Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Stjórn sátta og samlyndis

Það er bjart yfir nýrri ríkisstjórn Geirs H. Haarde - fyrstu ríkisstjórn Geirs sem formanns Sjálfstæðisflokksins - sem hann og Þorgerður Katrín varaformaður geta eignað sér allan heiðurinn að. Þessi ríkisstjórn er sigur fyrir nýja forystu Sjálfstæðisflokksins hvernig sem á það er litið. Það var afrek að koma í veg fyrir myndun vinstri stjórnar sem hefði allt eins getað orðið miðað við yfirlýsingar og samstarf Samfylkingar og Vinstri-Grænna í stjórnarandstöðu. Það var afrek að ná hagstæðari ráðherraskiptingu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessari ríkisstjórn en í ríkisstjórninni með Framsóknarflokknum. Og það var afrek að ná samningum um stefnuyfirlýsingu sem er í anda sjálfstæðisstefnunnar og á sama tíma í anda stefnu Samfylkingarinnar. Já, það er sigur nýrrar forystu Sjálfstæðisflokksins að mynda ríkisstjórn með stærsta andstæðingi sínum og ná að skapa góðan anda í upphafi ferðalags þessara flokka sem á örugglega eftir að standa yfir næstu tvö kjörtímabil eða lengur. 

Fyrir Samfylkinguna er þessi nýja Þingvallarstjórn líka sigur. Það er stór áfangi hjá Ingibjörgu og Össuri að koma flokknum í ríkisstjórn til að festa hann í sessi í íslenskum stjórnmálum. Það var að hrökkva eða stökkva. Það er einnig sigur fyrir forystuna að skapa sátt innan flokksins um ríkisstjórnarmyndunina en það hefur verið viðloðandi vandamál vinstri flokka á Íslandi hve sundurleitir þeir voru með tilheyrandi afleiðingum. Það er sigur í jafnréttismálum að skipa jafnmargar konur og karla sem ráðherra nýrrar ríkisstjórnar en að sama skapi veikleiki hjá Sjálfstæðisflokknum að sýna engan lit í þessum málum.

Að síðustu vona ég að sá tónn sátta og samlyndi, sem virðist einkenna myndun þessarar ríkisstjórnar, megi verða þjóðinni til heilla á næstu árum.    


mbl.is Greiningardeildir segja stjórnarsáttmála jákvæðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt hugarfar lykill að framförum

Það er ástæða til að hrósa forystufólki Reykjanesbæjar fyrir að sjá tækifæri í varnarliðssvæðinu. Nýlega var nemendum við Háskóla Íslands boðnar ódýrar leiguíbúðir á svæðinu með ókeypis strætisvagnaferðum á milli Reykjavíkur og nýja háskólasvæðisins á Reykjanesi. Áður hafði verið stofnaður nýr háskóli í samvinnu við Háskóla Íslands þar sem róið er á ný mið í menntamálum með alþjóðlegri tengingu. Vonandi ganga þessar áætlanir eftir en það er ljóst að þarna er á ferð forystufólk með rétta hugarfarið sem þorir að hugsa stórt og hefur dug í sér til að ráðast í framkvæmdir fyrir framtíðina. Þar sem ekki er rætt um annað en ríkisstjórnarmyndun þessa dagana þá vona ég að þeir sem halda þar á málum beri keim þessa hugarfars. Rétt hugarfar er nefnilega lykillinn að framförum.  


Fagurgali og sætir sigrar

428518BNú þegar rykið hefur sest eftir kosningarnar þá liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn  hefur teflt stjórnarmyndunarviðræðuskákina óaðfinnanlega. Staðan í skákinni er flokknum mjög í vil og sama verður sagt um mótherjann í þessari skák - Samfylkinguna. Vinstri hreyfingin-Grænt framboð og Framsóknarflokkurinn hafa fallið á tíma. Harkaleg viðbrögð forystumanna síðastnefndu stjórnmálaflokkanna koma nokkuð spáns fyrir sjónir því í þessum leik er enginn annars bróðir. Ingibjörg virtist hafa leikið afleik rétt áður en farið var í miðtaflið með því að aftaka samstarf til vinstri en eftir á að hyggja hefur þetta verið þvingaður leikur til að vinna hylli og traust Sjálfstæðismanna. Staða hennar hefur síðan styrkst með fagurgala forystumanna Framsóknar og Vinstri hreyfingarinnar-Græns framboðs (þeir verða nú að fara stytta þessa óþjálu nafngift) til "sætustu stelpunnar á ballinu" sem þegar er heitbundin Geir H. Haarde. Geir fær því bæði sætustu og næst sætustu stelpuna - hinir kallarnir fara tómhentir heim á leið í skjóli nætur. Skákinni er hins vegar engan veginn lokið - barátta miðtaflsins stendur yfir og þar skiptir máli að tapa ekki sjónar á markmiðinu - sætum sigri.    


mbl.is Segjast komin nær stjórnarmyndun og að góður andi sé í viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni veginn í ný-Njálu

Eftir að hafa hlustað á Ingibjörgu Sólrúnu, Steingrím J. og Guðna Ágústsson í Kastljósi þá er tilfinningin samskonar og eftir einn góðan þátt í 24. þáttaröðinni. Ingibjörg er sett í vanda með tilboði Steingríms J. og Guðna um vinstri stjórn undir hennar forsæti. Það er eðlilegt að fyrrum samstarfsflokkar hennar í R-listanum hafi í huga hvernig mál skipuðust þegar Ingibjörg "hrökklaðist" úr stóli borgarstjóra að þeirra áliti? Þetta eykur enn spennuna fyrir morgundaginn þegar hr. Ólafur Ragnar forseti hefur fengið stjórnarmyndunarumboðið úr hendi Geirs H. Haarde. Hvað gerir forsetinn sem fær nú tækifæri til að skrá sig í sögubækurnar enn á ný? Ef kenning Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra er rétt að verið sé að mynda Baugsstjórn - eða eigum við að segja ríkisstjórn í boði Baugs - þá þarf enginn að velkjast í vafa um hvað hr. Ólafur gerir með fjölmiðlalögin í huga, eða hvað? Guðni nefndi Njálu í viðtalinu í kvöld og átti það vel við atburði síðustu sólarhringa. Auðvitað áttu framsóknarmenn þó að vita að núverandi ríkisstjórn var þrotinn kröftum.  Ég get hins vegar vel trúað því að sumir framsóknarmenn séu það miklir heiðursmenn að þeim hafi ekki komið til hugar að funda í reykfylltum bakherbergjum eins og Össur, Þorsteinn Pálsson og fleiri áhrifamenn í herbúðum væntanlegrar ríkisstjórnar. Það var einnig áhugavert að heyra skoðun Guðna á aðför Baugs að Birni Bjarnasyni ráðherra í þessu samhengi öllu.

mbl.is Ingibjörg Sólrún: VG vildi ekki mynda stjórn með Framsóknarflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögulegar sættir?

Næstu klukkustundir og dagar munu verða áhugamönnum um stjórnmál áhugaverðir í meira lagi. Tvö stórveldi í íslenskum stjórnmálum hafa sest að samningaborðinu þar sem framtíð beggja formanna flokkanna er að veði. Ef Ingibjörgu tekst að ná góðum samningum fyrir Samfylkinguna hefur henni tekist að styrkja stöðu sína svo um munar í íslenskum stjórnmálum. Auðvitað eiga sjálfstæðismenn ekki að láta þetta koma í veg fyrir myndun sterkrar ríkisstjórnar sem gæti komið mörgu góðu til leiðar en vissulega verða forystumenn Sjálfstæðisflokksins að gera sér grein fyrir þessu. Staða Sjálfstæðisflokksins er áfram mjög sterk en að sama skapi hlýtur Samfylkingin að ganga að þessu borði með veika samningsstöðu þar sem Vinstri-Grænir bíða í biðröðinni. Samfylkingin hefur ekkert tromp á hendi þar sem vantraust forystumanna hugsanlegrar vinstri stjórnar virðist vera í veginum fyrir slíkri stjórn undir forsæti Ingibjargar. Sjálfstæðisflokkurinn bíður því einfaldlega eftir því að fá á borðið hve ódýrt Samfylkingin eða Vinstri-Grænir vilja selja sig.
mbl.is Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjast væntanlega á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stendur Sjálfstæðisflokkurinn með Birni?

Þessi yfirlýsing Hreins Loftssonar, fyrrum áhrifamanns í Sjálfstæðisflokknum, lýsir vel að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er lagður í einelti af áhrifamiklum aðilum í viðskiptalífinu. Hvert orð í yfirlýsingu Björns er vegið og metið og túlkað fyrir landsmenn. Það er engu líkara en gefið hafi verið út veiðileyfi á Björn sem var dyggasti stuðningsmaður Davíðs Oddssonar.  

Björn á fullan rétt á að verja hendur sínar og satt best að segja er tími til kominn að forysta Sjálfstæðisflokksins slái skjaldborg um dómsmálaráðherrann og gefi með þannig út skýra yfirlýsingu um að flokksmenn standi bakvið dómsmálaráðherra í þessu erfiða en mikilvæga prófmáli fyrir lýðræðisleg vinnubrögð í þessu landi. Nú er að mál að linni.


mbl.is Hreinn: Dómur kjósenda um verk Björns liggur fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vígfimur ráðherra berst við ofurvald

Ég leyfi mér að fagna þessari yfirlýsingu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra og ítreka það sem ég hef bloggað áður um þetta efni fyrir kosningar. Þetta undirstrikar að Björn er vígfimur  og hugrakkur mjög þó að öllum sé vel ljóst að hann má sín lítils við ofurvaldi viðskiptaveldis Baugs. Ég tek undir það heilshugar með Birni að það eru vonbrigði hvernig aðrir stjórnmálamenn hafa tekið á auglýsingu Jóhannesar Jónssonar. Auðvitað var Jóhannes í fullum rétti að auglýsa. Það sem er þó aðalmálið er þetta: Er það eðlilegt að ákveðnir aðilar í viðskiptalífinu geti "áreitt" embættismenn, sem eru að gera skyldu sína sem slíkir, ef mál þessara aðila eru í eðlilegri afgreiðslu í stjórnsýslunni og síðan hjá dómsstólum? Á sama hátt er það alvarlegt ef stjórnvöld misbeita þessu mikla valdi sem þau hafa til að "hnésetja" ákveðna aðila í viðskiptalífinu eins og Jóhannes og Jón Ásgeir hafa haldið fram. Málið er þess vegna alvarlega hvernig sem á það er litið. Eina leiðin til að fá úr þessu skorið er að ný ríkisstjórn láti fara fram óháða rannsókn af erlendum aðilum til að botn fáist í upptök málsins en að sjálfsögðu eiga dómsstólar að hafa síðasta orðið í núverandi dómsmáli. Í ljósi alls þessa og óvandaðra vinnubragða Jóns H. Snorrasonar get ég líka tekið undir það með Jóhannesi að það væri ekki sterkur leikur hjá Birni að skipa hann í þessa mikilvægu stöðu í stjórnsýslunni. Sérstaklega vegna þess hvernig þetta mál hefur þróast þá þurfum við óumdeildari og sterkari fulltrúa í það embætti.
mbl.is Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðið er unnið en síðasta orrustan stendur yfir

Það var lærdómsríkt að heyra álit stjórnmálaleiðtoganna á auglýsingu Jóhannesar í Bónus eins og hann er alltaf kallaður. Í þessu máli eru auðvitað tvær hliðar eins og öðrum og oft erfitt að greina kjarnann í málinu. 

Aðalmálið er auðvitað að gera sér grein fyrir því að "stríð" hefur staðið yfir á milli fylkinga bæði í stjórnmálum og viðskiptalífi. Í þessu stríði er allt leyfilegt eins og þessi auglýsing Jóhannesar er glöggt dæmi um. Við vitum hver vann stríðið í viðskiptalífinu. En orrustan á stórnmálasviðinu er ekki til lykta leidd þó stríðið sé unnið. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra stendur einn eftir en verður gerður valdalaus eftir daginn í dag.

Svo einfalt er það mál. 


mbl.is Geir: Auglýsing Jóhannesar ósmekkleg og óviðeigandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslit alþingiskosninganna á morgun

Um þetta leyti á morgun þá liggja fyrir fyrstu tölur um úrslit næstu alþingiskosninga. Þá liggur fyrir "vilji" þjóðarinnar um hvaða flokkar hugnast þjóðinni best. Í fjölflokkakerfi eins og á Íslandi er það ákveðinn galli á lýðræðinu að kjósendur geta ekki kosið fólk og ekki ríkisstjórn - aðeins stjórnmálaflokk. Þannig vitum við ekki með fullri vissu hvaða alþingismenn við fáum og hvaða flokkar fara í ríkisstjórnarsamstarf. Þar liggur efinn eins og Hamlet Danaprins kynni að hafa sagt.

En látum það liggja á milli hluta. Þá langar mig að færa til bókar fyrir morgundaginn nýja kosningaspá í ljósi nýjustu tíðinda. Eins og þetta lítur út núna þá spái ég Framsóknarflokknum 9-10% fylgi, Sjálfstæðisflokknum ca. 34% fylgi, Frjálslyndum 7-8%, Íslandshreyfingunni 4% (hér skiptir máli hvort þeim takist að brjóta 5% múrinn sem breyta mun öllu), Samfylkingunni ca. 29% og Vinstri-Grænum ca. 15%. Þetta þýðir að stjórnin er fallin með 30 þingmenn og stjórnarandstaðan fær 33 þingmenn. 


Stétt með stétt - grænt með gráu

Þessi orð Árna fjármálaráðherra minna okkur á að það er ekkert svart og hvítt í stjórnmálum frekar en öðru - eða eigum við að segja grátt og grænt. Það sem hefur fært Sjálfstæðisflokknum það mikla fylgi þjóðarinnar, sem hann hefur haft á síðustu áratugum, undirstrikar þau sannindi að innan Sjálfstæðisflokknum eru "margar vistarverur". Þar rúmast harðir frjálshyggjumenn, frjálslyndir hægrimenn, frjálslyndir jafnaðarmenn og jafnvel klassískir jafnaðarmenn, sem oft eru nefndir eðalkratar. Sjálfstæðismenn höfnuð hinni erlendu hugmyndafræði sem gekk út á að draga fólk í dilka sem stillti stétt upp gegn stétt með tilheyrandi stéttabaráttu. Þannig var Sjálfstæðisflokkurinn til árið 1929 sem byggði á íslenskum veruleika - íslensku fólki úr öllum stéttum - sem vildi berjast fyrir sjálfstæði Íslands í efnahags- og utanríkismálum. 

Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn gæti þess að hlúa bæði að þessu græna og gráa þó vissulega hafi það síðarnefnda fengið of mikla vigt á síðustu misserum. Stofnun Framtíðarlandsins, sem eru þverpólitísk samtök, verða örugglega til þess að "rétta af" stefnu flokksins þannig að náttúran fái að njóta vafans í framtíðinni. Ég treysti núverandi forystumönnum Sjálfstæðisflokksins fyllilega til þess að framfylgja víðsýnni framfararstefnu með mannúð og mildi sem einkunnarorð.

 


mbl.is Fjármálaráðherra: Stóriðja ekki forsenda framfara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband