Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Velferðarkerfið verður að verja í lengstu lög

Eitthvað finnst mér ekki ganga upp í málflutningi hins nýja forstjóra Landspítalans. Það verður ekki komist hjá því að draga verulega úr þjónustu við borgarana ef hugmyndir hennar ganga eftir nema þá hugmyndin sé að stórauka gjaldtöku. Eru þetta skilaboðin sem stjórnvöld ætla að senda á þessum tímum? Byrjum að skera niður í þjónustu við þá sem eru veikir og þarfnast umönnunar velferðarkerfisins? Þjörmum nú að starfsfólki í umönnunarstéttum, sem fórnaði sér í láglaunastörfum í opinbera heilbrigðiskerfinu meðan fjármálageirinn sveif á vængjum sýndarveruleika í launum og kaupréttarsamningum?

Nei, ég held að nýji forstjórinn hafi þarna misstígið og ætlað að slá keilur hjá yfirboðurum sínum, sem eru nýbúnir að ráða hana til starfa. Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin ætli sér að bera þarna fyrst niður í niðurskurði og aðhaldsaðgerðum. Það er vissulega eftir mestu að slægjast í heilbrigðiskerfinu þegar litið er til upphæða í ríkisrekstri. Hér hljóta þó að gilda orð ráðherra, sem hafa sagt að velferðarkerfið verði varið í lengstu lög. Auðvitað er það ekki auðvelt verk að finna lausnir í þessu árferði en það leynast alltaf tækifæri í áföllum. Við þurfum bara að sjá og nýta okkur þau.


mbl.is Uppsagnir ekki ákveðnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknin mikilvægur þáttur í sáttaferlinu

Pólitísk kosin bankaráð eru svona eins og margt annað í þjóðfélaginu í dag afturhvarf til fortíðar. Það hefði þurft að segja sumum það tvisvar að 7. nóvember á því Herrans ári 2008 væru stjórnmálaflokkar að kjósa í bankaráð þriggja ríkisbanka, búið væri að strika yfir einkavæðinguna með nokkrum pennastrikum, eins og hún hefði aldrei orðið, og fjármálakerfi Íslands væri í rúst. Skuldir þjóðarbúsins væru margföld þjóðarframleiðsla og verðgildi íslensku krónunnar fyrir utan landssteinana væri næstum 0 (skrifa núll). Það er ekki nema von að spurt sé: Hvað gerðist eiginlega?

Svörin láta á sér standa. Enginn axlar ábyrgð - ennþá. Í dag tilkynntu Geir og Bjöggi að þrjár rannsóknir færu í gang. Allt skulu rannsakað. Allir sitji við sama borð. Allir stjórnmálaflokkar hafi hönd í bagga. Svona á að vinna. Þetta er mikilvægt skref í sáttaferlinu. Rannsóknin verður að vera hafin yfir allan vafa og um hana verður að vera full sátt í þjóðfélaginu. 


mbl.is Ný bankaráð skipuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband