Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Brestir í stjórnarsamstarfinu?

Hveitibrauðsdagar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde eru að baki. Alþingi kemur bráðum saman og þá reynir á að Geir og Ingibjörg haldi sínu liði saman. Þó að stjórnarandstaðan sé smá þá eru þar innanborðs reyndir refir í stjórnmálum sem eiga auðvelt með að spila á málglaða stjórnarþingmenn sem getur komið af stað atburðarrás sem erfitt gæti orðið að stöðva. Það er einnig erfiður vetur framundan þar sem ríkisstjórnin leggur fram sitt fyrsta fjárlagafrumvarp í versnandi árferði. Fréttir af himinháum launum þotuliðsins og vaxandi misskipting í þjóðfélaginu mun ýta undir óraunhæfar kröfur um kjarabætur í væntanlegum kjarasamningum. 

Það kann ekki góðri lukku að stýra að forystumenn ríkisstjórnarinnar virðast ekki samstíga í sumum ákvörðunum eins og þeirri að kalla "hernaðarlegan ráðgjafa" ríkisstjórnarinnar í Írak heim. Og eins og sagt er það er ekki glæpur nema upp komist og því er það mér ráðgáta af hverju Geir H. Haarde lýsti því yfir í yfirheyrslunni í kvöld að hann styddi ekki þessa ákvörðun utanríkisráðherra. Þetta mun magna upp yfirlýsingarspuna stjórnarandstöðunnar en það sem verra er - þetta opinberar samstöðuleysi ríkisstjórnarflokkanna. Við höfum fylgst með glímu Össurar og Sigurðar Kára um vatnalögin, yfirlýsingu fjármálaráðherra um Grímseyjarferjuna sem virðist gera lítið vinnu samgönguráðherra í sama máli og fleira mætti nefna.

Það er eðlilegt að spyrja hvernig ríkisstjórnarflokkarnir ætla að lifa af komandi stjórnmálavetur miðað við þessi vinnubrögð.


mbl.is Geir: Hefði ekki kallað starfsmanninn heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband