Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Rússarnir koma!

Hér er sungið um heilagt stríð, að þjóðin vakni og rísi. Hvatningarsöngur í stríðinu, Священная война - Svyaschennaya voina, gegn Þjóðverjum 1941-45. Í söngnum er sungið um baráttu við fasísk öfl. Eitthvað minnir mig að núverandi ráðamenn í Moskvu hafi talað um að komi yrði fasistum frá völdum í Georgíu.


Staða Rússlands sterk

rússlandsforsetiAðgerðir Rússa koma undirrituðum ekki á óvart samanber skrif mín á blogginu í fyrra. Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að Rússar ætla sér að styrkja stöðu sína á umráðasvæði sínu, eða sem ég kallaði ,,lífsrými" sínu, hvað sem alþjóðakerfið tautar og raular. Yfirlýsing NATO var allt of veik til þess að Rússar tækju hana alvarlega, og það er nú staðreynd, því miður, að NATO hefur sofið á verðinum. Það er freistandi að leggjast í friðarferðir til Rússlands í þeirri von að róa megi rússneska björninn. Allt slíkt verður þó aðeins óttast ég til að Rússar kaupi sér lengri tíma til að koma sér betur fyrir. Aðalmálið er að átta sig á hvað liggur að baki stefnu einræðisstjórnarinnar í Rússlandi.

Það verður að segjast eins og er að staða Rússlands er sterk. Þeir hafa gert hernaðarbandalag við Kína, búa yfir gífurlegum olíuauði, hafa barið niður alla andstöðu innanlands með árásum á stjórnarandstöðu og frjálsa fjölmiðla, þeir hafa sagt upp samningum um takmörkun hefðbundins herafla, hafa slitið samstarfinu við NATO og hafa byggt upp öflugt herveldi.

Allt vinnur með Rússum. Því á sama tíma er efnahagskreppa á Vesturlöndum, olíuverð í hæstu hæðum, forsetakosningar í Bandaríkjunum, Bandaríkjastjórn rúinn öllu trausti í alþjóðakerfinu og Evrópa er háð Rússum í orkugjöfum og efnahagslega.

Hins vegar er það spor í rétta átt að leiðtogar Evrópu hafa loksins vaknað við vondan draum og svara útþenslustefnu Rússa fullum hálsi. Sjá t.d. EU leaders condemn Russia in shadow of Kosovo á fréttavef Evrópusambandsins. 


mbl.is Rice harmar ákvörðun Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viljinn til að sigra

davidandgoliathgv1Það er ótrúlegt að horfa á strákana okkar í handboltaliðinu leika á Ólympíuleikunum í Kína. Viljinn til að sigra er svo sterkur að það sést í hverju spori - hverjum andlitsdrætti - hverri sókn og vörn. Með jákvæðu hugarfari yfirspila strákarnir öfluga mótherja, sem verða að játa sig sigraða.

Íslenska handboltaliðið gefur tóninn fyrir stjórnmálamennina sem stjórna landinu og borginni. Það er bara að spýta í lófana, byggja upp jákvætt hugarfar og búa yfir vilja til að sigrast á efnahagsvandanum. Handboltaliðið okkar frá smáþjóð leggur lið stórþjóða eins og Rússlands, Þýskalands og nú Póllands. Þetta minnir á baráttu Davíðs við Golíat!

Þjóðin fylgist með og föstudagurinn verður spennuþrunginn.

 


mbl.is Jia-you Is-land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veik yfirlýsing frá NATO

Eftir að hafa lesið yfirlýsingu NATO vegna innrásar Rússa inn í sjálfstæða Georgíu þá verður að segjast að allt hefur verið gert til að veikja orðalagið til styggja ekki Rússa um of. Einræðisöfl í Rússlandi og lýðræðissinnar innan stjórnarinnar í Moskvu rýna vel í yfirlýsingar eins og þessar til að meta hve langt megi ganga. Miðað við þessa yfirlýsingu þá geta Rússar haldið áfram óhræddir í þeim leiðangri að sýna mátt sinn og megin. Friðarsinnar í Rússlandi fá ekki stuðning með þessari veiku yfirlýsingu NATO ef þeir hafa vonast eftir því.

Samræðustjórnmál duga skammt gegn útþenslustefnu vaxandi stórvelda.


mbl.is Skýr skilaboð til Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Lebensraum" Rússlands verður til

hitlerÞað hefur legið nokkuð lengi fyrir að einræðisstjórn Pútíns í Rússlandi dreymir stórveldisdrauma. Með olíuauði, vaxandi óstöðugleika í alþjóðakerfinu og yfirstandandi forsetakosningar í Bandaríkjunum sjá Rússar tækifæri sem þeir munu nýta sér ef Vesturveldin standa aðgerðalaus hjá.

Georgía er innan ,,lífsrýmis" (þ. lebensraum) Rússlands með sama hætti og Austurríki og Rínarhéruðin voru í Þýskalandi Hitlers. Nasistar notuðu nákvæmlega sömu rök og Rússland Pútíns þ.e. að íbúar væru þýskir þegnar sem þeir bæri skylda til að verja. Þegar Þjóðverjar hófu síðustu heimstyrjöld þá var skýringin að Pólverjar hefðu hafið átökin og þýski herinn hefði svarað ögrunum pólska hersins. Rímar þetta ekki vel við skýringar Rússa á af hverju þeir réðust inn í Georgíu? Allir vita að Rússar höfðu undirbúið innrás í Georgíu í langan tíma og uppsögn Rússlands á gagnkvæmum samningi uppbyggingu hefðbundins heraflputina á síðasta ári var liður í hervæðingu Rússlands. Sjá t.d. blogg mitt frá 5. maí á síðasta ári um Rússland Rússland Pútíns og Þýskaland Hitlers.

Vesturveldin undir forystu Bandaríkjamanna og NATO verða að koma þeim skilaboðum til stjórnvalda í Rússlandi að útþenslustefna nýs Rússaveldis verði ekki liðin. Viðbrögð þeirra við innrás Rússa inn í Georgíu verða prófsteinn á hvort takist að stöðva einræðisöflin í Rússlandi.


mbl.is Munu ekki líða nýtt járntjald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eiga Margrét og Marsibil sameiginlegt?

Hvað er sameiginlegt með Margréti Sverrisdóttur og Marsibil Sæmundsdóttur? Jú, þær hræðast samstarf við borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins og upphafsstafir þeirra eru þeir sömu MS! Þær stöllur eiga það einnig sameiginlegt að segja skilið við þann flokks sem þær buðu sig fram fyrir í síðustu borgarstjórnarkosningum. Og í fjórða lagi þá binda þær trúss sitt við Tjarnarkvartettinn sem stjórnaði í 100 daga án skriflegs málefnasamnings.

Ótrúleg tilviljun, eða hvað?

 


mbl.is Marsibil segir sig úr Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bændur geta ,,virkjað vind"

vindmyllurÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og orkumálaráðherra með réttu, er stjórnmálamaður sem lætur til sín taka og setur ekki auðum höndum. Þannig stjórnmálamenn eru og verða alltaf umdeildir. Þeir lita tilveruna skærum litum í gráma hversdagsins.

Össur væri einmitt maður sem væri vís til að kynna sér möguleika vindorkubúskapar fyrir hinu dreifðu byggðir, enda er hann byggðamálaráðherra. Hann lætur sig dreifbýlið varða eins og ,,samvinnumaður" af gamla skólanum.

Ég las áðan á WashingtonPost fréttavefnum í dag um uppbyggingu Colorado fylkis í BNA á endurnýjanlegum orkugjöfum þ.e. vindorku og sólarorku. Þar er talað um vindorkubýli (e. wind farm) sem eigi að leysa af hólmi eldri orkugjafa í olíu, kolum og gasi.

Það kemur ekki á óvart að lesa um að olíufyrirtækin gömlu hafi unnið og vinni af kappi gegn þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Hins vegar Colorado fylki tekist að byggja upp vindorku- og sólarorkubú sem sjá íbúum fyrir um 10% af nauðsynlegri orku og stefnt sé að því að þetta hlutfall verði komið í 20% árið 2020. Það kemur einnig fram hve mikilvægt sé að stjórnvöld hlúa að þessum vaxtarsprota með styrkjum og hagstæðu skattaumhverfi.

Á Íslandi er nóg landrými og nægur vindur. Vissulega eru til aðrir endurnýjanlegir og umhverfisvænir orkugjafar svo sem  fallvötnum og gufan. Með vind- og sólarorku opnast nýjar dyr fyrir landsbyggðina og bændur. Væri ekki rétt hjá Össuri að leita til Dana um ,,þróunaraðstoð" í þessum málum til að virkja aðra krafta en krafta fallvatna þannig að bændur geti ,,virkjað vind" í óræktuðu landi sínu? Þingeyingar ættu að njóta forgangs að sjálfsögðu.


mbl.is Össur: Guðni sannkallaður hvalreki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækkum frekar útsvarið

Ég átta mig ekki alveg á þessum áhuga Gunnars B (B-ið vinsælt í dag þegar við höfum Hönnu B og Óskar B í Reykjavík!) bæjarstjóra á að byggja óperuhús í Kópavogi. Í sjálfu sér falleg hugsun en spurning hvort Kópavogsbúar hafa efni á svona lúxus. Einkaaðilar halda að sér höndum á þessum víðsjárverðu tímum í efnahagsmálum og meiri líkur en minni að Kópavogsbúar þurfi að kosta bygginguna og rekstur óperuhússins. Hefði ekki verið skynsamlegra að nota þetta fjármagn til að lækka álögur á Kópavogsbúa?

Ég hef áður gagnrýnt Gunnar bæjarstjóra í greinum í Mogganum fyrir það að láta ekki útsvarsgreiðendur í Kópavogi njóta árangurs af góðri fjármálastjórn bæjarins á undanförnum árum með lægri útsvarsprósentu. Það er full ástæða til að minna á þetta núna enda hlýtur þetta að vera kjarninn í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Skynsamleg fjármálastjórn, traust velferðarþjónusta við bæjarbúa og hóflegir skattar. 


mbl.is Tillaga Arkþings hlutskörpust í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djarfur sóknarleikur hjá Hönnu Birnu

Ég held að allir óski þess, líka Kópavogsbúar eins og ég, að ,,ruglinu" í borgarstjórn Reykjavíkur fari að ljúka. Ástandið við tjörnina hefur of lengi verið með þeim hætti að stjórnmál hefur sett niður. Borgarfulltrúarnir allir með tölu - allra flokka - bera fulla ábyrgð og örugglega hefur mörgum liðið illa vegna þess hvernig mál hafa þróast. Ennfremur hefur málflutningur oddvita flokkanna oft á tíðum verið ósannfærandi.

Sjálfstæðisflokkurinn tók mikla áhættu með skipun þess meirihluta sem nú er allur. Fífldirfska segja sumir, aðrir gætu sagt að hyggindi hafi ráðið för og enn aðrir hugsunarleysi.

Hvað sem því líður þá liggur fyrir niðurstaða í málinu. Eff borgarstjórunum var velt úr sessi - Ólafi F. og Jakobi F.

Hanna Birna Kristjánsdóttir stígur fram með Óskar B. sér við hlið og þau hrista af sér fortíðina. Báðum mæltist vel í viðtölum á leið í meirihlutaviðræðurnar í kvöld. Ekkert hik og engin vandræðaleg augnablik eins og oft hefur einkennt talsmenn fyrri meirihluta. Bros og ákveðin svör mættu fréttamönnum af þessum nýju oddvitum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, nýr borgarstjóri, hefur leikið djörfum sóknarleik í refskák borgarmálanna og allar líkur eru á því að uppskeran verði gjöful fyrir hana og Sjálfstæðisflokkinn.


mbl.is Hanna Birna borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var enginn í brúnni á kútter Islandia?

Með þessum skrifum tek ég við að blogga að nýju eftir um ársfrí. Það er fróðlegt að sjá hvernig bloggheimum hefur vaxið ásmegin með breyttu þjóðfélagi. Hér lesum við um hvað sé í uppsiglingu í landsmálunum - áður en fréttamiðlarnir skrifa fréttirnar. Í bloggheimum lifir lýðræðið og hverjum og einum ber skylda til að láta til sín taka. Það er ekki nóg að lýsa skoðunum sínum á kaffistofunni, þó það geti verið ágætt í sjálfu sér.

En svo ég snúi mér að fréttinni um Sparisjóð Mýrasýslu. Það er ótrúlegt að á aðeins einu ári, eða frá því ég pikkaði síðast inn á Moggabloggið mitt, þá hafi tugir milljarða horfið úr hagkerfinu. Bubbi Mortens "söng" frá sér allan sparnaðinn, virðuleg fjárfestingafélög glötuðu öllu og sparisjóðir, sem töldust stolt sinna byggðalaga, lýsa nú yfir að sjóðir samfélagsins séu tómir.

Þessi þróun minnir óneitanlega á siglingu Titanics, sem sagt var ósökkvandi, en vegna óvarkárni og engrar haldgóðrar viðbragðsáætlunar þá fór sem fór. Hvað sögðu greiningadeildir bankanna við viðvörunarorðum um að það stefndi í brotlendingu hagkerfisins vegna óhagstæðra innri og ytri skilyrða? Fulla ferð áfram - það er ekkert að óttast! Hlustið ekki á Dani - þeir eru bara afbrýðisamir! (Mig minnir að akkúrat fyrir ári síðan hafi greininadeildir bankanna spáð um 30% ávöxtun hlutabréfa árið 2007).

Var enginn í brúnni á kútter Islandia þegar við nálguðumst ísröndina? Voru allir að taka þátt í veislunni við höfnina með Elton John?

Spyr sá sem ekki veit.

 


mbl.is Fjölmenni á íbúafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband