Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Skjaldborgin bíður þess að vera reist!

Aðeins eitt starf er ógeðslegt og það er illa unnið starf ... Það er munur á vandvirkni en ekki verkum.

Vegni þér eftir verðskuldann allra sem ætla sér eitthvað; langt eða skammt, mér er sama, bara að þeir séu ráðnir í því að vinna ekki öðrum tjón.

Eftirlitsmaðurinn við Álfgrím í Brekkukotsannál. 

Þingið hefur talað í Icesave málinu. Þingvilji liggur fyrir og þannig er það nú eins og amma mín heitin sagði stundum þegar hún vildi ekki ræða málið frekar. 

Það að draga þetta óheillamál á langinn með þjóðaratkvæðagreiðslu í framhaldi af synjun forseta Íslands verður bara til að strá salti í sárið. Knýjandi verkefni bíða til bjargar heimilunum og fyrirtækjunum. Skjaldborgin bíður þess að vera reist af ríkisstjórninni. Nú er ekki eftir neinu að bíða lengur. Sumrinu hefur verið sóað í umræður um ESB og síðan Icesave. Mál sem ríkisstjórnin átti að afgreiða með öðrum hætti en hún gerði en það þýðir ekkert að fást um það úr þessu. Nóg hef ég og aðrir bloggað um það í sumar. 

Sumri er tekið að halla og haustið hrópar á ný verkefni. Ég vona að ríkisstjórnin hafi dregið sinn lærdóm af átökunum síðustu mánuði og nú verði ráðist í neyðaraðstoð til handa heimilunum og fyrirtækjunum, sem standa á bjargbrún vonar og ótta. Þar getur enginn komið til hjálpar en stjórnvöld úr þessu. Leiðrétting á þeirri skuldaaukningu sem ..lenti á" þorra almennings í efnahagalegu hamförunum í haust hlýtur að hafa algjöran forgang enda forsenda að lausn annarra vandamála. Þar verður að gæta jafnræðis allra skuldara.

Ég geri ráð fyrir að pistlum mínum fækki úr þessu enda ærin verkefni framundan hjá mér í vetur. Ég þakka öllum bloggvinum og þeim sem hafa sett inn athugasemdir á blogg mitt ánægjuleg samskipti. Lesendum þakka ég lesturinn.

Ég botna þetta síðan með orðum Álfgríms úr Brekkukotsannál og bið stjórnmálamenn og bloggara að hafa þau ávalt í huga:

Í Brekkukoti voru orðin of dýr til þess að nota þau - af því a þau þýddu eitthvað; okkar tal var eins og óverðbólgnir peningar: reynslan var of djúp til þess að hægt væri að segja hana; aðeins fiskiflugan var ókeypis.

 


Sök bítur sekan

Það er hægt að taka undir margt af því sem framsóknarmenn á þingi sögðu á Alþingi. Sömuleiðis að kvitta undir ályktun InDefence hópsins, sem hefur unnið mikið gagn með sjálfboðavinnu sinni í þágu þjóðarinnar. Það er jafnvel hægt að taka undir með þeim fóstbræðrum Hannesi Hólmsteini og Kjartani Gunnarssyni í gagnrýni þeirra á vinnubrögð Svavars nefndarinnar um Icesave skuldir þeirra Kjartans og félaga í Landsbankanum.

Ég efast ekki um eitt andartak að flestir landsmenn, flestir alþingismenn, séu á sama máli í þessu efni. Icesave málið er sorglegur vitnisburður um tímabil í sögu þjóðarinnar, sem við viljum helst gleyma sem fyrst. En skuldirnar greiða sig ekki sjálfar, því miður, sem óreiðumennirnir tóku í eyðsluæði sínu og sóuðu í nafni Íslands. Stjórnvöld afhentu lyklavöldin af ríkisbönkunum fjárglæframönnum sem fengu að leika sér í útlöndum með óútfylltan tékka allt of lengi.

Sök bítur sekan. Í lýðræðisríki berum við víst ábyrgð á stjórnvöldum okkar enda gefum við þeim umboð til að stjórna í okkar nafni í alþingiskosningum. Á Íslandi er fulltrúalýðræði hvort sem okkar líkar betur en verr. Stjórnvöldum hefur hins vegar verið einkar lagið að halda stórum ákvörðunum fjarri okkur almenningi og hylja þær leyndarhjúp ráðherraræðisins. Þessu þarf að breyta og lausn Icesave málsins á Alþingi er mikilvægt skref í þá átt. Alþingi Íslendinga náði breiðri sátt og samstöðu um að gera hræðilegt mál þolanlegt. Þungu fargi er nú létt af þjóði og þingi með afgreiðslu Icesave ríkisábyrgðarinnar.

Samninganefnd Svavars hefur fengið falleinkunn Alþingis. Ég vona að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir þessu og taki höndum saman með þjóðþinginu í að skipa nýja þverpólitíska viðræðunefnd til að ræða við viðsemjendur okkar. Þeir hljóta að gera athugasemdir við fyrirvara Alþingis ef raunverulegt hald er í þeim. Þá er mikilvægt að bestu samningamenn okkar útskýri stöðu Íslands og tryggi að málið fái farsæla niðurstöðu. 

Í þeim viðræðum þarf að gefa viðsemjendum okkar grænt ljós á að elta fjárglæframennina uppi, sem komu okkur í þessa stöðu, þar sem allt fjármagn sem af þeim næst fari upp í Icesave skuldirnar. Það mætti þess vegna samþykkja sérstök neyðarlög sem gerði þessa sömu fjárglæframenn útlaga frá Íslandi þar sem eignir þeirra hérlendis og erlendis yrðu gerðar upptækar.  Stjórnmála- og embættismenn, sem bera hér ábyrgð, hljóta jafnframt að fá sinn dóm fyrir sinn þátt í sukkinu, þó ekki væri nema til setja nauðsynlegt fordæmi fyrir framtíðina. Þar á sök að bíta sekan líka. 


mbl.is Icesave-frumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur eða uppgjöf?

Á morgun ráðast örlög Icesave málsins en meira hangir á spýtunni. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hangir á bláþræði og pólitísk framtíð fjölmargra stjórnmálamanna er í húfi föstudaginn 28. ágúst á því Herrans ári 2009. En auðvitað skiptir mestu að framtíð íslensku þjóðarinnar og komandi kynslóða Íslendinga er nú í höndum 63 alþingismanna, sem þjóðin hefur kosið til að vaka yfir velferð hennar.

Málsmeðferð til fyrirmyndar 

Mín skoðun er að málsmeðferð Alþingis í þessu máli sé til fyrirmyndar. Þingið tók hlutverk sitt mjög alvarlega og sýndi í verki að á Íslandi er þingræði en ekki ráðherraræði. Frumvarp Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, um ríkisábyrgð á Icesave skuldunum hefur tekið stakkaskiptum í meðförum fjárlaganefndar Alþingis. Öllum helstu forsendum frumvarpsins, eins og þær voru skrifaðar í frumvarp fjármálaráðherra, hefur verið kollvarpað í þágu framtíðarhagsmuna þjóðarinnar. Já, hvorki meira né minna.

Og svo segja harðlínumennirnir í stjórnarliðinu að meðhöndlun þingsins hafi ekki breytt neinu heldur hafi hún aðeins verið til að ná breiðri samstöðu og sátt á þinginu! Getur ekki verið að þessi breiða sátt og samstaða hafi náðst einmitt vegna þess að meingölluðu frumvarpi var hafnað í raun og fjárlaganefnd hafi þurft að semja algjörlega nýtt frumvarp frá grunni? Frumvarpið, eins og það lítur út núna með greinargerð, er allt annað frumvarp en kom frá fjármálaráðuneytinu. Meingallað frumvarp sem átti að keyra í gegn í leyndarhyggju og með svo miklum hraða að þingmenn máttu vart mæla þá færi hér allt um koll í þjóðfélaginu. Hagsmunasamtökin hans Vilhjálms Egilssonar, já þeim sama og Davíð skammaði á Landsfundi, vöruðu við hruni atvinnulífsins ef Alþingi gerði ekki eins og Steingrímur J. og Svavar Gestsson skipuðu. Fóstbróðir hans hjá ASÍ í baráttunni fyrir aðild Íslands að ESB fór með svipaða dómsdagsspá.

Samstaða og sátt 

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Borgarahreyfingarinnar og sjálfstæðra þingmanna í Vinstri grænum tóku völdin af harðlínuöflunum í stjórnarliðinu og gerðu vont frumvarp þolanlegt. Aðalmálið var þó að á Alþingi myndaðist jákvætt andrúmsloft samstöðu og sátta sem tók þjóðarhagsmuni fram yfir flokkspólitíska hagsmuni. Það er góðs viti sem ég vona að þingmenn haldi í og byggi endurreisnina á því trausti sem skapaðist þar á milli þingmanna ólíkra stjórnmálaflokka.

Forysta Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Ben og Þorgerður Katrín, hafa sýnt að þar eru leiðtogar á ferð sem byggja má endurreisn Sjálfstæðisflokksins á. Þetta tókst þeim þrátt fyrir hatramma andstöðu við málið hjá hinum gamla valdakjarna flokksins þar sem fremstir í flokki fóru prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Kjartan Gunnarsson hinn eini og sanni. Tími þeirra fóstbræðra er liðinn.

Sjálfstæðisflokkurinn og Borgarahreyfingin féllu ekki í þá freistni að nota málið til að fella ríkisstjórnina með tilheyrandi stjórnarkreppu og óvissu. Ábyrgðarkennd þeirra var meiri en svo. Auðvitað hefði verið best að kasta Icesave samningnum og semja að nýju við Breta og Hollendina en það var ekki fýsilegur kostur í stöðunni. Leika þurfti þvingaða leiki í þröngri stöðu.

Sigur þingræðisins 

Niðurstaða Icesave frumvarpsins um ríkisábyrgðina er sigur skynseminnar og sigur þingræðisins. Þingmenn sameinuðust um að finna farsæla lausn á einu erfiðasta máli sem Alþingi hefur þurft að leysa. Slæmt mál hefur skánað. Samstaðan skapar okkur betri samningsstöðu gagnvart viðsemjendum okkar.

Það skal ekki gert lítið úr lykilhlutverki sjálfstæðu þingmannanna í Vinstri grænum sem reistu sáttabrúna milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það hefur ekki verið auðvelt að vera í þeirri stöðu að standa gegn formanni sínum í þessu máli og hafa örlög ríkisstjórnarinnar í höndum sínum. Þau stóðu af sér storminn og leiddu þetta mál til lykta með jákvæðu hugarfari og seiglunni. Hér á ég við Ögmund, Ásmund Einar, Atla, Lilju og Guðfríði Lilju. Þetta eru hinar raunverulegu hetjur þingræðisins ásamt Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar, sem hlýtur að enda sem Sáttasemjari ríkisins miðað við þennan sögulega árangur.

Harðlínumönnunum allra flokka tókst ekki að eyðileggja þá vinnu þó þeir hafi lagt sig alla fram við það t.a.m. ræðu Björns Vals Gíslasonar og ég bloggaði um. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á líka erfitt í öllum viðtölum vegna málsins en reynir að sitja á strák sínum. Orð hans á morgun geta ráðið úrslitum málsins þ.e. hvort breið samstaða fæst um niðurstöðuna.


mbl.is Icesave-umræðu að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá svaf þingforseti samfylkingarsvefni hinna réttlátu

Ásta Ragnheiður hefur vakið verðskulduga athygli fyrir skelegga framkomu í forsetastól Alþingis. Þingmenn hafa verið agaðir til með bjölluslætti og frammíköllum hæstvirts forseta og stundum svo að háttvirtir þingmenn hafa verið reknir úr ræðustól vegna ákafs bjölluhljóms. Þá hefur Ásta Ragnheiður gert ítrekaðar athugasemdir við orðalag og frammíköll þingmanna úr sal svo mjög að jafnvel megi líkja við einelti gegn ákveðnum þingmönnum. Forsetinn vill þó meina að hlutverk hennar sé að kenna nýjum og óreyndum þingmönnum lexíu um hvernig þeim beri að haga sér á Alþingi. Þar muni ekki líðast að fara út af sporinu og í hennar augum séu allir jafnir; hvort sem um sé að ræða þingmaður Framsóknar eða Samfylkingar.

En svo - á augabragði - kom samfylkingarþingmaðurinn Sigmundur Ernir, ekki aðeins kenndur við 365 fjölmiðlasamsteypuna, heldur vel kenndur upp í ræðustól Alþingis Íslendinga. Og þá hefði maður nú haldið að hæstvirtur forseti Alþingis Ásta Ragnheiður tæki ,,skólastjórahlutverk" sitt alvarlega í forsetastóli og áminnti háttvirtan þingmann sem öskraði í drykkjuvímu á háttvirtan þingheim með tilheyrandi handapati og æðibunugangi. Nei, þá svaf þingforseti samfylkingarsvefni hinna réttlátu. Enginn klukkuhljómur og engin frammíköll forseta. Á þingheimur ekki að fara fram á afsökunarbeiðni þingforseta?


mbl.is Ræddu hegðun þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Á einu augabragði ..."

Við megum að sjálfsögðu ekki tapa okkur í skrílslátum og skemmdarverkum. Nóg er nú samt að gert í þeim efnum af fjárglæframönnunum sem slátruðu samfélaginu á altari græðginnar.

Bakkavararbræður Lýður og Ágúst eru fórnarlömb velgengni fyrirtækis þeirra, sem þeir byggðu upp frá grunni í skúr á Suðurnesjum í það stórveldi sem Bakkavör sannanlega var þegar best lét. Með hendur tómar hófst ævintýrið sem allir vildi taka þátt í, í þeim villta dansi sem auðurinn skapar. Peningamennirnir voru fljótir að þefa uppi gróðavonina í þeim bræðrum og buðust til að bera sólina inn fyrir þá í hús eins og hjá Bakkabræðrum forðum daga. Þar voru fremstir í flokki ,,bankaræningjarnir" Sigurður Einarsson og Hreiðar Már, sem hvorki kunna að skammast sín né að biðja fórnarlömb sín afsökunar.

,,Á einu augabragði" eignaðist Kaupþing Bakkavör, Bakkavör eignaðist Kaupþing, Exista eignaðist Bakkavör, Skipti eignaðist Símann og Mílu o.s.frv. Já, á einu augabragði eignuðust margir marga og margt.  Sólin var borin inn og út frá sólarupprás til sólarlags og skálað var í hvítvíni að kvöldi. Og einhvern megin endaði þetta þannig að enginn átti neitt, dauða fjármagnið dó Drottni sínum jafn hratt og það lifnaði við í ræðum prófessora og forseta. Og eftir sitja Bakkavararbræður og þjóðin og spyr: 

Hvaða raftar riðu hér húsum?    


mbl.is Lýður: Mannorðsmorð leyfð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri bandamenn gátu andstæðingar Sjálfstæðisflokksins ekki fengið

Hannes HólmsteinnEf Sjálfstæðisflokknum var að takast að ná vopnum sínum að nýju, einhverjum alla vega, þá hefur Kjartani Gunnarssyni og Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni tekist í einu vetfangi að rústa þeirri uppbyggingarvinnu.

Hvernig dettur mönnunum til hugar að ríða fram að ritvöllinn með sverðið á lofti miðað við það sem á undan er gengið? Var tilgangurinn sá að ,,afvopna" sjálfstæðismenn og þjappa andstæðingum hans saman til að gera alla sjálfstæðismenn að atlægi? Ef það var ætlunin þá tókst það með miklum ágætum. Hver þarf pólitíska andstæðinga sem á slíka félaga?

Nú hafa öll trúverðug rök sjálfstæðismanna og þeirra sem hafa barist fyrir farsælli lausn Icesave málsins verið gerð verðlaus og hlægileg. Vinsældir Steingríms J. og Össurar ruku upp á einum degi og ekki kæmi mér óvart að hljóð heyrðist frá kommissar Svavari Gestssyni.

Kjartan Gunnarsson2Eða getur verið að tilgangur þeirra sé að tryggja að Icesave málið renni í gegnum Alþingi með svo miklum hraða að Björgólfsfeðgar og aðrir fyrrverandi kjölfestufjárfestar Landsbankans geti fagnað að kvöldi þeim málalokum að þjóðin hafi tekið alla ábyrgð á skuldum þeirra? Það skyldu þó aldrei vera því þessi framganga þeirra félaga er mér algjörlega óskiljanleg. Kafbátar halda sig venjulega undir yfirborðinu.

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki getað fengið betri bandamenn en þá fóstbræður.


mbl.is Hinir vammlausu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuld eins er eign annars

Þetta eru vondir tímar. Fyrst kom hrunið, þá kom AGS, svo fór umsókn að ESB til Brussel sem klauf þing og þjóð, og loks er Icesave málið allt lifandi að drepa. Er nema von að ráðamenn hafi beðið Guð að blessa Ísland? En hver heldur verndarhendi yfir Íslendingum á þessum vondu tímum?

Fréttatímarnir í kvöld lýsa ástandinu. Ung hjón hafa gefist upp á íslenskum stjórnvöldum og hyggjast flýja land. Þau voru gerð eignalaus í efnahagslegu ,,náttúruhamförunum" í haust eins og formaður fasteignasala komst réttilega að orði. Þúsundir fjölskyldna eru í sömu stöðu. Fyrirtækin falla hvert af öðru enda bólar ekkert á stöðuleikasáttmálanum í verki sem samþykktur var fyrr í sumar. Sáttmálinn eru bara dauð og innantóm orð á blaði. Landsstjóri AGS herðir tökin og heimtar meiri hörku til að keyra niður lífskjörin. Stýrivextir Seðlabankans hafa verið ,,frystir" í þeim hæstu sem þekkjast á byggðu bóli þrátt fyrir að Davíð samfylkingarhrellir hafi verið rekinn til fjalla.

Ríkisstjórnin sem lofaði að slá skjaldborg um fjölskyldurnar og heimilin virðist hafa gefist upp á fyrstu metrunum og ráðherrar segja það ekki í mannlegu valdi að koma fólkinu til aðstoðar. Skuldir heimila og fyrirtækja sem uxu á einni nóttu í himinhæðir vegna efnahagslegra náttúruhamfara skulu ekki ,,leiðréttar" því það myndi ,,skerða eignir" fjármagnseigenda, sem duttu í lukkupottinn í þessu sömu náttúruhamförum. Það er nefnilega alltaf þannig að skuld eins er eign annars. Og ríkisstjórnin hefur ákveðið að standa vörð um hagsmuni þeirra sem eignuðust fyrir slembilukku rangláta skuldaaukningu ólánsamra heimila og fyrirtækja. Og aðeins þegar heimilin og fyrirtækin hafa verið keyrð í þrot og uppgjöf þá fyrst kemur til greina að rétta hjálparhönd. En þá er það bara of seint, því miður.

Og svo meðan Róm brennur þá skylmast alþingismenn um aðildarumsókn að ESB eða Icesave skuldirnar þeirra Björgólfs Guðmundssonar, Björgólfs Thors, Kjartan Gunnarssonar og flóttamannsins í Rússlandi. Stjórnarliðar lýsa því yfir hver um annan þveran að endurreisnin geti ekki hafist fyrr en skuldir fjárglæframannanna verði orðnar skuldir okkar landsmanna. Í þessu ,,björgunarstarfi", að koma ábyrgð Icesave skulda Björgólfs og Co. yfir á þjóðina, þá finnst nægur tími til að funda fram á nótt og halda lengsta sumarþing í sögu Alþingis. En enginn fæst til að ræða um eða byggja skjaldborgina sem stjórnmálamennirnir lofuðu fyrir kosningar.

Já, Guð blessi Íslendinga!


mbl.is Óvíst um sjálfstæðisatkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landhelgisgæslan leysti málið farsællega

Þarna held ég að svæðisstjóri björgunarsveita á Húsavík hafi farið fram úr sjálfum sér. Það átti bara eftir að hringja í forsetann til að kóróna fljótfærnina. Auðvitað þarf að umgangast svona viðkvæm mál af nærgætni og tillitsemi við aðstandendur en þessi vinnubrögð svæðisstjórans eru ekki til eftirbreytni. Það kemur fram hjá upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar að verið var að vinna að lausn málsins og ég efast ekki um eitt augnablik að Gæslan hefði ekki klárað málið hratt og örugglega eins og hún er vön að gera. Fréttamönnum er vorkunn að taka við upplýsingum frá umdæmisstjóranum ,,hráum" en maður hefði haldið að þeir hefðu átt að gefa sér tíma til að hringja eitt símtal til Landhelgisgæslunnar til að fá viðbrögð hennar. Það var ekki gert fyrr en búið var að blása málið upp og valda úlfúð að óþörfu.

Eins og ég skil þetta er málalok þessi. Landhelgisgæslan fékk beiðni um aðstoð og hún leysti málið farsællega fyrir alla aðila. 


mbl.is Neituðu ekki að senda þyrlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er í okkar valdi að koma á réttlæti - en ekki með skemmdarverkum

Skemmdarverk eru alltaf skemmdarverk. Það kann að vera flott að sýna réttláta reiði sína með því að úða jeppa eða hús auðmanna rauðri málningu en skemmdarverk er seint hægt að réttlæta. Og hver ber tjónið? Tryggingarnar sem þýðir þá hærri tryggingargjöld fyrir tryggingaþega.

Þetta undirstrikar að lífsnauðsynlegt er að hraða rannsókninni á bankahruninu, kasta þar ekki krónunni til að spara aurana. Þangað til ólmar blóðið í almenningi sem finnst réttilega á sér brotið og ekki bætir úr harmkvælavæl auðmanna og ráðherra, sem svara almenningi með skætingi. Það er í nefnilega í okkar valdi að koma á réttlæti og endurreisa þjóðfélagið. Það er ekkert yfirnáttúrlegt við það. 


mbl.is Málningu úðað yfir bíl Björgólfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Köld tuska framan í ,,friðarsinna"

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, á heiður skilið fyrir sinn þátt í að reyna að ná breiðri sátt og samstöðu um Icesave málið á Alþingi Íslendinga. Það hef ég sagt áður og stend við það. Sömu sögu er að segja um þingflokka Sjálfstæðisflokksins og Borgarahreyfingarinnar. Þingmenn hafa teygt sig langt til að finna farsæla lausn á þessu skelfilega máli sem skekur undirstöður þjóðarbúsins.

Síðan kom ræða Björns Vals Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna og varaformanns fjárlaganefndar, á Alþingi í gær. Seinni hluti ræðunnar er blaut tuska framan í alla þá sem reynt hafa að láta rödd friðar og skynsemi heyrast. Sú rödd var kæfð á Alþingi í gær með ræðu Björns Vals, sem er einn af skósveinum Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, sem er fjarstýrður af fyrrum leiðtoga sínum Svavari Gestssyni, kommissar. Björn Valur getur þakkað sér það að hafa tekist á nokkrum mínútum að hafa rústað þeirri ,,brúarsmíð" sem hefur verið í gangi á milli pólitískra fylkinga á Alþingi og út í þjóðfélaginu. Hann kýs ófrið til að berja á pólitískum andstæðingum sínum og til að halda á lofti að pólitískur áróðurmeistari sósíalista hafi landað ,,góðum" samningum um Icesave, svo góðum að öll vinna fjárlaganefndar hafi engu skilað. Já, ekki einu orði verði breytt í Icesave samningunum. Allt sem Svavar og Steingrímur sögðu um ágæti Icesave samningsins standi ennþá sem stafur á bók. Ef þingmenn hafi talið sér trú um annað þá var það mikill misskilningur sem Björn Valur leiðrétti á Alþingi í gær.

Fyrirvararnir sýndarfyrirvarar 

Fyrirvararnir, sem heiðarlegt og duglegt fólk, vann að dag og nótt að semja, voru bara sýndarfyrirvarar. Þetta segir fulltrúi valdaflokksins þrátt fyrir að margir gallar á samningi Svavars kommissar hafi komið fram og nú síðast hjá eðalkratanum og heiðursmanninum Vilhjálmi Þorsteinssyni um ranga nálgun á Icesave sem kosti okkur tæplega 100 milljarða. Svo minni ég á álitsgerð Ragnars Hall, sem segir að galli í Icesave samningi geti kostað okkur 200 milljarða. Nei, orð og gjörðir Svavars Gestssonar eru hafðar yfir allan vafa, segir Björn Valur. Meistaraverki hans verður í engu haggað. Þar er sannleikurinn (Pravda) og vegurinn til öreigalandsins. Vinna fjarlaganefndar Alþingis var með öllu óþörf, bara til að friða fólkið og blekkja þingheim. Já, sýndarveruleikinn er sætur eins og á dögum bankanna fyrir hrun.

Já, mér er misboðið að uppgötva að þetta var bara allt í plati hjá harðlínumönnunum í stjórnarliðinu. Þeir halda áfram að sá fræjum sundurþykkju og ófriðar. Þeir skulu þá fá að uppskera samkvæmt því. Svikalognið er á enda. 


mbl.is Funda um Icesave um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband