Morgunn upprisunnar

Sigurbjörn einarssonÞað er gott að vakna snemma á páskadag. Finnst þér það ekki? Allir fæðast þeir af nóttu, boða dag, sem deyr inn í nýja nótt. Sólir rísa og hníga, mennirnir koma og fara, barnið vappar út í morgunskin ævinnar, heilsar hækkandi degi, sem óðar en varir fer að halla, og brátt skyggir af þeirri nótt, sem bíður allra. 

En einn morgunn stendur kyrr yfir öllum eyktamörkum, yfir ferli einstaklinga og kynslóða. Hann vitjar hverrar vöggu, brosir við hverja banasæng, og skín yfir hverja gröf, morgunn upprisunnar, páskanna. Sá morgunn lyftir brún yfir alla skugga, allar myrkar gátur. Því geislar hans boða það, að Drottins lífsins og kærleikans, Jesús Kristur, hefur sigrað og að enginn kross, engin grimmd né gaddur, ekkert svartnætti stöðvar þá sól, sem með honum reis. (Sigurbjörn Einarsson, biskup, Tímanum, 27. mars 1986)

Dr. Sigurbjörn heitinn biskup var ,,völundur tungunnar og frábær predikari" eins og Sigurður A. Magnússon ritaði í eftirmælum um Sigurbjörn. Tilvitnun hér að ofan styðja það. Á þessum tímum er hughreystandi að leita í smiðju þessa ástsælasta biskups Íslendinga.

Og ekki amalegt að hlusta á himneska tóna eftir Vivaldi þennan ,,morgunn upprisunnar".

Gleðilega páska!

 

 


Þegar himin og haf ber á milli

Þetta er kannski það sem ruggar XD-bátnum. Það sem Elliði Vignisson, bæjarstjóri, skrifaði á Facebook-síðu sína í gær. Það er eitthvað sérstakt við þá stöðu sem er komin upp í stjórnmálunum, þegar allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, eins og hann leggur sig, og margir, góðir og gildir sjálfstæðismenn, eru komnir í sömu skotgrafirnar og Viðreisn, Samfylking og Píratar, til að berjast gegn öðrum góðum og gildum sjálfstæðismönnum þar sem í brúnni stendur einn sigursælasti fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins með fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins sem fyrsta stýrimann. Ef heldur áfram sem horfir þá getur það ekki endað vel fyrir Sjálfstæðisflokkinn. 

Og hvert er ágreiningsefnið? Jú, ,,sárasaklaus innleiðarpakki" frá Evrópusambandinu sem hefur lítil áhrif á Íslandi, segja stjórnarliðar, meðan hinir segja að um stórhættulegan aðlögunarpakka að Evrópusambandinu sé að ræða og fullveldisafsal, og brjóti þar með ákvæði stjórnarskrár um fullveldi Íslands. Himin og haf ber á milli. Enda málið mjög flókið.

Það er nokkuð ljóst að hér eru aðilar ekki sammála um staðreyndir í málinu. Það gerir málið að því sem það er orðið. Mál sem er við það að kljúfa 90 ára gamlan stjórnmálaflokk sem hefur tekist á við mun erfiðari mál en þetta í sögu sinni. Allir eru sammála um að þjóðin afsali sér ekki yfirráðum né eignarhaldi yfir orkunni okkar úr landi. Mun þriðji orkupakkinn gera það? Um það er menn ekki sammála. Þar sem sumir sjá hvítt, sjá aðrir svart.   

Vissulega minnir þetta á önnur erfið mál sem tekist hefur verið á um á undanförnum árum,  Icesave og aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar voru við heldur ekki sammála um staðreyndir málsins og mögulegar afleiðingar. Þar var þó munurinn sá að sjálfstæðisfólk stóð saman, alla vega lengsta hluta leiðarinnar. Og það sem skipti máli var að meirihluti þjóðarinnar hafnaði Icesave þvert á vilja stjórnmálaforystunnar, ekki einu sinni heldur þrisvar sinnum, og hafnaði í raun aðild að Evrópusambandinu í alþingiskosningunum 2013 þar sem Samfylkingin næstum því þurrkaðist út. Það liggur fyrir að meirihluti þjóðarinnar er andvígur innleiðingu þriðja orkupakkans skv. skoðanakönnunum. Hvaða lærdóm getur forystufólk í stjórnmálum dregið af þessu? 

Það er ekki aðeins forysta Sjálfstæðisflokksins sem stendur frammi fyrir erfiðu vali. Sama á við um forystu Vinstri-grænna og Framsóknarflokksins. Allir stjórnarflokkarnir eru í sama bátnum og þurfa að takast á við stjórnmálalegt óveður hér innanlands sem gæti skapast ef þriðji orkupakkinn verður samþykktur fyrir haustið.  

Nú er það svo, eins og ég hef lýst í fyrrum pistlum að ég sé ekki það sem andstæðingar þriðja orkupakkans sjá, og þar eru sjáendur engir viðvaningar í stjórnmálum. Í svona stóru hagsmunamáli er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig. Vissulega hefur forysta Sjálfstæðisflokksins lagt mikið pólitískt kapítal undir að koma þriðja orkupakkanum í gegn, sem gerir málið erfitt.  

En væri það veikleikamerki að rétta út sáttahöndina og sigla fleyinu í örugga höfn, í stað þess að takast á við fárviðrið sem er í aðsigi? Hér þarf forystufólk stjórnarflokkanna að meta heildarhagsmuni í bráð og lengd, og velja sér bardaga. 

Og ef það kallar á tímabundið óveður í samskiptum við Evrópusambandið, er það ekki eitthvað sem við tökumst þá við í sameiningu sem þjóð, stjórnmálaflokkur og ríkistjórn, og aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, og finnum örugglega farsæla lausn á? Ef við náðum landi í Icesave, sem var miklu stærra mál, ættum við þá ekki að geta það í þessu ,,litla máli"?  

Hlýtur það ekki að vera rétt pólitísk ákvörðun þar sem raunverulegir samherjar okkar fagna og þétta raðirnar, en að sama skapi þá reki pólitískir andstæðingar upp stríðsöskur?

En hvað veit ég?

Hér kemur svo gagnlegt innlegg í umræðuna frá Rögnu Árnadóttur, fyrrv. ráðherra og verðandi skrifstofustjóra Alþingis:


mbl.is Tækifæri til að „leiðrétta kúrsinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli maðurinn og áttavitinn

imagesVið lifum á skrítnum tímum í stjórnmálum. Þeir sem áður voru pólitískir samherjar berast nú á banaspjótum. Og þeir sem elduðu grátt silfur, snúa nú bökum saman í stríðinu um þriðja orkupakkann. 

Gamli maðurinn, gegnheill sjálfstæðismaður, sagði við konuna að segja sér aðra lygasögu, þegar honum var sagt að nú væru fyrrverandi ráðherrarnir Jón Baldvin Hannibalsson og nafni hans Bjarnason samherjar, og væru hatrammir andstæðingar þeirra Björns Bjarnasonar og Steingríms J. Sigfússonar, sem væru að sama skapi samherjar. Og þó tók steininn endanlega úr þegar konan sagði þeim gamla að Viðreisn, Samfylking, Framsókn, Vinstri-Grænir og Íhaldið væru á sömu pólitísku vegferðinni, sem Þorsteinn Pálsson, Guðfaðir Viðreisnar, sagði glottandi að kæmi Íslandi inn í Evrópusambandið bakdyramegin. Hvaða vitleysa er þetta í þér kona, sagði sá gamli, og dró upp sinn aldna pólitíska áttavita, sem hafði ekki klikkað í 90 ár. 

Og þegar sá gamli hafði fengið tíma til að melta tíðindin, þá spurði konan: Hvar heldurðu svo að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi birt afmælisgreinina um 90 ára afmæli flokksins? 

Þarftu að spyrja að því kona, sagði karlinn og var heldur betur farið að fjúka í þann gamla. 

 


mbl.is 61,25% vilja undanþágu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útsendarar, útrýmingar og helvítsholur

Rökræðan um þriðja orkupakkann hitnar enn og hótanir ganga á víxl. Andstæðingar spila á milli sín staðreyndum málsins eins og fljúgandi borðtennisbolta. Annar hópurinn sér himnaríki, þegar hinn sér helvíti. Og eftir því sem málið virðist vera að skýrast með dýpri umræðu og upplýsingum, mætir menn og konur kallaðir til að vitna að varpa ljósi á málið, þá verður orðræðan ljótari. 

Þannig eru virtir erlendir sérfræðingar kallaðir útsendarar frá útlöndum, andstæðingum hótað útrýmingu og að Íslandi verði tortímd af vondum útlendingum. Annars staðar er skrifað um að gera Ísland að helvítisholu og að forystu Sjálfstæðisflokksins sé að gera okkur að holu með því að samþykkja þriðja orkupakkann. Svo eru ráðherrar og þingmenn kallaðir vesalingar og vanvitar, ef menn eru ósammála þeirra pólitísku skoðunum. Erum við ekki komin á mjög hættulegar brautir í lýðræðislegri umræðu? 

  

 


mbl.is Skaðabótaskylda eintóm fantasía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðji orkupakkinn - eitthvað að óttast?

download (1)Umræðan um þriðja orkupakkann hefur verið hatrömm. Skotgrafir grafnar og skothríð látin dynja á andstæðingnum hömlulaust á stundum. Skotið er fast frá báðum vígstöðvum.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist skiptast í þrjár fylkingar. Fyrsta fylkingin berst fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans, önnur berst hatrammlega gegn ,,pakkanum" og svo stendur sú þriðja á miðjum vígvellinum og veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Og andstæðingar flokksins fagna í hljóði, bæði innan og utan stjórnarliðsins.

Og um hvað er barist? Það er stórt spurt.

Vissulega fer kaldur hrollur um marga þegar verið er að innleiða ,,pakka" frá útlöndum, og sérstaklega Evrópusambandinu! Sérstaklega eftir aðildarbröltið hjá Samfylkingunni, vegleysu um Brusselstræti í boði Össurar, og svo auðvitað Icesave skrímslið sem ætlaði allt lifandi hér á landi að drepa. Það er því eðlilegt að hafa varan á sér þegar varasöm sending kemur frá Brussel. 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð staðið í lappirnar um hvort hagsmunum Íslands sé betur borgið innan Evrópusambandsins, eða utan þess. Sú afstaða flokksins hefur byggst á hagsmunamati í þágu íslensku þjóðarinnar. Ekki á andúð á Evrópusambandinu, alþjóðlegu samstarfi eða útlendingum.

Þvert á móti hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í forystu þegar kemur að alþjóðlegu samstarfi, markaðsbúskap og gagnkvæmum viðskiptum við útlönd. Þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og aðra alþjóðlega viðskiptasamninga, sem er í þágu þjóðarhagsmuna í bráð og lengd. 


Afstaða forystu Sjálfstæðisflokksins
til þriðja orkupakkans sýnist mér helgast af þessu. Þriðji orkupakkinn snýst um að treysta markaðsfyrirkomulag um raforku á forsendum neytenda- og umhverfisverndar. Þar er virk samkeppni lykilforsenda og með þriðja orkupakkanum er verið að gefa opinberum eftirlitsaðilum skilvirkari tæki til að treysta markaðsfyrirkomulag um raforku í sessi á innri markaði Evrópu, þvert yfir landamæri. Þá er eitt af markmiðum pakkans að hvetja til nýtingar á hreinni orku í auknum mæli.

Frjáls markaður og virk samkeppni þarf að lúta traustu regluverki, þar sem jafnræði og reglufesta er tryggð með skilvirku opinberu eftirliti. Færa má sterk rök fyrir því að á trygginga- og eldsneytismarkaði hér á landi vanti t.d. virkara samkeppniseftirlit.

Það er eðlilegt að margir óttist að framundan sé einkavæðing á raforku. Landsfundir Sjálfstæðisflokksins hafa oftar en einu sinni fellt tillögur um einkavæðingu Landsvirkjunar. Innleiðing á þriðja orkupakka ESB kemur þeirri umræðu ekki við. Það er pólitísk rökræða sem allir stjórnmálaflokkar verða að taka eftir sem áður. Sama er að segja um auðlindir á Íslandi og eignarhald á þeim. Þessu hefur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, svarað með skýrum hætti:

Því hefur verið haldið fram að þriðji orkupakkinn feli í sér afsal á forræði yfir auðlindinni. Hið rétta er að hann varðar ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum né hvort þær séu nýttar og í hvaða tilgangi. (Facebook síða ráðherrans).

Björn Bjarnason, fyrrv. ráðherra, hefur með sannfærandi hætti skrifað og talað fyrir samþykki þriðja orkupakkans hér á landi. Í pistli á heimasíðu Björns stendur skrifað m.a.:

Að mála skrattann á vegginn vegna þriðja orkupakkans er óþarfi. Að nota O3 til að grafa undan EES-aðildinni er skemmdarverk.

Er hægt að saka Björn um þjónkun við hagsmuni Evrópusambandsins eða erlenda aðila? Sömuleiðis styður allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðinguna með þeim fyrirvörum sem þar eru settir. Getur hann allur verið heillum horfinn?

Getur allt þetta ágæta fólk haft rangt fyrir sér? Bera þau ekki öll fyrir brjósti íslenska hagsmuna, sem og Sjálfstæðisflokksins? Hver ætlar að halda öðru fram? 


mbl.is Þriðji orkupakkinn eðlilegt framhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnsla og sala raforku rekin í dag í markaðskerfi á samkeppnisgrundvelli

Þriðji orkupakki Evrópusambandsins ætlar eitthvað að standa í okkur. Í fyrstu leit út fyrir að hann rynni í gegnum Alþingi eins og sá fyrsti og annar, hægt og hljótt.

Þá var grunnurinn lagður að markaðsvæðingu orkunnar. Orkan skyldi sett á markað og skyldi lúta lögmálum markaðsbúskapar samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Orkumarkaður á Íslandi skyldi verða hluti af innri markaði sambandsins. Og það gekk eftir. Engar fjöldahreyfingar risu upp. Enginn stjórnmálaflokkur blés í herlúðra svo eftir var tekið.

Eftirfarandi stendur skrifað í greinargerð þingályktunartillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um staðfestingu á þriðja orkupakkanum:

Reglur um viðskipti með orku hafa verið hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) frá gildistöku hans árið 1994. Orka er skilgreind sem vara og fellur því undir frjálsa vöruflutninga, sem er hluti fjórþætta frelsisins, en bæði innri markaður Evrópusambandsins (ESB) og Evrópska efnahagssvæðið byggja á því. Almennt er því litið á orku eins og hverja aðra vöru sem samkeppnislögmál gilda um. Í því sambandi má vísa til umfjöllunar í greinargerð með frumvarpi til laga sem varð að raforkulögum, nr.65/2003.    

Í greinargerð utanríkisráðherra kemur jafnframt fram:

Fyrsti orkupakkinn var innleiddur hér á landi í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar. Þessi fyrsti orkupakki, sem varð hluti EES-samningsins með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 168/1999, frá 26. nóvember 1999, leiddi til setningar raforkulaga, nr. 65/2003. Samkvæmt innleiðingu fyrsta orkupakkans í raforkulög skyldi vinnsla og sala raforku rekin í markaðskerfi á samkeppnisgrundvelli.

...

Undirbúningur að öðrum orkupakkanum hófst um svipað leyti og fyrsti orkupakkinn var innleiddur í landsrétt. 

...

Reglur annars orkupakkans varða meðal annars aðskilnað dreifiveitu frá framleiðslu og sölu raforku, bann við niðurgreiðslu úr sérleyfisstarfsemi í samkeppnisstarfsemi, eftirlit, viðurlagaheimildir o.fl. 

Það kann að vera heldur seint í rassinn gripið af Alþýðusambandinu að álykti nú með svo afgerandi hætti:

Lögð er áhersla á að raf­orka sé grunnþjón­usta og eigi ekki að mati sam­bands­ins að vera háð markaðsfor­send­um hverju sinni líkt og gert sé ráð fyr­ir sam­kvæmt orkupökk­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Raf­orka á að vera á for­ræði al­menn­ings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði. Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarfl­an að staðfesta markaðsvæðing­una og ganga lengra í þá átt. Raf­magn er und­ir­staða til­veru okk­ar í dag og það er sam­fé­lags­leg ábyrgð að tryggja fram­leiðslu og flutn­ing til allra, sú ábyrgð er of mik­il til að markaður­inn fái að véla með hana enda hef­ur markaðsvæðing grunnstoða yf­ir­leitt ekki bætt þjón­ustu, lækkað verð né bætt stöðu starfs­fólks.  

Þegar ákvörðun um markaðsvæðinguna var tekin á Alþingi fyrir meira en áratug síðan, við innleiðingu fyrsta og annars orkupakkans, þá fagnaði og studdi forysta Alþýðusambandsins að gera orkuna að markaðsvöru, eins og kemur fram í pisli Björns Bjarnasonar í dag. En auðvitað hafa menn og sambönd leyfi til að skipta um skoðun. Og það hefur greinilega gerst í þessu máli.

Það skal tekið fram að pistlahöfundur hefur ekki mótað sér skoðun á þriðja orkupakkanum. Málið er það mikilvægt og flókið að best er að gefa sér góðan tíma til að kynna sér málið frá öllum hliðum áður en afstaða er tekin til þess hvort það þjóni hagsmunum Íslands best að halda áfram á þessari braut innleiðingar á orkupökkum Evrópusambandsins, eður ei. 

Svona lítur Evrópusambandið á málið:

Og síðan er hér fróðlegt erindi prófessors Leigh Hancher frá Florence School of Regulation um þriðja orkupakkann í tveimur hlutum, sem ég hvet alla til að gefa sér tíma til að hlusta á:


mbl.is Þriðji orkupakkinn „feigðarflan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingja krónan komin með flensuna

Nú hrópa allir á aumingja krónuna og segja hana alltaf jafn vonlausa. Eitthvað kann að vera til í því. Aumingja krónan er veik. Hún er komin með flensuna.

Þegar krónan veikist, þ.e.a.s. að verðgildi hennar verður minna, þá hækka innfluttar vörur í innkaupum og kaupmáttur launafólks fýkur út í haustvindinn. Við fáum minna fyrir krónurnar sem við fáum í launaumslagið. Og til að magna neikvæðu áhrifin, þá hækka verðtryggð húsnæðislánin með aukinni verðbólgu og .... lesa meira

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband