Vinnsla og sala raforku rekin í dag í markaðskerfi á samkeppnisgrundvelli
Þriðjudagur, 30. apríl 2019
Þriðji orkupakki Evrópusambandsins ætlar eitthvað að standa í okkur. Í fyrstu leit út fyrir að hann rynni í gegnum Alþingi eins og sá fyrsti og annar, hægt og hljótt.
Þá var grunnurinn lagður að markaðsvæðingu orkunnar. Orkan skyldi sett á markað og skyldi lúta lögmálum markaðsbúskapar samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Orkumarkaður á Íslandi skyldi verða hluti af innri markaði sambandsins. Og það gekk eftir. Engar fjöldahreyfingar risu upp. Enginn stjórnmálaflokkur blés í herlúðra svo eftir var tekið.
Eftirfarandi stendur skrifað í greinargerð þingályktunartillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um staðfestingu á þriðja orkupakkanum:
Reglur um viðskipti með orku hafa verið hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) frá gildistöku hans árið 1994. Orka er skilgreind sem vara og fellur því undir frjálsa vöruflutninga, sem er hluti fjórþætta frelsisins, en bæði innri markaður Evrópusambandsins (ESB) og Evrópska efnahagssvæðið byggja á því. Almennt er því litið á orku eins og hverja aðra vöru sem samkeppnislögmál gilda um. Í því sambandi má vísa til umfjöllunar í greinargerð með frumvarpi til laga sem varð að raforkulögum, nr.65/2003.
Í greinargerð utanríkisráðherra kemur jafnframt fram:
Fyrsti orkupakkinn var innleiddur hér á landi í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar. Þessi fyrsti orkupakki, sem varð hluti EES-samningsins með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 168/1999, frá 26. nóvember 1999, leiddi til setningar raforkulaga, nr. 65/2003. Samkvæmt innleiðingu fyrsta orkupakkans í raforkulög skyldi vinnsla og sala raforku rekin í markaðskerfi á samkeppnisgrundvelli.
...
Undirbúningur að öðrum orkupakkanum hófst um svipað leyti og fyrsti orkupakkinn var innleiddur í landsrétt.
...
Reglur annars orkupakkans varða meðal annars aðskilnað dreifiveitu frá framleiðslu og sölu raforku, bann við niðurgreiðslu úr sérleyfisstarfsemi í samkeppnisstarfsemi, eftirlit, viðurlagaheimildir o.fl.
Það kann að vera heldur seint í rassinn gripið af Alþýðusambandinu að álykti nú með svo afgerandi hætti:
Lögð er áhersla á að raforka sé grunnþjónusta og eigi ekki að mati sambandsins að vera háð markaðsforsendum hverju sinni líkt og gert sé ráð fyrir samkvæmt orkupökkum Evrópusambandsins. Raforka á að vera á forræði almennings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði. Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrgð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.
Þegar ákvörðun um markaðsvæðinguna var tekin á Alþingi fyrir meira en áratug síðan, við innleiðingu fyrsta og annars orkupakkans, þá fagnaði og studdi forysta Alþýðusambandsins að gera orkuna að markaðsvöru, eins og kemur fram í pisli Björns Bjarnasonar í dag. En auðvitað hafa menn og sambönd leyfi til að skipta um skoðun. Og það hefur greinilega gerst í þessu máli.
Það skal tekið fram að pistlahöfundur hefur ekki mótað sér skoðun á þriðja orkupakkanum. Málið er það mikilvægt og flókið að best er að gefa sér góðan tíma til að kynna sér málið frá öllum hliðum áður en afstaða er tekin til þess hvort það þjóni hagsmunum Íslands best að halda áfram á þessari braut innleiðingar á orkupökkum Evrópusambandsins, eður ei.
Svona lítur Evrópusambandið á málið:
Og síðan er hér fróðlegt erindi prófessors Leigh Hancher frá Florence School of Regulation um þriðja orkupakkann í tveimur hlutum, sem ég hvet alla til að gefa sér tíma til að hlusta á:
![]() |
Þriðji orkupakkinn feigðarflan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.