Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Teningunum er kastað!

Mér segir svo hugur að nú hefjist óöld í Samfylkingunni eftir þessa ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að halda áfram í stjórnmálum. Það er sennilega eitthvað sem Samfylkingin þarf ekki á að halda þessa stundina þegar fylgið virðist vera í uppsiglingu og ráðherrar þurfa að einbeita sér að landsstjórninni. Notaði Ingibjörg Sólrún það ekki einmitt gegn áframhaldandi samstarfi við Sjálfstæðisflokknum að Samfylkingin ætlaði ekki að blanda sér í forystuslag innan samstarfsflokksins?

Stundum eru stjórnmálamenn of fljótir að henda á lofti hlutum sem hittir þá fyrir sjálfa. Staðan í dag virðist nefnilega vera sú forystuslagur verður ekki í Sjálfstæðisflokknum - heldur í Samfylkingunni!


mbl.is Ingibjörg býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólaf Ragnar leiddi arðræningjana út í sólarlagið í sátt friðarins sem auðurinn skapar

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti íslenska lýðveldsins, ákvað að bjóða sig fram aftur í janúar 2008 þá setti ég saman smá samantekt af því tilefni sem mér finnst full ástæða til að rifja upp:

Þá liggur fyrir að herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, hyggst bjóða sig fram að nýju til að gegna embætti forseta íslenska lýðveldisins. Þessi ákvörðun þarf ekki að koma neinum á óvart. Ólafur Ragnar hefur sannað í verki að honum er vel treystandi fyrir þessu vandasama embætti. Hann hefur breytt embættinu frá því að vera verndari tungunnar og skógræktar í að vera verndari stórfyrirtækja sem sækja í útrás til fjarlægra landa. Árangurinn lætur ekki á sér standa og milljörðum er landað í öruggar hafnir milljarðamæringa Íslands. Auðvitað njóta allir Íslendingar þessa fengs með einhverjum hætti svo lengi sem stjórnvöld þjarma ekki svo að þessum þjóðhollu Íslendingum að þeir þurfi að flýja land vegna skattpíningar. En þeir sem eru eldri en tvævetur muna Ólaf Ragnar í öðru hlutverki. Þá dvöldu í brjósti hans hugsjónir sósíalismans þar sem þeir sem hann nú verndar og þjónar voru vondir arðræningjar auðvaldsins. Já, svona eru tímarnir breyttir og við sjáum fyrrum sósíalistann Ólaf Ragnar leiða arðræningjana út í sólarlagið í sátt friðarins sem auðurinn skapar. 


mbl.is Tæpur þriðjungur ánægður með forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram Davíð!

Það væri sigur fyrir lýðræðið ef Davíð Oddsson biði sig fram að nýju. Davíð er auðvitað stjórnmálamaður með stóru S og hefur alltaf verið. Það voru mistök hjá honum að múra sig inn í Seðlabankanum. Það má ekki verða endir á glæsilegum stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar að hafa orðið fórnarlamb múgæsingar sem pólítiskir andstæðingar hans efndu til með eftirminnilegum árangri. Fjórða valdið vildi Davíð burt og hafði árangur sem erfiði. Fjórða valdið sem sækir ekki vald sitt til fólksins heldur fjármagnsins fyrst og fremst. Nú vita allir að hér hafa fjárglæframenn ráðið þjóðfélaginu á síðustu árum í krafti peninga, fjölmiðlavalds og í gegnum stjórnmálamenn. Værum við ekki að senda þessum öflum, sem hafa sett þjóðina á hausinn, eftirminnileg skilaboð með því að kjósa Davíð á þing?

Las einmitt áðan ágæta grein ágæts starfsfélaga míns dr. Jóns Viðars Jónmundssonar í Morgunblaðinu í dag um ægivald fjármálaheimsins yfir fjölmiðlunum. Það þarf mikið til að Jón Viðar gefi sér tíma til að skrifa grein í Morgunblaðið og hrósi undir rós Davíð Oddssyni. Það hélt ég að ég ætti ekki eftir að upplifa! En svona hefur heimurinn snúist á hvolf!

Ég vona því þjóðarinnar vegna og lýðræðisins vegna að Davíð Oddsson bjóði sig fram að nýju fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Kjósendur geta þá sagt sitt um aðförina að honum og dæmt Davíð af verkum sínum í alþingiskosningum. Þannig á lýðræðið að virka.

Ég er líka sannfærður um að Davíð hefur lært mikið á undanförnum árum í útlegð sinni í Seðlabankanum þar sem tjáningarfrelsi hans var af honum tekið. Hann mun vonandi ekki hlusta á suma fyrrum ráðgjafa sína sem gáfu honum slæm ráð og vonandi sækir hann ráð víðar en áður.

Þegar Davíð talar þá hlustar þjóðin. Látum hann tala og láta síðan verkin tala þjóðinni til heilla. 


mbl.is Davíð í framboð á Suðurlandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurlæging Íslands staðfest

Sveinn Haraldur er örugglega hins vænsti sveinn og á vonandi eftir að þjóna Íslendingum vel. Með setningu hans sem seðlabankastjóra er hins vegar staðfest niðurlæging Íslendinga í peningamálum. Er það virkilega svo að ekki var hægt að finna neinn hæfan Íslending í starfið eða var það kannski krafa frá AGS að skipa yrði útlendan mann í starf seðlabankastjóra? Gleymdist að flétta upp í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins?

Síðan verður haldið áfram á sömu braut og löggjafarvaldið flutt úr landi með aðild að Evrópusambandinu. 5 þingmenn verða kosnir á þing Evrópusambandsins og munu hafa aðsetur í Brussel og Strassbourg. Síðan verður einn Íslendingur skipaður í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, þó aðeins í 10 ár af 15 þegar Írar hafa dregið NEI-ið sitt við Lissabon sáttmálanum til baka, að kröfu sambandsins. Þeim Íslendingi, ef það verður þá Íslendingur, verður bannað að halda á lofti hagsmunum Íslands heldur skal hann játa hollustu við hagsmuni Evrópusambandsins fyrst og síðast.

Já, Íslendingar hafa svo sannanlega klúðrað málum. Kannski ekki ósvipað og á þrettándu öld þegar við gengum Noregskonungi á hönd eftir óöld og samstöðuleysis hér innanlands.


mbl.is Nýr seðlabankastjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Systraflokkar standa saman

Það kom sumum á óvart að Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs og formaður norska Verkamannaflokksins, hafi svo harkalega ýtt hugmyndum um gjaldmiðlasamstarf milli Íslands og Noregs með upptöku eða tengingu við norsku krónuna út af borðinu. Þegar hins vegar litið er til þess að Verkamannaflokkurinn í Noregi er systraflokkur Samfylkingarinnar og góður vinskapur er á milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, þá varpar það kannski ljósi á þessa einstrengilegu afstöðu Jens. Systraflokkurinn í Noregi má ekki leggja stein í götu systraflokksins á Íslandi í vegferð þess síðarnefnda með Ísland inn í Evrópusamstarfið. Þess vegna má ekki gera of mikið úr þessari afstöðu Jens. Þegar formaður systraflokks VG í Noregi kom í heimsókn til Íslands fyrir mánuði eða svo þá opnaði hún faðminn fyrir Íslendingum ef þeir teldu gjaldmiðlasamstarf milli landanna gæti gagnast Íslendingum í þeim erfiðleikum sem þeir ættu við að búa. Jens Stoltenberg sagði hins vegar í Kastljósi í kvöld að nú þyrftu Íslendingar að greiða úr óreiðunni og græðgivæðingunni sem þeir hefðu komið sér sjálfir í og eina gjaldmiðlasamstarfið sem stæði Íslendingum til boða væri Evran. Það þýðir á mannamáli að Norðmaðurinn Jens Stoltenberg telur ekki annan kost fyrir Ísland en að gerast aðili að Evrópusambandinu. Sem þýðir svo auðvitað að þá á Noregur ekki annan kost en að fylgja í kjölfarið.  


mbl.is Telja gjaldeyrissamstarf Íslands og Noregs óraunhæft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn fer í nýju Framsókn

Ég spái því að Kristinn H. Gunnarsson bjóði sig fram fyrir Framsóknarflokkinn. Það verður auðvelt fyrir hann að færa rök fyrir því enda hefur Framsóknarflokkurinn skipt algjörlega um ,,andlit" og útlit. Það myndi hins vegar þýða að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gætu myndað nýja ríkisstjórn ,þar sem 2 þingmenn hafa fært sig milli liða, og blásið kosningarnar af ef vilji væri til þess.

Hvort það sé hins vegar pólitísk klókt skal ósagt látið.


mbl.is Kristinn: Trúnaðarbrestur olli afsögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í stjórnarslit?

Var það ekki einmitt nýr formaður Framsóknarflokksins sem lagði gífurlega áherslu á að leita til dómstóla vegna hryðjuverkalaga Breta? Það mál og skeleggur málflutningur hans kom Sigmundi Davíð á kortið í íslenskum stjórnmálum.

Núna gengur viðskiptaráðherra fram í erlendum fjölmiðla að því er virðist umboðslaus með öllu (hefur alla vega ekki fengið umboð frá þjóðinni og nú virðist hann ekki tala í umboði ríkisstjórnarinnar) og segir málið dautt. Íslensk stjórnvöld munu kyssa vöndinn.

Liggja stjórnarslit ekki í loftinu þessa klukkutímana eða hve lengi ætlar Framsóknarflokkurinn að verja ríkisstjórnina falli? Mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á næstu klukkustundum?


mbl.is Veldur miklum vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er neysluvísitalan náttúrulögmál?

Það sem er athyglisvert og í senn dapurlegt við fréttina um verðbólguna, sem virðist vera orðin einhverskonar sýndarverðbólga, er að hækkun á pakkaferðum og flugferðum til útlanda vega upp nær alla lækkun á húsnæðisverði. Er líklegt að fólk sem er að missa íbúðir sínar eða hafa tapað öllu eigin fé í íbúðahúsnæði sínu sé að flakka til útlanda í pakkaferðir?

Merkileg þessi verðbólguútreikningur sem lifir alveg sjálfstæðu lífi þó allt sé að falla í kringum hann. Er það ekki rétt að starfsfólk Hagstofunnar sé að reikna með sömu neyslu Íslendinga eins og þegar allt var hér í uppsveiflu? Er ekki eitthvað bogið við það? Er neysluvísitalan náttúrulögmál sem ómögulegt er að uppfæra miðað við ástandið í þjóðfélaginu á hverjum tíma? Væri ekki ráð fyrir ríkisstjórnina að nýta krafta sína í slíkar aðgerðir heldur en að standa að einelti gegn fyrrum pólitískum andstæðingi sínum?


mbl.is Verðbólga mælist 17,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú ert sekur hvað sem þú segir!

Áróðursherferðin gegn Davíð Oddssyni hefur borið árangur. Þjóðin var vitni að því í Kastljós viðtalinu. Davíð er eðlilega lúinn enda fáir sem geta staðist slíkar ofsóknir sem hafa verið í gangi gegn einum manni. Lýðurinn hefur talað og Davíð skal burt. Enginn má við margnum. Í raun var alveg sama hvað Davíð sagði eða hefði sagt í viðtalinu. Sigmar fréttamaður var búinn að dæma hann fyrirfram eins og kom glöggt fram í spurningum. Sigmar hefði getað sparað sér erfiðið og umorðað spurningarnir í aðeins eina spurningu:

,,Þú ert sekur hvað sem þú segir. Sumir og flestir segja að allt sé þér einum að kenna. Af hverju viðurkennirðu það ekki bara?"

Eitthvað minnir mig þetta óþægilega á eitthvað sem tengist páskahátíðinni en kem því ekki alveg fyrir mig. Jóhanna væri kona af meiru ef hún léti ekki teyma sig á asnaeyrunum í þessari hefndarför sem er þjóðinni til skammar. Væri ekki ráð að sameina þjóðina að baki stjórnvöldum í stað þess að sundra henni í pólitískum hefndarleiðangri? Síðan minni ég á blogg mitt hér 3. febrúar um ofsóknirnar gegn Davíð - Ég mótmæli!


mbl.is Davíð í Kastljósviðtali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refskapur Framsóknar

alfreð thGamansamir gætu rifjað upp söng Ómars Ragnarssonar: Þrjú hjól undir bílnum en áfram skröltir hann þó ...

Auðvitað er Framsóknarflokkurinn að minna á sig. Það gerir hann á sama tíma og hann kynnti tillögur sínar í efnahagsmálum. Sennilega hefur nýjum formanni Framsóknarflokksins fundist að stjórnarflokkarnir hafi tekið þeim fálega þegar þeir lögðu þær fyrir forystumenn Samfylkingar og VG. Það kæmi mér ekki á óvart að Alfreð, ,,ykkur er víst kalt manninum", sé farin að spila undir á fiðlu og sjái marga álitlega ,,laxa í hylnum". Á hann er hlustað í Framsóknarflokknum og kannski víðar samanber véfréttir gærdagsins.

Refskapur í stjórnmálum er engin nýlunda. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ætti að kannast við vinnubrögðin eftir vistina hjá Jóni Baldvin um árið. Jón Baldvin og stuðningsmenn gera henni síðan ekki auðvelt fyrir í eigin flokki en orð Össurar Skarphéðinssonar vöktu athygli mína í morgun þegar hann talaði um ,,þann hluta Samfylkingarinnar sem hann tilheyrði".

Óveðursskýin hlaðast þess vegna upp á stjórnmálahimni Jóhönnu ,,heilögu" eins og við var að búast í félagsskap ,,villta-vinstrisins".    


mbl.is Lausn ekki fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband