku lífi sínu.


mbl.is Ómar sigraði í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálf öld frá stóra Chile-skálftanum

22. maí 1960 reið jarðskálfti - Great Chilean Earthquake - yfir Chile upp á 9,5 stig á Richter. Þá heyrðust tölur um að allt að 2.000 manns hefðu látist. Sá jarðskálfti varð aðeins á 30 km dýpi en jarðskálftinn í morgun varð dýpra eða á 60 km dýpi.

Sjá frétt Reuters um jarðskálftann á Chile í morgun.

  


mbl.is Flóðaviðvörun í 53 löndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Engin stjórn má leyna því á hættutímum, hvernig komið er"

olafurthorsEn hvað sem þessu líður má engin stjórn blekkja þjóð sína, skirrast við að horfast í augu við staðreyndir, víkja sér undan vandanum, hliðra sér hjá að glíma við örðugleikana, kveinka sér við að gera nauðsynlegar ráðstafanir. Engin stjórn má leyna því á hættutímum, hvernig komið er, breiða yfir óþægilegar staðreyndir, reyna í lengstu lög að leyna háskasamlegri þróun, skjóta úrræðum á frest, til að forðast óþægindi fyrir sjálfa sig.

Þvert á móti er það frumskylda sérhverrar stjórnar að marka stefnu sína af ábyrgðartilfinningu. Völd hennar byggjast á trausti, sem þúsundirnar af heiðarlegu, vinnandi fólki hafa sýnt henni með atkvæði sínu. Engin stjórn vill bregðast þessu trausti. En þá verður hún að taka vandamálin föstum tökum og gera það, sem rétt er - hvað sem líður vinsældunum.

Við Íslendingar misstum forðum sjálfstæði okkar vegna þess að hver höndin var uppi á móti annarri, ekki tókst að friða landið fyrir blindu sundurlyndi og óslökkvandi, ábyrgðarlausum ríg þeirra manna, sem börðust um völdin í landinu. Enn sem fyrr veltur allt á þroska manna til að beygja sig undir sameiginlega nauðsyn alls landsins - þroskann til að skilja hvar og hvenær flokkshagsmunir eða sjónarmið stétta og landshluta verða að þoka fyrir alþjóðarheill. Það er þessi þroski, sem hverja þjóð skiptir mestu á hættulegum tímum. Það er þessi þroski,   sem   gert   hefur þjóðir miklar. Sú þjóð, sem aldrei kann að sameinast, þegar mest ríður á, aldrei að hefjast yfir þröng og einstrengingsleg flokkssjónarmið, aldrei að taka einhuga, þjóðlega stefnu á hættutímum, sú þjóð, sem vill flýja hvern vanda og umfram allt engu fórna fyrir framtíð sína - sú þjóð verður aldrei talin mikil og aldrei ein af beztu þjóðum.

Trúið mér, góðir Íslendingar, enginn okkar, sem með völd förum, hefur neina löngun til að skerða kjör nokkurs manns. Enginn okkar telur neinn vinnandi mann ofsælan af því, sem hann nú ber úr býtum fyrir erfiði sitt. En það breytir ekki þeirri staðreynd, að við getum ekki haldið áfram að eyða meira en við öflum. Aðrar þjóðir hafa orðið að fara út á vígvöllinn árum saman, milljónirnar látið líf sitt fyrir ættjörðina, frelsi hennar og sóma. Islenzka þjóðin má ekki láta það henda sig að stefna framtíð sinni í voða, ef til vill bæði fjárhagslega og pólitískt, einvörðungu vegna þess að það kann að krefjast einhverra fórna í bili að koma málum hennar í heilbrigt horf. Megi Forsjónin forða okkur frá þeirri ógæfu og blessa land og þjóð á nýja árinu og um alla framtíð. Gleðilegt ár!

Ólafur T. Thors, forsætisráðherra, mælti svo í útvarpsárvarpi til íslensku þjóðarinnar á gamlárskvöld 1959. Orð hans eiga jafnvel við í dag eins og fyrir hálfri öld. Við þetta er engu að bæta.


mbl.is Ísland á leið í ruslflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Ég þori að mæta hverju sem er"

Landið er að rísa. Samninganefnd Íslands á heiður skilið fyrir kjarkinn að ganga út af fundi beinir í baki og með hreina samvisku. Ólafur Ragnar Grímsson, forseta, tókst að koma við ,,hjartað í þjóðinni".

Tökum við ekki öll undir með Hjaltalín : ,,Ég þori að mæta hverju sem er, þú komst við hjartað í mér".

 


mbl.is Íslendingar sagðir hafa gengið af fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bann við innflutningi á lifandi dýrum og hráu kjöti úr sögunni

Þetta er réttmæt krafa Einars Kristins Guðfinnssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fundi sérstaklega um skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um aðildarumsókn Íslands. Skýrslan er tímamót í aðildarferlinu. Nú liggur fyrir hvaða breytingar þarf að gera á íslensku samfélagi með aðild að ESB. Það þarf sem sagt ekki lengur að deila um ,,afleiðingar" aðildar Íslands að ESB t.d. fyrir íslenskan landbúnað. 

Bændablaðið á netinu bbl.is fjallaði um í dag í mjög góðri samantekt hvaða breytingar þurfa að verða á íslenskum landbúnaði samkvæmt skýrslu framkvæmdastjórnar ESB. Þar segir m.a.:

Ljóst virðist því vera við lestur álitsins, að ef að Ísland gengi í Evrópusambandið þyrfti að breyta nánast öllu landbúnaðarkerfinu hér á landi. Þær breytingar þarf allar að vera búið að gera þegar að Ísland gengi í sambandið, ef af aðild verður. Líklega yrði um kostnaðarsamar breytingar að ræða. Benda má á að greiðslustofa fyrir landbúnaðarstuðning gæti orðið talsvert umfangsmikil. Hjá slíkri greiðslustofu í Svíþjóð starfa til að mynda 600 manns og þjónusta þar 70.000 manns. Ef miðað er við sömu hlutföll þyrftu því að lágmarki 26 manns að vinna á sambærilegri greiðslustofu hér á landi sem samsvarar um tveimur þriðju hlutum núverandi starfsmannafjölda sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.

Eitt mikilvægt atriði vantar þó í upptalningu Bændablaðsins.

Bann við innflutningi á lifandi dýrum verður úr sögunni. Sama á við um innflutning á hráu kjöti (sjá niðurstöðu á bls. 47 og umfjöllun bls. 44-46). Þetta kemur fram í kafla 3.1.2 í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar. Þannig verður leyft að flytja inn íslenska hesta frá meginlandinu til kynbóta og hesta af öðrum hestakynjum, norskar kýr, sauðfé til kynbóta á því íslenska o.s.frv.  Í samningnum um EES er undanþága (Protocol 1) frá acquis ESB um óheftan innflutning á lífandi dýrum. Þessa undanþágu verður að fella niður að áliti framkvæmdastjórnarinnar til að aðlaga regluverk hér að heildarregluverki ESB.

Nýlega hefur Alþingi samþykkt matvælalöggjöf ESB eftir töluverðar breytingar sem Bændasamtök Íslands náðu fram eftir mikla baráttu á upphaflegu frumvarpi sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde lagði fram. Það kemur þess vegna á óvart að þessa hafi ekki verið getið í skýrslunni.  Það er greinilegt að til þess er ætlast að íslenskur landbúnaðar þurfi að nýju að grípa til nauðvarnar. Sú varnarbarátta verður háð í samningaviðræðunum við ESB á vegum stjórnvalda. Það er ótrúlegt að bændur þurfi að endurtaka leikinn aðeins fáum mánuðum eftir að matvælalöggjöf ESB var samþykkt sem lög frá Alþingi. Að þessu sinni er hins vegar allt undir - framtíð íslensks landbúnaðar.   


mbl.is Óskar eftir fundi vegna ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband