Þegar lausnin er vandamálið

Viðhorf okkar Íslendinga til vandamála er sérstakt rannsóknarefni. Til þess að leysa vandamál þurfum við fyrst að viðurkenna að um vandamál sé að ræða. Og þar situr hnífurinn í kúnni. Við getum nefnilega ekki komið okkur saman um hvert sé vandamálið, eða jafnvel að um vandamál sé að ræða. Tökum dæmi.

Verðtrygging fjárskuldbindinga einstaklinga og fjölskyldna. Er verðtrygginging vandamál, eða lausn á vandamáli? Þar skiptast menn í tvo hópa. Lesa meira á sjalfstaedi.wordpress.com 


Viðreisn hér, Viðreisn þar og Viðreisn alls staðar

vidreisnAlveg frá því að hægri stjórnmálaflokkurinn Viðreisn var stofnaður af stjórnmála- og athafnamanninum Benedikt Jóhannessyni hefur flokknum tekist merkilega vel að ná athygli fjölmiðla. Já, það er óhætt að segja Viðreisn vera í sérstöku uppáhaldi frétta- og blaðamanna. Vel skil ég ánægju vinstri manna með Viðreisn, flokkinn sem klauf Sjálfstæðisflokkinn. Erfiðara er að skilja suma sjálfstæðismenn, sem kjósa að lofa þann, sem þá lastar. 

Þannig segja fjölmiðlar okkur að Viðreisn sé í lykilstöðu fyrir allar kosningar - og í lykilstöðu eftir allar kosningar. Ímyndarsérfræðingar flokksins vinna sannarlega fyrir kaupinu sínu og eru gulls ígildi hverjir sem þeir kunna að vera.

Viðreisn var þannig ,,töluð" upp - og alla leið inn í ríkisstjórnir. Viðreisn komst í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð eftir að fjölmiðlar hömruðu á því að enga ríkisstjórn væri hægt að mynda án Viðreisnar. Sú vegferð var endasleppt og tók enda eina andvökunótt forystu flokks, sem kenndi sig við bjarta framtíð. Það kom á daginn að sú ríkisstjórn og sá sami flokkur átti sér ekki bjarta framtíð. Flokkurinn heyrir í dag að mestu fortíðinni til og leifarnar hirti Viðreisn með yfirtöku.

Og nú hrópa fjölmiðlar sig hása um að engan meirihluta sé hægt að mynda í Reykjavík án Viðreisnar. Tveir borgarfulltrúar flokksins, með um 8% atkvæða Reykvíkinga, hafi öll spil á hendi og geri jafnvel kröfu um borgarstjórastólinn. Allir hinir flokkarnir, sem fengu þó 19 borgarfulltrúa kosna, hafi það léleg spil á hendi að ekkert sé fyrir þá annað að gera en að segja pass. 

Það vekur furðu að enginn sjái í gegnum þetta sjónarspil.


mbl.is „Hefð að stærsti flokkurinn leiði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattpíndir Kópavogsbúar í boði sjálfstæðismanna

Alltaf eru það mikil vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi skuli ekki hafa á stefnuskrá sinni að lækka útvar á Kópavogsbúa. Skattgreiðendur geta nú  orðið séð á álagningaseðli sínum, sem þeir fá síðar í þessum mánuði, hve hátt hlutfall útsvarið er sem greitt er til sveitarfélaga, og hve hár tekjuskatturinn er, sem greiddur er til ríkisins. Og sumum kemur á óvart hve hátt hlutfall af launum okkar fer í skatt til sveitarfélagsins, útsvarið. 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur lofar að lækka tekjuskatt á kjörtímabilinu. Ætlar þannig að skila ávinningnum af hagstjórninni til fólksins í landinu. Það hefur ríkisstjórnin einnig gert með lágri verðbólgu og lækkandi vöxtum, þó þeir séu allt of háir. Allt eykur þetta ráðstöfunartekjur okkar. En hvernig ætla sjálfstæðismenn í Kópavogi að skila ávinningi af betri afkomu bæjarsjóðs til íbúa? Lækka útsvarið sem er næstum því í hámarki hér í Kópavogi? Nei. Lækka fasteignaskatta svo máli skipti? Nei. 

Hvað hefur verið hið heilaga gral í stefnu Sjálfstæðisflokksins frá stofnun hans árið 1929? Jú, að tryggja einstaklings- og athafnafrelsi með aðhaldi í ríkisrekstri og með hóflegri skattheimtu. Því aðeins þannig geta bæjarfulltrúar flokksins hækkað ráðstöfunartekjur fjölskyldnanna í bænum. 

Enn eitt kjörtímabilið fer að hefjast án þess að Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi hefur það á stefnuskrá sinni að lækka útsvarið. Þetta eru alvarleg pólitísk mistök.

 


Neyðarástand í boði borgarinnar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hefur haft átta ár, tvö kjörtímabil, til að koma kosningaloforðum sínum í framkvæmd. Hann lofaði að láta byggja ódýrar íbúðir fyrir unga fólkið fyrir átta árum, og aftur fyrir fjórum árum, en engar hafa verið efndirnar.

Jæja, vissulega samdi hann um uppbyggingu á íbúðum á besta stað í bænum undir lok þessa kjörtímabils, og handvaldi kaupanda og verktaka. Og sagt er að borgarstjóri hafi gefið kaupandanum vænan afslátt í kaupbæti, enda þar á ferðinni annálaður athafna- og alþýðumaður, með milljarða afskrifaðar skuldir á bakinu. Þeir hugsa um sína í Samfylkingunni.

Já, átta árum frá því Samfylkingin komst til valda í Reykjavík, þá hefur húsnæðis- og lóðaskortur sjaldan verið sárari og þarf að leita alveg aftur til eftirstríðsáranna til að jafna þann skort. Það er vissulega athyglisverður árangur sem jafnaðarmenn geta státað sér af.

En Dagur borgarstjóri lofar nú að gera betur á næsta kjörtímabili (og þarf ekki mikið til) og leggur fram stórtækar sovét-áætlanir um þéttingu byggðar, og uppbyggingu á þúsundum íbúða á næstu árum. En sannleikurinn er sá að enginn flytur inn í óbyggðar íbúðir sem aðeins eru til í hugarheimi og stóraplani stjórnmálamanna.

Og svo skulum við taka fyrir bílafópíu Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Í átta ár hefur Samfylkingin verið í stríði við einkabílinn. Engar framkvæmdir hafa þess vegna farið fram til að liðka fyrir umferð í höfuðborginni. Og það þó að ríkið hafi boðið þeim milljarð á milljarð ofan til að koma í veg fyrir neyðarástand í þeim málum.

Já, til hvers að breikka götur, ef þær fyllast bara aftur af bílum? Já og, til hvers að búa til Sundabraut, sem yrði kostuð af ríkinu að mestu leyti, ef það myndi þá bara fylla borgina hans Dags og Hjálmars af bílum landsbyggðarlýðs? Já, og til hvers að samtengja umferðarljós með milljóna búnaði, sem var búið að fjárfesta í, ef það myndi bara liðka fyrir umferð og gera fólki á einkabílum lífið léttara? 

Nei, allt var gert til að þrengja götur, og miklu kostað til, og neyða íbúa Reykjavíkur upp í strætisvagna og á reiðhjól. Með góðu eða illu. Í heil átta ár.

Og Samfylkingin má eiga það, að henni hefur líka tekist að búa til neyðarástand í umferðarmálum borgarinnar, alveg eins og í húsnæðismálum.

Er líklegt að ef Dagur fær önnur fjögur ár, að þá renni upp nýr og betri Dagur, sem leysir húsnæðisvanda og losar umferðahnúta, í stað þess að búa þá til?

Hver veit, kannski er ekki öll nótt úti enn fyrir Dag.

 


mbl.is Sigmundur spurði Bjarna um borgarlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin talar tungum tveim

Það er heldur hvimleitt þegar stjórnmálamenn, eða stjórnmálaflokkar, tala tungum tveim. 

Þannig talar ríkisstjórnin tungum tveim í utanríkismálum. Sagt er að ríkistjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi samþykkt stuðningsyfirlýsingu NATO við árásir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands á efnavopnaverksmiðju sýrlenskra stjórnvalda, og staðfesti Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, það í þættinum Silfrinu. Svo kom forsætisráðherrann sjálf og sagði: ,,að Ísland hefði ekki lýst yfir sérstökum stuðningi við árásirnar". Og síðan bætti forsætisráðherra við: „Það er bara þannig að það er alltaf snúið að vera í ríkisstjórn og maður verður bara að horfast í augu við það." 

Eftir stendur að hvorki almenningur, né umheimurinn, er nokkru nær um hvort Ísland hafi stutt árásirnar eða verið þeim mótfallin. 

Þegar flokkar, eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri hreyfingin grænt framboð, eru saman í ríkisstjórn, sem hafa andstæða stefnu í varnar- og öryggismálum, þar sem sá fyrrnefndi styður aðild Íslands að NATO, en hinn síðari er aðild algjörlega andvígur, þá getur slík ríkisstjórn ekki lifað af, nema að tala tungum tveim í grundvallarmálum utanríkisstefnu Íslands. 

Við getum spurt okkur hvort slíkt sé æskilegt til lengdar á svo víðsjárverðum tímum í heimsmálum, þar sem grimmir harðstjórar beita efnavopnum til að myrða eigin borgara til að halda völdum. Ríkisstjórnir þjóða heims verða að tala einni röddu þegar slík grimmdarverk eru framin og láta þau ekki óátalin.

 

 


Angela Merkel Íslands

BIC9740_by_bicnickKatrín Jakobsdóttir nýtur virðingar og trausts langt út fyrir flokksraðir Vinstri grænna. Það er einmitt það sem einkennir góða og farsæla leiðtoga í stjórnmálum. Þess vegna hefur hún nú yfirburðarstöðu í íslenskum stjórnmálum og er lykilinn að því að hér verði hægt að byggja upp traust að nýju á lýðræðinu og stjórnmálum. 

Katrín getur orðið Angela Merkel Íslands ef fram fer sem horfir. Það ætlunarverk hennar að ná saman höfuðandstæðingum íslenskra stjórnmála í ríkistjórn undir hennar forsæti verður að teljast hálf sturlað.

Enda eru pólitískir rétttrúnaðarpostular hálf sturlaðir af æsingi. Þeir vaða uppi í fjölmiðlum, og víðar, eins og hauslausar hænur, sem vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara. Þeir eru brjálaðir og spara ekki stóru orðin í garð Katrínar Jakobsdóttur.

Það sýnir styrkleika Katrínar að hún stendur af sér storminn með bros á vör. Hér er kona sem þorir. Hún þarf að berjast á tveimur vígstöðvum í senn.

Annars vegar teflir hún upp á líf og dauða við Bjarna og Sigurðar Inga við að koma saman heilsteyptum og skotheldum stjórnarsáttmála sem verður þola íslenskt stjórnmálaveður.

Hins vegar þarf hún að sannfæra vantrúaða félaga um vegferðina framundan með Bjarna og Sigurði Inga. Hvorugt verður að teljast auðvelt.

Aftur á móti ef Katrínu tekst að mynda ríkisstjórn um velferð milli pólanna um miðjuna verður það að teljast pólitískt afrek. Þetta eru sögulegir tímar. 

Ef ég ætti hatt, myndi ég taka ofan hattinn fyrir Katrínu Jakobsdóttur.


mbl.is Ræddu við aðila vinnumarkaðarins í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álögur hækka á Kópavogsbúa undir forystu Sjálfstæðisflokksins

Fjárhagsáætlun Kópavogs fyrir árið 2018 var lögð fram til fyrri umræðu bæjarstjórn Kópavogs í vikunni. Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð eru hér í meirihluta.

Í mörg ár hef ég beðið eftir að álögur á Kópavogsbúa yrðu lækkaðar, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í meirihluta hér í þó nokkur ár. Draumurinn er auðvitað að sjálfstæðismenn í Kópavogi færi að dæmi félaga okkar í Garðabæ, sem er fyrirmyndarbæjarfélag með hófsamar álögur á íbúa.

En því miður ætlar einhver bið að vera á þessu.

Rýnum í nokkrar lykiltölur úr fjárhagsáætlun, sem þriðja árið í röð er unnin af öllum flokkum í bæjarstjórn Kópavogs. Spyrja mál: Til hvers að kjósa einn flokk í sveitarstjórnarkosningum, en fá svo alla upp úr kjörkassanum í Kópavogi? En látum það liggja á milli hluta í bili. 

Útsvar í Kópavogi lækkar ekki á milli ára, en útsvarshlutfallið er 14,48%. Það er hærra en meðalútsvar sveitarfélaga á landinu en útsvarshlutfallið í Garðabæ og Seltjarnarnesi 13,70%. Útsvarshlutfallið í Kópavogi er hærra en meðalútsvar allra sveitarfélaga, sem er 14,36%. 

Útsvarstekjur bæjarins af íbúum hækka um 8,5% á milli áranna 2017 og 2018 eða um 1,7 milljarð króna. Þetta er raunhækkun milli ára þar sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun að laun hækki um 6,5% á sama tíma.

Fasteignaskattar á íbúa í Kópavogi hækka sömuleiðis eða eins og segir í greinargerð með fjárhagsáætlun:

,,Áætlað er þó að tekjur af fasteignaskatti aukist um 5,1% sem má að hluta rekja til hækkunar á fasteignamati en einnig magnaukningar, þ.e.a.s. áætlaðri fjölgun fasteigna í bæjarfélaginu." 

Eins og áður leikur bæjarstjórnin sér hér að tölum. Fólki er talin trú um að verið sé að lækka skatta, þó að raunin sé að verið er að hækka þá!

Þó að fasteignaskattshlutfallið lækki úr 0,255% í 0,23% þá er það gert til að mæta mikilli hækkun á fasteignamati íbúða á Höfuðborgarsvæðinu, eins og kunnugt er. Lækkun hlutfallsins mætir þó ekki að öllu hækkun fasteignamatsins (skattstofnsins), og því þurfa íbúðaeigendur í Kópavogi að bera hærri fasteignaskatta á árinu 2018 en á þessu ári.

Þess vegna er það einfaldlega ekki rétt hjá bæjarstjóra Kópavogs að halda því fram að verið sé að lækka skatta í Kópavogi. Tölurnar segja allt annað. 

Þá hallar á ógæfuhliðina í rekstri bæjarins. Hlutfall launatekna starfsmanna Kópavogsbæjar hækkar í 57,3% úr um 50% í ár. Þróunin hringir viðvörunarbjöllum þegar litið er til þess að þetta hlutfall var 46,3% árið 2013.

Ef ekki verður gripið hér inn í með aðhaldi í rekstri bæjarins strax á næsta ári að hætti aðhaldssamra íhaldsmanna þá þýðir það ekkert annað en skattahækkanir á íbúa á næstu árum.

Aðhaldið mætti koma að ofan. Byrja mætti á því að bæjarstjóri sýndi gott fordæmi með því að lækka eigin laun.

Í greinargerð með fjárhagsáætlun kemur fram að ,,skatttekjur á hvern íbúa hafa farið vaxandi á milli ára og skv. framlagðri áætlun má gera ráð fyrir að þær verði 700 þús.kr. á íbúa á næsta ári". 

Ef við lítum til ársins 2014 þá voru skatttekjur á hvern íbúa 542 þús.kr. Á aðeins 4 árum hafa þær þannig hækkað um næstum 30%, sem er meira en meðallaun hafa hækkað að teknu tilliti til fjölgunar íbúa. 

Sjálfstæðisflokkurinn á að standa undir nafni fyrir aðhaldssemi í rekstri bæjarins og lægri álögur á íbúa.

Hrunið er ekki lengur afsökun fyrir því að ekki sé hægt að lækka álögur með aðhaldssemi og með því að auka sparnaðaranda rekstri bæjarins. 

Fjárhagsáætlun ársins 2018 lögð fram undir forystu Sjálfstæðisflokksins gengur því ekki upp að mínu mati og þarfnast endurskoðunar við.

Í þessu sambandi er kannski rétt að minna bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á að það eru víst sveitarstjórnarkosningar á næsta ári.


mbl.is Gera ráð fyrir 824 m.kr. rekstrarafgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband