Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
Ísland fyrst í röðinni
Sunnudagur, 26. október 2008
Í öllu svartnættinu í efnahagsmálum þá er það ljós í myrkrinu að Ísland hafi náð samningum við IMF á undan öðrum. Það er mikilvægt í ljósi þess að önnur ríki eru farin að banka á dyrnar hjá sjóðnum. Síðan er að hafa hröð handtök í að fá lán hjá vinum okkar á Norðurlöndunum sem bíða þess eins að beiðni komi frá íslenskum stjórnvöldum.
Það róaði mig að sjá að Friðrik Má Baldursson, prófessor, leiddi viðræðurnar við IMF. Ég átti þess kost að kynnast vinnubrögðum hans í Fjarskiptasjóði og ljóst að þar er traustur maður á ferð.
![]() |
Úkraína hlýtur aðstoð frá IMF |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Breska heimsveldið ræðst á eitt elsta lýðræðisríki heimsins
Laugardagur, 11. október 2008
Ef ekki er tími til að blogga núna til að stappa stálinu í hvern annan þá verður það aldrei.
Ísland hefur orðið fyrir gífurlegri blóðtöku í fjármálakreppunni fyrst þjóða og svo um munar. Allir þjóðarbankarnir farnir, stærstu fyrirtækin í rúst og fjármál heimilanna í uppnámi. Ég hef örugglega gleymt einhverju í þessari upptalningu en ekki þjónar tilgangi að eltast við það í miðri krísunni. Við komust í gegnum þetta óveður eins önnur. Ríkisstjórnin undir forystu Geirs H. Haarde hefur staðið sig vel í að taka á vandanum með setningu neyðarlaganna og í kjölfar þeirra. Það er ekki öfundsvert hlutverk sem stjórnvöld eru í þessa dagana og eina rétta sem við gerum núna er að standa saman og styðja við bakið á ríkisstjórninni á næstu dögum og vikum.
Ofan á allt annað ræðst breski forsætisráðherrann á Ísland og Íslendinga af fádæma hrottaskap. Beitir hryðjuverkalögum á okkur, ræðst inn í íslensk fyrirtæki og kemur þeim um koll. Flaggskip íslenska fjármálakerfisins liggur í valnum og nýfengið lán þjóðarinnar til bankans upp á stjarnháa tölu gufar upp í einu vetfangi. Íslendingar í útlöndum eru í stöðu hryðjuverkamanna og settir á sama bekk og Bin Laden og félagar. Breska heimsveldið sýnir mátt sinn og megin á eitt elsta lýðræðisríki heimsins og það þótt ráðherra í ríkisstjórn Íslands sé félagi í Verkamannaflokknum í Bretlandi. Er Össur genginn úr flokknum?
Auðvitað hlýtur ríkisstjórn Íslands að svara þessu vinabragði Gordon Brown af fullri hörku.
![]() |
Hvetur til aðstoðar við Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Harður heimur kapítals
Mánudagur, 6. október 2008
Ávarp forsætisráðherra og eftirleikurinn af því minnti helst á þátt í 24 spennuþáttunum. Eini munurinn var að allir landsmenn voru meðleikendur í þættinum að þessu sinni.
Það er eðlilegt að finna fyrir reiði á þessum degi en það stoðar lítt. Gert er gert - svona eins og þegar börnin manns meiða sig vegna óvarkárni. Þá byrjar maður á því að setja plástur á sárið og hughreysta. Skammirnar geta komið seinna.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, var hetja dagsins. Hann kom fumlaust fram, talaði af yfirvegun og festu. Ég er ekki maður til að leggja dóm á neyðarlögin frekar en flestir landsmenn en tilgangurinn helgar meðalið. Hagsmunir almennings og heildarinnar eru í fyrirrúmi og það var hughreystandi að hlusta á viðtal Helga Seljan við Jóhönnu Sigurðardóttur, trygginga- og félagsmálaráðherra. Ef einhverjum er treystandi fyrir velferð almennings þá er það henni.
Það hefur verið erfið ákvörðun að stíga það skref sem stigið var í dag af ríkisstjórninni. Fjöldi manns og fyrirtækja gætu tapað fjármunum. Útlendir lánadrottnar tapa þó mestu býst ég við. Aðgerðin gekk út á að losa líkið úr lestinni svo sigling þjóðarskútunnar gæti haldið áfram.
Það reynir á starfsfólk fjármálaeftirlitsins á næstu dögum og vikum. Fjármálaeftirlitið fær gífurleg völd og heldur í raun á fjöreggi þjóðarinnar. Væntanlega þurfa stjórnvöld að auka fjárheimildir til eftirlitsins til þess að það geti sinnt hlutverki sínu hratt og fumlaust.
Svo tek ég undir orð Guðna Ágústssonar á Alþingi í dag um orð sjómanna við sjósetningu í brimgarðinum:
Ýtum úr vör og Guð veri með okkur.
![]() |
Verndum hagsmuni almennings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Augu Evrópusambandsins beinast að Íslandi
Mánudagur, 6. október 2008
Iceland unions push government to join EU
Það er greinilega horft til Íslands víða að og hér bætist við fréttamiðill Evrópusambandins en Leigh Philips skrifaði fréttina sem greinilega er unnin upp úr fréttum úr íslenskum fréttamiðlum. Sagt er frá ferð tvíhöfða Evrópunefndarinnar til Brussels í síðasta mánuði.
Það yrði skrýtin niðurstaða í stærsta deilumáli íslenskra stjórnmála á síðustu árum að Íslendingar ákveddu að sækja um aðild á örfáum dögum og Ísland yrði orðið aðili að ESB innan árs sbr. ummæli Olli Rehn, stækkunarstjóra sambandsins að það tæki aðeins ár að komast inn. Evran væri þó ekki hluti af þeim pakka fyrr en Maastricht skilmálunum yrði náð og miðað við síðustu tíðindi af efnahagsmálum þjóðarinnar þá gæti orðið langt í það.
Það er hins vegar ástæða til að spyrja hvort Íslendingar séu undirbúnir undir flóknar og viðamiklar aðildarviðræður?
Varð góðæri gærdagsins að kreppu morgundagsins?
Sunnudagur, 5. október 2008
Þetta eru einkennilegir tímar. Fyrir allt of fáum dögum lýstu stjórnvöld því yfir að hér væri engin kreppa og engin þörf á að bregðast sérstaklega við. Í dag eru haldnir krísufundir í Ráðherrabústaðnum og sagt að allir verði að leggjast á eitt ef ekki á illa að fara.
Ég á von á að fleiri en ég hafi á tilfinningunni að ýmsir, sem ættu að vita, viti í raun ekkert hvað sé að gerast. Það er ekki góð tilfinning.
Það sem situr eftir er að þeir sem áttu að vaka yfir velferð þjóðarinnar stóðu ekki vaktina sem skyldi. Við erum komin inn í brimgarðinn og allir verða að leggjast á eitt við lífróður, eftir því sem gefið er í skyn í dag.
Vonandi tekst að sigla okkur farsællega í heila höfn án mikilli áfalla. Það þjónar engum tilgangi að finna sökudólga í þessum björgunarleiðangri. Þjóðarskútinni verður ekki bjargað með upphrópunum, samsæriskenningum og illa ígrunduðum dómum yfir þessum og hinum.
Það voru ágæt lokaorð Þorvaldar Gylfasonar í Silfri Egils áðan eitthvað á þá leið og þjóðin lifði af þó einhver pappírsviðskipti færu í súginn. Þegar allt kemur til alls eru þetta allt huglægir fjármunir sem hafa tapast í Matador leik viðskiptajöfranna, sem greinilega kunnu ekki allir leikreglurnar.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hafa víðtækt samráð um aðgerðir og það er það sem skiptir öllum máli í dag. Allir sem vettlingi geta valdið verða að leggjast á eitt og hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi. Það kann vel að vera að ríkisstjórnin lýsi yfir bankafrídegi á morgun eins og Franklin D. Roosevelt árið 1933 í Kreppunni miklu. Ef það kemur okkur fyrir vind þá er það góð ráðstöfun.
![]() |
Bankarnir verða að selja eignir erlendis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.1.2009 kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)