Bloggfærslur mánaðarins, október 2009
Ísland er ekki lengur efnahagslega sjálfstætt ríki
Laugardagur, 31. október 2009
Það er alltaf jafn hjákátlegt að heyra ráðherra ræða um skuldavanda heimilanna og fyrirtækjanna. Réttast væri hjá þeim að vísa bara á fulltrúa AGS hér á landi enda er alveg kristaltært í mínum huga að þar eru (lána)línurnar lagðar. Þetta má til að mynda lesa úr svari fulltrúa AGS við fyrirspurn Marinó G. Njálssonar, fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna, um þessi mál.
Það er þessi blekkingarleikur sem ruglar alla pólitíska umræðu hér á landi. Ríkisstjórnin er í raun bundin fyrir aftan bak í aðgerðum sínum í efnahagsmálum. Hún þarf að lúta valdi lánadrottnanna en fulltrúi þeirra hér á landi er AGS. Svo einfalt er það.
Þannig er tómt mál að tala um réttláta ,,leiðréttingu" á skuldavanda heimilanna. Þar verður að fara að vilja AGS en í fyrrnefndu svari segir orðrétt:
Appropriate' means that the debt relief should be provided only to borrowers who really need it. This is necessary because there is a limit on the total amount of debt relief that can be provided. If debt relief is given to borrowers who can manage without it there will be less available for those who really do need it. In other words, debt relief should be provided on a case by case basis.
Þetta er nákvæmlega það sem ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa sagt þegar öllu er á botninn hvolft. Almenningur og Hagsmunasamtök heimilanna hafa viljað almenna skuldaleiðréttingu EN það er AGS sem hefur síðasta orðið. Ríkisstjórnin kemur fram sem framkvæmdaraðili á efnahagsáætlun sjóðsins sem gengur út á það að gera Íslandi fært að greiða fjármagnseigendum til baka sem mest af því sem þeir hafa lánað. Sem sagt að lágmarka tapið.
Hvort sem okkur líkar það betur en verr þá er þetta veruleikinn sem við þurfum að horfast í augu við.
Ísland er sem sagt ekki lengur efnahagslega sjálfstætt ríki.
![]() |
Aðferðir alltaf umdeilanlegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Virkjum samtakamáttinn
Laugardagur, 31. október 2009
Stjórnmálaumræðan hér á klakanum er að komast að frostmörkum. Stjórnmálaflokkunum er að takast að ná vopnum sínum og skotgrafarhernaðurinn er í algleymingi. Rökræður snúast ekki lengur um málefni heldur um að vera með eða á móti þessu eða hinu. Ertu á móti ríkisstjórninni eða styður þú hana? Ertu með Davíð eða á móti? Viltu að Ísland gangi í ESB eða ekki? Öll önnur málefni ráðast af afstöðunni til fyrrgreindra mála. Liðhlaupar eru litnir hornauga þegar stríð er skollið á.
Já, í hvaða liði ertu eins og Pete Seegar söng um.
Verðbólgan mergsýgur kaupmátt fólksins mánuð eftir mánuð. Okurvextirnir hlífa engum og kraftur fyrirtækjanna dvínar og afleiðingin er samfélagseyðandi og mannskemmandi atvinnuleysi. Eignir þorra almennings hurfu hér eina haustnóttina. Fjármagnseigendur gefa fólki engan grið á sama tíma og þeir afskrifa kúlulán þotuliðsins. Ungir og velmenntaðir Íslendingar flýja landið í leit að framtíð sem þeir finna ekki hér. Ríkisstjórnin sem lofaði að slá skjaldborg um heimili landsins hafa í stað þess slegið skulda- og skattborg utan um heimilin. Björgunarpakki ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilianna er skuldagildra að áliti ASÍ og Hagsmunasamtaka heimilanna. Og þegar von kviknar um atvinnuuppbyggingu þá slekkur ríkisstjórnin þá von við það sama. Hvers konar ríkisstjórn gengur fram með þessum hætti? Er nema von að fólkið missi von og trú á tímum sem þessum?
Við aumur almenningur getum svo sem ekkert annað gert en að horfa á fáranleikinn í hringleikahúsinu. Á meðan bíða brýn verkefni til að leysa. Það er algjörlega óþolandi að stjórnmálamenn geti ekki snúið bökum saman í að bjarga þjóðinni út úr þeim alvarlega vanda sem hún stendur frammi fyrir. Verkefnið er svo stórt að þar duga enginn vettlingatök. Virkjum samtakamátt fólksins og þá eru okkur allir vegir færir.
Pete Seeger hefur síðasta orðið ....
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hringadrottinssaga: Hringavitleysan heldur áfram
Föstudagur, 30. október 2009
Hringrásin eða hringavitleysan heldur áfram. Þingmönnum hefur verið talin trú um að ,,björgunaráætlun" AGS væri úr sögunni ef Alþingi samþykktu ekki að setja Icesave drápsklyfjarnar á Íslendinga. Norðurlandaþjóðirnar sögðu að við fengjum ekkert lán fyrr en AGS væri búið að fá ríkisábyrgð á Icesave skuldunum, sem fjárglæframenn tóku í nafni allra Íslendinga en sólunduðu í einkaeyðslu og glórulausar fjárfestingar. Nú segir AGS að þetta sé rangt. Að formaður ,,lánanefndar Íslands" Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Fjármálaeftirlitsins, hafi farið með rangt mál samanber þessa frétt mbl.is.
Og íslenskir fjölmiðlar segja frá þessu með hófstilltum hætti en verja öllu meira púðri til að fjalla um smalamennsku í dýravelferðarskyni á meintu villifé þ.e.a.s. að smala saman öllu fé án hirðis. En allt fé þarf sinn hirði því ella er það dautt fé. Og betra er að koma dauðu fé í frysti heldur en að hafa það villuráfandi um aflandsafrétti. Þetta hélt ég að allir vissu eftir villtan hrunadans Íslendinga og annarra í kringum gullkálfinn.
En látum það nú vera. Aðalfréttin í þessu er að enn á ný hafa stjórnvöld blekkt almenning og reyndar Alþingi Íslendinga. Hringavitleysan heldur áfram eins og ég hef bloggað um hér frá hruninu fyrir ári. Fyrst átti gengið að rísa þegar Davíð var burtrekinn úr banka seðlanna, seðla sem fækkar óðum. Þá átti bjargráðið að vera kosningar með nýrri hreinni vinstri stjórn. Þá tók við umsóknin í ESB sem átti öllu að bjarga. Og þegar almenningur sá sólina ekki rísa þá benti ríkisstjórnin á Icesave. Þá myndi allt lagast. Svo fórnaði ríkisstjórnin einum ráðherra í refskák sinni við almenningsálitið og alþjóðakerfið. Það átti að skapa betri samningsstöðu að koma með ,,hjarta eins ráðherrans á evrufati" til samningsviðræðna við Breta og Hollendinga. Ráðherrans sem talaði með hjartinu til þjóðarinnar og sagði þessum ,,vinaþjóðum Íslendinga" til syndanna. Og nú á endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands hjá AGS að gera útslagið.
En allt hefur þetta reynst tálsýn hjá spunameisturum ríkisstjórnarflokkanna. Og þegar ekkert af þessu virkar þá benda þeir bara á að allt sé honum Davíð að kenna af því bara. Satt að segja verð ég að viðurkenna að þetta sé orðið frekar niðurdrepandi og þreytandi að geta ekki farið að blogga um bjartari tíma - betri tíð með blóm í haga. Sá tími mun koma en því miður ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar sem er orðin þreytt og ekki á vetur setjandi.
![]() |
Hver bendir á annan í Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nýtt og gamalt fjármagn hringrásarinnar
Miðvikudagur, 28. október 2009
Það var vel til fundið hjá Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra, að halda blaðamannafund í þeim tilgangi boða þjóðinni góð tíðindi. Það var tími til kominn í öllu volæðinu og bölmóðnum sem dynur á okkur landsmönnum daginn út og daginn inn. Í hinu meinta góðæri, sem reyndist þegar upp var staðið græðgisæði þotuliðsins, sögðu útrásarfjölmiðlarnir reglulega frá gífurlegum áhuga erlendra aðila til að fjárfesta á Íslandi og að heimurinn stæði á öndinni af snilld útrásargosanna eins og félagsmálaráðherra nefndi fjárglæframennina á þingi alþýðunnar. Svo kom náttúrulega í ljós að keisarinn var nakinn eins og alþjóð veit og bakvið sýndareignirnar voru bara kúlulán, jöklabréf og glópagull.
Það er hughreystandi að viðskiptaráðherra þekki til fyrirtækja í fjármálageiranum sem hafa áhuga á fjárfestingum hér á landi. Fyrirtækja með nýtt fjármagn eins og ráðherra orðaði það svo skemmtilega. Vonandi er áhugi þeirra ekki bara á að níðast á íslenskum almenningi sem er að sligast undan okurvöxtum bankanna og minnkandi kaupmætti og brátt munu ofurskattar vinstri stjórnarinnar bætast á bak launaþrælanna. Hafa þessi fyrirtæki áhuga á að fjárfesta í stóriðjunni sem stjórnvöld líta hornauga? Eða sjávarútvegsfyrirtækjum sem stjórnvöld vilja veikja til að gera þau auðveldari bráð fyrir Spánverja og Breta, sem sjá tækifærin á ESB miðum þegar blái stjörnufáninn blaktir við stjórnarráðið við hlið styttunnar af Kristjáni Danakonung?
Kannski sjá þessi fyrirtæki sóknarfæri í íslenskum landbúnaði þegar hann verður orðinn umvafinn alltumlykjandi styrkjakerfi ESB. Já, hér mun drjúpa smjör af hverju strái fyrr erlenda fjárfesta þegar Íslendingar hafa slegið enn eitt heimsmetið - að þessu sinni í að komast undir verndarvæng Evrópuríkjanna 27 á nýju Evrópumeti. En kannski koma bara föllnu útrásargosarnir bara aftur með gamalt fjármagn, sem lyktar af Icesave fýlu, sem þeim tókst að koma undan til skattaparadísa eða óskiljanlega fjármálavafninga. Hlutirnir vilja oft fara í hringi í hringrásinni.
Já, það er ekki nema von að Össur sé hress þessa dagana þegar langþráður draumur hans er við dagsbrún.
![]() |
Erlendir bankar með áhuga á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2007-ræða
Þriðjudagur, 27. október 2009
Allt er þetta gott og blessað hjá henni Jóhönnu svo langt sem það nær. Fallegur boðskapur hjá henni til vina okkar og frænda á hinum Norðurlöndunum í anda hátíðarræðu forsetans á nýársdag. Skínandi 2007-ræða. Ræðan er hins vegar flutt í þannig andrúmslofti á Íslandi að hún er hálf absúrd. Gullið tækifæri til að taka til varna fyrir Ísland er farið forgörðum.
Stöðugleikasáttmálinn, eins fáránlega sem það nú hljómar, í uppnámi og annað hrun framundan ef marka má orð hins spaka Villa hjá samtökum atvinnulífsins. Nýfrjálshyggjumaðurinn heimtar aðkomu ríkisins að atvinnulífinu á Nýja Íslandi með þvílíkum þunga að hálfa væri nóg. Maðurinn sem flutti skammarræður um ríkisafskipti og himnaríki hömlulauss frelsis á Gamla Íslandi hér forðum. Og Gylfi, baráttufélagi hans hjá samtökum alþýðunnar, syngur sama sönginn. Að þessu sinni ekki Nallann. Þann baráttusöng syngur Gylfi bara með félögum sínum Össuri og Árna Páli með krepptan hnefann framan í stórkapítalistana á Íslandi eins og frægt er orðið. Allir gætu þeir þó, Gylfi, Össur, Árni Páll og Villi, sungið söng Evrópusambandsins í einum kór svo heyrðist alla leið til Brussel. Það yrði samhljómur sem eftir yrði tekið.
Á sama tíma og ,,íslensk stjórnvöld verða ávallt reiðubúin að standa vörðu um hagsmuni þjóða" við Norður-Atlantshaf, svo vitnað sé í orð forsætisráðherra, þá virðist Ísland vera heldur einmana að bera fram þá frómu ósk. Alla vega stóð enginn vörð um hagsmuni Íslands á ögurstundu nema vinir okkar Færeyingar sem lánuðu okkur án skilyrða vaxtalaust sem hlýtur að vera einsdæmi í alþjóðasamskiptum.
Annars heyrðist hljóð úr horni frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar þar sem þeir skömmuðust út í aðrar Norðurlandaþjóðir að blanda Icesave saman við AGS björgunarpakkann. Og lýstu meira segja yfir vonbrigðum með viðbrögð þeirra flestra. En svo sagði Steingrímur J. raunamæddur að við yrðum bara að láta þetta yfir okkur ganga hvort sem okkur líkað það betur eða verr. Loksins þegar Svíar, Finnar, Danir og Norðmenn voru að fá samviskubit þá gaf Steingrímur J. þeim syndaaflausn í sömu andránni. Og þar með tóku þeir gleði sína að nýju enda vildi Steingrímur J. örugglega ekki eyðileggja móralinn fyrir veisluna um kvöldið.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokkurinn, lét þó þá heyra það umbúðalaust. Þar talaði hann fyrir hönd þorra þjóðarinnar sem hefur fundist hún heldur einmana á þessum síðustu og verstu tímum. Við megum ekki láta kúga okkur til uppgjafar og ánauðar.
![]() |
Aukið samstarf smærri aðildarríkja mikilvægt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Framtíð þjóðar í uppnámi og lykilráðherrar láta sig hverfa
Mánudagur, 26. október 2009
Skuggi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins færist yfir íslenskt atvinnulíf hægt en örugglega. Þessi mynd af þeim Villa og Gylfa koma út úr ráðherrabústaðnum raunamæddir og vonlitlir segir allt sem segja þarf. Atvinna þúsundir manna hanga á bláþræði, AGS vextirnir mergsjúga fyrirtækin og fjölskyldurnar, aumingja krónan er enn í sjokki vegna efnahagsástandsins og sama er hægt að segja um forsvarsmenn stærstu fyrirtækja landsins eftir ,,árásir" ráðherra ríkisstjórnarinnar á undanförnum vikum.
,,Svartsýni eykst með hverri mínútunni" eins og segir í frétt mbl.is og á þetta við um alla þjóðina sem bíður á milli vonar og ótta í þjóðfélagi sem er í hálfgerðri upplausn vegna óstjórnar á undanförnum árum. Og þar virðist hver ríkisstjórnin á fætur annarri toppa þá síðustu.
Og hvað gerir ríkisstjórnin? Hún skellir sér á huggulegan fund með ,,vinum og frændum" okkar á Norðurlöndum sem hafa sýnt ógleymanlegt vinarþel til íslensku þjóðarinnar í tengslum við Icesave málið. Þetta kalla ég rétta forgangsröðun hjá lykilráðherrum ríkisstjórnarinnar! Hefði ekki mátt láta nægja að senda tölvupóst að þessu sinni til vina okkar?
![]() |
Ekkert bólar á yfirlýsingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Jólagjöf vinstri stjórnarinnar til þotuliðsins - Kúlulánið hans séra Jóns afskrifað en meðaljóninn skal borga íbúðalán sitt í topp
Laugardagur, 24. október 2009
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um almenna greiðsluaðlögun og fleira, eins og það er orðið, er í fyrstu sýn þjóðþrifamál. Þetta er það sem fjölskyldurnar hafa beðið eftir til að geta ráðið við efnahagslegu náttúruhamfarirnar í haust. Samkvæmt frumvarpinu eiga afborganir af íbúðalánum að lækka um 17% strax í næsta mánuði. Verðbólgukúfurinn er skorinn ofan af og honum frestað til betri tíma. Í stuttu máli heitir þetta lenginga á lánstímanum sem hefur í för með sér að heimilin borga meira þegar upp er staðið. Í allri fjármálaráðgjöf eru fjölskyldurnar hvattar til hins gagnstæða það er að greiða hraðar niður höfuðstólinn til að eignatilfærslan til fjármagnseigenda verði ekki þess æðislegri.
Ég heyrði í morgun umræðuþáttinn hans Hallgríms Thorsteinssonar í útvarpinu þar sem fyrrgreint frumvarp var til umræðu. Þór Saari virtist hafa kynnt sér best efni þess og satt að segja varð mér um og ó eftir að hafa hlustað á málflutning hans. Það sem stakk mig helst er að frumvarpið sem er kynnt sem hjálpræði við skuldugar fjölskyldur í landinu er einnig samið til að afskrifa hin frægu kúlulán sem þotuliðið tók fyrir hlutabréfum aðallega í einkabönkunum. Það var svo að heyra á Þór, alþingismanni, að þeir kæmu best út úr þessum lögum, því frumvarpið var keyrt í gegn fyrir helgi.
Og svo ætluðu þeir að bæta rjóma (gera skuldaniðurfærsluna skattfrjálsa!) út í skuldaniðurfærslugraut kúlulánþegans en þá varð einhverjum þingmanninum bumbult samkvæmt þessari frétt mbl.is. Merkilegastur fannst mér málflutningur Bjargar Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa VG, sem vildi meina að umrædd frumvarp hafi einungis verið ætlað að bjarga fjölskyldunum út úr skuldavandanum en virtist ekki gera sér fulla grein fyrir að hér er allt undir: Einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki. Eitthvað hefur herútboðið til Vinstri grænna farið ruglast á leiðinni þegar þeim var skipað að ýta á JÁ hnappinn svo Samfylkingarmennirnir gætu stutt foringja VG í Icesave.
Jú, skoðum eftirfarandi texta í nefndaráliti meirihlutans:
Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um sértækar aðgerðir, sértæka skuldaaðlögun, til handa einstaklingum og heimilum dugi almennar aðgerðir ekki til. Ákvæðinu er ætlað að setja meginreglur um viðmið um eftirgjöf skulda og breytingar á skilmálum lánasamninga þegar almenn úrræði duga ekki. Viðmiðin skal nota í samningum kröfuhafa og skuldara og skal það vera markmið slíkra samninga að skuldir séu lagaðar að eignum og greiðslugetu.
Orðalagið ,,að skuldir séu lagaðar að eignum og greiðslugetu" finnst mér magnað. Þetta þýðir að séra Jón Jónsson yfirmaður í Kaupþing sem tók kúlulán í erlendum gjaldmiðli til að kaupa hlutabréf í Kaupþing segjum árið 2005 fyrir 1 milljarð með veði í þeim hefur náttúrulega engar eignir á móti og greiðslugeta hans er sáralítil þar sem viðkomandi er sennilega búinn að missa vinnuna í bankanum. Á þessum árum hefur hann hins vegar rakað inn tugi milljóna ef ekki hundruð í arð. En nú stendur bankinn frammi fyrir því að þessi einstaklingur uppfyllir ákvæði nýju laganna. Ergó: Það þarf að útbúa samning sem lagar skuldir að eignum og greiðslugetu. Sem sagt: Kúlulánið er afskrifað!
Nú hef ég að sjálfsögðu fulla samúð með nafna mínum séra en velti fyrir mér hvort lögin taka ekki inn í myndina allan arðinn sem viðkomandi hefur fengið á undanförnum árum vegna þessara hlutabréfa sem hurfu inn í náttmyrkvið eina haustnóttina. Ég geri mér einnig fulla grein fyrir því að leysa þarf vanda fyrirtækja og einstaklinganna með kúlulánin til koma hjólum atvinnulífsins af stað að nýju, eins og það er orðið í greinargerðinni að mig minnir. Það hefði hins vegar verið betra að aðskilja annars vegar aðstoð við fjölskyldurnar og heimilin og hins vegar aðstoð við fyrirtæki og kúlulánaþega þar sem taka þarf á fjölþættari vandamálum sem tengjast jafnvel heilu byggðalögunum. Í staðinn virðist þessu vera blandað saman vísvitandi til ,,að lauma" björgunarpakka fyrir fyrirtækin og þotuliðið í öldum samúðarinnar með fjölskyldunum í landinu.
Á sama tíma er skrifstofumaðurinn Jón Jónsson sem tók íbúðalán í erlendri mynt fyrir 15 milljónir þegar hann keypti sér íbúð fyrir 40 milljónir. Hann er ennþá í ágætri vinnu og ræður við að greiða af láninu sem er komið upp í 35 milljónir. Hann á ennþá íbúðina þó eign hans hafi lækkað úr 25 milljónum í 5. Samkvæmt ný samþykktum lögum lækkar greiðslubyrði hans vissulega en skuldin við bankann er óbreytt enda ekki vanþörf á þegar afskrifa þarf 1 milljarð af séra Jóni Jónssyni vegna kúlulánsins sem malaði gull á 2007-tímanum.
Mér þætti vænt um að einhver leiðrétti mig ef þetta væri ekki réttur skilningur. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, fékk að svara ,,ásökunum" þingmannsins en að mínu áliti staðfesti hann málflutning Þórs Saari um ,,jólagjöf" vinstri stjórnarinnar til þotuliðsins.
Viðbót á sunnudegi þann 23.10: Ég vek athygli á bloggi Marinó G Njálssonar um lögin en hann hefur komið fram fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna. Eftir að hafa farið yfir athugasemdir Hagsmunasamtakanna þá er málið enn alvarlegra en ég hélt. Í athugasemd á bloggi Jóns Inga Cæsarssonar eins harðlínumanns í klappliði ríkisstjórnarinnar skrifar Marinó orðrétt um lög Árna Páls (undirstrikanir mínar):
Jón Ingi, Þór Saari fer með rétt mál. Það er félagsmálaráðherra sem er að blöffa. Samkvæmt lögunum eru ekki settar neinar skorður á það hvers eðlis skuldirnar eru og það er ekki sett þak á þær. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er sérstakelga tekið fram að verðbréfa- og afleiðusamningar falli undir lögin. Ég held að ég sé mjög vel upplýstur um efni laganna, enda samdi ég umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna. Í umsögninni bendi ég á þetta og á fundi með nefndinni, þá spurði ég nefndarmenn hvort þetta væri virkilega það sem þeir vildu.
Þessi lög eru skandall. Þau gera ekkert umfram það sem áður mátti nema að gera hina fáránlegu greiðslujöfnun verðtryggðra lána lögbundna nema fólk segi sig frá henni. Það hefur ekkert bannað bönkum að gera samninga við viðskiptavini sína og slíkir samningar hafa verið gerðir. Munurinn er að núna mega þeir hafa samráð um það hvernig þeir ætla að fullkomna eignaupptökuna sem þeir hafa staðið fyrir undanfarin ár.
...
Ég veit ekki hver samdi lögin, en þau eru merkileg á margan hátt. Bara það að félagsmálaráðherra sé að skipta sér að skuldamálum fyrirtækja er alveg með ólíkindum. Ég vissi ekki að atvinnurekstur í landinu væri á hans könnu, þó málefni launafólks séu það.
![]() |
Hætt við breytingu á skattalöggjöf í skyndi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.10.2009 kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fjárglæframenn fá syndakvittun frá félagsmálaráðherra
Föstudagur, 23. október 2009
Þá liggur það fyrir og það á fundi alþýðunnar. Fjárglæframennirnir, sem settu þjóðina á hausinn, hafa fengið syndakvittun frá velferðarráðherranum í ríkisstjórn vinstri stjórnarinnar. Þetta rímar við orð forsetans, og fyrrverandi formanns Árna Páls í Alþýðubandalaginu, sem bar blak af þeim út í heimi um daginn.
Ræða Árna Páls er merkileg fyrir þær sakir að þar rekur hann ástæður hrunsins og síðan hvernig ríkisstjórnin hyggst fylla galtóman ríkiskassann að nýju. Um ástæður hrunsins segir hann:
En þrátt fyrir að hlutur einstaklinga sé mikill í hruninu á það þó dýpri rætur. Satt að segja virðist þeim sem helst báru ábyrgð í mun að endurskrifa söguna á þann veg að nokkrir útrásargosar hafi verið eina ástæðan fyrir hruninu. Það er vissulega rétt að sumir menn fóru mjög offari, en sú óhófsveisla var ekki höfuðástæða hrunsins. Undirrót hrunsins var oftrú á markaðshagkerfið og barnaleg sýn á það að hagkerfið væri eimreið sem ekki gæti farið út af sporinu.
Fjárglæframennirnir eru að áliti Árna Páls bara útrásargosar sem fóru mjög offari. Þeir verða væntanlega ekki dæmdir fyrir það og fá þess vegna syndakvittun frá vinstri stjórninni. Nei, þeir settu ekki íslensku þjóðina á hausinn - það var oftrúin á markaðshagkerfið og barnaleg sýn á óskeikuleika þess. Jón Sigurðsson, gúrú Samfylkingarinnar í efnahagsmálum, sagði líka eftir hrunið að orsök þess lægi í kerfislægum vanda. Kannski verður þá kerfið sett bakvið lás og slá, hver veit? Eða markaðshagkerfið?
Síðar í ræðunni kemur fram að ekki hafi verið innistæða fyrir skattalækkunum á árunum 2005-2007 og nú sé komið að skuldadögum hjá alþýðunni sem muni verða látin greiða þessa lækkun á sköttum sínum til baka. Vinstri stjórnin muni sjá til þess eða eins og Árni Páll sagði orðrétt:
Raunsætt virðist að tekjuskattslækkanir undanfarinna ára gangi til baka enda ekki innstæða fyrir þeim. Þá eru áform upp um nýja skattstofna sem eru í samræmi við ný viðhorf og áherslur ríkisstjórnarinnar í auðlinda-, orku- og umhverfismálum.
Skattahækkun er skattahækkun!
Þannig hefur verið fundið upp nýtt hugtak um skattahækkun á launafólk eða það er ,,að tekjuskattslækkanir ... gangi til baka". Ég á von á því að alþýðuhetjan Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hafi hér staðið upp og klappað ákaft fyrir flokksfélaga sínum fyrir framan fulltrúa alþýðunnar.
Og svo kom rúsínan í pylsuendanum og hlýnaði þá öllum vinstri grænum um hjartarætur.
Afkomubati sjávarútvegsins á síðasta ári hleypur á tugum milljarða. Þessi afkomubati er fenginn með fórnum ykkar og ykkar félagsmanna. Gengisfellingin færði peninga frá íslensku launafólki til sægreifa og stóriðju. Grátkór og kveinstafir útgerðar og álfyrirtækja er háværari og ágengari á sama tíma og launafólk hefur stillt kröfum í hóf og sýnt mikið þolgæði. Það er íhugunarefni. Ef sjávarútvegur og stóriðja geta ekki þolað hóflega innköllun veiðiheimilda og hóflega auðlindaskatta er spurning hvort við séum yfir höfuð að veðja á réttan hest. Verðum við þá ekki að leita annara kosta um framtíðaratvinnuuppbyggingu?
Verður næsta afrek vinstri stjórnarinnar að hnésetja eða hrekja úr landi helstu máttarstólpa íslensk atvinnulífs sem ennþá standa? Atvinnulaust fólk mun ekki borga Icesave samning ríkisstjórnarinnar, eða hvað?
Fjórfrelsið
Það sem vekur mig einnig til umhugsunar eftir þessa merkilegu ræðu Árna Páls á þingi alþýðunnar er hvort hann hafi ekki áttað sig á að allir þeir ,,afarkost[ir] óforskammaðra kapítalista" hafi komið frá Evrópusambandinu á síðustu árum. Það eru kröfurnar um fjórfrelsið sem Árni Páll virðist vera að kveinka sér undan í ræðunni. Hann var sannanlega einn af lykilmönnum Jóns Baldvins, Jóns Sigurðssonar og félaga sem komu tilskipunum Evrópusambandsins inn í innlenda löggjöf með samþykkt EES samningsins. Telur ráðherrann að þetta muni ganga til baka með aðild Íslands að Evrópusambandinu eða ætlar hann kannski að breyta stefnu sambandsins í þessum málum við eða eftir inngöngu, eins og mér skylst að breyta eigi sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB?
Með þetta í huga er hollt að lesa eftirfarandi tilvitnun sem tengist Icesave umræðunni og kemur fram í klassískri kennslubók Desmond Dinan um Evrópusambandið Ever Closer Union (2005, bls. 398):
The White Paper proposed eight directives intended to allow banks incorporated in one member sate to operate across national borders without having to seek authorization from national regulatory authorities in each member sate. Clearly, member states would have to agree to common rules and criteria for judging the soundness of banks in order to develop the neccessary mutual confidence to allow the home-country control system to work. The second banking directive, which entered into force in January 1993, established a single banking license, valid throughout the EU, allowing banks to open branches anywhere without additional authorizations.
Stórir og pínulítlir karlar
Visir.is fjallar um viðbrögð LÍU við ræðu Árna Páls og Friðrik J. telur Þursaflokkinn svara best ræðu ráðherrans með laginu - Þú ert pínulítill karl (sjá hér að neðan)! Það er ekki ofsagt að ríkisstjórnin hafi sagt atvinnulífinu stríð á hendur.
![]() |
Gagnrýna Árna fyrir ASÍ-ræðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Tónn samstöðunnar hljóðnaður - Fælingarmáttur Davíðs
Fimmtudagur, 22. október 2009
Það sem er sorglegast við afgreiðslu ríkisstjórnarinnar á Icesave samningnum er að tónn samstöðunnar, sem heyrðist hljóma frá Alþingi Íslendinga í sumar, er hljóðnaður. Í staðinn hefur stjórnin blásið í herlúðra. Stríð er skollið á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Og eins og í hefðbundnu stríði þá hafa ,,þegnar" þeirra landa sem eiga í stríði ekkert val. Skotgrafir eru grafnar og allir eru komnir ofan í skotgrafirnar. Skotin ganga á milli eins og við höfum orðið vitni frá þeim tíma sem Steingrímur J. og Indriði aðstoðarmaður hans komu heim með fyrirvara Breta og Hollendinga við fyrirvara Alþingis við fyrirvara Svavarssamningsins. Já, fyrirvarar á fyrirvara ofan og ekki nokkur leið er fyrir almenning í landinu að átta sig á hvað er rétt og hvað er rangt. Enda skiptir það orðið engu máli þegar stríð er skollið á og allir eru komnir í skotgrafirnar. Það verður hins vegar ekki um það deilt að lögum sem Alþingi Íslendinga setti í ágúst var breytt af embættismönnum erlendra ríkja.
Mér leiðist að þurfa velja mér lið og vera hrakinn ofan í skotgröf stjórnmálaelítunnar á Íslandi. Það er ekkert árangursríkara til að gelda alla frjóa stjórnmálaumræðu. Það sjá þó allir sem vilja sjá að allsherjarherútboð er í gangi og liðhlaupar eru ,,skotnir" niður miskunnarlaust. Hershöfðingi VG hefur náð að skipa her sínum í eina fylkingu við hlið Samfylkingarinnar. Stjórnarherinn þrammar í einni fylkingu inn í Evrópusambandið með Össur í fylkingarbrjósti. Fælingarmáttur Davíðs Oddssonar er notaður sem oft áður til að skapa einingu hjá vinstri mönnum.
Í stríði er ekki barist með rökum og sanngirni heldur fá hinir pólitísku áróðursmeistarar að leika við hvern sinn fingur með pólitískum leikfléttum og leiksýningum. Í þannig andrúmslofti er hátíð í bæ hjá ráðherrum eins og Steingrími J. og Össuri sem kunna að flétta saman fortíð og refskap í ræðum sem kasta málum á dreif. Málið er ekki lengur Icesave. Stríðið snýst um að verja fyrstu vinstri stjórnina með kjafti og klóm og tryggja að erkióvinurinn komist ekki aftur til valda. Þetta er hlutverk VG en hlutverk Samfylkingarinnar er öllum kunnugt. Herfræði þeirra er tær snilld.
Almenningur furðar sig hins vegar á því að stjórnmálamenn okkar eyða kröftunum í innbyrðis deilur í stað þess að sameinast gegn hinum raunverulegum andstæðingum þjóðarinnar í þessu máli. Viðsemjendur okkar sem hafa nú tryggt að þeir fá hverja evru til baka með vöxtum hljóta að furða sig á og fagna að sama skapi þessari hernaðartaktík Íslendinga. Auðvitað kemur þetta þeim ekki á óvart enda horfðu þeir upp á svipaða takta í fjármálastarfsemi þjóðarinnar á erlendu grundu. Íslendingar eru meistarar í fífldirsku og skammsýni í fjármálum.
Það kann að vera að Íslendingar séu heimaskítmát í Icesave hryllingnum vegna tengingar við neyðaraðstoð AGS sem hótar okkur öllu illu ef við látum ekki undan. Þannig er vel hægt að skilja marga stjórnarliða sem fórna höndum enda hefur þeim verið talin trú um að í þessu máli sé ekkert val lengur. Tíminn er á þrotum. Á því ber ríkisstjórnin alla ábyrgð. Hún hefur klúðrað Icesave málinueins og ég skrifaði um 19. september sl.
Ég vil hins vegar trúa því að alþingismenn hafi alltaf val, og beri í raun skylda til, um að standa gegn ranglæti og ólöglegri ,,árás" á sjálfstæði þjóðarinnar. Framkoma Breta, Hollendinga og AGS í Icesave er nefnilega ekkert annað en árás á Ísland. Og íslensk stjórnvöld svara þessari árás og kúgun sem hófst með hryðjuverkalögum Breta í haust með orðunum:
Hvar eigum við að skrifa undir stríðsskaðabæturnar og uppgjöfina!
Og eins og í öðru stríði þá er það almenningur sem borgar brúsann en ,,stríðsglæpamennirnir" eru löngu flúnir í felur með illa fengið fé.
![]() |
Þung orð falla um Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Stöndum með tjáningarfrelsinu
Fimmtudagur, 22. október 2009
Tjáningarfrelsi er frelsi til að tjá skoðanir sínar án þess að eiga á hættu að vera refsað fyrir þær. Við eigum að virða þennan rétt og berjast gegn öllum hömlum sem gagna gegn þessum grundvallarrétti í réttarríkinu.
Mikið er nú gert úr því að Björn Bjarnason hafi tjáð sína skoðun á skoðunum Egils Helgasonar. Hér eru á ferð tveir skoðanaglaðir einstaklingar sem eru á öndverðum meiði í flestum málum. Þó hefur Egill alla vega einu sinni fengið Björn í þátt sinn til að spjalla um stjórnmál. Björn má hafa þá skoðun að Egill fari heldur óvarlega með hlutleysi RÚV, sem er ríkisfjölmiðill sem er rekinn af skattgreiðendum hvort sem þeir eru stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eða Samfylkingarinnar. Við skattgreiðendur ráðum engu um það hvort við viljum styrkja RÚV eða borga í Framkvæmdarsjóð aldraða. Þess vegna gerum við þá sjálfsögðu kröfu að RÚV standi í fylkingarbrjósti ,,frjálsra" fjölmiðla sem upplýsi og vari almenning við ef hætta steðjar að almannaheill. Þetta hlutverk held ég að RÚV taki mjög alvarlega þó að við Björn getum tjáð okkar skoðun að stundum sé vinstri slagsíða á fréttamatinu. Það kann að vera rangt mat í augum þeirra sem eru vinstra megin í stjórnmálunum sem hugnast það vel ef fallega er talað um félagshyggjufólk en illa um frjálshyggjupakkið. Og hægri menn hugsa þetta svo á hinn veginn.
En hættulegust er innrætingin í fjölmiðlum. Þegar fréttamatið er vísvitandi skekkt, sumum fréttum er sleppt en aðrar teknar sem falla betur að málstaðnum. Þannig fréttamennska er náttúrulega ekkert annað en lymskulegur áróður. Við þekkjum þannig fréttamat hjá ónefndum fjölmiðlum sem lofuðu fatasmekk keisarann sem var í engum fötum. Þeim tókst að telja okkur trú um annað.
Hins vegar verður að segjast að Egill Helgason er þáttastjórnandi sem ber af á Íslandi. Hann fær viðmælendur til að tjá sig vandræðalaust, er skoðanafastur og við vitum nokkurn veginn hvar skoðanir Egils liggja. Lesum það alla vega á blogginu hans. Hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur - yfirleitt. Að vísu velur hann stundum viðmælendur til að þjóna málstaðnum og það er miður enda er það lúmskur áróður. Það er þó fremur undantekning en regla.
Þeir sem vilja þagga niður í Agli Helgasyni eru að leika sér að eldinum og eru algjörlega á villigötum. Í fyrsta lagi þaggar enginn niður í kappanum en í annan stað eru slíkir tilburðir andlýðræðislegir. Það á enginn að hafa vald til þess að takmarka tjáningarfrelsið eða frelsi fjölmiðla. Og þó að ég sé ekki alltaf sammála Agli Helgasyni þá skal ég hvar sem er berjast fyrir tjáningarfrelsi hans. Það er helgur réttur.