Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Sáttabrúin sprengt í loft upp

Dagurinn í dag markar þáttaskil í ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs. Sá ráðherra sem var brúarsmiður milli stjórnar og stjórnarandstöðu og talsmaður sátta og samstöðu er hraktur úr ráðherrastóli. Ég get í raun ekki séð að hann hafi haft neitt val. Það var annað hvort afsögn hans eða ríkisstjórnarinnar allrar. Og auðvitað gat hann ekki borið einn ábyrgð á að fella fyrstu hreinu vinstri stjórnina. 

Á ríkisstjórnarfundi í gær virðast allir aðrir ráðherrar en Ögmundur verið ákveðnir í að sprengja upp brúna, sem Alþingi byggði í sumar, milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þeir hafa ákveðið að leggja fram stjórnarfrumvarp um ríkisábyrgð sem gengur gegn þingviljanum sem kom fram í Icesave málinu eftir mjög vandaða vinnu fjárlaganefndar allra stjórnmálaflokka. Vinnu sem skilaði fyrirvörum við ríkisábyrgðina sem slá skjaldborg um hagsmuni Íslands í bráð og lengd. Fyrirvarar sem áttu að tryggja að drápsklyfjar nýlenduveldanna Bretlands og Hollands legðust ekki af fullum þunga á komandi kynslóðir Íslendinga. Allir stjórnmálaflokkar ákváðu að starfa saman Íslandi til varnar og stigu upp úr pólitískum skotgröfum til að þessi sátt næðist í Icesave. Í dag hefur ríkisstjórnin sagt Alþingi stríð á hendur. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að aðeins Ögmundi ofbjóði þessi framganga harðlínumanna í stjórnarmeirihlutanum.

En núna hefur ríkisstjórnin, án Ögmundar, ákveðið að gera þessa vinnu Alþingis að engu. Ríkisstjórnin gefur Alþingi langt nef og hefur ákveðið að keyra Icesave málið í gegnum Alþingi með hörku og valdbeitingu þess sem valdið hefur. Þeir sem þvælast fyrir verða settir út í kuldann. Eru þetta vinnubrögð Nýja Íslands

Ég hélt satt að segja að Jóhanna Sigurðardóttir færi ekki fram með þessum hætti í ljósi sögunnar. Hún sjálf hefur verið í stöðu Ögmundar Jónassonar þegar hún sagði af sér sem félagsmálaráðherra árið 1994. Þá voru kúgarnir í eigin flokki Jón Baldvin og Jón Sigurðsson. Núna er sagt að Jóhanna hafi sett Ögmundi stólinn fyrir dyrnar en auðvitað hefði hún aldrei gert það nema með samþykki Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna. Það kom í ljós í dag þegar Steingrímur J. veitti Ögmundi bylmingshögg undir beltisstað þegar hann fullyrti að heilbrigðisráðherranum fyrrverandi væri um megn að takast á við niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu. Þar með var hann að segja að Ögmundur hefði guggnað og flúið frá erfiðu verkefni, en notað Icesave málið sem blóraböggul. Já, þyngri högg fá stjórnmálamenn varla - og það frá eigin formanni.

Ríkisstjórnin hefur orðið fyrir miklum blóðmissi í dag. Þegar ég skrifaði hér fyrr í mánuðunum að þessi ríkisstjórn væri sennilega komin á leiðarenda þá átti ég ekki von á að það gerðist svo snöggt. Ögmundur á heiður skilið fyrir að standa með sannfæringu sinni og standa með þjóðinni í Icesave málinu. Það kemur á óvart að Jóhanna og félagar Ögmundar í Vinstri grænum skulu ekki taka mark á viðvörunarorðum hans í Icesave málinu. Hefur hann ekki áunnið sér trausts í gegnum tíðina t.a.m. þegar hann varaði við einkavæðingu ríkisbankanna vegna þeirrar samþjöppunar valds í þjóðfélaginu sem það gæti leitt til, eins og svo raunin varð á? Um þetta hefur ég áður fjallað. 

Nei, Ögmundur vill vel með því að byggja brú á milli fylkinga á Alþingi til að ná sátt og samstöðu. Aðeins þannig komust við sem þjóð áfram til að byggja upp að nýju. Við gerum það ekki sundruð og ósátt. Sú leið sem ríkisstjórnin valdi er ófæra og færir ógæfu yfir stjórnina.

Þeir völdu stríð í stað friðar, sundrungu í stað samstöðu og valdbeitingu í stað samvinnu. Þjóðin situr svo uppi með afleiðingarnar að vanda því miður.


mbl.is Niðurskurður er óhjákvæmilegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna fannst í seinni leitum

Jóhanna er eins og sauðkindin, þrjósk en fer það sem hún ætlar sér. Já, eiginlega eins og túnarolla. Í allt sumar hefur hún haldið til, þ.e.a.s. Jóhanna, upp á afrétt en snjallir smalar íslenskra heiða fundu hana í seinni leitum. Kannski ýtti við henni fréttirnar um að Davíð Samfylkingarhrellir hafi tekið við Mogganum og munu þar veita ríkisstjórninni alvöru aðhald. Heilög Jóhanna er því blessunarlega komin til byggða og farin að taka til hendinni af skörungskap sem hún á kyn til. Í uppbyggingarstarfinu halda henni engar girðingar klíkuskapar eða sérhagsmuna.

Þjóðin þarf á því að halda að forystumenn hennar séu samstíga og standi með almenningi í þeirri varnarbaráttu sem hún heyir um á líf og dauða. Hver dagur sem fer til spillist er dýrkeyptur eins og dæmin sýna. Vonandi heldur stjórnin áfram að byggja brú til stjórnarandstöðunnar til að sundrunarfjandinn verði okkur ekki að falli. Nóg eru vandamálin samt til að glíma við að við berjumst ekki innbyrðis meira en orðið er. Sumrinu sóuðum við en látum það ekki gerast með veturinn sem er hafinn.   

Við skulum því vona og trúa að Jóhanna ,,leiði okkur sauðina til byggða" áður en vetrarhörkurnar byrja fyrir alvöru eins og góðri forystukind sæmir. 


mbl.is Jóhanna: Þolinmæðin á þrotum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ennþá lífsneisti í ríkisstjórninni?

Á þessu sunnudegi þá fá tveir ráðherrar Samfylkingarinnar hrós dagsins. Ég hef stundum verið dómharður um verk Samfylkingarinnar enda hefur oft verið fullt tilefni til þess. Samfylkingin var stofnuð til að breyta hinu pólitíska landslagi og berjast fyrir siðbót í íslensku samfélagi. Forystumönnum Samfylkingarinnar hafa hins vegar verið mislagðar hendur frá stofnun árið 1999 og hafa látið hatur á einstökum stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokki látið ráða för í stað þess að berjast fyrir þeim hugsjónum sem hún var stofnuð til að standa vörð um. Stundum hefur verið sagt að Samfylkingin stjórnist af skoðanakönnunum og reki þannig sem rótlaust þang í fjöruborðinu. Þetta lýsir alla vega ekki stefnuföstum og ábyrgum flokki. Tvennt hefur þó einkennt stefnuna og hefur þar ekki vantað stefnufestuna; aðildin að Evrópusambandinu og andúðin á Davíð Oddssyni.

En látum allt þetta liggja á milli hluta á þessu sunnudegi. Fyrri ráðherra Samfylkingarinnar sem fær hrós í dag er Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og Þingvallavatnsurriðasérfræðingur, sem flutti magnaða ræðu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna Íslandi til varnar. Þegar ráðherrar fara fram með þessum bravör á erlendu grundu þá hlýtur öll þjóðin að standa að baki þeim sem einn maður. Og Össur má eiga það að vera hlýlegur persónuleiki sem hrífur fólk með sér á góðum stundum. Nú vantar bara að hann komi líka svona fram við þjóðina sína og leiði hana út úr erfiðleiknum með húmor og hjartahlýju. Og hætti að hugsa um ESB sem upphaf og endi alls á Íslandi! (varð að bæta þessu við utan dagskrár :-)) 

Og annar ráðherra Samfylkingarinnar sem fær hrósið í dag sem mætti einnig taka til sín síðustu málsgreinina hér að ofan :-). Það er Árni Páll Árnason, velferðarráðherra vinstri stjórnarinnar. Ég hef ekki farið mjúkum höndum um ráðherrann hér á blogginu. En ef ég skyldi ræðu hans rétt á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar þá hefur hann tekið U beygju í skuldamálum heimilanna og það er vel. Útfærslan sem hann talaði fyrir er mannúðleg velferðarstefna og gefur skuldsettum fjölskyldum von, sem þær þurfa sannanlega á að halda í dag. Ég vona bara að hér tali hann fyrir almennum aðgerðum og í þeim verði gætt jafnræðis skuldara og aðgerðirnar ,,leiðrétti" forsendubrestinn sem varð í hruninu í haust. 

Já, það er kannski einhver lífsneisti eftir í þessari ríkisstjórn? Við skulum vona það okkar allra vegna.  


mbl.is Össur ávarpaði allsherjarþing SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn vandamála og vonleysis

Jóhanna sagði í dag að tilraun til að ná fram lausn málsins (Icesave - innsk. mitt) hafi ... 

... reynst erfiðari og torsóttari en vænst var og er ekki enn séð hvað verður.

Þar höfum við einkunnarorð vinstri stjórnarinnar. Ráðherrarnir sjá bara erfiðleika, meiri erfiðleika og enn meiri erfiðleika framundan. Málin eru öll torsóttari ,,en vænst var og ekki enn séð hvað verður"! Ja, hérna. Er þetta rétta viðhorfið til verkefna dagsins og morgundagsins?

Einkunnarorðin eru sem sé: erfiðleikar, vandamál, torsóttur og óvissa. Og svo má ekki gleyma einkunnarorðum velferðarráðherrans um að það sé ekki í mannlegu valdi að hjálpa fólki í erfiðleikum.

Þetta er vandi ríkisstjórnarinnar í hnotskurð. Ríkisstjórn sem sér ekki lausnirnar - aðeins vandamálin. Og ef annar stjórnarflokkurinn sér lausn þá sér hinn stjórnarflokkurinn það sem vandamál samanber uppbygging á stóriðju og afstaðan til Evrópusambandsaðildar. Og þannig er ríkisstjórnin orðin hluti vandans sem þjóðin situr uppi með.

Ergó: Þjóðin þarf nýja ríkisstjórn sem vinnur með fólkinu en ekki gegn því, ríkistjórn sem hvetur í stað þess að letja.

Já, ríkistjórn sem sér vonina en drepur hana ekki.

Svo hvet ég alla, sérstaklega valdhafa, til að hlusta á fyrirlestur Jóhanns Inga Gunnarssonar - Hvatning á óvissutímum.


mbl.is Icesave-málið þungt í skauti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færumst nær bjargbrúninni

Við getum eiginlega sagt það að atvinnuveitendur séu komnir í samkeppni við Atvinnuleysistryggingasjóð og það er hættuleg staða.

Svo mælir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. Það sjá það náttúrulega allir ,,að eitthvað er rotið í Danaríki", svo notuð sem Hamletíska til að lýsa ástandinu á Íslandi. Við svo búið má ekki standa og stjórnvöld verða að rjúfa þennan vítahring án tafar. 

Í fyrsta lagi getur þessi óeðlilega ,,samkeppni" ekki gengið lengi þar sem Atvinnuleysistryggingasjóður er að tæmast. Í öðru lagi geta fyrirtækin ekki borið hærri launakostnað ofan á allar aðrar kostnaðarhækkanir. Afleiðingarnar eru uppsagnir, rekstrarstöðvun eða að neytendur greiða reikninginn með hærra vöruverði, sem svo aftur leiðir til hærri verðbólgu og hækkun íbúðalána. Fyrirtækin, ríkisvaldið og sveitarfélög geta ekki sent reikninginn til neytenda og skattgreiðenda með hærra vöruverði og hærri álögum svo sem í formi skattahækkanna. Það þarf að finna nýjar leiðir.

Það sem þessi orð Gissurar hér að ofan segja líka er að siðferði þjóðarinnar bar af leið í ,,góðærinu" sem við töldum okkur búa við á síðustu árum. Við erum farin að upplifa ríkið sem einhverja stofnun úti í bæ sem er okkur óviðkomandi. Það eru annað hvort við eða þeir. En auðvitað er ríkið ekkert annað en við, samfélagslegt verkfæri til að standa vörð um samfélagsleg verkefni, velferðarkerfið og tryggja réttarríkið. Þegar ríkisvaldið hikstar og verður fyrir áfalli þá bitnar það á okkur öllum fyrr en síðar. Og ríkið stendur frammi fyrir grafalvarlegum vanda og almenningur upplifir ástandið ennþá þannig að ráðherrar standi frammi fyrir vandanum ráðalausir og án jarðsambands. 

Endurreisnin hefst hjá okkur sjálfum og í bættu siðferði þjóðarinnar. Ég veit að það er ekki auðvelt að ráðleggja fólki sem er í þeirri stöðu að vera atvinnulaust og hafa ekki efni á því að þiggja atvinnu vegna þess ,,að það borgar sig ekki" fyrir fjölskylduna eins og kemur fram í þessari frétt mbl.is. En kaldur raunveruleikinn er sá að hver dagur sem líður án aðgerða stjórnvalda miðað við núverandi ástand færir okkur sem þjóð nær bjargbrúninni. Við þurfum þess vegna í sameiningu að brjótast út úr vítahringnum. Það er ekki eftir neinu að bíða en að taka til hendinni saman. 


mbl.is Betra að vera á bótum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villi ráðagóði - þjóðráð eða landráð?

Fer þetta ekki bara að vera ágætt hjá Vilhjálmi Egilssyni að gefa þjóðinni ráð? Einu sinni ráðlagði hann einkavæðingu ríkisfyrirtækja og barðist gegn dreifðri eignaraðild þegar ríkisbankarnir voru seldir. Þetta var þegar Vilhjálmur var þingmaður og var helsti talsmaður nýfrjálshyggjunnar. Og það er hann vissulega enn þ.e.a.s. talsmaður nýfrjálshyggju og markaðsvæðingu þjóðfélagsins frá A til Ö. Allt skal hafa sitt verð.

Og á þessum árum var veðsetning aflaheimilda leyfð og við þekkjum afleiðingarnar. 500 milljarða skuldir á sjávarútvegnum en aflaheimildirnar voru allar metnar á um 350 milljarða á þeim tíma þegar Alþingi gaf grænt ljós á að veðsetja fiskinn í sjónum. Fisk sem lög kveða á um að séu sameign þjóðarinnar. Orð á blaði. Og vissulega er þetta nú orðin sameign þjóðarinnar í formi skulda sem við fengum úr þrotabúi einkabankanna, sem Vilhjálmur einkavinavæddi með félögum sínum Finni og Dóra í Framsókn. Já, fóru menn ekki heldur betur fram úr sjálfum sér, græddu sig í hel, og gættu í engu að þjóðarhag? Með þessu er ég ekki að segja að kvótakerfið sem stjórntæki standi ekki fyrir sínu heldur að benda á græðgisvæðinguna sem ætlaði allt lifandi að drepa.

Og svo barðist Villi ráðagóði fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi Íslendingum ,,til hjálpar". Hann var einn helsti talsmaður sjóðsins hér á landi. Og núna sér hann eftir öllu saman og talar um ,,markaðsfjandsamlegt prógramm" - sennilega vegna þess að prógrammið er ekki í anda nýfrjálshyggjunnar. Og takið eftir orðalaginu - markaðsfjandsamlegt! Nei, ekki mannfjaldsamlegt.  Já, fjandinn sjálfur, það er í lagi þó AGS ráðist á velferðarkerfi fólksins en mælirinn er fullur ef ,,ráðist" er á markaðinn hans.

Það hlýtur þess vegna að vera mjög trúverðugt og traustvekjandi fyrir þjóðina þegar Vilhjálmur leggur til að Íslands gerist aðili að Evrópusambandinu. Skyldi það ráð vera þjóðráð eða landráð?


mbl.is Fjandsamleg áætlun AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur kemur vor í dal - Með sannleikann að vopni

Ég ætlaði mér svo sem ekkert að blogga um ráðningu Davíðs Oddssonar í ritstjórnarstól Morgunblaðsins. Ég skal alveg viðurkenna að fyrst þegar ég heyrði þetta þá hélt ég að þetta var bara einn spuninn enn frá Samfylkingunni en stundum er raunveruleikinn ótrúlegri en spuninn. 

Þeir sem hafa lesið bloggið mitt vita alveg hvar ég stend í afstöðunni til Davíðs Oddssonar. Ég fanga dirfsku eigenda Morgunblaðsins að þora að leika þennan djarfa leik. Þetta hlýtur að vera hugað fólk. Enda láta viðbrögðin ekki á sér standa. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins fara hamförum í bloggheimum og líkja þessu jafnvel við innrás Þjóðverja inn í Pólland árið 1939 sem var upphaf síðari hildarleiksins mikla. Já, Gísli Baldvinsson einn af heitustu bloggurum Samfylkingarinnar segir striðshanskanum kastað. Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur meiningar um að pólitískar hreinsanir séu hafnar á Morgunblaðinu. Þetta undirstrikar að Davíð Oddssonar er sannkallaður Samfylkingarhrellir eins og ég hef oft nefnt hér á blogginu. Það verður áhugavert að fylgjast með viðbrögðum annarra á næstu dögum og kannski hugsa sumir sér að ríða sem fjandinn út í buskann:

Ég vona hins vegar að Davíð Oddsson nálgist þetta nýja verkefni af fagmennsku og yfirvegun. Hann á vissulega harma að hefna eftir það ,,einelti" sem hann hefur verið lagður í af pólitískum andstæðingum. Um þetta hef ég bloggað nokkrum sinnum t.d. í febrúar þegar mér ofbauð framganga fótgönguliðanna. Og auðvitað er einkennilegt að þegar ,,fánaberar lýðræðis og frjálsra fjölmiðla" stíg nú fram og mótmæla eftir áralanga misnotkun fjölmiðla í þágu eigenda sinna, eigenda sem settu þjóðfélagið í þrot. Staðreyndin er nefnilega sú að pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins og hatrammir ESB sinnar gera ráð fyrir að andstæðingar þeirra leiki sama leikinn og þeir hafa gert á síðustu árum þ.e. misnoti fjölmiðlanna í áróðurslegum tilgangi. Margur heldur mig sig. 

En það er ekki það sem almenningur þarf á að halda í dag. Þjóðin þarf óháðan fjölmiðil sem upplýsir, í stað þess að afvegaleiða lesendur. Fjölmiðil sem þorir að gæta hagsmuna almennings í hvívetna en dregur ekki taum eigenda sinna. 

Davíð Oddsson hefur sýnt það í verkum sínum að hann þorir að standa með fólkinu í landinu. Hann hefur nú fengið nýtt og vandasamt hlutverk sem ég trúi að hann ynni samviskusamlega af hendi og hafi aðeins sannleikann að vopni. Það þarf að græða sárin en ekki ýfa. Og þá fer að birta til á Íslandi eða eins og segir í ljóðinu:

Þó að æði ógn og hríðir,
aldrei neinu kvíða skal.
Alltaf birtir upp um síðir,
aftur kemur vor í dal,
aftur kemur vor í dal.

Bráðum þýðir vindar vaka,
viknar fönn í hamrasal.
Allir vetur enda taka,
aftur kemur vor í dal,
aftur, aftur kemur vor í dal.
aftur vor, aftur, aftur kemur vor í dal.

Sólarbros og blómaangan,
berast þér að vitum skal.
Eftir vetur óralangan,
aftur kemur vor í dal,
aftur kemur vor í dal.

Þá skal lifna leyst úr dróma,
líf,sem áður dauðinn fal.
Þá skal yfir öllu hljóma:
aftur kemur vor í dal,
aftur, aftur kemur vor í dal.
aftur vor, aftur, aftur kemur vor í dal.


mbl.is Davíð og Haraldur ritstjórar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húrra fyrir forseta vorum og fósturjörð!

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fær hrósið í dag. Ég hef nú ekki verið einn af aðdáendur forsetans í gegnum tíðina og ég býst við að hann eins og þorri þjóðarinnar vilji helst gleyma síðustu gullæðisárunum. Þá gerðu margir margt sem þeir hefðu betur sleppt að gera og segja. Þannig er það nú bara.

Sannleikurinn eða syndakvittun? 

Fyrst þegar ég heyrði fréttir af viðtali Bloomberg við hr. Ólaf Ragnar Grímsson, forseta, þá fannst mér eins og fleirum að nú hefði forsetinn farið illa að ráði sínu. En þegar viðtalið er skoðað betur þá er þetta hárrétt hjá forsetanum. Hann er ekki að gefa bankamönnunum syndakvittun heldur er hann að benda á þá staðreynd að hér ríkti ákveðin óvissa með regluverkið í fjármálakerfinu þar sem sú staða kom upp að óvissa var um hvar ábyrgðin lægi og hver átti að hafa með eftirlitið með höndum hvað varðar starfsemi íslensku bankanna í útlöndum. Liggur ábyrgðin hjá innlendum eftirlitsstofnunum eða samevrópskum á vettvangi Evrópusambandsins? 

Í þessu efni er ég algjörlega sammála Ólafi Ragnari sem er að benda á að regluverkið og ábyrgðina þurfi að skýra miklu betur til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Þetta eru síðan að sjálfsögðu rökin fyrir því að Evrópusambandið átti og á að taka þátt í ,,að bjarga" Íslandi frá Icesave klúðrinu því sökin liggur að nokkru leyti í þessari óvissu í regluverki og stjórnsýslu sem á uppruna sinn í Evrópusambandinu. Það hlýtur því að vera sameiginlegt hlutverk Evrópuríkja og Bandaríkjanna að hemja frelsið, já, að bjarga kapítalistunum frá þeim örlögum að þeir græði sig sífellt í hel. Bitur reynslan hefur sýnt að þeir geta ekki haft eftirlit með sjálfum sér.

Frelsið sem varð of frjálst 

Þetta er einmitt hættan sem getur skapast þegar frelsi er aukið til að láta undan kröfum nýfrjálshyggjumanna sem heimtuðu meira frelsi í fjármálageiranum með færri reglum og minna opinberu eftirliti. Þessi krafa var sterk frá Evrópusambandinu sem þrýsti á stjórnvöld hér á landi sem og í öllum aðildarríkjum sambandsins. Orðið sem notuð eru um þetta á ensku lýsa þessu best; self-regulation og deregulation.

Helen Wallance kemur einmitt að þessu í bókinni The Member States of the European Union frá árinu 2005:

Thus there is an emerging debate in the EU about how to find the most appropriate mechanisms for delivering public policies. In some cases both national and EU systems are beginning to acknowledge forms of self-regulationin especially fast-changing areas of market regulation such as financial services.

Nornaveiðar eða björgunarstarf? 

Ef okkur á að takast að komast út úr þeim vanda sem þjóðin býr við í dag þá verðum við að byrja á því viðurkenna mistökin sem voru gerð en síðast en ekki síst að standa saman í þeim björgunarleiðangri sem er framundan. Við eigum því að fagna þessu framtaki forsetans okkar, horfa til framtíðar og í Guðanna bænum: Hættum að hengja okkur í fortíðinni! 

Við getur haldið áfram á ,,nornaveiðum" á samlöndum okkar. Við getum gengið um göturnar eins og múgurinn forðum í París í Frönsku byltingunni í leit ,,að aðalsmönnum" til að koma á höggstokkinn. En eigum við ekki að láta Rannsóknarnefnd Alþingis og sérstöku saksóknurunum það eftir að finna þá seku og einbeita okkur að björgunarstarfinu þar sem við stöndum í rústunum?  

Já, húrra fyrir forseta vorum og fósturjörð!

Og látum Greenspan, fyrrverandi Seðlabanka Bandaríkjanna hafa síðasta orðið í kvöld:


mbl.is Íslensku bankarnir störfuðu samkvæmt reglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er kjarni Evrópu?

Auð- og kvennamaðurinn Silvio Berlusconi leggur til, ef Írar fella Lissabon sáttmála Evrópusambandsins (ESB) öðru sinni, að svokölluð kjarnaríki sambandsins stofni kjarnahóp Evrópu til að koma sáttmálanum í framkvæmd. Þetta kom fram á blaðamannafundi með kappanum þann 18. september en honum finnst að finna þurfi leiðir fram hjá ákvæðinu um að öll ríki samþykki sáttmála sambandsins samhljóða. 

Kvenmannsleysið er örugglega farið að há þessum skrautlega stjórnmálamanna sem stjórnar fjölmiðlum Ítalíu eins og Jón Ásgeir hér á árum áður. Hér talar maðurinn sem stundar ,,að sigra fallegar konur" sér til stundargamans en varð svo að þola þá auðmýkingu að ,,vinur hans" hafði keypt þær til fylgilags við forsætisráðherrann fyrir stórfé. Það er greinilegt að hann þolir illa að verða undir í baráttunni um völd og áhrif og sjálfstæðir og þrjóskir Írar eru farnir að fara í taugarnar á gamla manninum. Já, svona eins og fyrrverandi eiginkona hans sem ákvað að segja NEI og yfirgefa karlinn.

En aftur að umræðuefninu um kjarna Evrópu. Þetta er haft eftir Berlusconi í EUObserver um lýðræðið í sambandinu (þýðing mín):

Evrópu getur sannanlega ekki tekið ákvarðanir vegna þess að þær verða að vera teknar samhljóða og við svo búið má ekki standa lengur.

Og í sömu frétt segir orðrétt:

Ýmsir stjórnmálamenn og fræðimenn hafa talað fyrir þeirri hugmynd að innri kjarnahópur aðildarríkja ESB keyri áfram með dýpri samrunaþróun í gegnum uppbyggingu á nýjum samtökum, sem oft er lýst sem Sambandsríki Evrópu (European Federation), samhliða núverandi Evrópusambandi.

Við skulum vona að menn eins og Berlusconi láti sér nægja að stjórna í eigin landi í krafti auðs síns - eða fari að stunda villt kvennafar að nýju.

Hér sjáum við kappann að verki (og svo erum við að kvarta undan okkar stjórnmálamönnum!):

 


Ríkisstjórnin hefur klúðrað Icesave málinu

Viðbrögð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna við fyrstu ,,óformlegu" viðbrögðum Breta og Hollendinga eru með einsdæmum. Hvern er verið að blekkja? Hvaða vitleysa er þetta eiginlega sem er í gangi hjá stjórnvöldum?

Á Alþingi ekki síðasta orðið? 

Alþingi Íslendinga hefur talað. Og þar sem þingræði er í landinu þá stendur ríkisstjórnin og fellur með þingmeirihlutanum. Þjóðin horfði upp á mestu niðurlægingu sem nokkur ríkisstjórn hefur orðið fyrir sennilega frá upphafi þegar þingið tók völdin af framkvæmdarvaldinu og setti fyrirvara við meingallaðan samning sem Svavar Gestsson, kommissar Steingríms J. Sigfússonar, hafði komið með heim eftir samningaviðræður við nýlenduríkin Breta og Hollendinga. Samningaviðræður og samningar sem verða þjóðinni til háðungar í langan tíma.

Í stað þess að leita samstöðu meðal allra stjórnmálaflokka á Alþingi um lausn málsins og í stað þess að tefla fram okkar færustu samningamönnum í alþjóðasamskiptum þá ákvað ríkisstjórnin að fara fram með málið eins og fíll í postulínsbúð. Svo mikill var djöfulgangurinn að meira segja mörgum stjórnarliðum var nóg boðið og gengu í lið með stjórnarandstöðunni til að gera slæma samninga þolanlega fyrir núverandi og komandi kynslóðir Íslendinga. Það tókst þrátt fyrir óþolandi háðglósur harðlínufólks í stjórnarliðinu.

Skilja stjórnarliðar ekki fyrirvarana? 

Sá fyrirvari sem sjálfstæðissinnar á Alþingi samþykktu, og var mikilvægastur, var að ríkisábyrgðin á sukkskuldum fjárglæframannanna, sem skákuðu í skjóli stjórnvalda, gilti aðeins til 2024. Eftir þann tíma yrði að setjast niður að nýja og semja um eftirstöðvarnar ef einhverjar væru með það að markmiði að þær féllu niður. Það gæti þýtt að Íslendingar greiddu ekki krónu af Icesave milljarða lánunum, sem þjóðin reyndar aldrei tók og ætti þess vegna í raun ekki að bera neina ábyrgð á. En þjóðin og þingið ákváðu að reyna að leysa málið með samningum sem þjóðin gæti lifað við í bráð og lengd og það var gert.

Enda kemur fram í frétt á vefmiðli The New York Times í dag sem mbl.is vitnar til í frétt sinni (undirstrikanir mínar):

After an initial agreement to repay the funds, Iceland's parliament attached amendments stipulating limits on the amount that can be repaid and setting a June 2024 expiry date for the agreement.

Britain and the Netherlands earlier this week objected to the deadline, Icelandic officials said.

Og nú koma embættismenn Bretar og Hollendingar og neita að sætta sig við þennan þýðingarmesta fyrirvara. Auðvitað hlaut það að gerast enda eru samningamenn þessarar þjóða engir aukvisar heldur þaulvanir samningamenn enda 800 milljarðar í húfi. 

Þá er þessi frétt á NYT athyglisverð í ljósi ummála forsætisráðherra um að stjórnarandstaðan hafi ekki staðið við að halda trúnað um fyrirvara viðsemjenda okkar við fyrirvara Alþingis. Það er ekki að sjá annað en að íslenskir embættismenn séu að ,,blaðra" um viðbrögð Breta og Hollendinga í erlendum fjölmiðlum. 

Svona á að klúðra bigtime 

Og þá kemur aðalatriði málsins. Enn og aftur hefur málum þjóðarinnar verið klúðrað. Ríkisstjórnin átti strax í kjölfar afgreiðslu Alþingis að óska eftir þríhliða viðræðum milli þjóðhöfðingja Íslands, Breta og Hollendinga til að fylgja afgreiðslu Alþingis eftir. Þetta mál átti að leysa á pólitískum grundvelli en ekki að fela embættismönnum ,,að fara út með ruslið" ef svo mætti að orði komast. Hér voru Íslendingar að fara fram á fyrirvara sem breyttu meingallaða samningnum þeirra Svavars og Indriða í grundvallaratriðum. Í stað þess að greiða hugsanlega 800 milljarða voru Íslendingar að höfða til sanngirnis og samvisku þessara stórþjóða um að íslenska þjóðin gæti ekki staðið undir þessari skuldbyrði ef hagvöxtur yrðu hér mjög óhagstæður. Slíkt myndi kalla yfir þjóðina mikla ógæfu sem rústaði hér öllum innviðum þjóðfélagsins - velferðarkerfið yrði rústir einar. Ef hins vegar vel áraði þá stæði ekki á Íslendingum að greiða skuldbindingarnar enda þá borð fyrir báru.

Ég velti því alvarlega fyrir mér hvort ráðherrar og stjórnarliðar skilji ekki út á hvað fyrirvararnir gengu í raun. Eða er það tilgangurinn hjá þeim að sýna fram á að úrtölur þeirra um fyrirvara Alþingis hafi verið á rökum reistar? Auðvitað reyna viðsemjendur okkar að þreifa fyrir sér þegar 800 milljarðar eru í húfi en um það snúast þessi ,,fyrstu viðbrögð" embættismanna Breta og Hollendinga hvorki meira né minna. Þetta er því ekki smámál eins og ég held að Steingrímur J. hafi orðað það í einhverju viðtalinu.

Er Icesave lánasamningur eða milliríkjadeila? 

Og takið eftir að það eru embættismenn viðsemjenda okkar sem eru að takast á við pólitíska ráðherra hér á landi. Vegna þess að Bretar og Hollendingar líta á þetta sem lánasamning en ekki sem lausn á pólitísku deilumáli, sem sé milliríkjasamning, eins og málið er fyrst og fremst. Í þeirra augum má það ekki fara á það stig vegna þess að þá eru þeir að viðurkenna að eitthvað sé að regluverki ríkja Evrópusambandsins eða sambandsins sjálfs. Og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafa tekið undir þennan skilning Breta og Hollendinga, sem eru þegar öllu er á botninn hvolft að ganga erinda Evrópusambandsins. Og þess vegna er Icesave og aðildin að Evrópusambandinu eitt og sama málið. Íslenskir skattgreiðendur eiga sem sagt svo til einir að taka afleiðingum af galla í regluverki ESB varðandi innistæðutryggingar.

ESB á fullu að endurskoða regluverkið í fjármálageiranum 

Á sama tíma er Evrópusambandið á fullu að endurskoða regluverkið í fjármálakerfi ESB ríkjanna og hafa þar með viðurkennt að það þurfi endurskoðunar við. Og það sem þarf að endurskoða hlýtur að vera gallað, eða hvað? 

Hlustið t.d. á viðtalið við Lord Woolmer, acting Chairman of the House of Lords EU Committee on Economic and Financial Affairs, en nýlega kom út skýrsla undir enska heitinu 'The future of EU financial regulation and supervision'. Það er mjög svo athyglisvert þegar Woolmer lágvarður segir að það sé erfitt að sjá fyrir sér ef biðja þyrfti breska skattgreiðendur um að borga reikninginn ef bankar í Bretlandi lentu í vandræðum, og það má skilja hann svo að þess vegna þurfi að ,,leiðrétta" regluverk Evrópusambandsins til að koma í veg fyrir að slíkt gerist. Málið er bara þetta gerðist - á Íslandi! 



mbl.is NYT um viðbrögð vegna fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband