Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Er ekki best að fara grafa göngin strax eða reisa brú til Eyja?

Þetta var flott tilraunaverkefni og eftir því lærdómsríkt. Fjármunirnir eru aukaatriði enda til sandur af seðlum í ríkiskassanum. Baráttan við náttúruöflin vinnst ekki með teskeið. Þannig upplifir maður sanddælinguna úr Landeyjarhöfn með allt of litlu dæluskipi sem getur aðeins unnið ef hafið er kyrrt og árabátafært. Er ekki bara best að viðurkenna ósigur og byrja að grafa göngin hans Árna Johnsen til Eyja? Eða mætti ekki bara reisa þarna tignarlega brú? Hugsið ykkur aðdráttaraflið fyrir ferðamenn? Það yrði sjálfbær framkvæmd sem kallaði ekki á nýjan Herjólf og stöðuga viðveru risasanddæluskips við hafnarmynnið. 


mbl.is Ekki tókst að ljúka sanddælingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viljum við spila rússneska rúllettu með framtíð íslensku búfjárstofnanna, sem forfeður okkar hafa verndað frá upphafi Íslandsbyggðar?

Ein af sex varnarlínum Bændasamtaka Íslands er að tollvernd haldist fyrir íslenskan landbúnað. Það hefur alltaf legið fyrir. Og vonandi er stjórnvöldum kunnugt um þetta eftir fjölda funda og blaðagreina þar sem þessum varnarlínum hefur verið lýst í þaula. Ég veit ekki til þess að utanríkisráðherra eða samninganefndin hafi svarað því afdráttarlaust að þessi mikilvæga varnarlína yrði ekki rofin.

Þetta er kjarni málsins. Og það er öllum kunnugt um stefnu Evrópusambandsins í þessum efnum eftir að við erum búin að vera þátttakendur í EES samstarfinu frá árinu 1994. Í EES samningnum voru landbúnaður og sjávarútvegur undanskilin af ríkri ástæðu. Tollverndin er forsenda þess að unnt sé að verja íslenskan landbúnað, sem byggir á sérstökum íslenskum búfjárstofnum á heimsvísu.

Íslenska kýrin, íslenska sauðkindin og íslenski hesturinn eru búfjárkyn sem búa við þá einstöku sérstöðu í öllum heiminum að hafa verið nýtt og vernduð fyrir innblöndun annarra kynja frá landnámi Íslands, í meira en 1100 ár. Íslenskir bændur hafa þannig verndað íslensku búfjárkynin fyrir komandi kynslóðir Íslendinga og í raun heiminn allan þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki á undir högg að sækja. Hægt og bítandi gengur á þennan fjölbreytileika þegar búfjárkyn glatast eða verða halloka vegna óheftrar samkeppni. Bændur eru neyddir til að kynbæta gömul búfjárkyn í leit að skammtíma gróða. Jafnframt er hættan sú að vegna afdráttarlausrar kröfu Evrópusambandsins um innflutning á lifandi dýrum, en sú krafa er þegar komin fram af hálfu embættismanna, að þá verða viðkvæmir íslenskir búfjárstofnar berskjaldaðir fyrir nýjum sjúkdómum sem dragi allan kraft úr íslenskum landbúnaði. Þannig þurfti t.d. í upphafi síðustu aldar að fella helming sauðfjárstofnsins vegna veiki sem kom upp vegna innflutnings á lifandi dýrum.   

Tollverndin og bann við innflutningi á lifandi dýrum eru þess vegna spurning um líf og dauða fyrir íslenskan landbúnað. Viljum við vernda hann eða spila rússneska rúllettu með framtíð íslensku búfjárstofnanna, sem forfeður okkar hafa verndað frá upphafi Íslandsbyggðar?

Svo getum við náttúrulega bara farið að spila billjard og á harmonikku í sveitum landsins því það fást við styrkir út á það í ESB.


mbl.is Áfram verði tollvernd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

78% frambjóðenda til stjórnlagaþings af höfuðborgarsvæðinu

410 af 524 frambjóðendum til stjórnlagaþingsins eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Í Reykjavík 282, Kópavogi 45, Hafnarfirði 29, Mosfellsbæ 21, Garðabæ 17, Seltjarnarnesi 11 og Álftanesi 5. Þetta er um 78% af öllum frambjóðendum. Það verður þess vegna á brattan að sækja fyrir frambjóðendur af landsbyggðinni ef kosning ræðst af búsetu, en auðvitað þarf svo ekki að vera, þó að landið sé eitt kjördæmi.


Nú er tíminn til að standa með fólkinu í landinu

Auðvitað vita allir hvað Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, var að segja á sjómannamáli. Í orðum hans fólst engin misvirðing við íslenskar konur. Þær eru engar kellingar. Þeir sem vilja snúa út úr orðum bæjarstjórans er að sjálfsögðu að forðast að horfa í augu við veruleikann í allri sinni nekt. Oddný G. Harðardóttir, stjórnarþingmaður, reynir að draga athyglina frá alvöru málsins til að kasta málinu á dreif í pólitískum tilgangi. 

Staðan í dag grafalvarleg. Landsbyggðin er öll í uppnámi vegna fjárlagafrumvarps vinstri stjórnarinnar og úrræðaleysis hennar í atvinnumálum. Aðgerðir og aðgerðaleysi stjórnvalda eru árás á landsbyggðina. Við þurfum ákvarðanir. Við þurfum raunhæf úrræði. Við þurfum lífvænlega byggðastefnu. Allt er betra en mas og þras um ekki neitt. Fallegar ræður færa fólkinu ekki atvinnu. Nú er tíminn til að standa með fólkinu í landinu með kjarkmiklum úrræðum í þágu heimilanna og fyrirtækjanna. Ríkisstjórn sem ekki þorir, og sýnir hik og fum á ögurstundu, á að gera landsmönnum þann greiða að víkja án tafar.  


mbl.is „Segir ekkert, alveg eins og kelling“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Að efla samstöðu og tryggja stuðning borgaranna við aðildarferlið"

 

Svo segir í ESB kverinu sem Morgunblaðið vekur athygli á í dag. Þessi orð eru í skýrslu embættismanna ESB sem lagt var fyrir ríkjaráðstefnu ESB 27. júlí í sumar. Hér á vefsíðunni hef ég gert grein fyrir þessari skýrslu ítarlega í nokkrum pistlum. Það er eðlilegt að spyrja utanríkisráðherra og formann utanríkismálamálanefndar Alþingis hvort það sé dæmi um upplýsta umræðu um aðildarferlið að upplýsingar eins og komu fram í þessari merku ESB skýrslu eigi bara að safna ryki í utanríkisráðuneytinu? Þar hefur þessi skýrsla legið í marga mánuði án þess að nokkur tilraun hefur verið gert til að kynna hana fyrir almenningi. Morgunblaðið er loksins núna að uppgötva hana, Fréttablaðið hefur ekki minnst á hana einu orði og Stöð2 hefur örugglega þegið þunnu hljóði um skýrsluna enda margt í henni sem er aðildarsinnum ekki i hag. 

Hvað er hægt að gera fyrir 4 ESB milljarða? 

Í þetta áróðursstarf leggur ESB 4.000 milljónir. Spurningin hlýtur að vera hvort þetta áróðursstarf sé hafið í dag. Hvert eru þessar fjármunir að renna? Eru erlendir ,,álitsgjafar" að fá fríar ferðir til Íslands til að boða fagnaðarerindið? Eru samtökin Sterkara Íslands vettvangurinn fyrir þessar boðsferðir og þetta kynningarstarf? Það er athyglisvert að vinstri menn, stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar og meirihlutans í Reykjavík, sjá ofsjónum yfir heimsóknum kirkjunnar manna í skóla Reykjavíkur til að hugga og fræða, á sama tíma og hingað munu koma ESB menn í hundraða tali til að ,,efla samstöðu og tryggja stuðning borgaranna við aðildarferlið" að ESB. Stórmerkilegt, verð ég að segja.

Og hlustið svo á írska þingmanninn Jim Allister á Evrópuþinginu sem fjallar um fræðslu ESB. 


mbl.is Markmiðið að tryggja stuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur guðfaðir ríkisstjórnar, sem alla er lifandi að drepa

Það var skemmtilegt að fá Bjarna Harðarson, bóksala, upplýsingafulltrúa SLR, blaðamann, fyrrverandi þingmann o.fl., í þáttinn ESB Nei eða Já? á Útvarpi Sögu í dag.  Þátturinn var sendur út í beinni útsendingu. Ég lenti svona óvænt í því hlutverki að vera eini þáttastjórnandinn þar sem hinir ágætu föstu þáttastjórnendur voru fjarri góðu gamni. Annar að búa sig undir rjúpnaveiði og hinn stóð í flutningum. Vona að þessi frumraun mín hafi gengið skammlaust fyrir sig. Umræðuefnið okkar Bjarna voru ærin og ætla ég ekki að rekja þau hér nánar.  Menn verða bara að hlusta á þáttinn þegar hann verður endurfluttur.

Það sem kom mér hins vegar mest á óvart voru orð Bjarna um að það hefði verið Ögmundur Jónasson sem hefði verið sá sem færði Samfylkingunni ESB aðild í hendurnar. Að það hefði verið hann sem barðist fyrir að mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni fyrir þetta verð. Ögmundur er sem sagt guðfaðir vinstri stjórnarinnar. Ögmundur er einn af þeim stjórnmálamönnum sem ég hef oftlega hrósað hér á vefsíðunni fyrir kjark, heiðarleika og heilbrigðar skoðanir. Það er skiljanlegt að honum hafi fundist rétt, eins og þorra landsmanna, að gefa Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum frí eftir hörmulega frammistöðu þessara flokka á árunum fyrir hrun. Hins vegar er það of dýru verði keypt að fórna fullveldi og sjálfstæði Íslands í þessum tilgangi, sérstaklega þegar haft er í huga að Samfylkingin er ekki hrein mey þegar kemur að pólitískri spillingu og aðgerðaleysi í aðdraganda hrunsins.

Vinstri ríkisstjórnin nýtur ekki trausts þjóðarinnar 

Hreina vinstri stjórnin er ríkisstjórn sem alla er lifandi að drepa á Íslandi. Ríkisstjórnar sem hvorki sér né heyrir neyð fólksins. Ríkisstjórnar sem siglir hraðbyri með þjóðina inn í ESB þar sem Icesave er heimamundurinn. Ríkisstjórnar sem svikið hefur flest sem hún lofaði. Skjaldborg heimilanna reyndist vera blekking. Lausn á skuldavanda fjölskyldanna í landinu reyndist blekkingarleikur. Loforð og væntingar sem aldrei stóð til að efna. Ríkisstjórnar sem er búin að framkalla frost kyrrstöðunnar um allt þjóðfélagið, eins og Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins varaði við ef stjórnlynd öfl réðu landsstjórninni.

En Ögmundur getur bæði gefið og tekið. Nú ætti hann að vita betur um hvað ,,könnunarviðræðurnar" við ESB ganga í raun út á. Margir í VG voru blekktir í ljótum leik. Ögmundur verður að kveða upp úr um það hvort hann hafi verið blekktur eða sé sá sem blekkti. Mín tilfinning er sú að hann hafi verið blekktur til fylgilags við ESB vegferðina með draumnum um hreina vinstri stjórn, sem hefði réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi. Annað hefur komið í ljós. Það er núna í hans höndum hvort þessi ríkisstjórn lifi eða deyi drottni sínum södd lífdaga. Það hlýtur allt að vera betra en þessi ógæfu og öfugmælaríkisstjórn. Annars fer það svo að aðildarsinnar hljóta að reisa minnisvarða um Ögmund, manninn sem teymdi þjóð sína inn í Evrópusambandið í skjóli myrkurs.


mbl.is Krafa um víðtæka aðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálaelíta sem óttast ekkert meira en lýðræðið

Eftirfarandi myndband gefur góða mynd af ,,lýðræðisást" stjórnmálaelítunnar í Evrópusambandinu. Fyrst reyndu hún að þvinga í gegn stjórnarskrá Evrópusambandsins en fólkið í Hollandi og Frakklandi hafnaði henni ákveðið. Evrópubúar vildu ekki stjórnarskrá því það væri sama og að viðurkenna að koma ætti á einu sambandsríki Evrópu. Stjórnmálaelítan beitti þá sjónhverfingum. Breytti nafninu úr stjórnarskrá í sáttmála, nánar tiltekið í Lissabon sáttmálann. Innihaldið var 99% það sama en umbúðirnar, kápan, hafði verið endurhönnuð og annað nafn var komið á fyrirbærið. Það hefur sýnt sig margoft frá stofnun Evrópusambandsins að ekkert óttast stjórnmálaelíta Evrópuríkjanna meira en lýðræðið.

Aðildarsinnar á Íslandi eru sama marki brenndir. Þannig sagði formaður Sterkara Íslands í Kastljósi um daginn ,,að þjóðin" hefði talað og því þyrfti ekki að spyrja þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu! ,,Þjóðin" í huga hans var meirihlutaákvörðun Alþingis, en sá meirihluti náðist fram eftir hótanir og bitlingauppboð. Annað einkenni aðildarsinna er sú árátta þeirra að það þarf að hafa ,,vit fyrir fólkinu". Þess vegna eru fræðimenn úr háskólum eða frá útlöndum alltaf kallaðir til, til að varpa ljósi á ,,sannleikann". En skoðum myndbandið sem var tekið saman fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna Íra um Lissabon sáttmálann en Írland var eina ríkið sem hafði fyrir því að spyrja fólkið í landinu álits í þjóðaratkvæðagreiðslu á einu stærsta hagsmunamáli síðari tíma í sögu Evrópu. Fyrsta sagði þjóðin nei, en Evrópusambandið viðurkennir aldrei neitun. Þess vegna voru Írar bara spurðir aftur eftir mikinn hræðsluáróður frá ríkisstjórn Íra, Frakka o.fl. ESB ríkja en áróðursstarfið var að sjálfsögðu skipulagt og kostað af ESB sjálfu.

Í máli Jens-Peter Bonde, þingmanns Evrópuþingsins, kom eftirfarandi m.a. fram um Lissabon sáttmálann, sem nú hefur tekið gildi og Ísland mun lúta ef við gerumst aðildar að ESB:

  • Völd smærri ríkja minnka en að sama skapi aukast völd stærri ríkja innan ESB.
  • Um 85% af gjörðum ESB eru uppruninn frá ólýðræðiskjörnum embættismönnum ESB en ekki kjörnum fulltrúum á Evrópuþinginu. Evrópuþingið er í hlutverki afgreiðslustofnunar, sem tekur við lagatexta frá embættismönnum í framkvæmdastjórn eða nefndum innan ESB. Þingið sjálft má ekki semja lög.
  • Neitunarvald ríkja hverfur nánast alveg.
  • Lissabon sáttmálinn færir endurskoðunarvaldið á sáttmálanum sjálfum til ESB - frá kjósendum í Evrópu (þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslur).
  • Forsætisráðherrar ESB ríkjanna fá aukin völd á kostnað aðildarríkjanna.

Þá er áhugavert að hlýða á mál Mary Lou McDonald, þingmanns á Evrópuþinginu, benda á skjöl frá embættismönnum ESB um að halda frá og fela óþægilegar upplýsingar fyrir íbúum Írlands fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hún nefndi líka aukin útgjöld til varnarmála með Lissabon sáttmálanum.


Það þarf þor til að mæta fólkinu

 

Ráðherrar eiga að vera þjónar fólksins. Þeir þiggja vald sitt frá fólkinu. Við sjáum það í aðdraganda kosninga. Þá hlaupa þeir á eftir fréttamönnum og mæta á alla fundi óumbeðnir sem umbeðnir. Þá er ekki þverfótað fyrir þeim í fjölmiðlum. 

Í dag er svo komið að stjórnmálamenn eru í felum. Þeir mæta ekki á opinbera fundi nema tilneyddir eða þá að þeir mæta á fyrirfram ákveðnar leiksýningar í Þjóðmenningarhúsinu. Sennilega handvelja þeir fréttamenn sem þeim þóknast að tala við. Það er svo sem ekkert nýtt, en slæmt fyrir lýðræðið.

Ögmundur Jónasson er ekki hræddur við kjósendur. Enda sennilega eini ráðherrann sem er í jarðsambandi - og vonandi verður svo áfram. Ráðherra sem er vinsæll meðal fólksins getur ekki verið vinsæll hjá stjórnmálastéttinni, hvað þá við ríkisstjórnarborðið. Samráðherrar hans geta gert tvennt við því. Eitt er að fara í vinsældarkeppni eins og Össur reynir nú ákaft með einkafréttamanni sínum á fréttastöðinni hans Jóns Ásgeirs. Sá fréttamaður, og fyrrum félagi Össurar, fær einkaviðtöl við ráðherrann. Núna um leit hans að hinum týndu skjölum og þöglu embættismönnum í utanríkisráðuneytinu. Hinn kostur samráðherra Ögmundar er að leggja steina í götu hans með einum eða öðrum hætti. Finna mál sem koma honum illa eða gera hann samábyrgan ,,kerfinu".

Ögmundur þarf þess vegna að stíga varlega til jarðar og passa að misstíga sig ekki á grjótóttum veginum.  


mbl.is Fjörugar umræður í Salnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Algerlega óskiljanlegt"

Þetta er algerlega óskiljanlegt, ég er starfandi læknir og vinn að hjálparstarfsemi.

Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Ísland-Palestína, er spaugari, verð ég að segja. Það er þó merkilegt að það voru Egyptar sem stöðvuðu hann í eyðimörkinni en ekki Ísraelar. Til hvers þurfti ,,hjálparstarfsmaðurinn" að skreppa til Egyptalands?

Nú hlýtur að koma harðorð yfirlýsing frá Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, ef hann má vera að því að líta upp úr ,,týndu skjölunum" í utanríkisráðuneytinu um samskipti embættismanna hans við bandaríska embættismenn. Svo á Össur eftir að yfirheyra þá líka alla með tölu samkvæmt kvöldfréttum sjónvarpsins. Össuri tekst kannski að flæma nýjan sendiherra Bandaríkjanna úr landi eins og fyrrverandi vopnabróður hans á Bessastöðum tókst með glæsibrag. Það nægir okkur alveg að eiga vini í Evrópusambandinu. Össur er til alls vís þegar hann er í vinstra skapi.   


mbl.is Sveinn Rúnar enn í Egyptalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Milljarða umræða um ESB. Varaformaður VG leikur sér að eldinum

Á einum af mörgum fundum sem Sterkara Íslands heldur þessa dagana kom fram hjá Katrínu Jakobsdóttur, varaformanni VG, að hún hefði samþykkt að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að dýpta umræðuna um kosti og galla Evrópusambandsins. Þetta gerði hún þrátt fyrir að hafa miklar efasemdir um fyrirbærið Evrópusambandið og ,,þá krafta sem þar ráða ríkjum". Hún sagði jafnframt að það lægi hjá stjórnmálamönnum núna ,,að koma umræðunni upp á yfirborðið svo fólk gæti farið að ræða efnisatriði málsins". Hér má horfa á framlag Katrínar á fundi samtakanna Sterkara Ísland.

Með þessu tekur varaformaður VG undir skoðun Sterkara Íslands um að umræðan hér á landi hafi verið í skötulíki. Að afstaða VG sé byggð á tilfinningum frekar en rökum. Er þá varaformaðurinn að jafnframt að segja að nú sé kominn tími til að ESB fræði Íslendinga um kosti sambandsins? Uppfræðslan eigi að hefjast í boði VG. 

Jafnframt er Katrín að taka undir með þessu skoðun aðildarsinna að engin aðlögun muni eiga sér stað á samningstímanum og að hér séu bara saklausar samningaviðræður um tvíhliða viðskiptasamning að ræða. Að það sé bara í fínu lagi að kosta til 5 milljörðum í að koma umræðunni um kosti og galla aðildar að ESB upp á yfirborðið. Á sama tíma og við horfum upp á blóðugan niðurskurð á velferðarkerfinu. 

Þetta er merkilegt í ljósi þess að Katrín Jakobsdóttir var í Evrópunefnd forsætisráðuneytisins sem skilaði áliti fyrir 3 árum síðan. Í tengslum við það starf var kafað djúpt í að skoða hvaða áhrif aðild Íslands að ESB myndi hafa á flestar atvinnugreinar og Ísland í heild. Í henni kom ágætlega fram hvernig mögulegur aðildarsamningur gæti litið út. Samt vill varaformaður VG fylgja aðildarsinnum í einu og öllu eftir í að teyma Íslendinga á asnaeyrunum inn í samband sem ,,býr yfir kröftum" sem hún hefur miklar efasemdir um að þjóni íslenskum hagsmunum. Ég á bara eitt orð yfir þetta: fífldirfska.

Hér fræðir þingmaðurinn John Bufton á Evrópuþinginu okkur um áróðursstarf ESB.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband